Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 51

Höldum áfram að ,hlusta á hann‘

Höldum áfram að ,hlusta á hann‘

„Þetta er sonur minn sem ég elska og hef velþóknun á. Hlustið á hann.“ – MATT. 17:5.

SÖNGUR 54 „Þetta er vegurinn“

YFIRLIT *

1, 2. (a) Hvað var þrem postulum Jesú sagt að gera og hvernig brugðust þeir við? (b) Hvað skoðum við í þessari grein?

EFTIR páska árið 32 urðu postularnir Pétur, Jakob og Jóhannes vitni að undraverðri sýn. Uppi á háu fjalli, hugsanlega hluta af Hermonfjalli, ummyndaðist Jesús fyrir augum þeirra. „Andlit hans geislaði sem sólin og föt hans urðu skínandi eins og ljósið.“ (Matt. 17:1–4) Undir lok sýnarinnar heyrðu postularnir Guð segja: „Þetta er sonur minn sem ég elska og hef velþóknun á. Hlustið á hann.“ (Matt. 17:5) Postularnir þrír sýndu með lífsstefnu sinni að þeir hlustuðu á Jesú. Við viljum líkja eftir fordæmi þeirra.

2 Í greininni á undan lærðum við að það að hlusta á rödd Jesú þýðir að hætta að gera sumt. Í þessari grein skoðum við tvennt sem Jesús sagði að við ættum að gera.

„GANGIÐ INN UM ÞRÖNGA HLIÐIГ

3. Hvað ættum við að gera samkvæmt Matteusi 7:13, 14?

3 Lestu Matteus 7:13, 14. Tökum eftir að Jesús nefndi tvö mismunandi hlið sem liggja að tveim mismunandi vegum – breiðum vegi og mjóum vegi. Það eru ekki fleiri vegir. Við verðum sjálf að velja hvorn veginn við förum. Þetta er mikilvægasta ákvörðunin sem við munum nokkru sinni taka – það er bara annar vegurinn sem liggur til eilífs lífs.

4. Hvernig myndirðu lýsa breiða veginum?

4 Við megum ekki gleyma muninum á þessum tveim vegum. Breiði vegurinn er vinsæll vegna þess að það er auðvelt að fara eftir honum. Því miður velja margir að vera á breiða veginum og fylgja fjöldanum. Þeir átta sig ekki á því að það er Satan Djöfullinn sem hvetur fólk til að vera á þessum vegi, blindgötu sem endar með tortímingu. – 1. Kor. 6:9, 10; 1. Jóh. 5:19.

5. Hvað hafa sumir lagt á sig til að finna mjóa veginn og byrja að fara eftir honum?

5 Ólíkt breiða veginum er hinn vegurinn mjór og Jesús sagði að fáir myndu finna hann. Hvers vegna? Það er athyglisvert að Jesús skuli í næsta versi vara fylgjendur sína við falsspámönnum. (Matt. 7:15) Talið er að trúfélög í heiminum skipti þúsundum og flest þeirra segjast kenna sannleikann. Milljónir manna finna fyrir vonleysi og ráðaleysi og reyna því ekki einu sinni að finna veginn sem leiðir til lífsins. En það er hægt að finna hann. Jesús sagði: „Ef þið fylgið orðum mínum staðfastlega eruð þið sannir lærisveinar mínir og þið munuð þekkja sannleikann og sannleikurinn veitir ykkur frelsi.“ (Jóh. 8:31, 32) Það er hrósvert að þú skulir ekki hafa fylgt fjöldanum heldur leitað að sannleikanum. Þú byrjaðir að rannsaka orð Guðs vandlega til að vita hvers Guð krefst af okkur og þú hlustaðir á það sem Jesús kennir. Þú lærðir meðal annars að Jehóva væntir þess að við höfnum falstrúarkenningum og hættum að halda hátíðir sem hafa heiðinn uppruna eða fela í sér heiðna siði. Þú komst líka að því að það getur tekið á að gera það sem Jehóva krefst og losa sig við það sem hann fordæmir. (Matt. 10:34–36) Það var kannski ekki auðvelt fyrir þig að gera þessar breytingar. En þú hélst þínu striki vegna þess að þú elskar himneskan föður þinn og vilt gleðja hann. Hann hlýtur að vera ánægður með þig. – Orðskv. 27:11.

HVERNIG HÖLDUM VIÐ OKKUR Á MJÓA VEGINUM?

Mælikvarði Guðs og leiðbeiningar hjálpa okkur að halda okkur á mjóa veginum. (Sjá 6.–8. grein.) *

6. Hvað getur hjálpað okkur að halda okkur á mjóa veginum samkvæmt Sálmi 119:9, 10, 45, 133?

6 Hvað getur hjálpað okkur að halda okkur á mjóa veginum þegar við höfum hafið ferð okkar? Tökum dæmi. Vegrið á mjóum fjallvegi er ökumönnum og bílum þeirra til verndar. Vegriðið er hannað til að tryggja öryggi ökumanna – hjálpa þeim að fara ekki of nálægt brúninni eða út af veginum. Fáir ökumenn myndu kvarta yfir því að slíkt vegrið væri heftandi. Mælikvarði Jehóva í Biblíunni er eins og þetta vegrið. Mælikvarði hans hjálpar okkur að halda okkur á mjóa veginum. – Lestu Sálm 119:9, 10, 45, 133.

7. Hvernig ætti unga fólkið að líta á mjóa veginn?

7 Finnst ykkur unga fólkinu mælikvarði Jehóva stundum vera of strangur? Þannig vill Satan að þið hugsið. Hann vill að þið einbeitið ykkur að því sem fólk á breiða veginum gerir, hversu vel það virðist skemmta sér. Hann notar kannski það sem jafnaldrar þínir í skólanum eru að gera eða það sem þú sérð á netinu til að láta þér finnast þú vera að missa af því sem er svo skemmtilegt. Satan vill að þú haldir að mælikvarði Jehóva hamli þér að njóta lífsins. * En ekki gleyma einu: Satan vill ekki að þeir sem fara eftir hans vegi sjái hvert vegurinn liggur. Jehóva hefur hins vegar dregið upp skýra mynd af því sem bíður þeirra sem halda sig á veginum til lífsins. – Sálm. 37:29; Jes. 35:5, 6; 65:21–23.

8. Hvað geta unglingar lært af Olaf?

8 Skoðum hvað við getum lært af reynslu bróður sem heitir Olaf. * Bekkjarfélagar hans reyndu að þrýsta á hann að taka þátt í kynferðislegu siðleysi. Þegar hann útskýrði fyrir þeim að vottar Jehóva lifi eftir háum siðferðismælikvarða Biblíunnar tóku sumar stelpur í bekknum því sem áskorun og reyndu að fá hann til að sofa hjá sér. En Olaf var ákveðinn í að gera það sem er rétt. Hann var líka beittur annars konar þrýstingi. Olaf segir: „Kennararnir mínir reyndu að telja mig á að fara í framhaldsnám til að verða mikils metinn. Þeir sögðu mér að annars myndi mér ekki farnast vel í lífinu.“ Hvað hjálpaði Olaf að standast slíkan þrýsting? Hann segir: „Ég ræktaði vináttu við bræður og systur í söfnuðinum. Þau urðu fjölskyldan mín. Ég fór líka að rannsaka Biblíuna betur. Því meira sem ég rannsakaði hana því vissari var ég um að þetta væri sannleikurinn. Þetta varð til þess að ég var ákveðinn í að þjóna Jehóva.“

9. Hvað þurfa þeir að gera sem vilja halda sig á mjóa veginum?

9 Satan vill fá þig til að fara af veginum sem liggur til lífsins. Hann vill að þú gangir í lið með meirihluta mannkynsins á breiða veginum „sem liggur til tortímingar“. (Matt. 7:13) En ef við höldum áfram að hlusta á Jesú og lítum á mjóa veginn sem vernd höldum við okkur á honum. Skoðum annað sem Jesús sagði að við ættum að gera.

„SÆSTU VIÐ BRÓÐUR ÞINN“

10. Hvað sagði Jesús að við ættum að gera samkvæmt Matteusi 5:23, 24?

10 Lestu Matteus 5:23, 24. Jesús lýsti stund sem var mjög mikilvæg í hugum Gyðinga sem hlustuðu á hann. Ímyndum okkur einhvern í musterinu vera að fara að afhenda presti dýr til fórnar. Ef hann myndi á því augnabliki eftir að bróðir hans hefði eitthvað á móti honum átti hann að skilja fórnina eftir og fara. Hvers vegna? Hvað gæti verið mikilvægara en að færa Jehóva fórn? Jesús sagði skýrt: „Farðu fyrst og sæstu við bróður þinn.“

Munt þú líkja eftir fordæmi Jakobs sem samdi auðmjúkur frið við bróður sinn? (Sjá 11. og 12. grein.) *

11. Hvað gerði Jakob til að sættast við Esaú?

11 Við getum dregið mikilvægan lærdóm af atviki í lífi ættföðurins Jakobs varðandi það að sættast. Eftir að Jakob hafði verið fjarri heimalandi sínu í meira en 20 ár sagði Guð honum, fyrir atbeina engils, að snúa þangað aftur. (1. Mós. 31:11, 13, 38) En honum var vandi á höndum. Eldri bróðir hans, Esaú, hafði viljað drepa hann. (1. Mós. 27:41) Jakob var „óttasleginn og fullur kvíða“ yfir því að bróðir hans væri enn þá reiður út í hann. (1. Mós. 32:7) Hvað gerði Jakob til að sættast við bróður sinn? Fyrst bað hann innilega til Jehóva um málið. Því næst sendi hann Esaú rausnarlega gjöf. (1. Mós. 32:9–15) Þegar bræðurnir, sem höfðu ekki haft gott samband, hittust að lokum augliti til auglitis tók Jakob frumkvæðið og sýndi Esaú virðingu. Hann beygði sig fyrir Esaú, ekki einu sinni eða tvisvar heldur sjö sinnum. Með því að sýna auðmýkt og virðingu gat Jakob sæst við bróður sinn. – 1. Mós. 33:3, 4.

12. Hvað getum við lært af Jakobi?

12 Við getum dregið dýrmætan lærdóm af því hvernig Jakob bjó sig undir að hitta Esaú bróður sinn og hvernig hann nálgaðist hann. Jakob bað Jehóva auðmjúklega um hjálp. Síðan fylgdi hann bæninni eftir með því að undirbúa endurfundina með bróður sínum til að þeir yrðu eins ánægjulegir og mögulegt væri. Þegar bræðurnir hittust deildi Jakob ekki við Esaú um hvor þeirra hefði rétt fyrir sér. Markmið Jakobs var að sættast við bróður sinn. Hvernig getum við líkt eftir Jakobi?

HVERNIG GETUM VIÐ SÆST VIÐ AÐRA?

13, 14. Hvað ættum við að gera ef við höfum sært trúsystkini okkar?

13 Við sem erum á veginum sem liggur til lífsins viljum stuðla að friðsömum samskiptum við trúsystkini okkar. (Rómv. 12:18) Hvað ættum við að gera ef við áttum okkur á því að við höfum sært eitthvert þeirra? Við ættum eins og Jakob að snúa okkur til Jehóva í innilegri bæn. Við getum beðið hann að blessa viðleitni okkar til að sættast við trúsystkini okkar.

14 Við ættum líka að taka okkur tíma til að rannsaka okkur sjálf. Við getum spurt okkur eftirfarandi spurninga: „Er ég fús til að kyngja stoltinu, biðja auðmjúkur afsökunar og sættast? Hvað mun Jehóva og Jesú finnast um það ef ég tek frumkvæðið og sættist við bróður minn eða systur?“ Svarið við spurningunni getur hjálpað okkur að hlusta á Jesú og nálgast trúsystkini okkar af auðmýkt til að sættast. Þannig fylgjum við fordæmi Jakobs.

15. Hvernig getur það hjálpað okkur að sættast við trúsystkini okkar að fara eftir meginreglunni í Efesusbréfinu 4:2, 3?

15 Hugsaðu þér hvernig þetta hefði farið ef Jakob hefði rifist við Esaú um það hvor þeirra hefði rétt fyrir sér og hvor hefði rangt fyrir sér. Þá hefði þetta farið á allt annan veg. Þegar við förum til trúsystkinis til að jafna ágreining verðum við að sýna auðmýkt. (Lestu Efesusbréfið 4:2, 3.) Í Orðskviðunum 18:19 segir: „Hlunnfarinn bróðir er sem rammbyggt virki, deilur sem slagbrandar fyrir hallardyrum.“ Að biðjast afsökunar af auðmýkt getur opnað dyr.

16. Hvað fleira ættum við að hafa í huga og hvers vegna?

16 Við þurfum líka að hugleiða vandlega hvað við ætlum að segja við trúsystkini okkar og hvernig við ætlum að segja það. Þegar við erum tilbúin ættum við að fara til þess sem er særður með það að markmiði að koma á góðu sambandi við hann aftur. Hann gæti sagt eitthvað sem er óþægilegt að heyra. Þá væri auðvelt að reiðast eða réttlæta okkur sjálf en myndi það hafa gott í för með sér? Örugglega ekki. Gleymdu ekki að það að sættast við bróður þinn eða systur er mikilvægara en að skera úr um hvor hefur rétt fyrir sér og hvor hefur rangt fyrir sér. – 1. Kor. 6:7.

17. Hvað getum við lært af Gilbert?

17 Bróðir að nafni Gilbert lagði hart að sér til að eiga friðsamleg samskipti við aðra. Hann segir: „Ég átti mjög erfið samskipti við náinn ættingja. Í meira en tvö ár reyndi ég að tala við hann rólega og af hreinskilni til að endurheimta gott samband.“ Hvað fleira gerði Gilbert? „Áður en ég talaði við ættingjann bað ég til Jehóva og bjó mig undir óvinalegar athugasemdir. Ég þurfti að vera tilbúinn að fyrirgefa. Ég lærði að berjast ekki fyrir rétti mínum. Og ég skildi að mér bar skylda til að stuðla að friði.“ Hver var árangurinn? Gilbert segir: „Ég hef innri frið því að ég hef gott samband við alla í fjölskyldunni.“

18, 19. Hvað ættum við að vera staðráðin í að gera ef við höfum sært einhvern og hvers vegna?

18 Hvað ættirðu þá að vera ákveðinn í að gera ef þú uppgötvar að þú hefur sært trúsystkini? Fylgdu leiðbeiningum Jesú um að sættast. Talaðu við Jehóva í bæn um málið og treystu á heilagan anda hans til að hjálpa þér að stuðla að friði. Ef þú gerir það verðurðu hamingjusamari og sýnir að þú ert að hlusta á Jesú. – Matt. 5:9.

19 Við megum vera þakklát að Jehóva skuli veita okkur kærleiksríka leiðsögn fyrir milligöngu „höfuðs safnaðarins“, Jesú Krists. (Ef. 5:23) Verum staðráðin í að ,hlusta á hann‘ rétt eins og postularnir Pétur, Jakob og Jóhannes. (Matt. 17:5) Við höfum skoðað hvernig við getum gert það með því að sættast við trúsystkini sem við höfum sært. Með því að gera það höldum við okkur á mjóa veginum sem liggur til lífsins og við hljótum margvíslega blessun núna og eilífa hamingju í framtíðinni.

SÖNGUR 130 Fyrirgefum fúslega

^ gr. 5 Jesús hvetur okkur til að ganga inn um þrönga hliðið sem liggur til lífsins. Hann kennir okkur líka að semja frið við bræður okkar og systur. Hvaða erfiðleikum gætum við staðið frammi fyrir þegar við reynum að fara eftir þessum leiðbeiningum og hvernig getum við sigrast á þeim?

^ gr. 7 Sjá bókina Spurningar unga fólksins – svör sem duga, 2. bindi. Þar er kafli sem ber heitið: „Hvernig get ég staðist hópþrýsting?“ Sjá líka töfluteikninguna Þú getur staðist hópþrýsting á www.pr418.com. (Farðu inn á BIBLÍAN OG LÍFIÐ > UNGLINGAR.)

^ gr. 8 Sumum nöfnum hefur verið breytt.

^ gr. 56 MYND: Með því að halda okkur á mjóa veginum með vegriði sem Guð sér okkur fyrir vörumst við hættur eins og klám, siðlausan félagsskap og þrýsting til að setja framhaldsmenntun í fyrsta sæti í lífinu.

^ gr. 58 MYND: Jakob beygði sig aftur og aftur fyrir Esaú bróður sínum til að halda friðinn.