Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

ÆVISAGA

Ég fann nokkuð sem er betra en að vera læknir

Ég fann nokkuð sem er betra en að vera læknir

„ÞAÐ sem þið eruð að segja er það sem mig hefur dreymt um frá æsku.“ Ég sagði þetta upptendraður við tvo sjúklinga árið 1971. Ég var nýbúinn að opna fyrstu læknastofuna mína sem læknir. Hverjir voru þessir sjúklingar og hvað var það sem mig hafði dreymt um? Það sem þau sögðu mér þennan dag breytti forgangsröðun minni í lífinu og gaf mér ástæðu til að trúa því að æskudraumur minn myndi rætast.

Ég fæddist árið 1941 í París í Frakklandi. Fjölskyldan mín hafði ekki mikið milli handanna. Mér fannst gaman að læra þannig að þið getið rétt ímyndað ykkur vonbrigði mín þegar ég veiktist af berklum tíu ára og varð að hætta í skóla. Læknarnir mæltu með því að ég lægi fyrir til að draga úr álagi á lungunum. Í marga mánuði eyddi ég tímanum í að lesa uppsláttarrit og hlusta á fræðsluþætti í útvarpinu sem Parísarháskólinn hafði umsjón með. Ég varð himinlifandi þegar læknirinn minn sagði mér að ég hefði náð bata og gæti farið aftur í skólann. „Það sem læknar gera er frábært,“ hugsaði ég með mér. Upp frá því dreymdi mig um að lækna fólk af veikindum þess. Þegar pabbi spurði mig hvað ég vildi verða þegar ég væri orðinn stór var svarið alltaf það sama: „Ég vil verða læknir.“ Það varð það mikilvægasta í lífi mínu.

VÍSINDIN FÆRA MIG NÆR GUÐI

Fjölskyldan mín var kaþólsk að nafninu til. En hugmyndin um Guð var óljós í huga mínum og ég hafði margar spurningar en engin svör. Það var fyrst eftir að ég fór í læknanám í háskólanum að ég sannfærðist um að lífið væri skapað.

Ég man þegar ég sá túlípanafrumur í smásjá í fyrsta skipti. Ég hreifst af því hvernig þær verja sig gegn hita og kulda. Ég sá líka hvernig umfrymið (sá hluti frumu sem er milli kjarna og frumuhimnu) herpist saman í snertingu við salt og stækkar þegar það kemst í hreint vatn. Þessi hæfileiki og margir aðrir gera smáum lífverum kleift að laga sig að breytilegum aðstæðum. Þegar ég sá hvað hver fruma er ákaflega margbrotin sannfærðist ég um að lífið væri engin tilviljun.

Á öðru ári í læknanámi fékk ég fleiri sannanir fyrir tilvist Guðs. Í líffærafræðitímum rannsökuðum við hvernig hönnun framhandleggsins gerir manni kleift að beygja fingurna og rétta úr þeim. Innbyrðis staðsetning vöðva, liðbanda og sina er verkfræðiafrek. Ég lærði til dæmis að sininni sem tengir einn af vöðvum framhandleggsins við annað bein fingurs er skipt í tvennt og myndar brú. Sinar sem liggja að fingurgómi fara undir þessa brú og haldast þannig á sínum stað. Sinunum er líka haldið nálægt beinum fingranna með sterkum líkamsvef. Án þessarar samsetningar og samspils yrðu sinarnar stífar og beinar. Ég sá greinilega að á bak við hönnun líkamans væri mikil greind.

Aðdáun mín á hönnuði lífsins jókst þegar ég rannsakaði fæðingarferlið. Fóstur í móðurkviði fær súrefni frá móður sinni í gegnum naflastrenginn og því hafa lungnablöðrurnar – lítil holrúm í lungunum – ekki enn fyllst lofti. Þegar styttist í fæðinguna leggst efni sem kallast lungnablöðruseyti innan á lungnablöðrurnar. Eftir fæðinguna gerir margþætt ferli nýburanum kleift að anda í fyrsta skipti. Gat á hjarta barnsins lokast og blóðið streymir til lungnanna. Á þessum mikilvæga tímapunkti kemur lungnablöðruseytið í veg fyrir að lungnablöðrurnar límist saman meðan þær fyllast skjótt lofti. Nú getur barnið andað sjálft.

Ég vildi kynnast þeim sem skapaði þessi undur og byrjaði því einbeittur að lesa í Biblíunni. Ég hreifst af lögum um hreinlæti sem Guð gaf Ísraelsmönnum fyrir meira en 3.000 árum. Guð gaf Ísraelsmönnum fyrirmæli um að grafa hægðir, þvo sér reglulega í vatni og setja í sóttkví þá sem sýndu einkenni smitsjúkdóma. (3. Mós. 13:50; 15:11; 5. Mós. 23:13) Biblían endurspeglar þekkingu á því hvernig sjúkdómar dreifast en þá þekkingu hafa vísindamenn haft aðeins síðustu 150 ár. Ég áttaði mig líka á að lögin í 3. Mósebók um hreinlæti í tengslum við kynlíf hafa stuðlað að góðri lýðheilsu. (3. Mós. 12:1–6; 15:16–24) Ég komst að þeirri niðurstöðu að Guð hefði gefið Ísraelsmönnum þessi lög þeim til farsældar og að hann blessaði þá sem hlýddu lögum hans. Ég sannfærðist um að Biblían væri innblásin af Guði. En ég þekkti hann ekki enn með nafni.

ÉG KYNNIST KONUNNI MINNI OG FINN JEHÓVA

Við Lydie á brúðkaupsdegi okkar 3. apríl 1965.

Meðan ég stundaði læknanám í háskólanum kynntist ég ungri konu sem heitir Lydie og varð ástfanginn af henni. Við giftumst árið 1965 þegar ég var hálfnaður með námið. Árið 1971 höfðum við Lydie þegar eignast þrjú af börnunum okkar sex. Lydie hefur verið mér frábær stuðningur, bæði í starfi mínu sem læknir og í fjölskyldunni.

Ég starfaði á spítala í þrjú ár áður en ég opnaði læknastofu. Stuttu seinna komu hjón, sjúklingarnir tveir sem minnst var á í upphafi frásögunnar, til að leita sér læknismeðferðar. Ég var að skrifa út lyfseðil fyrir eiginmanninn þegar konan hans sagði að ekkert blóð mætti vera í lyfinu. Ég spurði hissa: „Virkilega? Hvers vegna?“ Hún svaraði: „Við erum vottar Jehóva.“ Ég hafði hvorki heyrt um votta Jehóva né viðhorf þeirra til blóðs. Konan tók fram biblíu og sýndi mér í henni hvers vegna þau vildu ekki þiggja blóð. (Post. 15:28, 29) Síðan sýndu þau mér hverju Guðsríki myndi áorka – binda enda á þjáningar, sjúkdóma og dauða. (Opinb. 21:3, 4) „Það sem þið eruð að segja er það sem mig hefur dreymt um frá æsku,“ sagði ég af ákafa. „Ég varð læknir til að lina þjáningar fólks.“ Ég varð svo hrifinn að við ræddum saman í einn og hálfan tíma. Þegar hjónin fóru var ég ekki lengur kaþólikki í hjarta mér og ég hafði lært að skaparinn sem ég dáðist svo að ætti sér nafn – Jehóva.

Ég hitti vottahjónin þrisvar á læknastofunni og við ræddum saman í meira en klukkustund. Ég bauð þeim síðan heim svo að við hefðum meiri tíma til að tala saman. Lydie samþykkti að vera með í biblíunáminu en ekki að sumar kaþólskar kenningar sem við höfðum lært væru rangar. Ég bauð þess vegna presti heim til okkar. Við rökræddum kenningar kirkjunnar langt fram á nótt og notuðum aðeins Biblíuna. Umræðurnar sannfærðu Lydie um að Vottar Jehóva kenndu sannleikann. Kærleikur okkar til Jehóva Guðs hélt áfram að vaxa og við létum skírast árið 1974.

VIÐ SETJUM JEHÓVA Í FYRSTA SÆTI

Það sem ég lærði um fyrirætlun Guðs með mannkynið hafði mikil áhrif á það hvað mér fannst skipta mestu máli í lífinu. Líf okkar Lydie fór að snúast um að þjóna Jehóva. Við vorum staðráðin í að ala börnin upp í samræmi við meginreglur Biblíunnar. Við kenndum þeim að elska Guð og náungann og það styrkti einingu fjölskyldunnar. – Matt. 22:37–39.

Þegar við Lydie lítum um öxl brosum við oft að því hvernig börn okkar brugðust við samstöðu okkar. Þau vissu að það sem Jesús sagði um að láta „,já‘ þitt merkja já og ,nei‘ þitt nei“ var reglan á heimilinu. (Matt. 5:37) Þegar elsta dóttir okkar var 17 ára leyfði Lydie henni við eitt tækifæri ekki að fara með hópi unglinga. Einn úr hópnum sagði við dóttur okkar: „Talaðu við pabba þinn ef mamma þín segir nei.“ En dóttir okkar svaraði: „Það myndi ekki breyta neinu. Þau eru alltaf sammála.“ Börnin okkar sáu að við vorum sammála um að fara eftir meginreglum Biblíunnar. Við erum þakklát Jehóva að margir í stórfjölskyldu okkar skuli þjóna honum.

Þótt sannleikurinn breytti forgangsröðun minni í lífinu langaði mig að nota það sem ég hafði lært sem læknir í þágu þjóna Guðs. Ég bauðst þess vegna til að starfa sem læknir á Betel í París og seinna nýja Betelheimilinu í Louviers. Ég hef farið til starfa á Betel í næstum 50 ár. Ég hef eignast vini meðal betelfjölskyldunnar sem eru mér mjög kærir. Sumir þeirra eru nú á tíræðisaldri. Einn daginn hitti ég nýjan Betelíta. Ég komst að því að ég hafði tekið á móti honum þegar hann fæddist um 20 árum áður.

ÉG HEF SÉÐ AÐ JEHÓVA BER MIKLA UMHYGGJU FYRIR ÞJÓNUM SÍNUM

Kærleikur minn til Jehóva hefur vaxið eftir því sem ég hef séð hvernig hann leiðbeinir fólki sínu og verndar fyrir milligöngu safnaðarins. Snemma á níunda áratugnum kom stjórnandi ráð á fyrirkomulagi í Bandaríkjunum til að stuðla að betri samskiptum milli votta Jehóva og heilbrigðisstarfsmanna.

Árið 1988 setti stjórnandi ráð á laggirnar upplýsingaþjónustu um spítalamál. Þessi nýja deild á Betel hafði til að byrja með umsjón með spítalasamskiptanefndum í Bandaríkjunum sem aðstoðuðu sjúklinga í söfnuði votta Jehóva við að verða sér úti um viðeigandi læknismeðferð. Spítalasamskiptanefndir voru síðan myndaðar um heim allan, líka í Frakklandi. Mér finnst stórkostlegt að sjá hvernig söfnuður Jehóva styður af kærleika veik trúsystkini þegar þau þurfa á því að halda.

DRAUMURINN RÆTIST

Við njótum þess enn að boða fagnaðarboðskapinn um Guðsríki.

Læknisfræðin var í fyrsta sæti hjá mér. En þegar ég hugleiddi málið sá ég að mikilvægasta lækningin er af andlegum toga, hún felst í því að hjálpa fólki að sættast við uppsprettu lífsins, Jehóva Guð. Eftir að ég komst á eftirlaun höfum við Lydie notað marga klukkutíma á mánuði sem brautryðjendur til að boða fagnaðarboðskapinn um Guðsríki. Við tökum enn eins mikinn þátt í þessu björgunarstarfi og við getum.

Við Lydie árið 2021.

Ég held áfram að gera það sem ég get til að hjálpa veiku fólki. En ég geri mér grein fyrir að jafnvel færustu læknar geta ekki læknað alla sjúkdóma eða komið í veg fyrir dauðann. Ég lít þess vegna fram til þess tíma þegar þjáningar, sjúkdómar og dauði verða ekki til framar. Í nýja heiminum, sem er skammt undan, hef ég alla eilífðina til að kynnast sköpunarverki Guðs, þar á meðal stórkostlegri hönnun mannslíkamans. Æskudraumur minn rætist fljótlega að fullu. Ég er sannfærður um að besta lífið sé fram undan.