Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 36

Metum kraft hinna ungu

Metum kraft hinna ungu

„Þrek er ungs manns þokki.“ – ORÐSKV. 20:29.

SÖNGUR 88 Vísaðu mér veg þinn

YFIRLIT *

1. Hvaða markmið getum við haft þegar við verðum eldri?

EFTIR því sem við verðum eldri óttumst við ef til vill að koma Jehóva ekki að jafn miklu gagni og áður. Við höfum kannski ekki sömu orkuna og við höfðum en við getum notað viskuna og reynsluna sem við höfum aflað okkur til að hjálpa hinum yngri að nýta hæfileika sína og taka að sér meiri ábyrgð. Gamalreyndur öldungur sagði: „Þegar ellin fór að setja mér hömlur var ég þakklátur að yngri bræður skyldu vera tilbúnir að vinna verkið.“

2. Hvað ræðum við í þessari grein?

2 Í síðustu grein var rætt hvernig þeir sem yngri eru geti haft gagn af því að hafa náin tengsl við hina eldri. Í þessari grein skoðum við hvernig eiginleikar eins og auðmýkt, hógværð, þakklæti og örlæti geta hjálpað hinum eldri til að vinna með þeim sem yngri eru, öllum söfnuðinum til blessunar.

VERUM AUÐMJÚK

3. Hvað felst í auðmýkt samkvæmt Filippíbréfinu 2:3, 4 og hvernig getur hún verið þjóni Jehóva gagnleg?

3 Þeir sem eldri eru þurfa að vera auðmjúkir ef þeir vilja hjálpa hinum yngri. Auðmjúkur maður lítur á aðra sem honum meiri. (Lestu Filippíbréfið 2:3, 4.) Eldri og auðmjúk trúsystkini skilja að leysa má verkefni með góðum árangri og í samræmi við Biblíuna á fleiri en einn veg. Þau búast þess vegna ekki við að allt sé gert eins og áður fyrr. (Préd. 7:10) Þau geta miðlað hinum yngri af verðmætri reynslu sinni en gera sér grein fyrir „að sviðsmynd þessa heims breytist“ og að það getur verið þeim nauðsynlegt að aðlagast nýjum aðstæðum. – 1. Kor. 7:31.

Eldri trúsystkini miðla öðrum örlátlega af reynslu sinni. (Sjá 4. og 5. grein.) *

4. Að hvaða leyti hafa farandhirðar sama viðhorf og Levítar höfðu?

4 Eldri og auðmjúk trúsystkini viðurkenna að eftir því sem þau eldast geta þau ekki gert jafnmikið og áður. Tökum farandhirða sem dæmi. Þegar þeir verða sjötugir er þeim boðið annað verkefni. Það getur verið þeim erfitt. Þeir hafa notið þess að þjóna trúsystkinum sínum. Þeir meta mikils verkefni sitt og þá myndi virkilega langa til að halda því. En þeir gera sér grein fyrir að það er betra að fela yngri bræðrum verkefnið. Þeir hafa sama viðhorf og Levítarnir í Ísrael til forna en þeir hættu skyldustörfum við tjaldbúðina þegar þeir náðu 50 ára aldri. Gleði þessara eldri Levíta var ekki háð verkefnum. Þeir tóku að sér þau verkefni sem stóðu þeim til boða og gerðu allt sem þeir gátu til að styðja þá sem yngri voru. (4. Mós. 8:25, 26) Fyrrverandi farandhirðar heimsækja ekki lengur marga söfnuði en þeir eru söfnuðinum sem þeir tilheyra mikil blessun.

5. Hvað getum við lært af Dan og Katie?

5 Dan var farandhirðir í 23 ár. Þegar hann varð sjötugur voru hann og konan hans Katie útnefnd til að þjóna sem sérbrautryðjendur. Hvernig hefur þeim gengið að aðlagast nýjum aðstæðum? Dan segist hafa meira að gera en nokkru sinni fyrr! Hann sinnir verkefnum sínum í söfnuðinum, hjálpar bræðrum að uppfylla kröfurnar til að vera safnaðarþjónar og þjálfar aðra til að taka þátt í boðuninni meðal almennings og í fangelsum. Þið sem eldri eruð getið gert margt til að hjálpa öðrum hvort sem þið þjónið í fullu starfi eða ekki. Hvernig? Með því að aðlagast breyttum aðstæðum. Setjið ykkur ný markmið og einbeitið ykkur að því sem þið getið gert frekar en því sem þið hafið ekki tök á að gera.

VERUM HÓGVÆR

6. Hvers vegna er viturlegt að vera hógvær? Lýstu með dæmi.

6 Hógvær maður gerir sér grein fyrir takmörkum sínum. (Orðskv. 11:2) Hann gerir þess vegna ekki meiri kröfur til sjálfs sín en hann getur staðið undir. Fyrir vikið er hann bæði vinnusamur og glaður. Hógvær maður er að vissu leyti eins og ökumaður sem keyrir upp brekku. Hann þarf að setja í lægri gír til að komast upp brekkuna. Líklega er dregið úr hraðanum en hann kemst þó áfram. Á svipaðan hátt veit sá sem er hógvær hvenær er kominn tími til að „setja í lægri gír“ svo að hann geti haldið áfram að hjálpa öðrum að njóta sín í þjónustu Jehóva. – Fil. 4:5.

7. Hvernig sýndi Barsillaí hógværð?

7 Barsillaí var áttræður þegar Davíð konungur bauð honum að koma og vera við hirðina. Barsillaí var hógvær og afþakkaði boð konungs. Hann gerði sér grein fyrir takmörkum sínum sem fylgdu háum aldri og stakk upp á að yngri maður, Kímham, færi í staðinn. (2. Sam. 19:36–38) Líkt og Barsillaí gefa eldri menn fúslega yngri mönnum tækifæri til að taka að sér og annast verkefni.

Davíð konungur sætti sig við ákvörðun Jehóva um að sonur hans myndi byggja musterið. (Sjá 8. grein.)

8. Hvernig sýndi Davíð konungur hógværð í tengslum við byggingu musterisins?

8 Davíð konungur setti líka frábært fordæmi í hógværð. Hann langaði innilega til að byggja hús fyrir Jehóva. En þegar Jehóva sagði honum að Salómon fengi þann heiður sætti hann sig við ákvörðun hans og studdi verkefnið heils hugar. (1. Kron. 17:4; 22:5) Davíð hugsaði ekki sem svo að hann væri betur til þess fallinn að sjá um það vegna þess að Salómon var „ungur og óreyndur“. (1. Kron. 29:1, Biblían 1981) Davíð vissi að góður árangur var háður blessun Jehóva en ekki aldri eða reynslu þess sem stýrði verkinu. Eldri trúsystkini okkar nú á dögum líkja eftir Davíð með því að vera virk áfram, jafnvel þegar hlutverk þeirra breytist. Og þau vita að Jehóva blessar yngri trúsystkini þegar þau sinna verkefnunum sem þau voru með áður.

9. Hvernig sýndi bróðir nokkur í deildarnefnd hógværð?

9 Bróðir að nafni Shigeo er nútímadæmi um hógværan mann. Hann var útnefndur til að þjóna í deildarnefnd árið 1976 þegar hann var þrítugur. Árið 2004 varð hann umsjónarmaður deildarnefndarinnar. Síðar áttaði hann sig á því að hann hafði ekki eins mikinn kraft og áður og náði ekki lengur að sinna verkefni sínu sem skyldi. Hann hugleiddi í bæn kostina við að yngri bróðir tæki við. Þótt Shigeo sé ekki lengur umsjónarmaður deildarnefndarinnar heldur hann áfram að starfa í henni. Við getum lært af Barsillaí, Davíð konungi og Shigeo að auðmjúkur og hógvær maður horfir á styrk hinna yngri en ekki reynsluleysi þeirra. Hann lítur ekki á þá sem keppinauta sína heldur samstarfsmenn. – Orðskv. 20:29.

VERUM ÞAKKLÁT

10. Hvernig líta hinir eldri í söfnuðinum á þá sem yngri eru?

10 Þeir sem eldri eru í söfnuðinum álíta hina yngri gjöf frá Jehóva og eru mjög þakklátir fyrir þá. Þegar kraftur hinna eldri fer minnkandi eru þeir þakklátir að þeir sem búa yfir krafti æskunnar séu fúsir til og færir um að sinna því sem þarf að gera í söfnuðinum.

11. Hvernig sýnir Rutarbók 4:13–16 fram á gagnið sem eldri trúsystkini geta haft af því að þiggja þakklát hjálp frá þeim yngri?

11 Naomí, sem sagt er frá í Biblíunni, er frábært dæmi um eldri einstakling sem þáði þakklátur hjálp frá yngri manneskju. Til að byrja með hvatti Naomí Rut tengdadóttur sína, sem var orðin ekkja, til að snúa aftur til sinnar eigin fjölskyldu. En þegar Rut fór fram á að fá að fara með Naomí til Betlehem var Naomí tilbúin að þiggja stuðning hennar. (Rut. 1:7, 8, 18) Það var þeim báðum til blessunar. (Lestu Rutarbók 4:13–16.) Auðmýkt hjálpar eldri trúsystkinum að fylgja fordæmi Naomí.

12. Hvernig tjáði Páll postuli þakklæti sitt?

12 Páll postuli var þakklátur fyrir hjálpina sem hann fékk. Hann þakkaði til dæmis trúsystkinum í Filippí fyrir efnislegar gjafir sem þau höfðu sent honum. (Fil. 4:16) Hann tjáði þakklæti fyrir þá hjálp sem Tímóteus hafði veitt honum. (Fil. 2:19–22) Og hann þakkaði Guði fyrir þá sem komu til að uppörva hann þegar hann var fluttur til Rómar sem fangi. (Post. 28:15) Páll var atorkumikill og ferðaðist þúsundir kílómetra til að boða trúna og styrkja söfnuðina. Samt var hann ekki of stoltur til að þiggja stuðning bræðra og systra.

13. Hvernig geta hinir eldri sýnt þakklæti fyrir þá sem yngri eru?

13 Þið sem eldri eruð getið sýnt þakklæti fyrir þá sem yngri eru í söfnuðinum á margan hátt. Þiggið með þökkum aðstoð þeirra ef þeir bjóða ykkur far, hjálp til að versla eða gera eitthvað annað. Lítið á slíka hjálp sem tákn um kærleika Jehóva til ykkar. Þeir sem hjálpa þér gætu orðið góðir vinir þínir. Hjálpaðu ungum vinum þínum að styrkja samband sitt við Jehóva. Og segðu þeim hversu ánægður þú ert að sjá hina yngri taka framförum í þjónustunni í söfnuðinum. Vertu tilbúinn til að nota tíma til að segja þeim frá lífi þínu. Þegar þú gerir það sýnirðu Jehóva að þú sért þakklátur fyrir hina yngri sem hann hefur dregið til safnaðarins. – Kól. 3:15; Jóh. 6:44; 1. Þess. 5:18.

VERUM ÖRLÁT

14. Hvernig sýndi Davíð konungur örlæti?

14 Davíð konungur bjó yfir öðrum mikilvægum eiginleika sem hinir eldri þurfa að sýna – örlæti. Hann gaf talsvert af auði sínum til að styðja byggingu musterisins. (1. Kron. 22:11–16; 29:3, 4) Hann gerði þetta jafnvel þótt musterið yrði kennt við Salómon son hans. Ef við höfum ekki lengur líkamlegan styrk til að taka þátt í byggingaverkefnum á vegum safnaðarins getum við haldið áfram að styðja þessi verkefni með fjárframlögum okkar, eftir því sem aðstæður okkar leyfa. Og við getum hjálpað hinum yngri að njóta góðs af reynslunni sem við höfum aflað okkur í gegnum árin.

15. Hvaða dýrmætu gjafir gaf Páll postuli Tímóteusi?

15 Skoðum fordæmi Páls postula í að sýna örlæti. Hann bauð Tímóteusi að taka þátt í trúboðsstarfi með sér. Páll sýndi örlæti þegar hann kenndi þessum yngri manni aðferðir sínar við boðunina og kennsluna. (Post. 16:1–3) Þjálfun Páls hjálpaði Tímóteusi að ná góðum árangri í boðuninni. (1. Kor. 4:17) Síðan notaði Tímóteus það sem Páll hafði kennt honum til að þjálfa aðra í að boða trúna og kenna.

16. Hvers vegna þjálfaði Shigeo aðra?

16 Hinir eldri nú á dögum eru ekki hræddir um að þeir komi ekki að gagni lengur ef þeir þjálfa þá yngri til að sinna verkefnunum sem þeir voru með áður í söfnuðinum. Shigeo, sem áður er minnst á, hefur veitt þeim yngri í deildarnefndinni gagnlega þjálfun. Hann hefur gert það í þeim tilgangi að þjóna hagsmunum Guðsríkis í landinu þar sem hann starfar. Fyrir vikið var hæfur bróðir til taks til að leysa hann af sem umsjónarmann deildarnefndarinnar þegar þurfa þótti. Shigeo hefur verið í deildarnefndinni í meira en 45 ár og heldur áfram að miðla ungum bræðrum af reynslu sinni. Bræður eins og hann eru sannarlega mikil blessun fyrir fólk Guðs.

17. Hvað geta eldri trúsystkini gefið öðrum, samanber Lúkas 6:38?

17 Þið eldri bræður og systur eruð lifandi sönnun um að besti lífsmátinn er að þjóna Jehóva í trú og af ráðvendni. Þið hafið sýnt með fordæmi ykkar að það er þess virði að tileinka sér meginreglur Biblíunnar og heimfæra þær upp á líf sitt. Þið þekkið af reynslunni hvernig hlutirnir voru gerðir áður fyrr en þið gerið ykkur líka grein fyrir þörfinni á að aðlagast breyttum kringumstæðum. Þið sem eruð eldri og létuð skírast nýlega hafið einnig mikið að gefa. Þið getið miðlað öðrum af gleðinni af því að kynnast Jehóva á efri árum. Hinir yngri kunna að meta að heyra af reynslu ykkar og því sem þið hafið lært. Ef þið gefið úr reynslusjóð ykkar blessar Jehóva ykkur ríkulega. – Lestu Lúkas 6:38.

18. Hvernig geta eldri og yngri trúsystkini unnið saman?

18 Þegar þið, kæru eldri trúsystkini, tengist þeim yngri nánari böndum njótið þið gagnkvæms stuðnings. (Rómv. 1:12) Hver og einn hefur eitthvað dýrmætt fram að færa. Hinir eldri hafa visku og reynslu sem þeir hafa aflað um ævina. Þeir sem yngri eru búa yfir krafti og styrk. Þegar eldri og yngri trúsystkini vinna saman sem vinir heiðra þau kærleiksríkan föður okkar á himnum og eru öllum í söfnuðinum til blessunar.

SÖNGUR 90 Gefum gætur hvert að öðru

^ gr. 5 Það er blessun að hafa unga bræður og systur á meðal okkar sem leggja sig fram við að styðja söfnuð Jehóva. Eldri trúsystkini geta, óháð menningu þeirra og bakgrunni, hjálpað hinum yngri að nota krafta sína sem best í þjónustu Jehóva.

^ gr. 55 MYND: Þegar farandhirðir varð 70 ára fengu hann og eiginkona hans nýtt verkefni. Áralöng reynsla þeirra gerir þeim kleift að þjálfa aðra í söfnuðinum þar sem þau þjóna núna.