Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 12

Sérðu það sem Sakaría sá?

Sérðu það sem Sakaría sá?

„Fyrir anda minn, segir Drottinn allsherjar.“ – SAK. 4:6.

SÖNGUR 73 Veittu okkur hugrekki

YFIRLIT *

1. Hvaða spennandi atburðir voru í vændum fyrir Gyðinga í útlegðinni?

 ÞAÐ var spenna í loftinu. Jehóva Guð hafði ,blásið Kýrusi Persakonungi í brjóst‘ að sleppa Ísraelsmönnum sem höfðu verið í ánauð í Babýlon í mörg ár. Konungurinn gaf út yfirlýsingu um að Gyðingar gætu snúið aftur til heimalands síns og ,unnið að byggingu húss Drottins, Guðs Ísraels‘. (Esra. 1:1, 3) Þetta var spennandi tilskipun. Hún þýddi að tilbeiðslan á hinum sanna Guði yrði endurreist í landinu sem hann gaf þjóð sinni.

2. Hvernig gekk í fyrstu hjá Gyðingunum sem komu úr útlegð?

2 Árið 537 f.Kr. komu fyrstu Gyðingarnir úr útlegðinni til Jerúsalem, en hún hafði verið höfuðborg suðurríkisins Júda. Gyðingarnir sem voru komnir heim gengu fljótlega að verki og hófu að endurreisa musterið. Þeir höfðu þegar lokið við grunn þess árið 536 f.Kr.

3. Hvaða andstöðu mættu Gyðingarnir?

3 Eftir að Gyðingarnir hófu að endurreisa musterið mættu þeir mikilli andstöðu. Þjóðirnar umhverfis ,drógu kjarkinn úr Júdamönnum og hræddu þá frá því að byggja‘. (Esra. 4:4) Og ástandið átti eftir að versna. Árið 522 f.Kr. komst nýr konungur Persa, Artaxerxes, til valda. * Andstæðingar litu á stjórnarskiptin sem tækifæri til að stöðva byggingarstarfið endanlega með því að „valda tjóni í nafni laganna“. (Sálm. 94:20, NW) Þeir sögðu Artaxerxesi meðal annars að Gyðingar hyggðust gera uppreisn gegn honum. (Esra. 4:11–16) Konungurinn trúði lygunum og bannaði byggingu musterisins. (Esra. 4:17–23) Þar með hættu Gyðingar að byggja musterið. – Esra. 4:24.

4. Hvernig brást Jehóva við andstöðunni gegn byggingu musterisins? (Jesaja 55:11)

4 Íbúar landsins sem tilbáðu ekki Jehóva og sumir í persnesku stjórninni voru staðráðnir í að stöðva endurbyggingu musterisins. En Jehóva var ákveðinn í að láta halda byggingarstarfinu áfram og áform hans ná alltaf fram að ganga. (Lestu Jesaja 55:11.) Hann kallaði til Sakaría, óttalausan spámann sinn, og lét hann sjá átta spennandi sýnir sem hann átti að segja Gyðingum frá til að hvetja þá. Þessar hughreystandi sýnir fullvissuðu þá um að þeir þyrftu ekkert að óttast af hendi andstæðinga sinna og hvöttu þá að halda áfram með verkefnið sem Jehóva hafði gefið þeim. Í fimmtu sýninni sá Sakaría ljósastiku og tvö ólífutré.

5. Hvað verður fjallað um í þessari grein?

5 Við getum öll misst kjarkinn. Við getum þess vegna líka haft gagn af að hugleiða uppörvunina sem Jehóva veitti Ísraelsmönnum með fimmtu sýninni sem Sakaría fékk. Að skilja þessa sýn getur hjálpað okkur að þjóna Jehóva trúföst þegar við verðum fyrir andstöðu, þegar aðstæður okkar breytast og þegar við fáum leiðbeiningar sem við skiljum ekki.

ÞEGAR VIÐ MÆTUM ANDSTÖÐU

Sakaría sér sýn þar sem tvö ólífutré sjá ljósastiku með sjö lömpum fyrir olíu. (Sjá 6. grein.)

6. Hvernig gaf sýnin um ljósastikuna og ólífutrén tvö í Sakaría 4:1–3 Gyðingunum hugrekki? (Sjá forsíðumynd.)

6 Lestu Sakaría 4:1–3. Sýnin um ljósastikuna og ólífutrén tvö gaf Gyðingunum hugrekki til að halda verki sínu áfram þrátt fyrir andstöðu. Hvernig? Tókstu eftir að ljósastikunni var stöðugt séð fyrir eldsneyti? Frá tveim ólífutrjám rann olía í skál og þaðan í hvert ljós á ljósastikunni. Vegna olíunnar logaði stöðugt á ljósastikunni. Sakaría spurði: „Hvað tákna þessir hlutir?“ Engillinn svaraði með orðum frá Jehóva: „Ekki með valdi né krafti heldur fyrir anda minn, segir Drottinn allsherjar.“ (Sak. 4:4, 6) Olían frá trjánum táknaði kraftmikinn heilagan anda Jehóva í óþrjótandi magni. Allur herafli persneska heimsveldisins bliknaði í samanburði við magnaðan anda Guðs. Með Jehóva sér við hlið gátu þeir sem byggðu musterið staðist hvaða andstöðu sem var og lokið verkinu. Þetta voru hughreystandi skilaboð. Gyðingar þurftu bara að treysta á Jehóva og snúa sér að verki. Og það var einmitt það sem þeir gerðu enda þótt bannið væri enn þá í gildi.

7. Hvað gerðist sem varð þeim sem byggðu musterið til hjálpar?

7 Breyttar aðstæður gerðu þeim sem byggðu musterið auðveldara fyrir. Hvað breyttist? Árið 520 f.Kr. var nýr konungur, Daríus fyrsti, við völd. Á öðru stjórnarári hans uppgötvaði hann að bannið við byggingu musterisins var ólöglegt. Daríus veitti konunglegt leyfi til að ljúka verkinu. (Esra. 6:1–3) Ákvörðun konungsins kom öllum á óvart. En þar með er ekki öll sagan sögð. Konungurinn skipaði íbúunum í kring að hætta afskiptum af byggingarstarfinu og leggja fram fé og allt sem þörf var á til að ljúka byggingu musterisins. (Esra. 6:7–12) Árangurinn varð sá að Gyðingar luku við byggingu musterisins rúmlega fjórum árum síðar, árið 515 f.Kr. – Esra. 6:15.

Treystu á mátt Jehóva þegar þú mætir andstöðu. (Sjá 8. grein.)

8. Hvers vegna geturðu verið hugrakkur þegar þú mætir andstöðu?

8 Margir tilbiðjenda Jehóva nú á dögum verða fyrir andstöðu. Sumir búa til dæmis í löndum þar sem eru hömlur á starfsemi okkar. Trúsystkini okkar þar geta búist við því að vera handtekin og ,leidd fyrir landstjóra og konunga‘ og bera með því vitni fyrir þeim. (Matt. 10:17, 18) Stundum verða stjórnarskipti sem gefa þeim meira frelsi. Eða sanngjarn dómari dæmir þeim í vil. Aðrir vottar standa frammi fyrir annars konar andstöðu. Þeir búa í landi þar sem ríkir meira frelsi til að tilbiðja Jehóva en þeir verða fyrir andstöðu ættingja sem eru staðráðnir í að fá þá til að hætta að þjóna Guði. (Matt. 10:32–36) Í mörgum tilfellum hætta þeir að standa á móti vottunum þegar þeir átta sig á því að það er til einskis að reyna að stöðva þá. Og í sumum tilfellum verða þeir sem sýndu harða andstöðu seinna kappsamir vottar. Ekki gefast upp ef þú verður fyrir andstöðu. Vertu hugrakkur. Jehóva hjálpar þér með sínum máttuga heilaga anda. Þú hefur ekkert að óttast.

ÞEGAR AÐSTÆÐUR OKKAR BREYTAST

9. Hvers vegna voru sumir Gyðingarnir vonsviknir þegar grunnurinn hafði verið lagður að nýju musteri?

9 Þegar grunnur nýja musterisins hafði verið lagður grétu sumir af eldri Gyðingunum. (Esra. 3:12) Þeir höfðu séð fallega musterið sem Salómon byggði og fannst að nýja musterið yrði „einskis vert að sjá“ í samanburði við það. (Hag. 2:2, 3) Þeir voru miður sín vegna þess að þeir báru nýja musterið saman við það gamla. Sýn Sakaría myndi hjálpa þeim að endurheimta gleði sína. Hvernig?

10. Hvernig hjálpaði það sem engillinn sagði í Sakaría 4:8–10 Gyðingum að vera ekki lengur vonsviknir?

10 Lestu Sakaría 4:8–10. Hvað átti engillinn við þegar hann sagði að Gyðingar myndu ,fagna, er þeir sæju mælilóðið í hendi Serúbabels‘ landstjóra Gyðinga? Mælilóð er notað til að mæla hvort eitthvað sé fullkomlega lóðrétt. Engillinn var að fullvissa fólk Guðs um að musterið yrði fullgert og myndi uppfylla kröfur Guðs þótt það virtist lakara í augum sumra. Jehóva yrði ánægður með það og hvers vegna ættu þeir þá ekki líka að vera ánægðir? Það sem skipti Jehóva máli var að tilbeiðslan þar yrði í samræmi við mælikvarða hans. Ef Gyðingarnir beindu athyglinni að því að tilbiðja Jehóva á réttan hátt og fá velþóknun hans myndu þeir endurheimta gleði sína.

Ræktaðu með þér jákvætt hugarfar þegar aðstæður breytast. (Sjá 11. og 12. grein.) *

11. Hvað reynist sumum þjónum Jehóva erfitt?

11 Breytingar á aðstæðum reyna á mörg okkar. Sumir sem voru í sérstakri þjónustu í fullu starfi um langt skeið hafa fengið ný verkefni. Aðrir hafa sökum aldurs þurft að afsala sér verkefnum sem voru þeim kær. Það er eðlilegt að verða vonsvikinn við slíkar aðstæður. Við skiljum jafnvel ekki ákvörðunina eða erum henni ósammála. Okkur finnst kannski staðan hafa verið betri eins og hún var. Það gæti dregið úr okkur kjark og okkur gæti fundist við vera til lítils gagns. (Orðskv. 24:10) Hvernig getur sýn Sakaría hjálpað okkur að gefa Guði okkar besta?

12. Hvernig getur sýn Sakaría hjálpað okkur að takast á við vonbrigði þegar aðstæður okkar hafa breyst?

12 Við eigum auðveldara með takast á við breytingar ef við horfum á aðstæður frá sjónarhorni Jehóva. Hann er að gera margt stórkostlegt og við njótum þess einstaka heiðurs að vera samverkamenn hans. (1. Kor. 3:9) Verkefni okkar geta breyst en kærleikur Jehóva til okkar breytist ekki. Ef breyting í söfnuði Jehóva hefur áhrif á aðstæður þínar skaltu forðast að hugsa of mikið um ástæðurnar fyrir henni. Frekar en að sakna ,hinna fyrri daga‘ skaltu biðja Jehóva að hjálpa þér að koma auga á það góða við breytinguna. (Préd. 7:10) Hugsaðu um allt sem þú getur gert frekar en það sem þú getur ekki gert. Sýn Sakaría kennir okkur mikilvægi þess að hafa jákvætt viðhorf. Þá höldum við áfram að vera glöð og trúföst jafnvel þótt aðstæður okkar breytist.

ÞEGAR ÞAÐ ER ERFITT AÐ FYLGJA LEIÐBEININGUM

13. Hvers vegna kann sumum Ísraelsmönnum að hafa fundist það slæm ákvörðun að hefja byggingu musterisins að nýju?

13 Bannið um að endurbyggja musterið var í gildi. Jesúa æðstiprestur (Jósúa) og Serúbabel landstjóri sem voru útnefndir til að fara með forystuna hófu samt „að reisa hús Guðs“. (Esra. 5:1, 2) Sú ákvörðun kann að hafa virst slæm í augum sumra Gyðinga. Ekki var hægt að fara leynt með byggingu musterisins og þeir vissu að óvinirnir myndu gera allt sem þeir gátu til að stöðva verkið. Jesúa og Serúbabel báru ábyrgð á byggingarstarfinu og þurftu á hughreystingu að halda til að vera vissir um að Jehóva myndi styðja þá. Þeir fengu hana. Hvernig?

14. Hvaða hughreystingu fengu Jesúa æðstiprestur og Serúbabel landstjóri samkvæmt Sakaría 4:12, 14?

14 Lestu Sakaría 4:12, 14. Í þessum hluta sýnarinnar sem Sakaría fékk upplýsti engillinn trúfastan spámann Guðs um að ólífutrén táknuðu ,hina tvo smurðu‘ – Jesúa og Serúbabel. Engillinn sagði að það væri eins og þessir tveir menn ,stæðu hjá Drottni gjörvallrar jarðarinnar‘, Jehóva. Hvílíkur heiður! Jehóva treysti þeim. Það var því full ástæða fyrir Ísraelsmenn að treysta þeim og leiðsögn Guðs, hvaða ákvarðanir sem þeir tækju.

15. Hvernig getum við sýnt að við virðum leiðbeiningarnar sem er að finna í Biblíunni?

15 Jehóva heldur áfram að leiða fólk sitt og notar meðal annars orð sitt, Biblíuna, til þess. Í þessari heilögu bók upplýsir hann okkur um það hvernig við eigum að tilbiðja hann. Hvernig getum við sýnt að við virðum leiðbeiningarnar sem við fáum í orði Guðs? Með því skoða þær vandlega og taka okkur tíma til að skilja þær. Spyrðu þig: Staldra ég við og hugleiði þegar ég les í Biblíunni eða ritum okkar? Reyni ég að öðlast skilning á biblíusannindum sem eru torskilin? Eða renni ég lauslega yfir efnið? (2. Pét. 3:16) Ef við tökum okkur tíma til að hugleiða það sem Jehóva kennir okkur getum við fylgt leiðsögn hans og náð árangri í boðuninni. – 1. Tím. 4:15, 16.

Treystu leiðbeiningunum sem koma frá trúa og skynsama þjóninum. (Sjá 16. grein.) *

16. Hvað hjálpar okkur að fylgja leiðbeiningum sem við fáum frá trúa og skynsama þjóninum ef við skiljum þær ekki fyllilega?

16 Jehóva sér líka fyrir leiðbeiningum fyrir atbeina ,hins trúa og skynsama þjóns‘. (Matt. 24:45) Stundum gefur þjónninn kannski leiðbeiningar sem við skiljum ekki alveg. Við gætum til dæmis fengið sérstök fyrirmæli til að búa okkur undir náttúruhamfarir sem okkur finnst ólíklegt að verði á okkar slóðum. Og okkur gæti fundist þjónninn vera of varkár þegar faraldur geisar. Hvað ættum við að gera ef okkur finnst leiðbeiningarnar ekki skynsamlegar? Við getum rifjað upp hvernig það gagnaðist Ísraelsmönnum að fylgja leiðbeiningunum sem komu fyrir milligöngu Jesúa og Serúbabels. Við getum líka rifjað upp aðrar frásögur Biblíunnar. Stundum fékk þjóð Guðs leiðbeiningar sem virtust ekki skynsamlegar frá mannlegum sjónarhóli en þær björguðu mannslífum. – Dóm. 7:7; 8:10.

SJÁUM ÞAÐ SEM SAKARÍA SÁ

17. Hvaða áhrif hafði sýnin um ljósastikuna og ólífutrén tvö á Gyðingana?

17 Fimmta sýnin sem Sakaría sá gæti hafa varað stutt en hún hjálpaði Gyðingunum að halda jákvæðir og kappsamir áfram með verkið og að tilbiðja Jehóva. Og þegar þeir fóru eftir því sem þeir lærðu af sýn Sakaría fengu þeir kærleiksríkan stuðning Jehóva og leiðsögn. Jehóva hjálpaði þeim með kraftmiklum anda sínum að halda verkinu áfram og endurheimta gleði sína. – Esra. 6:16.

18. Hvaða áhrif getur sýn Sakaría haft á líf þitt?

18 Sýn Sakaría um ljósastikuna og ólífutrén tvö getur haft mikil áhrif á líf þitt. Hún getur hjálpað þér að öðlast þann styrk sem þú þarft þegar þú mætir andstöðu, gleði til að takast á við breyttar aðstæður og traust til að hlýða þegar þú færð leiðbeiningar sem þú skilur ekki. Hvað ættirðu að gera þegar þú mætir erfiðleikum í lífinu? Byrjaðu á því að sjá það sem Sakaría sá – sönnun fyrir því að Jehóva er annt um fólk sitt. Breyttu síðan í samræmi við það með því að treysta Jehóva og halda áfram að tilbiðja hann af öllu hjarta. (Matt. 22:37) Ef þú gerir það hjálpar Jehóva þér að þjóna sér af gleði um alla eilífð. – Kól. 1:10, 11.

SÖNGUR 7 Jehóva er styrkur okkar

^ Jehóva lét Sakaría spámann sjá spennandi sýnir. Það sem Sakaría sá gaf honum og öðrum þjónum Jehóva styrk til að takast á við erfiðleika sem þeir glímdu við þegar þeir endurreistu sanna tilbeiðslu. Þessar sýnir geta líka hjálpað okkur að þjóna Jehóva af trúfesti þrátt fyrir erfiðleika sem við stöndum frammi fyrir. Í þessari grein ræðum við um mikilvægan lærdóm sem við getum dregið af sýn Sakaría um ljósastikuna og ólífutrén.

^ Mörgum árum seinna, á dögum Nehemía landstjóra, var annar konungur við völd sem hét Artaxerxes og var Gyðingum mjög hliðhollur.

^ MYND: Bróðir skilur að hann þarf að aðlagast breyttum aðstæðum vegna áhrifa ellinnar og slæmrar heilsu.

^ MYND: Systir hugleiðir þá staðreynd að Jehóva styður trúa og skynsama þjóninn rétt eins og hann studdi Jesúa og Serúbabel.