Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Í 3. Mósebók 19:16 er að finna þau fyrirmæli að ekki megi „krefjast blóðs“ annarra. Hvað fela þessi fyrirmæli í sér?

Jehóva sagði Ísraelsmönnum að þeir ættu að vera heilagir. Til að hjálpa þeim að vera það sagði hann: „Þú mátt hvorki bera róg á meðal landa þinna né krefjast blóðs náunga þíns. Ég er Drottinn.“ – 3. Mós. 19:2, 16.

Orðið „krefjast“ er þýðing á hebresku orðatiltæki. Hvað merkir það? Í skýringarriti Gyðinga um 3. Mósebók segir: „Þennan hluta versins er ... erfitt að skilja vegna þess að vandasamt er að skilja hvað er átt við með hebreska orðatiltækinu [í versinu] en það merkir bókstaflega ,standa ekki yfir, hjá, nálægt‘.“

Sumir fræðimenn tengja orðalagið við versið á undan en þar segir: „Þið megið ekki fremja ranglæti í réttinum. Þú mátt hvorki draga taum hins valdalausa né vera hinum valdamikla undirgefinn. Þú skalt dæma skyldmenni þín af réttlæti.“ (3. Mós. 19:15) Fyrirmælin í 16. versinu um að ,krefjast ekki blóðs‘ annarra gætu þýtt að fólk Guðs mætti ekki valda öðrum tjóni í réttarhöldum, viðskiptum eða fjölskyldumálum og ekki fara með rangfærslur í eigin þágu. Þetta ættum við auðvitað ekki að gera en það er önnur skýring á orðalaginu í 16. versinu sem á betur við.

Skoðum upphaf versins. Guð gefur fólki sínu þau fyrirmæli að bera ekki út róg. Höfum í huga að rógur er annað og meira en slúður, þó svo að slúður geti líka komið af stað vandamálum. (Orðskv. 10:19; Préd. 10:12–14; 1. Tím. 5:11–15; Jak. 3:6) Rógur felur venjulega í sér að segja eitthvað í þeim tilgangi að skaða mannorð einhvers. Rógberinn ber kannski ljúgvitni gegn einhverjum, jafnvel þótt það gæti kostað hann lífið. Dæmi um það er þegar rógberar báru ljúgvitni gegn Nabót en fyrir vikið var hann grýttur til bana þótt hann væri saklaus. (1. Kon. 21:8–13) Rógberi gæti því ,krafist blóðs‘, eða lífs, annars manns eins og bent er á í seinna hluta 3. Mósebókar 19:16.

Illgjarn rógburður getur líka borið vott um hatur í garð annarra. Í 1. Jóhannesarbréfi 3:15 segir: „Sá sem hatar bróður sinn er morðingi og þið vitið að enginn morðingi hefur í sér eilíft líf.“ Það er athyglisvert að eftir að hafa sagt orðin í 3. Mósebók 19:16 bætti Jehóva við: „Þú skalt ekki bera hatur í brjósti til bróður þíns.“ – 3. Mósebók 19:17.

Forvitnilegt orðalagið í 3. Mósebók 19:16 felur því í sér sterka hvatningu til kristinna manna. Við verðum að forðast að hugsa neikvætt um aðra og ættum aldrei að bera út róg um þá. Ef við ,krefjumst blóðs‘ einhvers með því að bera út róg um hann vegna þess að okkur líkar ekki við hann eða vegna öfundar, gæti undirrótin verið hatur. Kristnir menn verða fyrir alla muni að forðast það. – Matteus 12:36, 37.