Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 6

Treystir þú því að Jehóva geri alltaf rétt?

Treystir þú því að Jehóva geri alltaf rétt?

„Hann er bjargið, verk hans fullkomin og allir hans vegir réttlátir. Hann er trúfastur Guð og svikalaus, réttlátur og hreinlyndur.“ – 5. MÓS. 32:4.

SÖNGUR 3 Von okkar, athvarf og öruggt traust

YFIRLIT *

1, 2. (a) Hvers vegna finnst mörgum erfitt að treysta fólki í valdastöðu? (b) Hvað skoðum við í þessari grein?

 MÖRGUM finnst erfitt að treysta fólki í valdastöðu. Þeir hafa tekið eftir því að ríkisstjórnir og löggjafar hafa tilhneigingu til að hygla þeim ríku og valdamiklu og neita hinum fátæku um réttlæti. Biblían hittir naglann á höfuðið þegar hún segir: „Einn maður drottnar yfir öðrum honum til ógæfu.“ (Préd. 8:9) Þar að auki gera sumir trúarleiðtogar sig seka um ranga hegðun, en það hefur orðið til þess að sumt fólk treystir Guði ekki lengur. Þegar við aðstoðum einhvern við biblíunám þurfum við þess vegna að kenna honum að treysta Jehóva og fulltrúum hans á jörðinni.

2 Biblíunemendur eru auðvitað ekki þeir einu sem þurfa að læra að treysta Jehóva og söfnuði hans. Þótt við höfum þjónað Jehóva í mörg ár megum við aldrei gleyma að allt sem Jehóva gerir, gerir hann á bestan hátt. Stundum koma upp aðstæður sem geta reynt á traust okkar. Í þessari grein skoðum við hvernig gæti reynt á traust okkar á þrem sviðum: (1) þegar við lesum ákveðnar frásögur í Biblíunni, (2) þegar við fáum leiðbeiningar frá söfnuði Jehóva og (3) þegar við mætum erfiðleikum í framtíðinni.

TREYSTUM JEHÓVA ÞEGAR VIÐ LESUM Í BIBLÍUNNI

3. Hvernig gætu sumar biblíufrásögur reynt á traust okkar á Jehóva?

 3 Þegar við lesum í orði Guðs veltum við því kannski fyrir okkur hvers vegna Jehóva kom fram við fólk á ákveðinn hátt og hvers vegna hann tók sumar ákvarðanir. Í 4. Mósebók lesum við til dæmis um að Jehóva dæmdi Ísraelsmann til dauða fyrir að safna viði á hvíldardegi. Í 2. Samúelsbók kemur fram að öldum síðar fyrirgaf Jehóva Davíð konungi hjúskaparbrot og morð. (4. Mós. 15:32, 35; 2. Sam. 12:9, 13) Við gætum velt því fyrir okkur hvers vegna Jehóva fyrirgaf Davíð morð og hjúskaparbrot en dæmdi Ísraelsmanninn til dauða fyrir brot sem virðist ekki eins alvarlegt. Til að skilja það betur skulum við skoða þrennt sem er gott að hafa í huga þegar við lesum Biblíuna.

4. Hvernig hjálpar það sem kemur fram í 1. Mósebók 18:20, 21 og 5. Mósebók 10:17 okkur að treysta ákvörðunum Jehóva?

4 Frásögur Biblíunnar sýna ekki alltaf allar hliðar málsins. Við vitum til dæmis að Davíð iðraðist einlæglega gerða sinna. (Sálm. 51:4–6) En hvaða mann hafði Ísraelsmaðurinn sem braut hvíldardagslögin að geyma? Iðraðist hann þess sem hann hafði gert? Hafði hann óhlýðnast lögum Jehóva áður? Hafði hann hunsað eða jafnvel hafnað viðvörunum? Biblían segir ekkert um það. En eitt getum við verið viss um: Jehóva er „aldrei ranglátur“. (5. Mós. 32:4, NW) Hann byggir ákvarðanir sínar á öllum staðreyndum, ekki á fordómum, sögusögnum eða nokkru sem truflar gjarnan dómgreind manna. (Lestu 1. Mósebók 18:20, 21; 5. Mósebók 10:17.) Því meira sem við lærum um Jehóva og mælikvarða hans þeim mun betur treystum við ákvörðunum hans. Þótt frásaga í Biblíunni veki spurningar sem við getum ekki fengið svör við, vitum við nóg um Guð okkar til að vera viss um að hann er „réttlátur á öllum vegum sínum“. – Sálm. 145:17.

5. Hvaða áhrif hefur ófullkomleikinn á réttlætiskennd okkar? (Sjá einnig rammann „ Ófullkomleikinn brenglar réttlætiskennd okkar“.)

5 Dómgreind okkar litast af ófullkomleika. Guð skapaði okkur í sinni mynd. Við þráum þar af leiðandi að fólk fái réttláta meðferð. (1. Mós. 1:26) En vegna ófullkomleika okkar hættir okkur til að leggja rangt mat á málin, jafnvel þegar við höldum að við þekkjum allar staðreyndir. Tökum sem dæmi hversu óánægður Jónas var með ákvörðun Jehóva að sýna íbúum Níníve miskunn. (Jónas 3:10–4:1) En hver var útkoman? Lífi meira en 120.000 iðrunarfullra Nínívebúa var þyrmt. Þegar upp var staðið var það Jónas sem þurfti á leiðréttingu að halda en ekki Jehóva.

6. Hvers vegna þarf Jehóva ekki að útskýra ákvarðanir sínar fyrir okkur?

6 Jehóva skuldar ekki mönnum að gera grein fyrir ákvörðunum sínum. Jehóva leyfði vissulega þjónum sínum til forna að tjá áhyggjur sínar varðandi ákvarðanir sem hann hafði tekið eða eitthvað sem hann ætlaði sér að gera. (1. Mós. 18:25; Jónas 4:2, 3) Og stundum útskýrði Jehóva ákvörðun sína. (Jónas 4:10, 11) En honum ber engin skylda til að gera grein fyrir ákvörðunum sínum. Hann er skapari okkar og þarf ekki samþykki okkar, hvorki áður né eftir að hann hrindir ákvörðunum sínum í framkvæmd. – Jes. 40:13, 14; 55:9.

TREYSTUM JEHÓVA ÞEGAR VIÐ FÁUM LEIÐBEININGAR

7. Hvað gæti reynst okkur erfitt og hvers vegna?

7 Við viðurkennum örugglega af öllu hjarta að Jehóva gerir alltaf það sem er rétt. Það sem getur reynst okkur erfiðara er að treysta fulltrúum hans á jörðinni. Við gætum velt fyrir okkur hvort þeir sem fara með visst vald í söfnuði Jehóva fari eftir leiðbeiningum hans eða eigin höfði. Sumir hafa kannski hugsað þannig á biblíutímanum. Hugleiðum dæmin í  3. grein. Ættingi mannsins sem braut hvíldardagslögin gæti hafa velt því fyrir sér hvort Móse leitaði leiðsagnar Jehóva áður en dauðadómur var kveðinn upp. Og vinur Úría Hetíta, eiginmanns konunnar sem Davíð framdi hjúskaparbrot með, hefur kannski ályktað að Davíð hafi notað stöðu sína sem konungur til að komast hjá dauðarefsingu. Sannleikurinn er sá að við getum ekki sagt að við treystum Jehóva ef við treystum ekki fulltrúum hans á jörðinni, þeim sem hann treystir.

8. Hvað er líkt með því sem segir í Postulasögunni 16:4, 5 og því hvernig kristni söfnuðurinn virkar nú á dögum?

8 Jehóva leiðir jarðneskan hluta safnaðar síns fyrir milligöngu ,trúa og skynsama þjónsins‘. (Matt. 24:45) Rétt eins og stjórnandi ráð á fyrstu öld hefur þessi þjónn umsjón með fólki Guðs um heim allan og gefur safnaðaröldungum leiðbeiningar. (Lestu Postulasöguna 16:4, 5.) Og öldungarnir sjá til þess að farið sé eftir leiðbeiningunum í söfnuðunum. Við sýnum að við treystum að aðferðir Jehóva séu réttar með því að fara eftir leiðbeiningum sem við fáum í söfnuðinum og frá öldungunum.

9. Hvenær gæti okkur þótt erfitt að styðja ákvarðanir öldunganna og hvers vegna?

9 Stundum gæti okkur þótt erfitt að styðja ákvarðanir öldunganna. Á undanförnum árum hafa til dæmis margir söfnuðir og farandsvæði þarfnast endurskipulagningar. Í sumum tilfellum hafa öldungarnir beðið boðbera að flytja í aðra söfnuði til að nýta sætafjölda í ríkissölum sem best. Ef við erum beðin að fara í annan söfnuð gæti okkur þótt erfitt að yfirgefa vini okkar og ættingja. Fá öldungarnir leiðbeiningar frá Guði um í hvaða söfnuði eigi að senda boðberana? Nei. Það gæti gert okkur erfiðara fyrir að fylgja þeim leiðbeiningum sem við fáum. En Jehóva treystir öldungunum til að taka slíkar ákvarðanir og við verðum að treysta þeim líka. *

10. Hvers vegna ættum við að vera samstarfsfús við öldungana, samanber Hebreabréfið 13:17?

10 Hvers vegna ættum við að vera samstarfsfús við öldungana og styðja ákvarðanir þeirra jafnvel þótt þær séu ekki í samræmi við það sem við hefðum kosið? Við stuðlum að einingu meðal fólks Guðs þegar við gerum það. (Ef. 4:2, 3) Söfnuðurinn blómstrar þegar allir beygja sig auðmjúkir undir ákvarðanir öldungaráðsins. (Lestu Hebreabréfið 13:17.) En það sem skiptir meira máli er að við sýnum Jehóva að við treystum honum með því að vera samstarfsfús við þá sem hann treystir til að hafa umsjón með okkur. – Post. 20:28.

11. Hvað getur aukið traust okkar á leiðbeiningunum sem við fáum frá öldungunum?

11 Við treystum leiðbeiningum öldunganna betur ef við gleymum ekki að þeir biðja um heilagan anda þegar þeir ræða mál sem snerta söfnuðinn. Þeir skoða líka vandlega meginreglur Biblíunnar sem eiga við og leiðbeiningar frá söfnuði Jehóva. Það er hjartans löngun þeirra að þóknast Jehóva og annast fólk hans sem allra best. Þessir trúföstu menn vita að þeir eru ábyrgir gagnvart Guði fyrir því hvernig þeir axla ábyrgð sína. (1. Pét. 5:2, 3) Hugleiðum þetta: Í heimi sem er sundraður af völdum mismunandi kynþátta, trúarbragða og stjórnmála er fólk Guðs sameinað í tilbeiðslunni á hinum eina sanna Guði. Þetta er aðeins hægt vegna þess að Jehóva blessar söfnuð sinn.

12. Hvað þurfa öldungarnir að skoða vandlega þegar þeir meta hvort einhver hafi í raun iðrast?

12 Jehóva hefur falið öldungunum þá miklu ábyrgð að halda söfnuðinum hreinum. Ef þjónn Jehóva syndgar alvarlega ætlast Jehóva til þess af öldungunum að þeir meti hvort hann geti verið áfram í söfnuðinum. Þeir þurfa meðal annars að komast að því hvort hann iðrist einlæglega. Hann segist kannski iðrast en hatar hann það ranga sem hann gerðist sekur um? Er hann staðráðinn í að endurtaka ekki syndina? Ef vondur félagsskapur leiddi til þess að hann syndgaði, er hann þá tilbúinn að segja skilið við hann? Öldungarnir biðja til Jehóva og ræða staðreyndir málsins í ljósi Biblíunnar og meta viðhorf hins brotlega til þess sem hann gerði. Síðan taka þeir ákvörðun um hvort sá sem syndgaði geti verið áfram í söfnuðinum. Í sumum tilfellum verður að víkja honum úr söfnuðinum. – 1. Kor. 5:11–13.

13. Hvað gæti valdið okkur áhyggjum ef vini eða ættingja hefur verið vikið úr söfnuðinum?

13 Hvernig gæti reynt á traust okkar til öldunganna? Segjum að einhverjum sé vikið úr söfnuðinum. Ef hann er ekki náinn vinur okkar eða ættingi eigum við kannski auðvelt með að sætta okkur við ákvörðun öldunganna. En segjum að hann sé náinn vinur okkar. Þá óttumst við kannski að öldungarnir hafi ekki hugleitt allar staðreyndir málsins eða efumst um að þeir hafi dæmt í málinu eins og Jehóva hefði gert. Hvað getur hjálpað okkur að hafa rétt viðhorf til ákvörðunar þeirra?

14. Hvað getur hjálpað okkur að sjá ákvarðanir öldunganna í réttu ljósi þegar þær snerta vin okkar eða ættingja?

14 Gleymum ekki að það er ráðstöfun Jehóva að víkja iðrunarlausum syndara úr söfnuðinum. Það verndar söfnuðinn og getur hjálpað syndaranum. Ef honum væri leyft að vera áfram í söfnuðinum gæti hann haft spillandi áhrif á hann. (Gal. 5:9) Þar að auki myndi hann síður átta sig á alvarleika syndar sinnar og fengi ekki þá hvatningu sem hann þyrfti til að breyta hugsun sinni og verkum og endurheimta velþóknun Jehóva. (Préd. 8:11) Við getum verið viss um að öldungarnir taka ábyrgð sína alvarlega þegar ákveðið er að víkja einhverjum úr söfnuðinum. Þeir skilja eins og dómararnir í Ísrael til forna að þeir dæma ekki „í umboði manna heldur í umboði Drottins.“ – 2. Kron. 19:6, 7.

VIÐ ÞURFUM AÐ TREYSTA JEHÓVA NÚNA TIL AÐ TREYSTA HONUM Í FRAMTÍÐINNI

Hvað mun hjálpa okkur að treysta og hlýða leiðbeiningum sem við fáum í þrengingunni miklu? (Sjá 15. grein.)

15. Hvers vegna verðum við að treysta leiðbeiningum Jehóva núna sem aldrei fyrr?

15 Eftir því sem endir þessa heimskerfis nálgast þurfum við að treysta leiðbeiningum Jehóva sem aldrei fyrr. Hvers vegna? Í þrengingunni miklu eigum við kannski eftir að fá leiðbeiningar sem virðast furðulegar, óhentugar eða órökréttar. Jehóva mun auðvitað ekki tala við okkur persónulega. Hann mun líklega sjá okkur fyrir leiðsögn fyrir milligöngu útnefndra fulltrúa sinna. Þá er tæplega tíminn til að véfengja leiðbeiningarnar eða vera tortrygginn og velta vöngum yfir hvort þær komi frá Jehóva eða bræðrunum í ábyrgðarstöðum sjálfum. Hvernig mun þér farnast á þessari örlagastundu í mannkynssögunni? Svarið við þeirri spurningu gæti falist í því hvernig þú lítur á leiðbeiningar fulltrúa Guðs núna. Ef þú treystir leiðbeiningunum sem við fáum núna og ert fús að fylgja þeim muntu trúlega líka gera það í þrengingunni miklu. – Lúk. 16:10.

16. Hvernig gæti reynt á traust okkar á að Jehóva dæmi rétt í náinni framtíð?

16 Við ættum líka að hugsa vandlega um það hvernig við munum bregðast við dómi Guðs við endalok þessa illa heimskerfis. Við vonum að margir sem þjóna ekki Jehóva, þar á meðal ættingjar okkar sem eru ekki vottar, ákveði að gera það áður en endirinn kemur. En í Harmagedón tekur Jesús, útnefndur dómari Jehóva, lokaákvörðun um framtíð þeirra. (Matt. 25:31–33; 2. Þess. 1:7–9) Það er ekki okkar að ákveða hver hlýtur miskunn Jehóva og hver ekki. (Matt. 25:34, 41, 46) Munum við treysta því að Jehóva dæmi rétt? Eða eyðileggjum við sambandið við hann vegna þess að við erum honum ósammála? Við þurfum augljóslega að styrkja traust okkar á Jehóva núna þannig að við treystum honum algerlega í framtíðinni.

17. Hvernig munum við hafa gagn af dómi Jehóva við endalok þessa heimskerfis?

17 Ímyndum okkur hvernig okkur mun líða í nýjum heimi Guðs þegar við sjáum árangurinn af dómi Jehóva. Fölsk trúarbrögð verða ekki lengur til og ekki heldur gráðug viðskiptakerfi og stjórnmálakerfi sem hafa kúgað fólk og valdið ómældum þjáningum. Heilsuvandamál, öldrun og ástvinamissir íþyngja okkur ekki lengur. Satan og illir andar geta ekki haft áhrif á mannkynið í þúsund ár. Afleiðingar uppreisnar þeirra verða ekki lengur til staðar. (Opinb. 20:2, 3) Við verðum mjög þakklát fyrir að hafa treyst leiðbeiningum Jehóva.

18. Hvað getum við lært af frásögunni af Ísraelsmönnum í 4. Mósebók 11:4–6 og 21:5?

18 Gæti lífið í nýjum heimi Jehóva haft erfiðleika í för með sér sem reyna á traust okkar á leiðbeiningum hans? Skoðum hvað gerðist stuttu eftir að Ísraelsmenn voru frelsaðir úr þrælkun í Egyptalandi. Sumir tóku að kvarta vegna þess að þeir söknuðu ferska matarins sem þeir höfðu haft þar. Þeir fyrirlitu manna, matinn sem Jehóva gaf þeim. (Lestu 4. Mósebók 11:4–6; 21:5.) Gætum við hugsað þannig við lok þrengingarinnar miklu? Við vitum ekki hversu mikil vinna það verður að hreinsa jörðina og gera hana smám saman að paradís. Það mun líklega kosta mikla vinnu og hafa einhver óþægindi í för með sér til að byrja með. Munum við kvarta yfir því sem Jehóva sér okkur fyrir þá? Við getum verið viss um að því betur sem við kunnum að meta ráðstafanir Jehóva núna þeim mun líklegra er að við gerum það þá.

19. Hvernig myndirðu draga saman meginatriði þessarar námsgreinar?

19 Jehóva gerir allt á bestan hátt. Við þurfum að vera alveg fullviss um það. Við þurfum líka að treysta þeim sem Jehóva treystir til að framfylgja leiðbeiningum sínum. Gleymum því ekki sem Jehóva sagði fyrir munn spámannsins Jesaja: „Í þolinmæði og trausti skal styrkur yðar vera.“ – Jes. 30:15.

SÖNGUR 98 Ritningin er innblásin

^ gr. 5 Í þessari grein sjáum við hvers vegna það er mikilvægt að við styrkjum traust okkar á Jehóva og fulltrúum hans á jörðinni. Við skoðum líka hvernig það er okkur til góðs að gera það núna og hvernig það býr okkur undir að takast á við erfiðleika í framtíðinni.

^ gr. 9 Stundum gætu aðstæður kallað á að boðberi eða fjölskylda flytji ekki í annan söfnuð. Sjá „Spurningakassann“ í Ríkisþjónustu okkar nóvember 2002.