Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 37

„Ég mun hræra allar þjóðir“

„Ég mun hræra allar þjóðir“

„Ég mun hræra allar þjóðir svo að þær munu flytja fjársjóði sína hingað.“ – HAG. 2:7.

SÖNGUR 24 Göngum á fjall Jehóva

YFIRLIT *

1, 2. Hvaða hræringar spáði Haggaí að myndu eiga sér stað á okkar dögum?

„VERSLANIR og gömul hús hrundu eins og spilaborg á fáeinum mínútum.“ „Skelfing greip um sig ... margir sögðu að skjálftinn hefði staðið í tvær mínútur. Mér fannst þetta vera heil eilífð.“ Þetta er haft eftir fólki sem lifði af jarðskjálftann sem reið yfir Nepal árið 2015. Ef þú skyldir einhvern tíma ganga í gegnum slíka reynslu myndirðu líklega seint gleyma henni.

2 Um þessar mundir upplifum við annars konar hræringar. Þær eiga sér ekki stað í einni borg eða einu landi. Þær snerta allar þjóðir og hafa staðið yfir í marga áratugi. Spámaðurinn Haggaí spáði fyrir um þær. Hann skrifaði: „Því að svo mælir Drottinn allsherjar: Eftir skamma hríð mun ég hræra bæði himin og jörð, hafið og þurrlendið.“ – Hag. 2:6.

3. Að hvaða leyti eru þessar hræringar ólíkar bókstaflegum jarðskjálfta?

3 Haggaí er ekki að lýsa bókstaflegum jarðskjálfta sem veldur eyðileggingu. Hristingurinn sem hann talar um er til góðs. Jehóva sjálfur segir: „Ég mun hræra allar þjóðir svo að þær munu flytja fjársjóði sína hingað, ég mun fylla hús þetta dýrð, segir Drottinn allsherjar.“ (Hag. 2:7) Hvaða þýðingu hafði þessi spádómur fyrir samtíðarmenn Haggaí og hvaða þýðingu hefur hann fyrir okkur sem nú lifum? Við ræðum svörin við þessum spurningum og skoðum hvernig við getum tekið þátt í að hræra þjóðir.

HVETJANDI BOÐSKAPUR Á DÖGUM HAGGAÍ

4. Hvers vegna sendi Jehóva Haggaí til þjóðar sinnar?

4 Jehóva fól Haggaí mikilvægt verkefni. Hugleiðum aðeins forsögu þess. Haggaí var líklega meðal þeirra sem fóru til Jerúsalem úr útlegðinni í Babýlon árið 537 f.Kr. Fljótlega eftir að þangað var komið lögðu þessir trúföstu tilbiðjendur Jehóva grunninn að húsi hans, musterinu. (Esra. 3:8, 10) En það leið ekki á löngu áður en aðstæður urðu dapurlegar. Andstaða varð til þess að þeir misstu kjarkinn og hættu verkinu. (Esra. 4:4; Hag. 1:1, 2) Það er síðan árið 520 f.Kr. að Jehóva felur Haggaí að endurvekja kostgæfni þeirra og hvetja þá til að klára að byggja musterið. * – Esra. 6:14, 15.

5. Hvers vegna hlýtur boðskapur Haggaí að hafa verið hughreystandi fyrir þjóð Guðs?

5 Boðskapurinn sem Haggaí flutti var til þess gerður að styrkja trú Gyðinganna. Spámaðurinn sagði hugrakkur við Gyðinga sem höfðu misst kjarkinn: „Hertu upp hugann, landslýður, segir Drottinn. Vinnið, því að ég er með ykkur, segir Drottinn allsherjar.“ (Hag. 2:4) Orðin „Drottinn allsherjar“ hljóta að hafa verið hughreystandi. Jehóva hefur yfir að ráða gríðarlega stórum her engla þannig að Gyðingar þurftu að treysta á hann til að ná árangri.

6. Hvað myndu hræringarnar sem Haggaí sagði fyrir hafa í för með sér?

6 Jehóva innblés Haggaí að flytja boðskap sem lýsti því hvernig hann myndi hrista allar þjóðir. Opinberunin fullvissaði þá sem voru að byggja musterið og höfðu misst kjarkinn um að Jehóva myndi hrista Persíu sem þá var heimsveldi. Hvað myndi það hafa í för með sér? Fólk Guðs myndi ljúka við byggingu musterisins. Síðan myndu jafnvel aðrir sem voru ekki Gyðingar sameinast þeim í tilbeiðslu á Jehóva í endurbyggðu musterinu. Þetta hlýtur að hafa verið mjög hvetjandi boðskapur fyrir þjóð Guðs. – Sak. 8:9.

VERKEFNI SEM HRISTIR JÖRÐINA NÚ Á DÖGUM

Tekur þú fullan þátt í verkinu sem er framkvæmt nú á dögum og veldur hræringum? (Sjá 7. og 8. grein.) *

7. Í hvaða starfi sem orsakar hristing tökum við þátt? Skýrðu svarið.

7 Hvaða erindi á spádómur Haggaí til okkar? Aftur hristir Jehóva allar þjóðir og núna hjálpum við til við verkið. Hugleiddu eftirfarandi: Árið 1914 skipaði Jehóva Jesú Krist konung í himnesku ríki sínu. (Sálm. 2:6) Það voru slæmar fréttir fyrir leiðtoga heimsins þegar þetta ríki var stofnsett. Það þýddi að „tilsettur tími þjóðanna“ væri á enda, sá tími sem enginn stjórnandi var fulltrúi Jehóva. (Lúk. 21:24) Þess vegna hefur fólk Jehóva, sérstaklega síðan 1919, bent á Guðsríki sem einu von mannkyns. Boðun ,fagnaðarboðskaparins um ríkið‘ hefur hrist allan heiminn. – Matt. 24:14.

8. Hvernig hefur meirihluti þjóðanna brugðist við boðskapnum samkvæmt Sálmi 2:1–3?

8 Hvernig hefur fólk brugðist við þessum boðskap? Flestir bregðast neikvætt við. (Lestu Sálm 2:1–3.) Þetta hefur komið róti á þjóðirnar. Þær neita að viðurkenna þann sem Jehóva hefur skipað stjórnanda. Þær álíta ekki boðskapinn um ríkið sem við boðum fagnaðarboðskap. Sumar ríkisstjórnir hafa jafnvel bannað boðunina. Jafnvel þótt margir stjórnendur þjóðanna haldi því fram að þeir þjóni Guði vilja þeir ekki missa völdin. Rétt eins og ráðamenn á dögum Jesú standa ráðamenn nú á dögum gegn þeim sem Jehóva smurði með því að ráðast á trúfasta fylgjendur hans. – Post. 4:25–28.

9. Hvernig bregst Jehóva við neikvæðum viðbrögðum þjóðanna?

9 Hvernig bregst Jehóva við neikvæðum viðbrögðum þjóðanna? Í Sálmi 2:10–13 segir: „Verið því hyggnir, þér konungar, látið yður segjast, höfðingjar þjóða. Þjónið Drottni með lotningu, kyssið fætur hans titrandi til að firra yður reiði hans svo að þér farist ekki á veginum því að skjótt blossar upp reiði hans. Sæll er sá er leitar hælis hjá honum.“ Jehóva er góður og gefur þessum andstæðingum tíma til að taka rétta ákvörðun. Þeir hafa enn þá tíma til að skipta um skoðun og viðurkenna ríki hans. En tíminn er að renna út. Við lifum á „síðustu dögum“ þessa heimskerfis. (2. Tím. 3:1; Jes. 61:2) Það hefur aldrei verið eins brýnt fyrir fólk að þekkja sannleikann og taka rétta ákvörðun.

JÁKVÆÐ VIÐBRÖGÐ VIÐ HRISTINGNUM

10. Hvaða jákvæðu viðbrögðum við því að þjóðirnar yrðu hrærðar er lýst í Haggaí 2:7–9?

10 Sumt fólk bregst vel við hristingnum sem Haggaí sagði fyrir um. Hann segir að þegar þjóðirnar eru hrærðar komi ,fjársjóðir [hjartahreint fólk] allra þjóða‘ til að tilbiðja Jehóva. * (Lestu Haggaí 2:7–9.) Jesaja og Míka spáðu svipaðri framvindu sem myndi eiga sér stað á síðustu dögum. – Jes. 2:2–4, NW neðanmáls; Míka 4:1, 2, NW neðanmáls.

11. Hvernig brást bróðir einn við boðskapnum um ríkið þegar hann heyrði hann fyrst?

11 Skoðum áhrifin sem þessi magnaði boðskapur hafði á bróður að nafni Ken sem starfar við aðalstöðvarnar. Hann man enn þá vel eftir því þegar hann heyrði fyrst boðskapinn um ríkið fyrir 40 árum. Hann segir: „Þegar ég kynntist fyrst sannleikanum í orði Guðs var ég glaður að komast að því að við lifum á síðustu dögum þessa heimskerfis. Ég skildi að til að fá velþóknun Guðs og eilíft líf mátti ég alls ekki vera hluti af þessum óstöðuga heimi heldur þurfti ég að taka skýra afstöðu með Jehóva. Ég tók ákvörðun þegar í stað um að gera það og sagði Jehóva frá því í bæn. Ég vildi ekki vera hluti af þessum heimi og flúði í öryggi Guðsríkis, en það er óhagganlegt.“

12. Hvernig hefur andlegt musteri Jehóva verið fyllt dýrð á síðustu dögum?

12 Það er augljóst að Jehóva blessar fólk sitt. Á þessum síðustu dögum hefur þeim fjölgað gríðarlega sem tilbiðja hann. Árið 1914 vorum við aðeins nokkur þúsund. Núna erum við meira en átta milljónir sem erum virk í trúnni og milljónir annarra koma árlega á minningarhátíðina með okkur. Jarðneskir forgarðar andlegs musteris Jehóva – fyrirkomulag hans fyrir hreina tilbeiðslu – hafa verið fylltir með ,fjársjóðum allra þjóða‘. Nafn Jehóva hefur einnig verið lofað þegar þessir einstaklingar breytast með því að íklæðast hinum nýja manni. – Ef. 4:22–24.

Fólk Guðs um allan heim nýtur þess að segja öðrum frá Guðsríki. (Sjá 13. grein.)

13. Hvaða aðra spádóma uppfyllir þessi spennandi framvinda? (Sjá forsíðumynd.)

13 Þessi spennandi framvinda er uppfylling á öðrum spádómum eins og þeim sem er að finna í Jesaja kafla 60. Vers 22 segir: „Hinn minnsti verður að þúsund, hinn lítilmótlegasti að voldugri þjóð. Ég, Drottinn, mun hraða þessu þegar að því kemur.“ Þegar margir fleiri bætast í hóp þeirra sem tilbiðja Jehóva gerist eitthvað stórkostlegt. Þeir sem eru ,fjársjóðir‘ búa yfir mismunandi hæfileikum auk þess sem þeir boða fúsir ,fagnaðarboðskapinn um ríkið‘. „Mjólk þjóðanna“, eins og Jesaja orðar það, er þess vegna gerð þjónum Jehóva aðgengileg. (Jes. 60:5, 16) Með hjálp þessara dýrmætu karla og kvenna er trúin boðuð í meira en 240 löndum og rit gefin út á meira en þúsund tungumálum.

TÍMI TIL AÐ TAKA ÁKVÖRÐUN

14. Hvaða ákvörðun þarf fólk að taka núna?

14 Nú á tíma endalokanna þegar þjóðirnar eru hrærðar neyðist fólk til að taka ákvörðun. Mun það styðja Guðsríki eða setur það traust sitt á ríkisstjórnir þessa heims? Þetta er ákvörðun sem allir standa frammi fyrir. Þjónar Jehóva hlýða lögum landsins þar sem þeir búa en þeir eru algerlega hlutlausir í stjórnmálum heimsins. (Rómv. 13:1–7) Þeir vita að Guðsríki er eina lausnin við vandamálum mannkynsins. Það ríki er ekki hluti af þessum heimi. – Jóh. 18:36, 37.

15. Hvaða hollustuprófi er lýst í Opinberunarbókinni?

15 Í Opinberunarbókinni er því lýst hvernig trúfesti þjóna Guðs verði reynd á síðustu dögum. Við sætum þess vegna mikilli andstöðu. Ríkistjórnir heimsins fara fram á tilbeiðslu okkar og ofsækja þá sem neita að styðja þær. (Opinb. 13:12, 15) Þær ,neyða alla – háa og lága, ríka og fátæka, frjálsa og þræla – til að fá merki á hægri hönd sér eða enni‘. (Opinb. 13:16) Varanlegt merki var sett á þræla til forna til að sýna hver ætti þá. Á svipaðan hátt er farið fram á að allir nú á tímum hafi táknrænt merki á hendinni eða enninu. Viðhorf þeirra og verk sýna þá að þeir styðja þetta pólitíska kerfi og tilheyra því.

16. Hvers vegna er mikilvægt að styrkja trúfesti okkar við Jehóva núna?

16 Munum við þiggja þetta táknræna merki og styðja ríkisstjórnir heims? Þeir sem neita að þiggja merkið standa andspænis erfiðleikum og hættu. Í Opinberunarbókinni segir áfram: ,Enginn getur keypt eða selt nema hann hafi merkið.‘ (Opinb. 13:17) En þjónar Guðs vita hvað hann á eftir að gera við þá sem hafa merkið, samanber Opinberunarbókina 14:9, 10. Frekar en að bera það merki er eins og þeir skrifi á hönd sína: „Eign Drottins.“ (Jes. 44:5) Nú er tíminn til að ganga úr skugga um að trúfesti okkar við Jehóva sé sterk. Ef svo er lýsir Jehóva því glaður yfir að við tilheyrum honum.

ENDANLEGAR HRÆRINGAR

17. Hvað þurfum við að muna varðandi þolinmæði Jehóva?

17 Jehóva hefur sýnt mikla þolinmæði á þessum síðustu dögum. Hann vill ekki að neinn farist. (2. Pét. 3:9) Hann gefur öllum tækifæri til að iðrast og taka rétta ákvörðun. En þolinmæði hans eru takmörk sett. Þeir sem hafna þessu tækifæri koma sér í sömu aðstöðu og faraó á dögum Móse. Jehóva sagði við faraó: „Ég hefði nú þegar getað rétt út hönd mína og slegið þig og þjóð þína með drepsótt svo að þú yrðir afmáður af jörðinni. En ég hef látið þig halda lífi aðeins til þess að þú sæir mátt minn og nafn mitt verði boðað um alla jörðina.“ (2. Mós. 9:15, 16) Allar þjóðir verða um síðir að vita að Jehóva er hinn eini sanni Guð. (Esek. 38:23) Hvernig atvikast það?

18. (a) Hvaða annars konar hræringum er lýst í Haggaí 2:6, 20–22? (b) Hvernig vitum við að orð Haggaí uppfyllast í framtíðinni?

18 Öldum eftir daga Haggaí var Páli postula innblásið að skrifa að orðin í Haggaí 2:6, 20–22 myndu uppfyllast í framtíðinni. (Lestu.) Páll skrifaði: „Nú hefur hann lofað: ,Ég mun enn einu sinni láta jörðina skjálfa og sömuleiðis himininn.‘ Þegar sagt er ,enn einu sinni‘ gefur það til kynna að það sem skelfur verði fjarlægt, það er að segja það sem myndað hefur verið, til að það sem skelfur ekki skuli standa.“ (Hebr. 12:26, 27) Ólíkt þeim hræringum sem minnst er á í Haggaí 2:7 þýða þessar hræringar endanlega tortímingu fyrir þá sem neita að viðurkenna rétt Jehóva til að stjórna, rétt eins og faraó gerði.

19. Hvað mun ekki skelfa og hvernig vitum við það?

19 Hvað mun ekki skelfa eða vera tekið burt? Páll hélt áfram: „Þar sem við eigum að fá ríki sem getur ekki bifast biðjum við að við megum halda áfram að njóta einstakrar góðvildar, en hennar vegna getum við veitt Guði heilaga þjónustu á velþóknanlegan hátt með lotningu og guðsótta.“ (Hebr. 12:28) Þegar rykið hefur sest eftir þessar síðustu hræringar stendur aðeins ríki Guðs eftir óhaggað. Það mun standa stöðugt. – Sálm. 110:5, 6; Dan. 2:44.

20. Hvaða ákvörðun þarf fólk að taka og hvernig getum við hjálpað því?

20 Það má engan tíma missa! Fólk þarf að velja: Heldur það áfram að lifa að hætti heimsins sem leiðir til dauða eða leitast það við að samræma líf sitt vilja Guðs sem leiðir til eilífs lífs? (Hebr. 12:25) Með boðun okkar getum við hjálpað fólki að ákveða hvaða afstöðu það tekur í þessu mikilvæga máli. Við viljum hjálpa enn fleiri dýrmætum einstaklingum að taka afstöðu með ríki Guðs. Og gleymum aldrei því sem Drottinn okkar Jesús sagði: „Fagnaðarboðskapurinn um ríkið verður boðaður um alla jörðina til að allar þjóðir fái að heyra hann, og síðan kemur endirinn.“ – Matt. 24:14.

SÖNGUR 40 Hver á þinn hug og hönd?

^ gr. 5 Í þessari grein fáum við leiðréttan skilning á Haggaí 2:7. Við sjáum hvernig við getum tekið þátt í spennandi starfi sem hrærir allar þjóðir. Við skoðum líka hvernig þetta starf vekur bæði jákvæð og neikvæð viðbrögð.

^ gr. 4 Við vitum að verkefni Haggaí bar góðan árangur því að byggingu musterisins var lokið árið 515 f.Kr.

^ gr. 10 Þetta er leiðréttur skilningur. Áður var sagt að hjartahreint fólk væri ekki dregið til Jehóva vegna þess að þjóðirnar væru hrærðar. Sjá „Spurningar frá lesendum“ í Varðturninum 15. maí 2006 á ensku.

^ gr. 63 MYND: Haggaí hvatti þjóð Guðs til að sýna brennandi áhuga og ljúka endurbyggingu musterisins. Þjóð Guðs nú á dögum hefur lagt sig kappsamlega fram um að kunngera boðskap Guðs. Hjón flytja boðskap um endanlegar hræringar sem eiga eftir að koma.