Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 50

Hlustum á rödd góða hirðisins

Hlustum á rödd góða hirðisins

„Þeir munu heyra rödd mína.“ – JÓH. 10:16.

SÖNGUR 3 Von okkar, athvarf og öruggt traust

YFIRLIT *

1. Hver gæti verið ein ástæðan fyrir því að Jesús líkti fylgjendum sínum við sauði?

JESÚS líkti sambandi sínu við fylgjendur sína við sterk tengsl fjárhirðis og sauða hans. (Jóh. 10:14) Þessi samlíking á vel við. Sauðirnir þekkja fjárhirðinn sinn og hlusta á rödd hans. Ferðamaður sá þetta með eigin augum. Hann segir: „Okkur langaði að ná myndum af kindum og reyndum að fá þær til að koma nær. En þær komu ekki því að þær þekktu ekki raddir okkar. Þá kom lítill smalastrákur og þær eltu hann um leið og hann kallaði á þær.“

2, 3. (a) Hvernig sýna fylgjendur Jesú að þeir hlusta á rödd hans? (b) Hvað skoðum við í þessari grein og þeirri næstu?

2 Það sem þessi ferðamaður upplifði minnir á orð Jesú varðandi sauði hans – lærisveina hans. Hann sagði: „Þeir munu heyra rödd mína.“ (Jóh. 10:16) En Jesús er á himnum. Hvernig getum við hlustað á hann? Við hlustum á rödd húsbónda okkar með því að fara eftir því í lífi okkar sem hann kenndi. – Matt. 7:24, 25.

3 Í þessari grein og þeirri næstu skoðum við sumt af því sem Jesús kenndi. Við sjáum að Jesús kenndi okkur að gera sumt og hætta að gera annað. Fyrst skoðum við tvennt sem góði hirðirinn kenndi okkur að hætta að gera.

„HÆTTIÐ AÐ VERA ÁHYGGJUFULL“

4. Hvað getur valdið okkur áhyggjum samkvæmt Lúkasi 12:29?

4 Lestu Lúkas 12:29. Jesús hvatti fylgjendur sína til að ,hætta að vera áhyggjufullir‘ vegna efnislegra þarfa. Við vitum að leiðbeiningar Jesú eru alltaf viturlegar og réttar. Við viljum fylgja þeim en stundum getur það reynt mjög á okkur. Hvers vegna?

5. Hvers vegna eru sumir ef til vill áhyggjufullir vegna efnislegra þarfa?

 5 Sumir eru kannski áhyggjufullir vegna efnislegra þarfa – að hafa fæði, klæði og húsnæði. Þeir búa ef til vill í landi þar sem margir eru fátækir og erfitt er að fá vinnu. Það getur verið erfitt að sjá fyrir fjölskyldunni. Eða þá að fyrirvinna fjölskyldunnar hefur dáið og fjölskyldan á ekki nóg fyrir nauðsynjum. Og COVID-19 faraldurinn hefur valdið því að fólk hefur misst vinnuna. (Préd. 9:11) Hvernig getum við fylgt leiðbeiningum Jesú og hætt að vera áhyggjufull ef við eigum við þessa erfiðleika eða aðra að glíma?

Styrkjum traust okkar á Jehóva til að sökkva ekki í áhyggjur út af efnislegum hlutum. (Sjá 6.–8. grein.) *

6. Lýstu því sem henti Pétur postula eitt sinn.

6 Eitt sinn voru Pétur postuli og lærisveinarnir á bát í stormi á Galíleuvatni þegar þeir sáu Jesú koma gangandi á vatninu. Pétur sagði: „Drottinn, ef þetta ert þú segðu mér þá að koma til þín út á vatnið.“ Þegar Jesús hafði boðið honum að koma steig hann úr bátnum og „gekk á vatninu til hans“. En hvað gerðist? „Þegar hann horfði á veðurofsann varð hann hræddur. Hann fór að sökkva og hrópaði: ,Drottinn, bjargaðu mér!‘“ Jesús rétti út höndina og bjargaði honum. Pétur gat gengið á vatninu eins lengi og hann horfði á Jesú. En þegar hann horfði á storminn fylltist hann ótta og efa og fór að sökkva. – Matt. 14:24–31.

7. Hvað getum við lært af því sem henti Pétur?

7 Hvað getum við lært af því sem henti Pétur? Þegar Pétur steig úr bátnum út á vatnið bjóst hann ekki við að hafa áhyggjur af storminum. Hann vildi ganga á vatninu til Jesú. En honum mistókst að einbeita sér að takmarkinu. Við þurfum að hafa trú til að sigrast á vandamálum rétt eins og Pétur þurfti trú til að ganga á vatni. Ef við missum sjónar á Jehóva og loforðum hans draga áhyggjurnar okkur niður og trú okkar veikist. Hvaða stormar sem geysa í lífi okkar verðum við að horfa einbeitt á Jehóva og getu hans til að hjálpa okkur. Hvernig gerum við það?

8. Hvað getur hjálpað okkur að hafa ekki of miklar áhyggjur af efnislegum þörfum?

8 Í stað þess að hafa áhyggjur verðum við að treysta á Jehóva. Munum að kærleiksríkur faðir okkar, Jehóva, lofar að sjá fyrir efnislegum þörfum okkar ef við höfum tilbeiðsluna á honum í fyrsta sæti. (Matt. 6:32, 33) Hann hefur alltaf staðið við þetta loforð. (5. Mós. 8:4, 15, 16; Sálm. 37:25) Fyrst Jehóva sér um fuglana og blómin þurfum við sannarlega ekki að hafa áhyggjur af því hvað við eigum að borða eða hverju við eigum að klæðast. (Matt. 6:26–30; Fil. 4:6, 7) Rétt eins og kærleikur fær umhyggjusama foreldra til að annast efnislegar þarfir barna sinna fær kærleikur himneskan föður okkar til að sjá þjónum sínum fyrir efnislegum þörfum þeirra. Við getum verið viss um að Jehóva sér um okkur.

9. Hvað lærum við af því sem hjón ein upplifðu?

9 Skoðum reynslusögu sem sýnir hvernig Jehóva getur annast efnislegar þarfir okkar. Hjón sem þjóna í fullu starfi keyrðu í meira en klukkutíma á gamla bílnum sínum til að sækja nokkrar systur sem áttu heima í húsnæði fyrir flóttamenn og taka þær með á samkomu. Bróðirinn segir: „Eftir samkomuna buðum við systrunum í mat en áttuðum okkur á að við höfðum ekkert til bjóða þeim.“ Hvernig fór þetta? Bróðirinn heldur áfram: „Þegar við komum heim voru tveir stórir innkaupapokar með mat fyrir framan dyrnar. Við vissum ekki hver hafði sett þá þar. Jehóva annaðist okkur.“ Nokkru síðar bilaði bíllinn. Þau þurftu á honum að halda í boðuninni en áttu enga peninga til að láta gera við hann. Þau fóru með bílinn á verkstæði til að vita hvað viðgerðin myndi kosta. Þar birtist maður sem spurði hver ætti bílinn. Bróðirinn sagðist vera eigandinn og að gera þyrfti við bílinn. Maðurinn svaraði: „Það skiptir ekki máli. Konan mín vill fá bíl af þessari tegund og í þessum lit. Hvað viltu fá mikið fyrir hann?“ Á endanum hafði bróðirinn næga peninga til að kaupa annan bíl. Hann segir: „Við vorum ákaflega glöð í lok þessa dags. Við vissum að þetta var engin tilviljun. Þarna var hönd Jehóva að verki.“

10. Hvernig hvetur Sálmur 37:5 okkur til að hafa ekki áhyggjur af efnislegum þörfum okkar?

10 Þegar við hlustum á góða hirðinn og hættum að hafa óþarfar áhyggjur af efnislegum þörfum getum við verið viss um að Jehóva annist okkur. (Lestu Sálm 37:5; 1. Pét. 5:7) Hugsum um aðstæðurnar sem er lýst í  5. greininni. Hingað til hefur Jehóva kannski annast okkur með hjálp höfuðs fjölskyldunnar eða vinnuveitanda. En ef höfuð fjölskyldunnar getur það ekki lengur eða við missum vinnuna sér Jehóva um okkur á annan hátt, því getum við treyst. Skoðum nú annað sem góði hirðirinn hvetur okkur til að hætta að gera.

„HÆTTIÐ AÐ DÆMA“

Við getum hætt að dæma aðra ef við skyggnumst undir yfirborðið. (Sjá 11. og 14.–16. grein.) *

11. Hvað sagði Jesús okkur að hætta að gera samkvæmt Matteusi 7:1, 2 og hvers vegna getur það verið erfitt?

11 Lestu Matteus 7:1, 2. Jesús vissi að þeir sem hlustuðu á hann voru ófullkomnir og höfðu tilhneigingu til að vera gagnrýnir í garð annarra. Þess vegna sagði hann: „Hættið að dæma.“ Við leggjum okkur kannski fram um að dæma ekki trúsystkini okkar. En við erum ófullkomin. Hvað ættum við að gera ef við verðum vör við tilhneigingu hjá okkur til að gagnrýna aðra? Við ættum að hlusta á Jesú og leggja hart að okkur að hætta að dæma.

12, 13. Hvernig getur fordæmi Jehóva hjálpað okkur að hætta að dæma aðra?

12 Það getur verið gagnlegt að hugleiða fordæmi Jehóva. Hann einbeitir sér að því góða í fólki. Við sjáum það af samskiptum hans við Davíð konung sem gerði alvarleg mistök. Hann hélt til dæmis fram hjá með Batsebu og lét jafnvel drepa eiginmann hennar. (2. Sam. 11:2–4, 14, 15, 24) Það hafði ekki aðeins slæm áhrif á hann heldur líka fjölskyldu hans, þar á meðal hinar eiginkonur hans. (2. Sam. 12:10, 11) Við annað tækifæri sýndi hann Jehóva ekki fullt traust þegar hann fyrirskipaði ólögmæta talningu hermannanna. Hann hefur hugsanlega verið knúinn af stolti og sett traust sitt á stærð hersins. Hverjar voru afleiðingarnar? Sjötíu þúsund manns dóu úr drepsótt. – 2. Sam. 24:2–4, 10–15.

13 Hvernig hefðirðu litið á Davíð ef þú hefðir verið uppi á þeim tíma? Hefðirðu dæmt hann óverðugan þess að fá fyrirgefningu Jehóva? Jehóva leit ekki svo á. Hann beindi athygli að trúfastri þjónustu Davíðs og einlægri iðrun hans. Fyrir vikið fyrirgaf hann Davíð þessar alvarlegu syndir. Jehóva vissi að Davíð elskaði sig og vildi gera það sem var rétt. Ertu ekki þakklátur að Guð okkar skuli leita að hinu góða í fari okkar? – 1. Kon. 9:4; 1. Kron. 29:10, 17.

14. Hvað hefur hjálpað þjónum Jehóva að hætta að dæma aðra?

14 Fyrst Jehóva væntir þess ekki að við séum fullkomin ættum við ekki heldur að vænta þess af öðrum. Við ættum öllu heldur að einbeita okkur að því góða í fari þeirra. Það er venjulega tiltölulega auðvelt að finna galla hjá öðrum og vera gagnrýninn. En andlegur maður getur átt góð samskipti við aðra þótt hann taki eftir göllum þeirra. Óslípaður demantur er kannski ekki fallegur að sjá en athugull maður sér meira en hrjúft yfirborðið og skilur að hann getur orðið mjög fallegur og verðmætur eftir slípun. Við þurfum að sjá meira en það sem blasir við og taka eftir góðum eiginleikum annarra, rétt eins og Jehóva og Jesús gera.

15. Hvernig getur það að hugleiða aðstæður annarra auðveldað okkur að dæma þá ekki?

15 Hvað fleira en að einbeita okkur að góðum eiginleikum annarra getur hjálpað okkur að vera ekki dómhörð í garð þeirra? Reyndu að ímynda þér hvernig líf þeirra er. Einu sinni sá Jesús fátæka ekkju setja tvo smápeninga í söfnunarbauk. Hann spurði ekki: „Hvers vegna gaf hún ekki meira?“ Nei, í stað þess að einblína á upphæðina hugsaði hann um hvatir hennar og aðstæður, og hrósaði henni fyrir að gera allt sem hún gat. – Lúk. 21:1–4.

16. Hvað getum við lært af reynslu Veronicu?

16 Reynsla Veronicu sýnir vel gildi þess að hugleiða aðstæður annarra. Í söfnuðinum hennar voru einstæð móðir og sonur hennar. Veronica viðurkennir: „Mér virtist þau ekki taka mikinn þátt í safnaðarlífinu. Fyrir vikið var ég neikvæð í garð þeirra. En þá fór ég í boðunina með móðurinni. Hún sagði mér frá erfiðleikunum sem fylgdu einhverfu sonar hennar. Hún gerði sitt besta til að sjá fyrir efnislegum þörfum þeirra og hlúa að sambandi þeirra við Jehóva. Vegna heilsu sonar hennar var nauðsynlegt fyrir þau að sækja stundum samkomur í öðrum söfnuði.“ Veronica bætir við: „Ég gerði mér enga grein fyrir að líf þeirra væri svona erfitt. Nú met ég systurina mikils og virði hana fyrir að leggja svo hart að sér til að þjóna Jehóva.“

17. Hvað segir í Jakobsbréfinu 2:8 að við eigum að gera, og hvernig getum við gert það?

17 Hvað ættum við að gera ef við áttum okkur á að við höfum dæmt trúsystkini? Við verðum að muna að við eigum að elska trúsystkini okkar. (Lestu Jakobsbréfið 2:8) Við ættum líka að biðja innilega til Jehóva um að hjálpa okkur að hætta að dæma. Við getum breytt í samræmi við bænir okkar með því að verja tíma með þeim sem við höfum dæmt hart. Þá kynnumst við honum betur. Við gætum spurt hann um að koma með okkur í boðunina eða boðið honum í mat. Eftir því sem við kynnumst honum betur getum við reynt að líkja eftir Jehóva og Jesú og tekið eftir því góða í fari hans. Við sýnum þannig að við hlýðum góða hirðinum sem býður okkur að hætta að dæma.

18. Hvernig getum við sýnt að við hlustum á rödd góða hirðisins?

18 Rétt eins og sauðir heyra rödd hirðisins heyra fylgjendur Jesú rödd hans. Jehóva og Jesús blessa viðleitni okkar ef við leggjum okkur fram um að hætta að hafa áhyggjur af efnislegum þörfum okkar og dæma aðra. Megum við halda áfram að hlusta á rödd góða hirðisins og hlýða honum, hvort sem við erum af ,öðrum sauðum‘ eða tilheyrum ,litlu hjörðinni‘. (Lúk. 12:32; Jóh. 10:11, 14, 16) Í næstu grein skoðum við tvennt sem Jesús sagði fylgjendum sínum að gera.

SÖNGUR 101 Störfum saman í einingu

^ gr. 5 Þegar Jesús sagði að sauðir hans myndu heyra rödd hans átti hann við að lærisveinar hans myndu hlusta á það sem hann kenndi þeim og fara eftir því. Í þessari grein skoðum við tvennt merkilegt sem Jesús kenndi: að hætta að hafa áhyggjur af efnislegum hlutum og hætta að dæma aðra. Við ræðum hvernig við getum fylgt þessum leiðbeiningum.

^ gr. 51 MYND: Bróðir hefur misst vinnuna og hann vantar húsnæði fyrir fjölskylduna og peninga til að sjá henni farborða. Hann gæti auðveldlega orðið svo áhyggjufullur að hann setti ekki þjónustuna við Jehóva lengur í fyrsta sæti.

^ gr. 53 MYND: Bróðir kemur of seint á samkomu. En hann sýnir góða eiginleika þegar hann talar við aðra um trúna við óformlegar aðstæður, býður eldri konu hjálp og tekur þátt í umhirðu ríkisalarins.