Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 49

Við lærum hvernig við ættum að koma fram við aðra í 3. Mósebók

Við lærum hvernig við ættum að koma fram við aðra í 3. Mósebók

„Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ – 3. MÓS. 19:18.

SÖNGUR 109 Höfum brennandi kærleika hvert til annars

YFIRLIT *

1, 2. Hvað skoðuðum við í greininni á undan og hvað skoðum við í þessari grein?

Í GREININNI á undan skoðuðum við gagnleg ráð í 3. Mósebók 19. kafla. Í þriðja versinu sáum við til dæmis að Jehóva sagði Ísraelsmönnum að sýna foreldrum sínum virðingu. Við ræddum hvernig við getum farið eftir þessum leiðbeiningum með því að hjálpa foreldrum okkar efnislega eða tilfinningalega eða með því að hjálpa þeim að hlúa að sambandinu við Jehóva. Í sama versi var fólk Guðs minnt á mikilvægi þess að halda hvíldardaginn. Við lærðum að þótt við séum ekki undir hvíldardagslögunum getum við farið eftir meginreglunni að baki þeim með því að taka reglulega frá tíma til að gera eitthvað í þágu tilbeiðslunnar á Jehóva. Þannig sýnum við að við reynum að vera heilög eins og 3. Mósebók 19:2 og 1. Pétursbréf 1:15 segja okkur að gera.

2 Í þessari grein skoðum við fleiri vers í 3. Mósebók 19. kafla. Hvað getum við lært af þessum kafla um að sýna þeim tillitssemi sem glíma við heilsubrest, vera heiðarleg í viðskiptum og sýna öðrum kærleika? Við skulum skoða hvað við getum lært því að við viljum vera heilög þar sem Guð er heilagur.

SÝNUM ÞEIM GÓÐVILD SEM GLÍMA VIÐ HEILSUBREST

Hvernig ættum við að koma fram við þá sem eru heyrnalausir eða blindir samkvæmt 3. Mósebók 19:14? (Sjá 3.–5. grein.) *

3, 4. Hvernig átti að koma fram við heyrnalausa og blinda samkvæmt 3. Mósebók 19:14?

3 Lestu 3. Mósebók 19:14. Jehóva vænti þess að þjónar hans sýndu tillitssemi þeim sem glímdu við heilsubrest. Ísraelsmönnum var til dæmis sagt að formæla ekki heyrnalausum manni. Formæling gæti hafa falið í sér að hóta einhverjum eða segja eitthvað illt um hann. Það væri hræðilegt að koma þannig fram við heyrnalausan mann. Hann heyrði ekki það sem var sagt um hann þannig að hann var ekki í aðstöðu til að verja sig.

4 Í versi 14 segir áfram að þjónar Guðs eigi ekki að ,setja hindrun í veg fyrir blindan mann‘. Í einu skýringarriti segir varðandi fólk sem glímir við heilsubrest: „Til forna hafði fólk í Austurlöndum nær tilhneigingu til að nýta sér heilsubrest þess og koma illa fram við það.“ Tillitslaus maður gat þannig sett hindrun í veg fyrir blindan mann til þess að gera grín að honum. Hvílík grimmd. Fyrirmælin í 14. versinu hjálpuðu þjónum Jehóva að sjá að þeir ættu að sýna fólki með heilsubrest samkennd.

5. Hvernig getum við sýnt þeim sem glíma við heilsubrest samkennd?

5 Jesús sýndi þeim sem glímdu við heilsubrest samkennd. Rifjum upp skilaboð hans til Jóhannesar skírara: „Blindir sjá, fatlaðir ganga, holdsveikir hreinsast, heyrnarlausir heyra [og] dánir eru reistir upp.“ Þegar allt fólkið sá kraftaverkin sem Jesús gerði fór það að „lofa Guð“. (Lúk. 7:20–22; 18:43) Þjónar Guðs vilja líkja eftir Jesú og sýna þeim sem glíma við heilsubrest samkennd. Við sýnum þeim því góðvild, tillitssemi og þolinmæði. Jehóva gerir okkur ekki fært að gera kraftaverk. En við fáum að segja þeim sem eru líkamlega eða andlega blindir fagnaðarboðskapinn um paradís þar sem mannkynið verður endurreist til fullkominnar heilsu, líkamlega og andlega. (Lúk. 4:18) Þessi fagnaðarboðskapur fær þegar marga til að lofa Guð.

SÝNUM HEIÐARLEIKA Í VIÐSKIPTUM

6. Hvernig útlistar það sem kemur fram í 3. Mósebók 19. kafla nánar boðorðin tíu?

6 Sum vers í 3. Mósebók 19. kafla útlista nánar það sem kemur fram í boðorðunum tíu. Áttunda boðorðið segir til dæmis einfaldlega: „Þú skalt ekki stela.“ (2. Mós. 20:15) Sumir gætu ályktað að þeir hlýði þessu boði eins lengi og þeir taka ekki neitt sem tilheyrir þeim ekki. Þeir gætu samt verið að stela með öðrum hætti.

7. Hvernig gæti kaupmaður óhlýðnast áttunda boðorðinu um að stela ekki?

7 Kaupmaður gæti verið stoltur af því að hafa aldrei tekið neitt sem tilheyrði honum ekki. En hvað um viðskiptahætti hans? Jehóva segir í 3. Mósebók 19:35, 36: „Þið skuluð ekki hafa rangt við fyrir rétti hvað varðar stiku, vigt og mæli. Þið skuluð nota rétta vigt, rétta vigtarsteina, rétta efu og rétta hín.“ Kaupmaður sem notaði ónákvæma vigt eða mæli til að svíkja viðskiptavini sína var því að stela frá þeim. Við skoðum þetta enn betur í 3. Mósebók 19. kafla.

Hvað gæti þjónn Jehóva spurt sig varðandi viðskiptahætti sína samkvæmt 3. Mósebók 19:11–13? (Sjá 8.–10. grein.) *

8. Hvernig hjálpaði 3. Mósebók 19:11–13 Gyðingum að fylgja meginreglunni í áttunda boðorðinu og hvernig getum við farið eftir henni?

8 Lestu 3. Mósebók 19:11–13. Upphafsorð 3. Mósebókar 19:11 eru: ,Þið megið ekki stela.‘ Í 13. versi er þjófnaður tengdur við óheiðarlega viðskiptahætti. Þar segir: ,Þú skalt ekki féfletta náunga þinn.‘ Sá sem er óheiðarlegur í viðskiptum er í raun að stela. Í áttunda boðorðinu segir að það sé rangt að stela en frekari útlistanir í 3. Mósebók hjálpuðu Gyðingum að skilja hvernig þeir gátu heimfært meginregluna að baki lögunum, það er að segja hvernig þeir gátu verið heiðarlegir í öllu sem þeir gerðu. Hvernig getum við haft gagn af því að hugleiða viðhorf Jehóva til óheiðarleika og þjófnaðar? Við gætum spurt okkur: „Er eitthvað sem ég þarf að gefa meiri gaum í ljósi þess sem segir í 3. Mósebók 19:11–13? Þarf ég að lagfæra eitthvað í sambandi við mína viðskiptahætti?“

9. Hvaða vernd veittu lögin í 3. Mósebók 19:13?

9 Það er annað atriði í sambandi við heiðarleika sem þjónn Guðs með fólk í vinnu ætti að hugleiða. Síðari hluti 3. Mósebókar 19:13 segir: „Laun daglaunamanns skulu ekki vera í þinni vörslu næturlangt til næsta morguns.“ Í landbúnaðarsamfélagi í Ísrael átti vinnufólk að fá útborguð laun í lok hvers dags. Ef vinnumaður fékk það ekki gat verið að hann hefði ekki mat til að fæða fjölskylduna þann daginn. Jehóva sagði: „Hann er fátækur og þarf mjög á því að halda.“ – 5. Mós. 24:14, 15; Matt. 20:8.

10. Hvað getum við lært af 3. Mósebók 19:13?

10 Nú á dögum fá margir launþegar útborgað einu sinni eða tvisvar í mánuði en ekki á hverjum degi. En meginreglan sem kemur fram í 3. Mósebók 19:13 er enn í gildi. Sumir vinnuveitendur notfæra sér starfsmenn sína og borga þeim langtum minna en er sanngjarnt. Þeir vita að þessir starfsmenn eiga kannski ekki annarra kosta völ en að sætta sig við sultarlaun. Í vissum skilningi eru slíkir vinnuveitendur að halda eftir launum slíkra starfsmanna. Kristinn vinnuveitandi vill gæta þess að koma fram við starfsmenn sína af sanngirni. Skoðum nú hvað við getum lært fleira af 3. Mósebók 19. kafla.

ELSKAÐU AÐRA EINS OG SJÁLFAN ÞIG

11, 12. Á hvað lagði Jesús áherslu með því að vitna í 3. Mósebók 19:17, 18?

11 Guð væntir meira af okkur en þess að skaða ekki aðra. Við getum séð þetta í 3. Mósebók 19:17, 18. (Lestu.) Jehóva segir mjög skýrt: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Þjónn Guðs verður að gera þetta ef hann vill þóknast Guði.

12 Skoðum hvernig Jesús lagði áherslu á mikilvægi fyrirmælanna í 3. Mósebók 19:18. Farísei spurði Jesú eitt sinn: „Hvert er æðsta boðorð laganna?“ Jesús sagði að „mesta og æðsta boðorðið“ sé að elska Jehóva af öllu hjarta okkar, allri sál og öllum huga. Síðan vitnaði hann í 3. Mósebók 19:18 og sagði: „Annað er líkt því og það er: ,Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.‘“ (3. Mós. 19:18; Matt. 22:35–40) Það eru óteljandi leiðir til að sýna náunga okkar kærleika en við skulum líta á nokkrar þeirra í 3. Mósebók 19. kafla.

13. Hvernig hjálpar frásagan af Jósef okkur að skilja 3. Mósebók 19:18?

13 Ein leið til að sýna náunga okkar kærleika er að fara eftir því sem kemur fram í 3. Mósebók 19:18, NW. Þar segir: „Þú skalt ekki hefna þín né bera kala til náunga þíns.“ Við þekkjum flest til fólks sem hefur borið kala til vinnufélaga, skólafélaga eða ættingja, jafnvel í mörg ár. Við munum eftir tíu hálfbræðrum Jósefs sem báru kala til hans en það leiddi að lokum til þess að þeir frömdu grimmdarverk. (1. Mós. 37:2–8, 25–28) En Jósef kom ekki illa fram við þá. Þegar hann var kominn í valdastöðu og hefði getað hefnt sín á hálfbræðrum sínum sýndi hann þeim miskunn. Jósef bar ekki kala til þeirra. Hann fór eftir því sem segir í 3. Mósebók 19:18. – 1. Mós. 50:19–21.

14. Hvað sýnir að meginreglurnar í 3. Mósebók 19:18 eru enn í fullu gildi?

14 Kristnir menn sem vilja þóknast Guði ættu að líkja eftir Jósef sem fyrirgaf bræðrum sínum í staðinn fyrir að bera kala til þeirra og hefna sín á þeim. Það er líka í samræmi við faðirvorið þar sem Jesús hvatti okkur til að fyrirgefa þeim sem syndga gegn okkur. (Matt. 6:9, 12) Páll postuli ráðlagði líka trúsystkinum sínum: „Hefnið ykkar ekki sjálf, þið elskuðu.“ (Rómv. 12:19) Hann hvatti þau líka: „Haldið áfram að umbera hvert annað og fyrirgefa hvert öðru fúslega, jafnvel þegar þið hafið ástæðu til að kvarta undan öðrum.“ (Kól. 3:13) Meginreglur Jehóva breytast ekki. Við ættum að fara eftir meginreglunum í 3. Mósebók 19:18.

Rétt eins og best er að kroppa ekki í bókstafleg sár er best að dvelja ekki við það sem hefur verið gert á hlut okkar. Við ættum að reyna að sleppa takinu. (Sjá 15. grein.) *

15. Hvaða dæmi hjálpar okkur að skilja hvers vegna við ættum að fyrirgefa og gleyma því sem er gert á hlut okkar?

15 Tökum dæmi. Við getum líkt særðum tilfinningum við líkamleg sár. Sum eru minni háttar, önnur eru alvarlegri. Þegar við opnum til dæmis umslag gætum við skorið okkur lítillega á fingri. Það getur verið sárt en að öllum líkindum grær það fljótt. Eftir einn eða tvo daga munum við jafnvel ekki hvar við skárum okkur. Sumt sem er gert á okkar hlut er minni háttar. Vinur gæti til dæmis í hugsunarleysi sagt eða gert eitthvað sem særir okkur en við eigum auðvelt með að fyrirgefa honum. Ef maður fær hins vegar djúpt sár gæti maður þurft að fara til læknis til að láta sauma það og búa um það. Ef maður myndi kroppa í sárið gerði það illt verra. Því miður gæti sá sem er illa særður vegna þess sem annar gerði á hlut hans verið í svipaðri aðstöðu. Hann hugsar kannski stöðugt um hvernig hinn aðilinn særði hann. En sá sem ber kala til annars manns skaðar fyrst og fremst sjálfan sig. Það er langtum betra að fara eftir því sem segir í 3. Mósebók 19:18.

16. Hvernig ætlaðist Jehóva til að Ísraelsmenn kæmu fram við útlendinga samkvæmt 3. Mósebók 19:33, 34 og hvað getum við lært af því?

16 Þegar Jehóva bauð Ísraelsmönnum að elska náunga sinn átti hann ekki við að þeir ættu einungis að elska þá sem væru af sama kynþætti eða þjóðerni. Þeim var líka sagt að elska útlendinga sem bjuggu á meðal þeirra. Það kemur skýrt fram í 3. Mósebók 19:33, 34. (Lestu.) Koma átti fram við aðkomumanninn eins og ,innborinn mann‘ og Ísraelsmenn áttu að ,elska hann eins og sjálfan sig‘. Þeir áttu til dæmis bæði að leyfa aðkomumönnum og fátækum að njóta góðs af lögunum um eftirtíning. (3. Mós. 19:9, 10) Meginreglan um að elska aðkomumanninn á við kristna menn nú á dögum. (Lúk. 10:30–37) Hvernig þá? Það eru milljónir innflytjenda í heiminum og að öllum líkindum búa einhverjir nálægt þér. Það er mikilvægt að koma fram við þessa karla, konur og börn af virðingu.

MIKILVÆGT VERK SEM 3. MÓSEBÓK 19. KAFLI NEFNIR EKKI

17, 18. (a) Hvað erum við hvött til að gera í 3. Mósebók 19:2 og 1. Pétursbréfi 1:15? (b) Í hvaða mikilvæga verkefni hvatti Pétur postuli okkur að taka þátt?

17 Fólk Guðs er hvatt til að vera heilagt bæði í 3. Mósebók 19:2 og 1. Pétursbréfi 1:15. Mörg önnur vers í 3. Mósebók 19. kafla geta hjálpað okkur að sjá hvað við getum gert til að hljóta velþóknun Jehóva. Við höfum skoðað vers sem benda á sumt af því sem við ættum að gera og annað neikvætt sem við ættum að forðast. * Grísku ritningarnar sýna að Jehóva vill að við fylgjum þessum meginreglum. En Pétur postuli nefnir eitthvað fleira.

18 Við tilbiðjum kannski Jehóva reglulega og gerum öðrum gott en Pétur leggur áherslu á ákveðið verk. Áður en hann hvetur okkur til að verða heilög í allri hegðun segir hann: ,Styrkið hugi ykkar til verka.‘ (1. Pét. 1:13, 15) Hvaða verk talar hann um? Pétur sagði að smurðir bræður Krists myndu ,boða vítt og breitt hve stórfenglegur hann er sem kallaði þá‘. (1. Pét. 2:9) Og allir þjónar Guðs nú á dögum eru þess heiðurs aðnjótandi að taka þátt í þessu mikilvæga verkefni sem gagnast fólki meira en nokkuð annað. Það er einstakur heiður fyrir okkur sem heilaga þjóð Guðs að fá að taka reglulega og af kappi þátt í boðuninni og kennslunni. (Mark. 13:10) Þegar við gerum okkar besta til að fara eftir meginreglunum í 3. Mósebók 19. kafla sönnum við að við elskum Guð og náunga okkar. Og við sýnum að við viljum ,verða heilög í allri hegðun‘.

SÖNGUR 111 Gleðjumst og fögnum

^ gr. 5 Þjónar Guðs eru ekki undir Móselögunum en þau kenna okkur margt um hvað við ættum að gera og hvað við ættum ekki að gera. Þegar við kynnum okkur þau getur það hjálpað okkur að sýna öðrum kærleika og gera vilja Guðs. Í þessari grein fáum við hjálp til að skilja hvernig við getum farið eftir leiðbeiningunum í 3. Mósebók 19. kafla.

^ gr. 17 Vers sem er ekki rætt um í þessari grein og fyrri greininni nefna það að sýna hlutdrægni, bera út róg, neyta blóðs og iðka spíritisma, spásagnir og kynferðislegt siðleysi. – 3. Mós. 19:15, 16, 26–29, 31. – Sjá „Spurningar frá lesendum“ í þessu tölublaði.

^ gr. 52 MYND: Vottur Jehóva hjálpar heyrnalausum bróður að tala við lækni.

^ gr. 54 MYND: Bróðir sem rekur málningafyrirtæki borgar launþega launin sín.

^ gr. 56 MYND: Systir getur auðveldlega gleymt litlu sári. Mun hún líka gera það þegar meiðslin eru alvarlegri?