Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 48

„Þið skuluð vera heilög“

„Þið skuluð vera heilög“

,Verðið heilög í allri hegðun.‘ – 1. PÉT. 1:15.

SÖNGUR 34 Göngum fram í ráðvendni

YFIRLIT *

1. Hvaða leiðbeiningar gaf Pétur postuli trúsystkinum sínum og hvers vegna gæti virst ógerlegt að fara eftir þeim?

HVORT sem við höfum himneska eða jarðneska von getum við haft gagn af þeim leiðbeiningum sem Pétur postuli gaf kristnum mönnum með himneska von á fyrstu öld. Pétur skrifaði: „Verðið heldur heilög í allri hegðun eins og hinn heilagi sem kallaði ykkur því að skrifað er: ,Þið skuluð vera heilög því að ég er heilagur.‘“ (1. Pét. 1:15, 16) Af þessu má læra að við getum líkt eftir Jehóva sem er besta fyrirmyndin um heilagleika. Við getum verið heilög í hegðun okkar og við verðum að vera það. Það gæti virst ógerlegt vegna þess að við erum ófullkomin. Pétur gerði sín mistök en fordæmi hans sýnir að við getum ,orðið heilög‘.

2. Hvaða spurningar skoðum við í þessari grein?

2 Í þessari grein skoðum við eftirfarandi spurningar: Hvað þýðir það að vera heilagur? Hvað kennir Biblían okkur um heilagleika Jehóva? Hvernig getum við orðið heilög í hegðun okkar? Og hvaða tengsl eru milli heilagleika og sambands okkar við Jehóva?

HVAÐ ÞÝÐIR ÞAÐ AÐ VERA HEILAGUR?

3. Hvaða hugmynd hafa margir um það að vera heilagur en hvar fáum við réttan skilning?

3 Margir sjá fyrir sér gleðisnauðan mann í trúarlegum klæðum og með alvarlegan svip þegar talað er um heilagan mann. En það passar ekki. Jehóva er heilagur en honum er lýst sem ,hinum hamingjusama Guði‘. (1. Tím. 1:11) Þeir sem tilbiðja hann eru sagðir hamingjusamir. (Sálm. 144:15) Jesús fordæmdi þá sem klæddust sérstökum fötum og unnu góðverk til að sýnast fyrir öðrum. (Matt. 6:1; Mark. 12:38) Sem kristnir menn látum við það sem við höfum lært í Biblíunni móta viðhorf okkar til heilagleika. Við erum sannfærð um að heilagur og kærleiksríkur Guð okkar myndi aldrei segja okkur að gera það sem við gætum ekki gert. Þegar Jehóva segir „þið skuluð vera heilög“, efumst við þess vegna ekki um að það sé hægt. En við þurfum auðvitað að skilja hvað heilagleiki felur í sér áður en við getum orðið heilög í hegðun okkar.

4. Hvað merkja orðin „heilagur“ og „heilagleiki“?

4 Hvað er heilagleiki? Í grundvallaratriðum vísa orðin „heilagur“ og „heilagleiki“ í Biblíunni til hreinleika í siðferðilegum og trúarlegum skilningi. Orðin geta einnig falið í sér þá hugmynd að vera frátekinn til að þjóna Guði. Við erum með öðrum orðum heilög ef við erum siðferðilega hrein, tilbiðjum Jehóva á velþóknanlegan hátt og eigum náið og persónulegt samband við hann. Sú tilhugsun að við getum átt persónulegt samband við heilagan Guð okkar er í sjálfu sér stórmerkileg, sérstaklega í ljósi þess sem er sagt í Biblíunni um heilagleika hans.

„HEILAGUR, HEILAGUR, HEILAGUR ER DROTTINN“

5. Hvað getum við lært um Jehóva af trúföstum englum?

5 Jehóva er hreinn og óflekkaður á allan hátt. Þetta er það sem serafar sögðu, en þeir eru englar nálægt hásæti Jehóva. Þeir lýstu yfir: „Heilagur, heilagur, heilagur er Drottinn allsherjar.“ (Jes. 6:3) Þessir englar geta bara átt náið samband við Guð sinn sem er heilagur vegna þess að þeir eru sjálfir heilagir. Þess vegna urðu ákveðnir staðir á jörðinni heilagir þegar englar fluttu þar boð frá Guði. Það er það sem gerðist þegar Móse var við logandi þyrnirunnann. – 2. Mós. 3:2–5; Jós. 5:15.

Áletrunin „Helgaður Drottni“ var á gullplötu á vefjarhetti æðsta prestsins. (Sjá 6. og 7. grein)

6, 7. (a) Hvernig lagði Móse áherslu á heilagleika Guðs samkvæmt 2. Mósebók 15:1, 11? (b) Hvað minnti Ísraelsmenn á heilagleika Guðs? (Sjá forsíðumynd.)

6 Eftir að Móse hafði leitt Ísraelsmenn í gegnum Rauðahafið lagði hann áherslu á að Guð þeirra, Jehóva, væri heilagur. (Lestu 2. Mósebók 15:1, 11.) Hegðun tilbiðjenda guða Egyptalands var allt annað en heilög. Sama á við um þá sem tilbáðu guði Kanaanslands. Tilbeiðsla þeirra fól meðal annars í sér barnafórnir og viðbjóðslega kynlífshegðun. (3. Mós. 18:3, 4, 21–24; 5. Mós. 18:9, 10) Jehóva myndi hins vegar aldrei krefjast þess af tilbiðjendum sínum að þeir gerðu eitthvað óhreint. Hann er algerlega heilagur. Til að minna Ísraelsmenn á þetta var áletrun á gullplötu á vefjarhetti æðstaprestsins. Á gullplötunni var grafin áletrunin: „Helgaður Drottni.“ – 2. Mós. 28:36–38.

7 Áletrunin á gullplötunni gerði öllum sem sáu hana ljóst að Jehóva er sannarlega heilagur. En hvað með þá Ísraelsmenn sem sáu ekki gullplötuna vegna þess að þeir komust ekki í námunda við æðstaprestinn? Myndu þeir fara á mis við þennan mikilvæga boðskap? Nei. Allir Ísraelsmenn heyrðu hann þegar lögin voru lesin fyrir karla, konur og börn. (5. Mós. 31:9–12) Ef við hefðum verið viðstödd hefðum við heyrt þessi orð: ,Ég er Drottinn, Guð ykkar … þið skuluð vera heilagir því að ég er heilagur.‘ „Verið mér heilagir því að ég, Drottinn, er heilagur.“ – 3. Mós. 11:44, 45; 20:7, 26.

8. Hvað lærum við af því sem kemur fram í 3. Mósebók 19:2 og 1. Pétursbréfi 1:14–16?

8 Skoðum nánar yfirlýsingu sem var lesin fyrir alla og við finnum í 3. Mósebók 19:2. Jehóva sagði Móse: „Ávarpaðu allan söfnuð Ísraelsmanna og segðu: Verið heilagir því að ég, Drottinn, Guð ykkar, er heilagur.“ Pétur gæti hafa verið að vitna í þessi orð þegar hann hvatti kristna menn til að ,verða heilagir‘. (Lestu 1. Pétursbréf 1:14–16) Við erum ekki undir Móselögunum en það sem Pétur skrifaði staðfestir það sem við lærum í 3. Mósebók 19:2, það er að segja að Jehóva er heilagur og þeir sem elska hann ættu að kappkosta að vera heilagir. Þetta á við hvort sem við eigum þá von að lifa á himnum eða á paradísarjörð. – 1. Pét. 1:4; 2. Pét. 3:13.

,VERÐIÐ HEILÖG Í ALLRI HEGÐUN‘

9. Hvaða gagn getum við haft af því að skoða 3. Mósebók 19. kafla?

9 Við viljum þóknast heilögum Guði okkar og kappkostum þess vegna að læra hvernig við getum orðið heilög. Við finnum góð ráð til að hjálpa okkur í 3. Mósebók 19. kafla. Hebreskufræðingurinn Marcus Kalisch skrifaði: „Þessi stórmerkilegi kafli er ef til vill mikilvægasti hluti 3. Mósebókar ef ekki fyrstu fimm bóka Biblíunnar.“ Skoðum nokkur vers í þessum kafla sem hafa að geyma dýrmæta kennslu um nokkra þætti í daglegu lífi okkar. Þegar við gerum það skulum við hafa í huga að þessi kennsla kemur í kjölfar orðanna „verið heilagir“.

Hvað ætti boðið um framkomu við foreldra sem er að finna í 3. Mósebók 19:3 að fá þjóna Guðs til að hugleiða? (Sjá 10.–12. grein.) *

10, 11. Hvað þurfum við að gera samkvæmt 3. Mósebók 19:3 og hvers vegna er það mikilvægt?

10 Eftir að Jehóva hafði sagt að Ísraelsmenn ættu að vera heilagir bætti hann við: „Sérhver skal virða móður sína og föður ... Ég er Drottinn, Guð ykkar.“ – 3. Mós. 19:2, 3.

11 Það er greinilega mikilvægt að við fylgjum leiðbeiningum Guðs um að heiðra foreldra okkar. Rifjum upp þegar maður spurði Jesú: „Hvað gott þarf ég að gera til að hljóta eilíft líf?“ Svar Jesú var að hluta til að hann ætti að heiðra föður sinn og móður. (Matt. 19:16–19) Jesús fordæmdi jafnvel faríseana og fræðimennina vegna þess að þeir gerðu allt til að komast hjá því að annast foreldra sína. Með því ,ógiltu þeir orð Guðs‘. (Matt. 15:3–6) Fimmta boðorðið og það sem við lesum í 3. Mósebók 19:3 er hluti af orði Guðs. (2. Mós. 20:12) Og munum að leiðbeiningarnar í 3. Mósebók 19:3 um að virða föður okkar og móður koma strax á eftir orðunum „verið heilagir því að ég, Drottinn, Guð ykkar, er heilagur“.

12. Hvernig getum við farið eftir því sem segir í 3. Mósebók 19:3?

12 Þegar við hugsum um boðið sem Jehóva gaf okkur gætum við spurt okkur: Hvernig stend ég mig í þessu sambandi? Ef þú áttar þig á því að þú hefðir getað gert meira geturðu ákveðið að bæta þig. Þú breytir ekki því sem er liðið en þú getur ákveðið að gera meira fyrir foreldra þína héðan í frá. Þú gætir kannski gert ráðstafanir til að verja meiri tíma með þeim. Eða kannski gætirðu stutt þau efnislega eða tilfinningalega eða hjálpað þeim að hlúa að sambandinu við Jehóva. Það væri í samræmi við það sem segir í 3. Mósebók 19:3.

13. (a) Hvaða aðrar leiðbeiningar er að finna í 3. Mósebók 19:3? (b) Hvernig getum við líkt eftir fordæmi Jesú sem kemur fram í Lúkasi 4:16–18?

13 Við lærum fleira um það að vera heilagur af því sem segir í 3. Mósebók 19:3. Þar er minnst á að halda hvíldardaginn. Kristnir menn eru ekki undir lögmálinu þannig að við þurfum ekki að halda vikulegan hvíldardag. Við getum samt lært margt af því hvernig Ísraelsmenn héldu hvíldardaginn og hvernig þeir höfðu gagn af því. Hvíldardagurinn var tími til að hvíla sig frá vinnu og einbeita sér að tilbeiðslunni á Guði. * Þess vegna fór Jesús á hvíldardaginn í samkunduhúsið í heimabæ sínum til að lesa í orði Guðs. (2. Mós. 31:12–15; lestu Lúkas 4:16–18.) Orð Guðs í 3. Mósebók 19:3 um að halda hvíldardaga hans ættu að hvetja okkur til að taka okkur tíma frá daglegu amstri til að gefa sambandinu við Jehóva meiri gaum. Finnst þér að þú gætir gert betur í þessum efnum? Ef þú tekur þér tíma reglulega til að einbeita þér að tilbeiðslunni á Jehóva verður samband þitt við hann sterkara og nánara, en það er nauðsynlegt til að verða heilagur.

STYRKJUM SAMBANDIÐ VIÐ JEHÓVA

14. Hvaða grundvallarsannindi er lögð áhersla á í 3. Mósebók 19. kafla?

14 Í 3. Mósebók 19. kafla er aftur og aftur minnst á grundvallarsannindi sem geta hjálpað okkur að vera heilög. Fjórða versinu lýkur á orðunum: „Ég er Drottinn, Guð ykkar.“ Sama orðalag eða svipað er að finna 16 sinnum í kaflanum. Það minnir okkur á fyrsta boðorðið: „Ég er Drottinn, Guð þinn ... Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.“ (2. Mós. 20:2, 3) Allir þjónar Jehóva sem vilja verða heilagir verða að fullvissa sig um að þeir láti engan og ekkert koma upp á milli sín og Jehóva. Og þar sem við erum vottar Jehóva erum við staðráðin í að forðast hvers kyns hegðun sem myndi smána eða vanhelga heilagt nafn hans. – 3. Mós. 19:12; Jes. 57:15.

15. Hvað ætti það sem segir í 3. Mósebók 19. kafla um fórnir að hvetja okkur til að gera?

15 Ísraelsmenn sýndu að þeir viðurkenndu Jehóva sem Guð sinn með því að hlýða lögum hans. Í 3. Mósebók 18:4 segir: „Þið skuluð fara að fyrirmælum mínum og halda lög mín með því að fara eftir þeim. Ég er Drottinn, Guð ykkar.“ Sum þessara laga Ísraels eru nefnd í 19. kafla. Versin 5–8, 21 og 22 fjalla til dæmis um dýrafórnir. Færa átti fórnirnar þannig að ,helgigjafir Drottins‘ yrðu ekki vanhelgaðar. Að lesa þessi vers ætti að fá okkur til að vilja þóknast Jehóva og færa lofgerðarfórnir sem eru honum velþóknanlegar eins og við erum hvött til í Hebreabréfinu 13:15.

16. Hvaða meginregla í 3. Mósebók 19. kafla minnir okkur á muninn á þeim sem þjóna Guði og þeim sem gera það ekki?

16 Til að verða heilög verðum við að vera fús til að vera öðruvísi en þeir sem þjóna ekki Jehóva. Það getur verið erfitt. Stundum gætu skólafélagar, vinnufélagar, ættingjar sem eru ekki í trúnni og aðrir þrýst á okkur til að taka þátt í einhverju sem bitnar á tilbeiðslunni á Jehóva. Þegar þeir gera það þurfum við að taka mikilvæga ákvörðun. Hvað getur hjálpað okkur að taka rétta ákvörðun? Skoðum athyglisverða meginreglu sem er að finna í 3. Mósebók 19:19 en þar segir að hluta: „Þú skalt ekki bera klæði sem ofin eru úr tvenns konar bandi.“ Þessi lög hjálpuðu Ísraelsmönnum að aðgreina sig frá þjóðunum í kring. Þar sem við erum ekki undir lögmálinu er ekki rangt fyrir þjóna Guðs að vera í fötum úr tvenns konar efni eins og til dæmis ull og bómull. En við viljum ekki vera eins og fólk með trúarskoðanir sem stangast á við Biblíuna eða hegðar sér ekki í samræmi við það sem hún kennir, jafnvel þótt um sé að ræða skólafélaga, vinnufélaga eða ættingja. Auðvitað þykir okkur vænt um ættingja okkar og við sýnum öðru fólki kærleika. En ákvarðanirnar sem við tökum í lífinu sýna að við viljum hlýða Jehóva, jafnvel þótt það þýði að við séum öðruvísi en fólkið í kringum okkur. Þetta er mjög mikilvægt vegna þess að ef við viljum verða heilög verðum við að vera frátekin fyrir Guð. – 2. Kor. 6:14–16; 1. Pét. 4:3, 4.

Hvað hefðu Ísraelsmenn átt að læra af 3. Mósebók 19:23–25 og hvað lærum við af þessum versum? (Sjá 17. og 18. grein.) *

17, 18. Hvaða mikilvæga lærdóm getum við dregið af 3. Mósebók 19:23–25?

17 Orðin „ég er Drottinn“ hefðu átt að minna Ísraelsmenn á að sambandið við Jehóva ætti að vera það mikilvægasta í lífi þeirra. Hvernig þá? Það kemur meðal annars fram í 3. Mósebók 19:23–25(Lestu.) Skoðum hvað þetta þýddi fyrir Ísraelsmenn eftir að þeir komu inn í fyrirheitna landið. Ef maður gróðursetti tré til lífsviðurværis átti hann ekki að neyta ávaxta af trénu í þrjú ár. Á fjórða árinu átti að taka ávextina frá og nota í helgidómi Guðs. Það var ekki fyrr en á fimmta árinu að eigandinn gat borðað ávextina af trénu. Þessi lög hefðu átt að hjálpa Ísraelsmönnum að skilja að þeir áttu ekki að láta eigin þarfir hafa forgang. Þeir áttu að treysta að Jehóva sæi fyrir þörfum þeirra og setja tilbeiðsluna í fyrsta sæti. Hann myndi sjá til þess að þeir hefðu nóg að borða. Og Guð hvatti þá til að gefa örlátlega til helgidómsins, miðstöðvar tilbeiðslunnar á honum.

18 Lögin í 3. Mósebók 19:23–25 minna á orð Jesú í fjallræðunni. Hann sagði: „Hættið að hafa áhyggjur af því hvað þið eigið að borða eða drekka.“ Jesús hélt áfram: „Faðir ykkar á himnum veit að þið þarfnist alls þessa.“ Guð sér fyrir þörfum okkar eins og hann sér jafnvel fyrir þörfum fuglanna. (Matt. 6:25, 26, 32) Við treystum því að Jehóva annist okkur. Og án þess að láta á því bera gefum við þeim „miskunnargjafir“ sem þurfa á hjálp að halda. Við tökum með gleði þátt í að greiða útgjöld safnaðarins. Jehóva tekur eftir því þegar við styðjum tilbeiðsluna á honum af örlæti og hann endurgeldur okkur. (Matt. 6:2–4, neðanmáls) Þegar við sýnum örlæti sést að við skiljum lærdóminn í 3. Mósebók 19:23–25.

19. Hvernig hefurðu haft gagn af því að skoða þessi vers í 3. Mósebók?

19 Við höfum skoðað fáein vers í 3. Mósebók 19. kafla sem hafa hjálpað okkur að skilja hvernig við getum líkst heilögum Guði okkar. Með því að líkja eftir honum sýnum við að við viljum vera „heilög í allri hegðun“. (1. Pét. 1:15) Margir sem þjóna ekki Jehóva hafa séð góða breytni þjóna hans. Það hefur orðið til þess að sumir hafa lofað Jehóva. (1. Pét. 2:12) En við getum lært langtum meira af 3. Mósebók 19. kafla. Í næstu grein verður fjallað um fleiri vers í kaflanum sem hjálpa okkur að koma auga á önnur svið lífs okkar þar sem við getum ,orðið heilög‘ eins og Pétur hvatti okkur til.

SÖNGUR 80 Finnið og sjáið að Jehóva er góður

^ gr. 5 Við elskum Jehóva innilega og við viljum þóknast honum. Hann er heilagur og væntir þess að tilbiðjendur sínir séu það líka. Er það mögulegt fyrir ófullkomna menn? Já, það er það. Við getum lært hvað það felur í sér að vera heilagur í allri hegðun með því að rannsaka það sem Pétur postuli sagði við kristna menn og fyrirmæli sem Jehóva gaf Ísraelsþjóðinni til forna.

^ gr. 13 Sjá greinina „Að vinna hefur sinn tíma og að hvílast hefur sinn tíma“ í Varðturninum desember 2019 til að sjá hvaða lærdóm við getum dregið af fyrirkomulaginu um hvíldardaginn.

^ gr. 57 MYND: Fullorðinn sonur notar tíma með foreldrum sínum, heimsækir þau ásamt eiginkonu sinni og barni og hefur reglulega samband við þau.

^ gr. 59 MYND: Bóndi í Ísrael skoðar ávexti á trjám sem hann hefur gróðursett.