Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 7

Hlustum á orð hinna vitru

Hlustum á orð hinna vitru

„Hneig eyra þitt og hlusta á orð hinna vitru.“ – ORÐSKV. 22:17.

SÖNGUR 123 Verum hlýðin skipan Guðs

YFIRLIT *

1. Við hvaða aðstæður gætum við fengið leiðbeiningar og hvers vegna þurfum við öll á þeim að halda?

 ÖLL þurfum við stundum á leiðbeiningum að halda. Í sumum tilfellum spyrjum við kannski einhvern sem við berum virðingu fyrir um ráð. Í öðrum tilfellum gæti áhyggjufullur bróðir komið til okkar og bent á að við séum við það að fara út af sporinu og gera eitthvað sem við munum sjá eftir. (Gal. 6:1) Við gætum líka fengið leiðbeiningar í formi leiðréttingar eftir að hafa gert alvarleg mistök. Við ættum að hlusta á leiðbeiningar hverjar sem aðstæðurnar eru. Það er okkur til góðs og gæti bjargað lífi okkar. – Orðskv. 6:23.

2. Hvers vegna ættum við að hlusta á ráð samkvæmt Orðskviðunum 12:15?

2 Í lykilversi greinarinnar erum við hvött til að „hlusta á orð hinna vitru“. (Orðskv. 22:17) Enginn maður veit allt. Það er alltaf einhver sem býr yfir meiri þekkingu eða reynslu en við. (Lestu Orðskviðina 12:15.) Það er merki um auðmýkt að þiggja ráð. Það sýnir að við virðum takmörk okkar og skiljum að við þurfum á hjálp að halda til að ná markmiðum okkar. Hinn vitri konungur Salómon skrifaði undir innblæstri: „Ef margir leggja á ráðin rætast [áformin].“ – Orðskv. 15:22.

Hvort af þessu tvennu finnst þér erfiðara að taka til þín? (Sjá 3. og 4. grein.)

3. Með hvaða hætti gætum við fengið leiðbeiningar?

3 Leiðbeiningar sem við fáum geta verið beinar eða óbeinar. Hvað eru óbeinar leiðbeiningar? Við lesum kannski eitthvað í Biblíunni eða ritum safnaðarins sem fær okkur til að staldra við og hugleiða á hvaða leið við erum og leiðrétta stefnu okkar. (Hebr. 4:12) Það má kalla þetta óbeinar leiðbeiningar. En hvað eru beinar leiðbeiningar? Öldungur eða annað þroskað trúsystkini gæti bent okkur á eitthvað sem við þurfum að lagfæra. Það má kalla það beinar leiðbeiningar. Ef einhverjum þykir nógu vænt um okkur til að gefa okkur leiðbeiningar byggðar á Biblíunni ættum við að sýna að við kunnum að meta það með því að hlusta á það sem hann hefur að segja og taka það til okkar.

4. Hvaða viðbrögð ættum við að forðast þegar við fáum leiðbeiningar samkvæmt Prédikaranum 7:9?

4 Við gætum átt sérstaklega erfitt með að taka við beinum leiðbeiningum. Við gætum jafnvel átt það til að móðgast. Hvers vegna? Þótt við viðurkennum fúslega að við séum ófullkomin gæti okkur þótt erfitt að taka við leiðbeiningum þegar okkur er bent á mistök sem við höfum gert. (Lestu Prédikarann 7:9.) Við reynum kannski að réttlæta okkur. Og við gætum dregið hvatir þess sem gaf leiðbeiningarnar í efa eða móðgast yfir því hvernig hann gerði það. Við gætum jafnvel gagnrýnt hann og sagt: „Hvaða rétt hefur hann til að gefa mér leiðbeiningar? Hann er sjálfur með galla.“ Og ef okkur líkar ekki það sem okkur er ráðlagt gætum við hunsað það eða spurt einhvern annan um ráð í þeirri von að hann segi það sem við viljum heyra.

5. Hvað skoðum við í þessari grein?

5 Í þessari grein skoðum við dæmi um biblíupersónur sem höfnuðu leiðbeiningum og aðrar sem tóku við leiðbeiningum. Við skoðum líka hvað hjálpar okkur að þiggja leiðbeiningar og hafa gagn af þeim.

ÞEIR HÖFNUÐU LEIÐBEININGUM

6. Hvað getum við lært af því hvernig Rehabeam konungur brást við leiðbeiningunum sem hann fékk?

6 Tökum Rehabeam sem dæmi. Þegar hann varð konungur í Ísrael komu þegnar hans til hans og báru fram bón. Þeir báðu hann að létta af sér byrðunum sem Salómon faðir hans hafði lagt á þá. Það var skynsamlegt af Rehabeam að ráðfæra sig við eldri menn í Ísrael til að sjá hverju hann ætti að svara. Gömlu mennirnir sögðu honum að ef hann gerði eins og fólkið bað hann um myndi það alltaf styðja hann. (1. Kon. 12:3–7) Rehabeam var greinilega ekki ánægður með þetta ráð og leitaði því til mannanna sem höfðu alist upp með honum. Þeir voru líklega í kringum fertugt og höfðu því nokkra lífsreynslu. (2. Kron. 12:13) En við þetta tækifæri gáfu þeir Rehabeam vond ráð. Þeir ráðlögðu honum að þyngja byrðarnar á fólkinu. (1. Kon. 12:8–11) Rehabeam fékk tvö mismunandi ráð. Hann hefði getað beðið til Jehóva um hjálp til að vita hvoru þeirra hann átti að fara eftir. En hann ákvað að fara eftir því ráði sem höfðaði betur til hans og hlustaði á ungu mennina. Þetta hafði hræðilegar afleiðingar í för með sér fyrir Rehabeam og þjóðina. Ráðin sem við fáum eru kannski ekki alltaf þau sem við viljum heyra en ef þau eru byggð á orði Guðs ættum við að fylgja þeim.

7. Hvað getum við lært af dæminu um Ússía konung?

7 Ússía konungur hafnaði leiðbeiningum. Hann fór inn í þann hluta musteris Jehóva sem aðeins prestarnir höfðu aðgang að og reyndi að bera fram reykelsisfórn. Prestar Jehóva sögðu við hann: „Þér er ekki ætlað, Ússía, að brenna reykelsi fyrir Drottni heldur prestunum.“ Hvernig brást Ússía við? Ef hann hefði sýnt auðmýkt og tekið við leiðbeiningunum og yfirgefið musterið samstundis hefði Jehóva kannski fyrirgefið honum. En ,Ússía reiddist‘. Hvers vegna hafnaði hann leiðbeiningunum? Honum fannst greinilega að sem konungur hefði hann rétt til að gera hvað sem honum þóknaðist. En Jehóva leit ekki þannig á málin. Vegna hroka síns var Ússía sleginn holdsveiki og var veikur „allt til dauðadags“. (2. Kron. 26:16–21) Frásagan af Ússía kennir okkur að sama hver við erum missum við velþóknun Jehóva ef við höfnum leiðbeiningum byggðum á Biblíunni.

ÞEIR TÓKU VIÐ LEIÐBEININGUM

8. Hvernig brást Job við leiðbeiningum?

8 Biblían nefnir ekki aðeins víti til varnaðar eins og fyrrnefnd dæmi. Hún gefur okkur líka dæmi um þá sem hlutu blessun vegna þess að þeir tóku við leiðbeiningum. Hugleiðum fordæmi Jobs. Hann elskaði Guð og vildi þóknast honum en hann var ekki fullkominn. Undir miklu álagi lét hann í ljós röng viðhorf. Hann fékk því hreinskilnislegar leiðbeiningar bæði frá Elíhú og Jehóva. Hvernig brást Job við? Hann tók auðmjúkur við leiðbeiningunum. Hann sagði: ,Ég hef talað af skilningsleysi … ég tek orð mín aftur og iðrast í dufti og ösku.‘ Jehóva blessaði Job vegna þess að hann sýndi auðmýkt. – Job. 42:3–6, 12–17.

9. Hvernig var Móse gott fordæmi í að þiggja leiðbeiningar?

9 Móse er gott dæmi um mann sem tók leiðréttingu eftir að hafa gert alvarleg mistök. Við eitt tækifæri missti hann stjórn á skapi sínu og gaf Jehóva ekki heiðurinn. Þess vegna gekk tækifærið til að komast inn í fyrirheitna landið honum úr greipum. (4. Mós. 20:1–13) Þegar Móse bað Jehóva að endurskoða ákvörðun sína sagði Jehóva við hann: „Nefndu þetta aldrei framar við mig.“ (5. Mós. 3:23–27) Móse varð ekki bitur. Hann sætti sig við ákvörðun Jehóva og Jehóva notaði hann áfram sem leiðtoga Ísraelsþjóðarinnar. (5. Mós. 4:1) Við ættum að líkja eftir góðu fordæmi Jobs og Móse og þiggja leiðbeiningar. Job leiðrétti viðhorf sitt. Hann afsakaði sig ekki. Móse sýndi að hann fylgdi leiðbeiningum Jehóva með því að halda trúfastur áfram að þjóna honum eftir að hafa misst verkefni sem var honum dýrmætt.

10. (a) Hvaða gagn höfum við af því að taka til okkar leiðbeiningar samkvæmt Orðskviðunum 4:10–13? (b) Hvaða góða viðhorf hafa sumir sýnt þegar þeir hafa fengið leiðbeiningar?

10 Það er gagnlegt fyrir okkur að líkja eftir trúföstum mönnum eins og Job og Móse. (Lestu Orðskviðina 4:10–13.) Mörg trúsystkini okkar hafa gert það. Tökum eftir hvað bróðir sem heitir Emmanuel og býr í Kongó segir um viðvörun sem hann fékk: „Þroskaðir bræður í söfnuðinum mínum sáu að ég var við það að bíða andlegt skipbrot og komu mér til bjargar. Ég fór eftir ráðum þeirra og það forðaði mér frá mörgum vandamálum.“ * Brautryðjandasystir í Kanada sem heitir Megan segir um leiðbeiningar: „Þær hafa ekki alltaf verið það sem mig langar til að heyra en þær hafa verið það sem ég þarf að heyra.“ Og bróðir frá Króatíu, Marko að nafni, segir: „Ég missti verkefni en þegar ég lít til baka átta ég mig á því að leiðbeiningarnar sem ég fékk hjálpuðu mér að styrkja sambandið við Jehóva aftur.“

11. Hvað sagði bróðir Karl Klein um það að taka við leiðbeiningum?

11 Annað dæmi um mann sem hafði gagn af því að taka til sín leiðbeiningar er bróðir Karl Klein sem var á sínum tíma í stjórnandi ráði. Í ævisögu sinni segir hann frá því þegar hann fékk alvarlega áminningu frá Joseph F. Rutherford sem var góður vinur hans. Bróðir Karl Klein viðurkennir að hafa ekki brugðist vel við í fyrstu. Hann segir: „Næst þegar bróðir Rutherford sá mig sagði hann glaðlega: ,Sæll Karl.‘ En ég var enn þá sár og muldraði kveðju til baka. Þá sagði hann: ,Karl, passaðu þig. Djöfullinn er á eftir þér.‘ Ég skammaðist mín og sagði: ,Allt í góðu, bróðir Rutherford.‘ En hann vissi betur og endurtók viðvörunina. ,Ég skil. Passaðu þig bara, Djöfullinn er á eftir þér.‘ Hann hafði rétt fyrir sér. Þegar við ölum með okkur gremju í garð bróður, sérstaklega ef hann segir eitthvað sem hann hefur rétt á að segja … gerum við okkur berskjölduð fyrir snörum Djöfulsins.“ * (Ef. 4:25–27) Bróðir Klein tók leiðbeiningar bróður Rutherfords til sín og þeir voru góðir vinir áfram.

HVAÐ GETUR HJÁLPAÐ OKKUR AÐ TAKA VIÐ LEIÐBEININGUM?

12. Hvernig getur auðmýkt hjálpað okkur að þiggja leiðbeiningar? (Sálmur 141:5)

12 Hvað getur hjálpað okkur að taka við leiðbeiningum? Við þurfum að vera auðmjúk og muna hversu ófullkomin við erum og hversu óskynsamlega við högum okkur stundum. Job hafði rangt viðhorf eins og áður hefur verið minnst á. En síðar leiðrétti hann hugarfar sitt og Jehóva blessaði hann fyrir það. Job var auðmjúkur. Hann sýndi það með því að taka við leiðbeiningunum sem Elíhú gaf honum, jafnvel þótt Elíhú væri langtum yngri en hann. (Job. 32:6, 7) Auðmýkt hjálpar okkur líka að fara eftir leiðbeiningum, jafnvel þótt okkur finnist þær ekki eiga við okkur eða sá sem gefur þær sé yngri en við. Öldungur í Kanada segir: „Við sjáum okkur ekki eins og aðrir sjá okkur. Hvernig getum við þá tekið framförum ef enginn leiðbeinir okkur?“ Við þurfum öll að halda áfram að rækta ávöxt andans og taka framförum í að boða fagnaðarboðskapinn. – Lestu Sálm 141:5.

13. Hvernig ættum við að líta á leiðbeiningar sem við fáum?

13 Lítum á leiðbeiningar sem merki um kærleika Guðs. Jehóva vill okkur það besta. (Orðskv. 4:20–22) Þegar hann gefur okkur leiðbeiningar með hjálp orðs síns, biblíurita eða þroskaðs trúsystkinis er hann að sýna okkur kærleika. „Hann gerir það okkur til góðs,“ segir í Hebreabréfinu 12:9, 10.

14. Að hverju ættum við að einbeita okkur þegar við fáum leiðbeiningar?

14 Beinum athyglinni að boðskapnum en ekki framsetningunni. Stundum gæti okkur fundist leiðbeiningarnar sem við fáum ekki gefnar á bestan hátt. Auðvitað ættu allir sem gefa öðrum leiðbeiningar að gera þeim eins auðvelt fyrir og hægt er að þiggja þær. * (Gal. 6:1) En ef við fáum leiðbeiningar ættum við að einbeita okkur að boðskapnum þótt okkur finnist þeim ekki komið til skila á bestan hátt. Við gætum spurt okkur: „Er einhver sannleikur í því sem var sagt, þótt ég kunni ekki að meta hvernig leiðbeiningarnar voru gefnar? Get ég litið fram hjá ófullkomleika þess sem gaf leiðbeiningarnar og einbeitt mér að boðskapnum?“ Það væri viturlegt af okkur að leitast við að hafa gagn af öllum leiðbeiningum sem við fáum. – Orðskv. 15:31.

BIÐJUM UM RÁÐ OKKUR TIL GAGNS

15. Hvers vegna ættum við að leita ráða?

15 Í Biblíunni erum við hvött til að leita ráða. Í Orðskviðunum 13:10 segir: „Hjá ráðþægnum mönnum er viska.“ Það er hverju orði sannara. Þeir sem leita ráða frekar en að bíða eftir að aðrir gefi þeim ráð taka gjarnan betri ákvarðanir en þeir sem leita ekki ráða. Taktu því frumkvæðið og biddu um ráð.

Hvers vegna spyr systir þroskaða systur um ráð? (Sjá 16. grein.)

16. Við hvaða aðstæður gætum við leitað ráða?

16 Hvernær gætum við leitað ráða hjá trúsystkinum okkar? Skoðum nokkrar aðstæður. (1) Systir biður reyndan boðbera að koma með sér í biblíunámskeið og biður seinna um ráð til að verða betri kennari. (2) Einhleyp systir ætlar að kaupa sér buxur og biður aðra þroskaða systur að segja skoðun sína hreinskilnislega á því sem hún er að skoða. (3) Bróðir fær það verkefni að flytja fyrsta opinbera fyrirlesturinn sinn. Hann biður reyndan ræðumann að hlusta vandlega á ræðuna sína og gefa sér leiðbeiningar um það hvernig hann geti tekið framförum. Jafnvel bróðir sem hefur flutt ræður í mörg ár gerir vel að fá álit frá reyndum ræðumanni og fylgja síðan leiðbeiningunum sem hann fær.

17. Hvernig getum við haft gagn af leiðbeiningum?

17 Á komandi vikum og mánuðum fáum við öll leiðbeiningar, beinar eða óbeinar. Munum eftir því sem við höfum rætt. Verum auðmjúk. Einbeitum okkur að boðskapnum en ekki framsetningunni. Og förum eftir leiðbeiningunum sem við fáum. Enginn fæðist vitur. En þegar við ,hlýðum ráðum og tökum umvöndun‘ er okkur lofað í orði Guðs að við verðum vitur. – Orðskv. 19:20.

SÖNGUR 124 Sýnum tryggð

^ gr. 5 Þjónar Jehóva gera sér grein fyrir mikilvægi þess að hlusta á leiðbeiningar byggðar á Biblíunni. En það er ekki alltaf auðvelt að taka við leiðbeiningum og fara eftir þeim. Hvers vegna? Og hvað getur hjálpað okkur að hafa gagn af leiðbeiningunum sem við fáum?

^ gr. 10 Sumum nöfnum hefur verið breytt.

^ gr. 14 Í næstu grein skoðum við hvernig þeir sem gefa leiðbeiningar geta gert það á nærgætinn hátt.