Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 11

Haltu áfram að íklæðast „hinum nýja manni“ eftir skírnina

Haltu áfram að íklæðast „hinum nýja manni“ eftir skírnina

„Íklæðist hinum nýja manni.“ – KÓL. 3:10.

SÖNGUR 49 Gleðjum hjarta Jehóva

YFIRLIT *

1. Hvað mótar persónuleika okkar meira en nokkuð annað?

 HVORT sem við höfum verið skírð í fáeina daga eða árum saman viljum við öll að persónuleiki okkar sé Jehóva að skapi. Til að svo sé þurfum við að hafa stjórn á hugsunum okkar. Hvers vegna? Vegna þess að persónuleiki okkar mótast að miklu leyti af hugsunum okkar. Ef líf okkar snýst um eigin langanir segjum við og gerum ýmislegt slæmt. (Ef. 4:17–19) En ef við fyllum huga okkar góðum hugsunum eru meiri líkur á að við tölum og hegðum okkur þannig að Jehóva faðir okkar sé ánægður með okkur. – Gal. 5:16.

2. Hvaða spurningar skoðum við í þessari grein?

2 Eins og kom fram í námsgreininni á undan getum við ekki alfarið komið í veg fyrir að vondar hugsanir láti á sér kræla hjá okkur. En við höfum val um að láta þær ekki hafa áhrif á það sem við gerum. Áður en við látum skírast verðum við að hætta að tala og hegða okkur á þann hátt sem Jehóva hatar. Það er fyrsta og mikilvægasta skrefið í því að aflklæðast hinum gamla manni. En til að gleðja Jehóva til fullnustu verðum við að hlýða fyrirmælunum: „Íklæðist hinum nýja manni.“ (Kól. 3:10) Í þessari grein svörum við eftirfarandi spurningum: Hvað er „hinn nýi maður“? Hvernig getum við íklæðst nýjum persónuleika og viðhaldið honum?

HVAÐ ER „HINN NÝI MAÐUR“?

3. Hvað er „hinn nýi maður“ og hvernig íklæðist maður honum samkvæmt Galatabréfinu 5:22, 23?

3 Nýi persónuleikinn endurspeglar hugsun og framkomu Jehóva. Sá sem íklæðist hinum nýja manni sýnir ávöxt anda Guðs og leyfir heilögum anda að hafa áhrif á hugsanir sínar, tilfinningar og verk. (Lestu Galatabréfið 5:22, 23.) Hann elskar Jehóva og fólk hans. (Matt. 22:36–39) Hann getur verið glaður jafnvel þegar hann tekst á við erfiðleika. (Jak. 1:2–4) Hann stuðlar að friði. (Matt. 5:9) Hann er þolinmóður og góður við aðra. (Kól. 3:12, 13) Hann elskar hið góða og breytir í samræmi við það. (Lúk. 6:35) Hann sýnir með verkum sínum að trú hans á himneskan föður hans er sterk. (Jak. 2:18) Hann er viðmótsgóður þótt honum sé ögrað og iðkar sjálfstjórn þegar hans er freistað. – 1. Kor. 9:25, 27; Tít. 3:2.

4. Hvers vegna þarf að rækta alla góðu eiginleikana í Galatabréfinu 5:22, 23 og annars staðar í Biblíunni til að íklæðast hinum nýja manni?

4 Til að íklæðast hinum nýja manni verðum við að rækta með okkur alla þá eiginleika sem minnst er á í Galatabréfinu 5:22, 23 og annars staðar í Biblíunni. * Þessir eiginleikar eru ekki eins og stakar flíkur sem við íklæðumst einni í einu. Eiginleikarnir skarast. Sá sem elskar til dæmis náunga sinn í raun og veru er þolinmóður og góðviljaður í samskiptum við hann. Og til að sýna sanna gæsku verður maður að vera mildur og sýna sjálfstjórn.

HVERNIG ÍKLÆÐUMST VIÐ HINUM NÝJA MANNI?

Því betur sem við lærum að hugsa eins og Jesús þeim mun betur gengur okkur að endurspegla persónuleika hans. (Sjá 5., 8., 10., 12. og 14. grein.)

5. Hvað merkir það að hafa „huga Krists“ og hvers vegna ættum við að skoða og íhuga líf hans vel? (1. Korintubréf 2:16)

5 Lestu 1. Korintubréf 2:16. Til að íklæðast nýja persónuleikanum verðum við að hafa „huga Krists“. Við verðum með öðrum orðum að læra að hugsa eins og Jesús hugsar og líkja síðan eftir honum. Jesús endurspeglar ávöxt anda Guðs fullkomlega. Eins og tandurhreinn spegill endurspeglar hann eiginleika Jehóva eins og þeir eru í raun. (Hebr. 1:3) Því betur sem við hugsum eins og Jesús því betur getum við líkt eftir honum og endurspeglað persónuleika hans. – Fil. 2:5.

6. Hverju ættum við ekki að gleyma þegar við leitumst við að íklæðast nýja persónuleikanum?

6 Við efumst kannski um að við getum líkt eftir Jesú og hugsum kannski: „Jesús er fullkominn. Ég get aldrei orðið eins og hann.“ Ef þér líður þannig skaltu minna þig á eftirfarandi: Í fyrsta lagi varstu skapaður til að líkja eftir Jehóva og Jesú. Þú getur því valið að líkja eftir þeim og það er hægt að vissu marki. (1. Mós. 1:26) Í öðru lagi er heilagur andi Guðs sterkasta afl í alheiminum. Með hjálp hans geturðu áorkað því sem þú gætir aldrei af sjálfsdáðum. Í þriðja lagi ætlast Jehóva ekki til þess að þú sýnir ávöxt anda hans fullkomlega núna. Ástríkur faðir okkar gefur þeim sem eiga von um að lifa að eilífu á jörðinni 1.000 ár til að ná fullkomleika. (Opinb. 20:1–3) Núna væntir Jehóva þess að við reynum okkar besta og treystum að hann hjálpi okkur.

7. Hvað tökum við nú til athugunar?

7 Hvernig getum við líkt eftir Jesú? Athugum stuttlega fjóra eiginleika sem andi Guðs hjálpar okkur að þroska með okkur. Í hverju tilviki sjáum við hvað við getum lært af því hvernig Jesús sýndi þessa eiginleika. Við hugleiðum nokkrar spurningar sem geta hjálpað okkur að átta okkur á því hversu vel okkur gengur að íklæðast hinum nýja manni.

8. Hvernig sýndi Jesús kærleika?

8 Innilegur kærleikur Jesú til Jehóva fékk hann til að færa Jehóva fórnir. Hann færði líka fórnir í okkar þágu. (Jóh. 14:31; 15:13) Jesús sýndi hversu djúpt kærleikur hans til fólks risti með því hvernig hann lifði á jörðinni. Hann var alltaf kærleiksríkur og samúðarfullur, jafnvel andspænis andstöðu. Hann sýndi fólki kærleika sinn sérstaklega með því að segja því frá Guðsríki. (Lúk. 4:43, 44) Jesús sýndi einnig fórnfúsan kærleika sinn til Guðs og manna með því að vera fús að þjást og þola sársaukafullan dauða af hendi syndara. Með því opnaði hann okkur öllum leið til að eignast eilíft líf.

9. Hvernig getum við sýnt kærleika eins og Jesús?

9 Við vígðum Jehóva líf okkar og létum skírast vegna þess að við elskum himneskan föður okkar. Við ættum því, eins og Jesús, að sýna Jehóva kærleika okkar með framkomu okkar við annað fólk. Jóhannes postuli skrifaði: „Sá sem elskar ekki bróður sinn, sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð sem hann hefur ekki séð.“ (1. Jóh. 4:20) Við getum spurt: Hef ég ræktað sterkan kærleika til fólks? Er ég samúðarfullur í samskiptum við aðra, jafnvel þegar þeir sýna mér ókurteisi? Knýr kærleikur mig til að nota tíma minn og krafta til að hjálpa öðrum að læra um Jehóva? Er ég fús að gera þetta jafnvel þegar flestir kunna ekki að meta viðleitni mína eða standa á móti mér? Get ég fundið leið til að verja meiri tíma í gera fólk að lærisveinum? – Ef. 5:15, 16.

10. Hvernig stuðlaði Jesús að friði?

10 Jesús var friðsamur maður. Þegar fólk kom illa fram við hann galt hann ekki illt með illu. En hann lét ekki þar við sitja. Hann tók frumkvæðið að því að semja frið og hvatti aðra til að jafna ágreining. Hann kenndi þeim til dæmis að þeir yrðu að semja frið við bróður sinn ef þeir vildu að Jehóva viðurkenndi tilbeiðslu þeirra. (Matt. 5:9, 23, 24) Hann hjálpaði postulunum ítrekað að hætta að deila um það hver þeirra væri mestur. – Lúk. 9:46–48; 22:24–27.

11. Hvernig getum við stuðlað að friði?

11 Til að stuðla að friði verðum við að gera meira en að forðast árekstra. Við þurfum að taka frumkvæðið og semja frið við aðra og hvetja bræður okkar og systur til að jafna ágreining sín á milli. (Fil. 4:2, 3; Jak. 3:17, 18) Við getum spurt okkur: Hverju er ég tilbúinn að fórna til að sættast við aðra? El ég með mér gremju ef bróðir eða systir særir mig? Bíð ég eftir að aðrir taki frumkvæðið að því að koma aftur á friði eða er ég tilbúinn að taka af skarið jafnvel þegar aðrir virðast hafa átt upptök að vandamálinu? Hvet ég aðra til að jafna ágreining sín á milli þegar það er viðeigandi?

12. Hvernig sýndi Jesús góðvild?

12 Jesús var góðviljaður. (Matt. 11:28–30) Hann sýndi góðvild með því að vera vingjarnlegur og sveigjanlegur, jafnvel við erfiðar aðstæður. Þegar fönikísk kona bað hann til dæmis um að lækna barnið sitt neitaði hann í fyrstu. En þegar hún lét í ljós sterka trú sýndi hann góðvild og læknaði barnið. (Matt. 15:22–28) Þótt Jesús væri góðviljaður var hann ekki of tilfinningasamur. Stundum lét hann í ljós góðvild með því að sýna þeim sem hann elskaði festu. Þegar Pétur reyndi til dæmis að letja Jesú að gera vilja Jehóva ávítaði Jesús hann fyrir framan hina lærisveinana. (Mark. 8:32, 33) Hann gerði það ekki til að lítillækka Pétur heldur til að kenna honum og vara hina lærisveinana við framhleypni. Pétur hefur eflaust skammast sín en hann hafði gagn af aganum.

13. Hvernig getum við sýnt sanna góðvild?

13 Til að sýna þeim sem við elskum sanna góðvild getum við stundum þurft að leiðrétta þá. Við skulum líkja eftir Jesú og byggja ráð okkar á meginreglunum í orði Guðs þegar við gerum það. Verum vingjarnleg. Gerum ráð fyrir því að þeir vilji gera það sem er rétt og að þeir sem elska Jehóva og okkur bregðist vel við kærleiksríkum ráðum. Spyrðu þig: Hef ég hugrekki til að tala þegar ég sé einhvern sem ég elska gera eitthvað rangt? Er ég vingjarnlegur eða hvassyrtur þegar ég þarf að gefa ráð? Hvaða hvatir liggja að baki ráðum mínum? Gef ég þau vegna þess að persónan pirrar mig eða vegna þess að ég vil hjálpa henni?

14. Hvernig sýndi Jesús gæsku?

14 Jesús veit ekki aðeins hvað er gott, hann breytir líka í samræmi við það. Hann elskar föður sinn og gerir því alltaf hið rétta og af réttum hvötum. Gæskuríkur maður leitar alltaf leiða til að hjálpa öðrum og gera eitthvað gott fyrir þá. Það er ekki nóg að vita hvað er rétt að gera. Við verðum að gera það og af réttum hvötum. Við gætum velt því fyrir okkur hvort það sé mögulegt að gera það sem er rétt af röngum hvötum. Svarið er já. Jesús talaði til dæmis um þá sem gáfu fátækum ölmusu en gengu úr skugga um að aðrir tækju eftir því. Þetta virtust vera góðverk en höfðu lítið gildi í augum Jehóva. – Matt. 6:1–4.

15. Hvernig sýnum við sanna gæsku?

15 Við getum aðeins sýnt sanna gæsku ef við gerum rétt af óeigingjörnum hvötum. Við gætum spurt okkur sjálf: Læt ég mér nægja að vita hvað er rétt að gera eða framkvæmi ég það líka? Hver er hvötin að baki því góða sem ég geri?

HVERNIG GETUM VIÐ VIÐHALDIÐ NÝJA PERSÓNULEIKANUM?

16. Hvað ættum við að gera á hverjum degi og hvers vegna?

16 Ímyndum okkur ekki að við getum hætt að íklæðast nýja persónuleikanum þegar við höfum látið skírast. Við þurfum að halda fallegu „nýju fötunum“ okkar í góðu ásigkomulagi. Við getum til dæmis gert það með því að leita leiða hvern dag til að sýna ávöxt anda Guðs. Hvers vegna? Vegna þess að Jehóva er Guð sem lætur verkin tala, og andi hans er virkur kraftur. (1. Mós. 1:2) Allir þættir ávaxtar andans geta því og verða að knýja okkur til verka. Lærisveinninn Jakob skrifaði: ,Trúin er dauð án verka.‘ (Jak. 2:26) Það sama má segja um alla aðra þætti ávaxtar anda Guðs. Í hvert sinn sem við látum þá í ljós sýnum við að andi Guðs hjálpar okkur.

17. Hvað ættum við að gera þegar okkur mistekst að sýna ávöxt andans?

17 Jafnvel þjónum Guðs sem hafa verið skírðir í mörg ár mistekst stundum að sýna ávöxt andans. En mikilvægast er að gefast ekki upp. Skoðum dæmi. Segjum að uppáhaldsflíkin þín hafi rifnað. Myndirðu strax henda henni? Nei. Þú myndir líklega vanda þig að gera við hana ef það væri mögulegt. Og þú myndir fara gætilega með hana þaðan í frá. Ef þér mistekst stundum að koma fram við aðra af góðvild, þolinmæði og kærleika skaltu ekki missa móðinn. Einlæg afsökunarbeiðni getur bætt skaðann svo að þú getir haldið áfram að eiga góð samskipti við þá. Vertu staðráðinn í að gera betur eftirleiðis.

18. Hvað geturðu verið viss um?

18 Við erum innilega þakklát að hafa Jesú sem fordæmi til eftirbreytni. Því betur sem við líkjum eftir hugsun hans og viðhorfum því auðveldara eigum við með að breyta eins og hann. Því betur sem við líkjum eftir Jesú því betur gengur okkur að íklæðast hinum nýja manni. Í þessari námsgrein höfum við velt fyrir okkur aðeins fjórum þáttum ávaxtar anda Guðs. Hvernig væri að taka þér tíma til að ígrunda aðra þætti ávaxtar andans og velta fyrir þér hvernig þér gengur að sýna þessa eiginleika? Þú getur fundið lista yfir greinar um þá í Efnislykli að ritum Votta Jehóva undir viðfangsefninu „Kristið líferni“ og „Ávöxtur andans“. Þú getur verið viss um að ef þú gerir þitt hjálpar Jehóva þér að íklæðast hinum nýja manni og viðhalda honum.

SÖNGUR 127 Þannig ber mér að lifa

^ Við getum ,íklæðst hinum nýja manni‘, eða nýjum persónuleika, hver sem bakgrunnur okkar er. Til þess að gera það verðum við að halda áfram að lagfæra hugsunarhátt okkar og leggja okkur fram um að líkja eftir Jesú. Í þessari grein skoðum við nokkur dæmi um það hvernig Jesús hugsaði og kom fram. Einnig er fjallað um það hvernig við getum haldið áfram að líkja eftir honum eftir skírnina.

^ Galatabréfið 5:22, 23 hefur ekki að geyma tæmandi lista yfir þá góðu eiginleika sem andi Guðs getur hjálpað okkur að rækta með okkur. Fjallað er um þetta í „Spurningum frá lesendum“ í Varðturninum júní 2020.