Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ertu góður samstarfsmaður?

Ertu góður samstarfsmaður?

,ÉG VAR með í ráðum við hlið honum ... og lék mér fyrir augliti hans alla tíma.‘ (Orðskv. 8:30) Biblíuversið lýsir hvernig sonur Guðs vann með föður sínum um óratíma áður en hann kom til jarðar. Versið segir líka hvernig Jesú leið í þessu samstarfi. Hann ,lék sér‘ fyrir augliti hans.

Jesús tileinkaði sér eiginleika sem gerði hann að góðum samstarfsmanni þeirra sem hann vann með hér á jörðinni. Hvernig getum við haft gagn af fordæmi Jesú? Þegar við skoðum það vandlega komum við auga á þrjár meginreglur sem geta hjálpað okkur að vera góðir samstarfsmenn. Þær hjálpa okkur að stuðla að einingu og góðri samvinnu.

Höfum í huga fordæmi Jehóva og Jesú og verum fús til að leyfa öðrum að njóta góðs af þekkingu okkar og reynslu.

MEGINREGLA 1: ,SÝNUM HVERT ÖÐRU VIRÐINGU‘

Góður samstarfsmaður metur samverkamenn sína að verðleikum og reynir ekki að beina athygli að sjálfum sér. Jesús lærði slíka auðmýkt af föður sínum. Þótt Jehóva einn sé réttilega nefndur skapari vakti hann athygli á mikilvægu hlutverki sonar síns. Við sjáum það af því sem hann sagði: „Vér viljum gera manninn eftir vorri mynd.“ (1. Mós. 1:26) Það er líklegt að Jesús hafi kunnað að meta auðmýktina sem Jehóva sýndi þarna. – Sálm. 18:35NW.

Jesús sýndi líka auðmýkt þegar hann var á jörðinni. Þegar honum var hrósað fyrir það sem hann áorkaði gaf hann Guði heiðurinn. (Mark. 10:17, 18; Jóh. 7:15, 16) Hann lagði sig fram um að hafa friðsamleg samskipti við lærisveina sína og leit á þá sem vini en ekki þjóna. (Jóh. 15:15) Hann þvoði jafnvel fætur þeirra til að kenna þeim að vera auðmjúkir. (Jóh. 13:5, 12–14) Við ættum líka að meta samstarfmenn okkar að verðleikum en ekki taka eigin hag fram yfir þeirra. Við áorkum meiru þegar við ,sýnum hvert öðru virðingu‘ og erum ekki upptekin af því hver fær heiðurinn. – Rómv. 12:10.

Auðmjúk persóna viðurkennir líka að „ef margir leggja á ráðin rætast þau“. (Orðskv. 15:22) Óháð reynslu okkar og hæfileikum megum við ekki að gleyma því að enginn maður veit allt. Jafnvel Jesús viðurkenndi að það var sumt sem hann vissi ekki. (Matt. 24:36) Og hann vildi fá að vita hvað ófullkomnir lærisveinar hans vissu og hugsuðu. (Matt. 16:13–16) Það er ekki að undra að samstarfsmönnum hans skyldi líða vel í návist hans. Þegar við sýnum auðmýkt með því að gera okkur grein fyrir takmörkum okkar og leyfa öðrum að leggja sitt af mörkum stuðlum við að friði og sjáum „ráðin rætast“.

Það er sérstaklega mikilvægt að öldungar líki eftir auðmýkt Jesú þegar þeir vinna saman. Þeir þurfa að hafa í huga að heilagur andi getur verkað á hvaða öldung sem er í öldungaráðinu. Þegar öldungarnir reyna að hafa andrúmsloftið á fundum þannig að öllum finnist auðvelt að tjá sig geta þeir tekið ákvarðanir sem gagnast öllum söfnuðinum.

MEGINREGLA 2: ,VERUM ÞEKKT FYRIR AÐ VERA SANNGJÖRN‘

Góður samstarfsmaður er sanngjarn í samskiptum við samstarfmenn sína. Hann er sveigjanlegur og eftirgefanlegur. Jesús hafði gott tækifæri til að taka eftir sanngirni föður hans. Jehóva gaf hann til dæmis sem lausnargjald til að bjarga mönnunum undan dauðadóminum sem þeir áttu skilið. – Jóh. 3:16.

Jesús var eftirgefanlegur þegar það var nauðsynlegt eða viðeigandi. Hann hjálpaði fönikískri konu jafnvel þótt hann væri sendur til Ísraelsmanna. (Matt. 15:22–28) Hann hafði líka sanngjarnar væntingar til lærisveina sinna. Eftir að náinn vinur hans, Pétur, afneitaði honum opinberlega var hann fús að fyrirgefa honum. Seinna fól hann Pétri mikla ábyrgð. (Lúk. 22:32; Jóh. 21:17; Post. 2:14; 8:14–17; 10:44, 45) Fordæmi Jesú sýnir glöggt að við ættum að ,vera þekkt fyrir að vera sanngjörn‘ með því að vera eftirgefanleg. – Fil. 4:5.

Sanngirni fær okkur líka til að vera sveigjanleg til að geta haft friðsamlegt samstarf við alls konar fólk. Jesús kom svo vel fram við aðra að öfundsjúkir óvinir hans sökuðu hann um að vera „vinur skattheimtumanna og syndara“ sem brugðust vel við boðskap hans. (Matt. 11:19) Getum við líka náð góðum árangri í að vinna með fólki sem er ólíkt okkur? Louis hefur þjónað sem farandhirðir og á Betel og haft tækifæri til að vinna með fólki með mismunandi bakgrunn. Hann segir: „Ég hef reynt að líta á hvern hóp sem vegg hlaðinn með steinum af ólíkri stærð. Ef hverjum steini er vandlega valinn staður getur veggurinn orðið beinn. Ég hef líka reynt að gera sjálfur breytingar til að stuðla að því að veggurinn sé beinn.“ Það er gott viðhorf.

Góður samstarfsmaður leynir ekki upplýsingum til þess eins að geta stjórnað öðrum.

Hvaða tækifæri höfum við til að vera samvinnuþýð í söfnuði okkar? Við getum gert það þegar við boðum trúna með starfshópnum okkar. Við vinnum kannski með boðberum sem hafa öðruvísi fjölskylduábyrgð en við eða eru á öðrum aldri. Við getum lagað hraðann og boðunaraðferðir að þörfum þeirra til að þeir geti fundið meiri gleði í boðuninni.

MEGINREGLA 3: ,VERUM FÚS TIL AÐ GEFA ÖÐRUM AF ÞVÍ SEM VIÐ EIGUM‘

Góður samstarfsmaður er fús til að ,gefa öðrum af því sem hann á‘. (1. Tím. 6:18) Þegar Jesús vann með föður sínum hlýtur hann að hafa tekið eftir að faðir hans leyndi ekki hug sínum og verkum. Þegar hann „þandi út himininn“ var Jesús þar og gat lært af honum. (Orðskv. 8:27) Jesús sagði síðar lærisveinum sínum fúslega frá því sem hann ,hafði heyrt hjá föður sínum‘. (Jóh. 15:15) Við getum líkt eftir Jehóva með því að leyfa samstarfsmönnum okkar að njóta góðs af þekkingu okkar og reynslu. Góður samstarfsmaður myndi ekki leyna nauðsynlegum eða gagnlegum upplýsingum til að geta stjórnað öðrum. Hann leyfir fúslega öðrum að hafa gagn af því sem hann hefur lært.

Við getum líka verið samstarfsmönnum okkar til uppörvunar. Yljar það okkur ekki um hjartarætur þegar einhver tekur eftir því sem við leggjum á okkur og tjáir okkur einlægt þakklæti? Jesús tók sér tíma til að segja samstarfsmönnum sínum frá því góða sem hann tók eftir í fari þeirra. (Samanber Matteus 25:19–23; Lúkas 10:17–20.) Hann sagði þeim jafnvel að þeir myndu „vinna enn meiri verk“ en hann. (Jóh. 14:12) Kvöldið áður en hann dó hrósaði hann trúföstum lærisveinum sínum og sagði: „Það eruð þið sem hafið staðið með mér í prófraunum mínum.“ (Lúk. 22:28) Við getum rétt ímyndað okkur hvernig það sem Jesús sagði hefur snert hjarta þeirra og hvatt þá til dáða. Samstarfsmenn okkar verða örugglega glaðari og áorka líklega meiru ef við tökum okkur tíma til að hrósa þeim.

ÞÚ GETUR VERIÐ GÓÐUR SAMSTARFSMAÐUR

„Góður samstarfsmaður þarf ekki að vera fullkominn,“ segir bróðir að nafni Kayode, „en hann stuðlar að gleði þeirra sem vinna með honum og léttir þeim vinnuna.“ Ert þú þannig samstarfsmaður? Hví ekki að spyrja suma af þeim sem þú vinnur með til að vita hvað þeim finnst um þig sem samstarfsmann? Ef þeir njóta þess að vinna með þér rétt eins og lærisveinar Jesú nutu þess að vinna með honum geturðu sagt það sama og Páll postuli: „Við erum ... samstarfsmenn og viljum stuðla að því að þið séuð glöð.“ – 2. Kor. 1:24.