Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 10

Þú getur afklæðst „hinum gamla manni“

Þú getur afklæðst „hinum gamla manni“

„Afklæðist hinum gamla manni með verkum hans.“ – KÓL. 3:9.

SÖNGUR 29 Lifum á verðugan hátt

YFIRLIT *

1. Hvernig var líf þitt áður en þú fórst að rannsaka Biblíuna?

 HVERNIG var líf þitt áður en þú fórst að rannsaka Biblíuna með vottum Jehóva? Mörg okkar vilja helst bara gleyma því. Persónuleiki okkar og viðhorf mótuðust líklega af gildum þessa heims, mælikvarða hans á réttu og röngu. Ef svo er ,áttum við enga von og vorum án Guðs í heiminum‘. (Ef. 2:12) Það breyttist hins vegar þegar þú kynntist Biblíunni.

2. Hvað uppgötvaðir þú þegar þú fórst að kynna þér Biblíuna?

2 Þegar þú fórst að kynna þér Biblíuna uppgötvaðir þú að þú átt himneskan föður sem elskar þig innilega. Þú áttaðir þig á því að ef þú vildir þóknast Jehóva og vera í fjölskyldu tilbiðjenda hans yrðir þú að gera umtalsverðar breytingar á lífi þínu, viðhorfum og hugsun. Þú þurftir að læra að lifa eftir háum mælikvarða hans. – Ef. 5:3–5.

3. Hvað vill Jehóva að við gerum samkvæmt Kólossubréfinu 3:9, 10 og hvað ræðum við í þessari grein?

3 Jehóva er skapari og himneskur faðir okkar og hefur rétt til að ákveða hvernig allir í fjölskyldu hans eigi að hegða sér. Og hann ætlast til þess að við leggjum hart að okkur til að ,afklæðast hinum gamla manni með verkum hans‘ áður en við látum skírast. * (Lestu Kólossubréfið 3:9, 10.) Þessi grein hjálpar þeim sem vilja láta skírast að svara þrem spurningum: (1) Hvað er „hinn gamli maður“? (2) Hvers vegna vill Jehóva að við afklæðumst honum? (3) Hvernig förum við að því? Þessi námsgrein getur hjálpað okkur sem erum þegar skírð að koma í veg fyrir að einkenni gamla persónuleikans geri aftur vart við sig.

HVAÐ ER „HINN GAMLI MAÐUR“?

4. Hvernig hagar sá sér sem lætur stjórnast af hinum gamla manni?

4 Sá sem lætur stjórnast af „hinum gamla manni“, eða persónuleika, hugsar venjulega og hagar sér að hætti heimsins. Hann er kannski eigingjarn, reiðigjarn, vanþakklátur og hrokafullur. Hann hefur kannski ánægju af að horfa á klám og siðlausar eða ofbeldisfullar kvikmyndir. Hann hefur eflaust einhverja góða eiginleika og hefur kannski sektarkennd vegna þess ranga sem hann segir eða gerir en löngun hans til að breyta hugsun sinni og hegðun er ekki nógu sterk. – Gal. 5:19–21; 2. Tím. 3:2–5.

Þegar við afklæðumst „hinum gamla manni“ stjórna viðhorf heimsins og verk okkur ekki lengur. (Sjá 5. grein.) *

5. Hvers vegna þurfum við að vera raunsæ varðandi það að afklæðast hinum gamla manni? (Postulasagan 3:19)

5 Þar sem við erum ófullkomin getum við ekki losað allar rangar hugsanir og langanir algerlega úr hjarta okkar og huga. Við gerum stundum eða segjum eitthvað sem við sjáum eftir. (Jer. 17:9; Jak. 3:2) En þegar við afklæðumst hinum gamla manni látum við viðhorf heimsins og verk ekki framar stjórna okkur. Þau einkenna okkur ekki lengur. – Jes. 55:7; lestu Postulasöguna 3:19.

6. Hvers vegna vill Jehóva að við losum okkur við ranga hugsun og hegðun gamla persónuleikans?

6 Jehóva hvetur okkur til að segja skilið við ranga hugsun og hegðun vegna þess að hann elskar okkur innilega og vill að við njótum lífsins. (Jes. 48:17, 18) Hann veit að þeir sem láta undan röngum löngunum skaða sjálfa sig og þá sem eru í kringum þá. Það særir hann að sjá okkur skaða okkur sjálf og aðra.

7. Hvaða möguleika höfum við samkvæmt Rómverjabréfinu 12:1, 2?

7 Sumir vina okkar og ættingja gætu stundum hæðst að okkur fyrir að reyna að gera breytingar á persónuleika okkar. (1. Pét. 4:3, 4) Þeir gætu sagt að við höfum rétt til að gera það sem við viljum og ættum ekki að láta aðra segja okkur fyrir verkum. En þeir sem hafna lögum Guðs eru ekki frjálsir í raun og veru. Þeir leyfa heimi sem er stjórnað af Satan að hafa áhrif á sig. (Lestu Rómverjabréfið 12:1, 2.) Við stöndum öll frammi fyrir vali: Annað hvort höldum við gamla persónuleikanum sem er mótaður af heimi Satans eða við leyfum Jehóva að móta okkur svo að við verðum besta útgáfan af sjálfum okkur og kostur er núna. – Jes. 64:7.

HVERNIG GETUM VIÐ ,AFKLÆÐST HINUM GAMLA MANNI‘?

8. Hvað getur hjálpað okkur að forðast ranga hugsun og líferni?

8 Jehóva veit að það kostar tíma og erfiði að uppræta ranga hugsun og líferni. (Sálm. 103:13, 14) En með hjálp orðs síns, anda og safnaðar gefur Jehóva okkur þá visku, styrk og stuðning sem við þurfum til að gera nauðsynlegar breytingar. Hann hefur vafalaust þegar hjálpað þér. Skoðum nú sumt af því sem þú getur gert til að taka frekari framförum í að losa þig við gamla persónuleikann og verða hæfur til að láta skírast.

9. Hvað getur orð Guðs hjálpað þér að gera?

9 Skoðaðu sjálfan þig vandlega með hjálp Biblíunnar. Orð Guðs er eins og spegill. Það getur hjálpað þér að rannsaka hvernig þú hugsar, talar og hagar þér. (Jak. 1:22–25) Biblíukennarinn þinn og önnur þroskuð trúsystkini geta leiðbeint þér. Þau geta til dæmis notað Biblíuna til að hjálpa þér að koma auga á styrkleika þína og veikleika. Þau geta kennt þér hvernig þú finnur upplýsingar byggðar á Biblíunni sem innihalda gagnleg ráð um hvernig þú getur sigrast á rangri hegðun. Og Jehóva er alltaf tilbúinn að hjálpa þér. Hann veit best hvaða hjálp þú þarft á að halda því að hann þekkir hjarta þitt. (Orðskv. 14:10; 15:11) Temdu þér því að biðja til hans og rannsaka orð hans á hverjum degi.

10. Hvað lærðir þú af reynslu Elie?

10 Vertu sannfærður um að mælikvarði Jehóva sé bestur. Við getum haft gagn af öllu sem Jehóva biður okkur að gera. Þeir sem lifa eftir mælikvarða hans öðlast sjálfsvirðingu, tilgang í lífinu og sanna hamingju. (Sálm. 19:8–12) En þeir sem hafna mælikvarða Guðs sitja uppi með afleiðingarnar sem fylgja því að stunda verk holdsins. Tökum eftir hvað maður að nafni Elie segir um það að hafna mælikvarða Guðs. Hann var alinn upp af foreldrum sem elska Jehóva. En þegar Elie var á unglingsaldri valdi hann vondan félagskap. Hann fór að neyta fíkniefna, lifa siðlausu lífi og stela. Elie segir að hann hafi sífellt orðið reiðari og ofbeldisfyllri. „Ég gerði allt sem ég hafði lært að ég átti ekki að gera sem kristinn maður,“ viðurkennir hann. En Elie gleymdi ekki því sem hann hafði lært í æsku. Hann fór aftur að rannsaka Biblíuna. Hann lagði hart að sér til að segja skilið við rangt líferni og lét skírast árið 2000. Hvernig hefur það komið honum að gagni að lifa eftir mælikvarða Jehóva? Hann segir: „Ég hef hugarfrið og hreina samvisku.“ * Af þessu má sjá að þeir sem hafna mælikvarða Jehóva skaða sjálfa sig. En jafnvel þá er Jehóva fús til að hjálpa þeim að breyta sér.

11. Hvað hatar Jehóva?

11 Lærðu að hata það sem Jehóva hatar. (Sálm. 97:10) Biblían sýnir að Jehóva hatar ,hrokafullt augnaráð, lygna tungu og hendur sem úthella saklausu blóði‘. (Orðskv. 6:16, 17) Hann hefur líka „andstyggð á ofbeldismönnum og svikurum“. (Sálm. 5:6, NW) Jehóva hatar þessi verk og viðhorf svo mikið að hann eyddi öllum hinum illu á dögum Nóa vegna þess að þeir höfðu fyllt jörðina ofbeldi. (1. Mós. 6:13) Skoðum annað dæmi. Fyrir munn Malakí spámanns sagðist Guð hata þá sem svíkja saklausan maka sinn og skilja við hann. Guð hafnar tilbeiðslu þeirra og mun dæma þá fyrir hegðun þeirra. – Mal. 2:13–16; Hebr. 13:4.

Sú tilhugsun að gera það sem Jehóva segir að sé rangt ætti að vekja með okkur jafn mikinn viðbjóð og að borða skemmdan mat. (Sjá 11. og 12. grein.)

12. Hvað felur það í sér að hafa „andstyggð á hinu illa“?

12 Jehóva vill að við höfum „andstyggð á hinu illa“. (Rómv. 12:9) Orðið „andstyggð“ lýsir sterkum tilfinningalegum viðbrögðum. Það merkir að hata eitthvað innilega, hafa viðbjóð á því. Ímyndaðu þér hvernig þú myndir bregðast við ef þér væri réttur diskur með mygluðum mat til að borða. Þér verður kannski óglatt við tilhugsunina. Á svipaðan hátt ætti jafnvel tilhugsunin um að gera eitthvað sem er rangt í augum Jehóva að vekja hjá okkur viðbjóð.

13. Hvers vegna verðum við að varðveita hugarfar okkar?

13 Varðveittu hugarfar þitt. Hugsanir okkar hafa áhrif á gerðir okkar. Þess vegna sagði Jesús okkur að hafna hugsunum sem geta leitt til þess að við drýgjum alvarlega synd. (Matt. 5:21, 22, 28, 29) Við viljum auðvitað gleðja himneskan föður okkar. Það er því mikilvægt að vísa samstundis á bug öllum slæmum hugsunum sem skjóta upp kollinum.

14. Hvað segir tal okkar um okkur og hvaða spurningum ættum við að velta fyrir okkur?

14 Hafðu stjórn á tali þínu. Jesús sagði: „Það sem kemur út af munninum kemur frá hjartanu.“ (Matt. 15:18) Tal okkar segir mikið um okkar innri mann. Spyrðu sjálfan þig: „Neita ég að ljúga jafnvel þótt það hafi vandræði í för með sér fyrir mig að segja sannleikann? Þar sem ég er giftur, gæti ég þess þá að daðra ekki við neinn af hinu kyninu? Forðast ég siðlaust tal eins og pestina? Svara ég mildilega þegar einhver kemur mér í uppnám?“ Það er gagnlegt að velta þessum spurningum fyrir sér. Líkja má tali okkar við sauma á flík. Ef við gerum okkar besta til að leggja af svívirðilegt og siðlaust tal og lygar verður auðveldara fyrir okkur að afklæðast gamla persónuleikanum.

15. Hvað merkir það að ,staurfesta‘ gamla persónuleikann?

15 Vertu tilbúinn að gera það sem þarf. Páll postuli notaði sterkt myndmál til að sýna okkur hversu mikilvægt er að gera breytingar. Hann skrifaði að við yrðum að ,staurfesta‘ gamla persónuleikann. (Rómv. 6:6) Við þurfum með öðrum orðum að fylgja fordæmi Krists. Við þurfum að losa okkur við viðhorf og verk sem Jehóva hatar. Það er nauðsynlegt til að öðlast góða samvisku og von um eilíft líf. (Jóh. 17:3; 1. Pét. 3:21) Munum að Jehóva breytir ekki mælikvarða sínum til að þóknast okkur. Við þurfum að breyta okkur og laga okkur að mælikvarða hans. – Jes. 1:16–18; 55:9.

16. Hvers vegna verðum við að vera ákveðin í að berjast áfram gegn röngum löngunum?

16 Haltu áfram að berjast gegn röngum löngunum. Eftir að þú hefur látið skírast þarftu að halda áfram að berjast gegn röngum löngunum. Skoðum reynslu manns sem heitir Maurício. Hann byrjaði ungur að eiga í kynferðislegu sambandi við aðra karlmenn. En þar að kom að hann kynntist fólki Jehóva og byrjaði að rannsaka Biblíuna. Hann gerði breytingar á lífi sínu og lét skírast árið 2002. Hann hefur þjónað Jehóva í mörg ár en segir samt: „Ég verð að viðurkenna að ég þarf stundum að berjast gegn röngum löngunum.“ Hann lætur þetta ekki draga úr sér kjark. Hann segir: „Mér finnst hughreystandi að vita að það gleður Jehóva þegar ég læt ekki undan þessum löngunum.“ *

17. Hvað finnst þér hvetjandi við reynslu Nabihu?

17 Biddu Jehóva um hjálp og reiddu þig á anda hans en ekki eigin styrk. (Gal. 5:22; Fil. 4:6) Við þurfum að leggja hart að okkur til að afklæðast hinum gamla manni og íklæðast honum ekki aftur. Skoðum reynslu konu sem heitir Nabiha. Faðir hennar yfirgaf hana þegar hún var aðeins sex ára. „Það olli mér gríðarlega miklum tilfinningalegum sársauka,“ segir hún. Þegar Nabiha óx úr grasi varð hún sífellt reiðari og uppstökkari. Hún byrjaði að selja eiturlyf, var handtekin og sat nokkur ár í fangelsi. Vottar sem fóru í heimsókn í fangelsið byrjuðu að aðstoða hana við biblíunám. Nabiha fór að gera stórfelldar breytingar. „Það var auðvelt fyrir mig að losa mig við suma lesti,“ segir hún, „en að hætta að reykja var allt annar handleggur.“ Nabiha barðist í meira en ár og tókst að lokum að hætta. Hvernig fór hún að? „Reglulegar bænir til Jehóva hjálpuðu mér meira en nokkuð annað að hætta,“ segir hún. „Fyrst ég gat gert breytingar til að þóknast Jehóva þá geta allir það.“ *

ÞÚ GETUR ORÐIÐ HÆFUR TIL SKÍRNAR

18. Hvað hafa margir þjónar Guðs getað gert samkvæmt 1. Korintubréfi 6:9–11?

18 Sumir þjóna Guðs á fyrstu öld sem hann valdi til að ríkja með Kristi höfðu áður stundað rangt líferni. Sumir höfðu haldið fram hjá maka sínum, átt í kynferðissambandi við einhvern af sama kyni eða verið þjófar. En með hjálp anda Guðs gátu þeir breytt persónuleika sínum. (Lestu 1. Korintubréf 6:9–11.) Biblían hefur á svipaðan hátt hjálpað milljónum manna að breyta lífi sínu. * Þeir hafa getað upprætt mjög slæma og rótgróna ávana. Fordæmi þeirra sýnir fram á að þú getur líka breytt persónuleika þínum, sagt skilið við ranga breytni og orðið hæfur til að láta skírast.

19. Hvað ræðum við í næstu grein?

19 Auk þess að afklæðast hinum gamla manni þurfa þeir sem láta skírast að leggja hart að sér til að íklæðast hinum nýja manni. Í næstu grein ræðum við hvernig við getum gert það og hvernig aðrir geta hjálpað okkur.

SÖNGUR 41 Heyr mínar bænir

^ Við verðum að vera fús til að gera breytingar á persónuleika okkar til að verða hæf til skírnar. Í þessari grein kynnum við okkur hvað einkennir ,hinn gamla mann‘, eða persónuleika, hvers vegna við þurfum að losa okkur við þessi einkenni og hvernig við getum gert það. (Kól. 3:9, sjá neðanmáls.) Í næstu grein skoðum við hvernig við höldum áfram að íklæðast hinum nýja manni, eða persónuleika, jafnvel eftir að við höfum látið skírast.

^ ORÐASKÝRING:„afklæðast hinum gamla manni“ merkir að losa sig við viðhorf og tilhneigingar sem eru Jehóva vanþóknanlegar. Við ættum að byrja að gera það áður en við látum skírast. – Ef. 4:22.

^ Sjá greinina „Biblían breytir lífi fólks – ,Ég varð að snúa aftur til Jehóva‘“ í Varðturninum 1. apríl 2012 til að fá frekari upplýsingar.

^ Sjá greinina „The Bible Changes Lives – ,They Were Very Kind to Me‘“ í Varðturninum á ensku 1. maí 2012 til að fá frekari upplýsingar.

^ Sjá greinina „The Bible Changes Lives – ,I Became an Angry, Aggressive Young Woman‘“ í Varðturninum á ensku 1. október 2012 til að fá frekari upplýsingar.

^ Sjá rammann „ Biblían breytir lífi fólks“.

^ MYND: Að losa sig við röng viðhorf og ávana er svipað og fara úr gamalli flík.