Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 13

Sönn tilbeiðsla eykur hamingju þína

Sönn tilbeiðsla eykur hamingju þína

„Jehóva Guð okkar, þú ert þess verður að fá dýrðina, heiðurinn og máttinn.“ – OPINB. 4:11.

SÖNGUR 31 Göngum með Guði

YFIRLIT *

1, 2. Hvenær er tilbeiðsla okkar Guði þóknanleg?

 HVAÐ kemur upp í huga þinn þegar þú heyrir orðið „tilbeiðsla“? Þú sérð kannski fyrir þér auðmjúkan bróður krjúpa í bæn og úthella hjarta sínu fyrir Jehóva áður en hann fer að sofa. Eða þá að þú hugsar um hamingjusama fjölskyldu sem er niðursokkin að rannsaka Biblíuna saman.

2 Í báðum þessum tilfellum er fólk að tilbiðja Guð. Er tilbeiðsla þeirra Jehóva þóknanleg? Hún er það þegar hún er í samræmi við fyrirætlun hans og veitt af kærleika og virðingu. Við elskum Jehóva innilega. Við vitum að hann á skilið að vera tilbeðinn og við viljum að tilbeiðsla okkar sé af mestu gæðum.

3. Hvað er til umfjöllunar í þessari námsgrein?

3 Í þessari námsgrein fjöllum við um hvernig tilbeiðslu Jehóva viðurkenndi til forna og átta mismunandi þætti tilbeiðslunnar nú á dögum. Þegar við gerum það getum við velt því fyrir okkur hvernig við getum aukið gæði tilbeiðslu okkar. Við skoðum einnig ástæður fyrir því að sönn tilbeiðsla stuðlar að hamingju.

TILBEIÐSLA SEM JEHÓVA VIÐURKENNDI TIL FORNA

4. Hvernig sýndu tilbiðjendur Jehóva fyrir daga kristninnar honum virðingu og kærleika?

4 Trúfastir menn eins og Abel, Nói, Abraham og Job, sem voru uppi fyrir daga kristninnar, sýndu Jehóva virðingu og kærleika. Hvernig? Þeir sýndu hlýðni og trú og þeir báru fram fórnir. Biblían greinir ekki nákvæmlega frá því hvernig tilbeiðsla þeirra átti að vera. En þeir gerðu augljóslega sitt besta til að heiðra Jehóva og hann viðurkenndi tilbeiðslu þeirra. Síðar gaf Jehóva afkomendum Abrahams Móselögin. Í þeim er að finna nákvæmar leiðbeiningar um það hvernig þeir áttu að tilbiðja Jehóva í samræmi við vilja hans.

5. Hvernig breyttist sönn tilbeiðsla eftir dauða Jesú og upprisu?

5 Eftir dauða Jesú og upprisu krafðist Jehóva ekki lengur hlýðni við Móselögin. (Rómv. 10:4) Kristnir þjónar Jehóva áttu að hlýða nýjum lögum, ,lögum Krists‘. Þeir gátu hlýtt þessum lögum með því að líkja eftir fordæmi Jesú og fylgja kenningum hans en ekki með því að leggja á minnið langan lista lagaákvæða. Nú á dögum gera þjónar Guðs líka sitt besta til að fylgja Jesú. Þannig geta þeir haft velþóknun Jehóva og ,endurnærst‘. – Matt. 11:29.

6. Hvernig getum við haft gagn af þessari námsgrein?

6 Um leið og við hugleiðum hvern þátt tilbeiðslu okkar er gott að spyrja: Hvaða framförum hef ég tekið á þessu sviði? Við gætum líka spurt: Gæti ég aukið gæði tilbeiðslu minnar? Þú hefur ástæðu til að vera ánægður með þær framfarir sem þú hefur tekið en vilt örugglega líka biðja Jehóva um hjálp til að koma auga á hvað þú getur gert betur.

HVAÐ FELUR TILBEIÐSLA OKKAR Í SÉR?

7. Hvernig lítur Jehóva á innilegar bænir okkar til sín?

7 Við tilbiðjum Jehóva þegar við biðjum til hans. Í Biblíunni er bænum okkar líkt við vandlega útbúið reykelsi eins og var borið fram að fórn í tjaldbúðinni og síðar í musterinu. (Sálm. 141:2) Þetta reykelsi gaf frá sér ilm sem gladdi Guð. Á svipaðan hátt eru innilegar bænir okkar honum ,þóknanlegar‘ jafnvel þótt við notum mjög einföld orð. (Orðskv. 15:8; 5. Mós. 33:10) Við höfum ástæðu til að ætla að Jehóva hlýni um hjartarætur þegar hann hlustar á okkur tjá sér ást okkar og þakklæti. Hann vill að við segjum sér frá áhyggjum okkar, vonum og löngunum. Hvernig væri að hugsa fyrir fram hvað þú ætlar að segja við Jehóva áður en þú nálgast hann í bæn? Þannig geturðu undirbúið þitt besta „reykelsi“ fyrir himneskan föður þinn.

8. Hvaða tækifæri höfum við til að lofa Guð?

8 Við tilbiðjum Jehóva þegar við lofum hann. (Sálm. 34:2) Við lofum Jehóva með því að tala um frábæra eiginleika hans og verk. Það er auðvelt þegar hjarta okkar er fullt af þakklæti. Þegar við tökum okkur tíma til að hugleiða gæsku Jehóva, allt sem hann hefur gert fyrir okkur, verðum við aldrei uppiskroppa með ástæður til að lofa hann. Í boðuninni höfum við gott tækifæri til að „færa Guði lofgerðarfórn, það er ávöxt vara okkar“. (Hebr. 13:15) Rétt eins og við ættum að hugleiða vandlega hvað við ætlum að segja við Jehóva í bæn er gott að hugleiða vandlega hvað við ætlum að segja við fólk sem við hittum í boðuninni. Við viljum að lofgerðarfórn okkar sé eins góð og mögulegt er. Þess vegna tölum við frá hjartanu þegar við boðum trúna.

9. Hvernig höfum við gagn af því að safnast saman eins og Ísraelsmenn til forna? Segðu frá því hvernig samkomurnar hafa hjálpað þér.

9 Við tilbiðjum Jehóva þegar við sækjum safnaðarsamkomur. Ísraelsmönnum til forna var sagt: „Þrisvar á ári … skulu allir karlmenn þínir sjá auglit Drottins, Guðs þíns, á staðnum sem hann velur.“ (5. Mós. 16:16) Þeir þurftu að fara frá heimilum sínum og ökrum óvörðum. En Jehóva lofaði: ,Enginn skal ásælast land þitt þegar þú … ferð upp eftir til að birtast fyrir augliti Drottins, Guðs þíns.‘ (2. Mós. 34:24) Guðhræddir Ísraelsmenn settu traust sitt algerlega á Jehóva og sóttu þessar árlegu hátíðir. Fyrir vikið uppskáru þeir ríkulega – þeir dýpkuðu skilning sinn á lögum Guðs, hugleiddu gæsku hans og nutu uppbyggjandi félagsskapar trúsystkina sinna. (5. Mós. 16:15) Við höfum sams konar gagn af því að gera allt sem í okkar valdi stendur til að sækja kristnar samkomur. Og hugsa sér hversu ánægður Jehóva hlýtur að vera þegar við höfum búið okkur undir að gefa stutt og innihaldsrík svör.

10. Hvers vegna er söngur mikilvægur þáttur í tilbeiðslu okkar?

10 Við tilbiðjum Jehóva þegar við syngjum með bræðrum okkar og systrum. (Sálm. 28:7) Ísraelsmenn álitu söng mikilvægan þátt í tilbeiðslu sinni. Davíð konungur valdi 288 Levíta til að vera söngvara í musterinu. (1. Kron. 25:1, 6–8) Við getum tjáð Guði kærleika okkar þegar við syngjum lofsöngva. Við þurfum ekki að vera góðir söngvarar til þess. Lítum á dæmi til samanburðar: ,Við hrösum öll margsinnis‘ þegar við tölum en það kemur ekki í veg fyrir að við tölum í söfnuðinum og í boðuninni. (Jak. 3:2) Á svipaðan hátt getum við sungið Jehóva lof þótt okkur finnist við ekki syngja vel.

11. Hvers vegna ættum við að taka frá tíma fyrir biblíunámsstund fjölskyldunnar samkvæmt Sálmi 48:14?

11 Við tilbiðjum Jehóva þegar við rannsökum orð hans og fræðum börnin okkar um hann. Hvíldardagurinn gaf Ísraelsmönnum tækifæri til að leggja dagleg störf til hliðar og einbeita sér að sambandi sínu við Jehóva. (2. Mós. 31:16, 17) Trúfastir Ísraelsmenn fræddu börnin sín um Jehóva og gæsku hans. Við ættum að taka okkur tíma til að lesa og rannsaka orð Guðs. Það er hluti af tilbeiðslu okkar á Jehóva og hjálpar okkur að tengjast honum betur. (Sálm. 73:28) Og þegar við rannsökum Biblíuna saman sem fjölskylda getum við hjálpað næstu kynslóð, börnunum okkar, að rækta hlýlegt og persónulegt samband við kærleiksríkan föður okkar á himni. – Lestu Sálm 48:14.

12. Hvað getum við lært af því hvernig Jehóva leit á vinnu þeirra sem unnu við handverk í tjaldbúðinni?

12 Við tilbiðjum Jehóva þegar við byggjum og viðhöldum tilbeiðslustöðum. Biblían segir að vinnan við að gera tjaldbúðina og það sem tilheyrði henni hafi verið heilög. (2. Mós. 36:1, 4, NW) Í augum Jehóva er bygging ríkissala og annarra bygginga sem eru notaðar í tilbeiðslunni enn heilög þjónusta. Sumir bræður og systur nota mikinn tíma í þessu starfi. Við kunnum vel að meta dýrmætt framlag þeirra í þágu ríkis Guðs. Þau taka að sjálfsögðu líka þátt í boðun trúarinnar. Sum þeirra langar ef til vill að verða brautryðjendur. Safnaðaröldungar sýna stuðning sinn við byggingarvinnuna með því að hika ekki við að útnefna þessa duglegu menn og konur sem brautryðjendur þegar þau uppfylla kröfurnar. Hvort sem við erum þjálfuð í byggingarvinnu eða ekki getum við öll átt þátt í að halda þessum byggingum hreinum og í góðu ástandi.

13. Hvernig ættum við að líta á framlögin sem við gefum til boðunar Guðsríkis?

13 Við tilbiðjum Jehóva þegar við styðjum boðun Guðsríkis með fjárframlögum okkar. Ísraelsmenn áttu ekki að koma tómhentir fram fyrir Jehóva. (5. Mós. 16:16) Þeir áttu að koma með gjöf í samræmi við aðstæður sínar. Þannig sýndu þeir þakklæti sitt fyrir allt sem Jehóva var að gera fyrir þá. Hvernig getum við tjáð Jehóva kærleika okkar og þakklæti fyrir allt sem hann er að gera fyrir okkur? Við getum það meðal annars með því að styðja heimasöfnuðinn og starfsemi okkar um heim allan fjárhagslega eins og aðstæður okkar leyfa. Páll postuli orðaði þetta svona: „Ef viljinn er fyrir hendi er Guð ánægður og metur gjöfina eftir því sem hver og einn á en ekki eftir því sem hann á ekki.“ (2. Kor. 8:4, 12) Jehóva kann að meta það sem við gefum, jafnvel þótt upphæðin sé lág. – Mark. 12:42–44; 2. Kor. 9:7.

14. Hvernig lítur Jehóva á það samkvæmt Orðskviðunum 19:17 þegar við hjálpum trúsystkinum sem hafa þörf á hjálp?

14 Við tilbiðjum Jehóva þegar við hjálpum trúsystkinum sem þarfnast hjálpar. Jehóva lofaði að endurgjalda Ísraelsmönnum sem sýndu fátækum örlæti. (5. Mós. 15:7, 10) Jehóva lítur á það sem gjöf til sín í hvert sinn sem við hjálpum trúsystkini sem þarf á hjálp að halda. (Lestu Orðskviðina 19:17.) Þegar kristnir menn í Filippí sendu til dæmis Páli gjöf þegar hann var í fangelsi kallaði hann það ,fórn sem Guð hefur velþóknun á‘. (Fil. 4:18) Hugsaðu um bræður og systur í þínum söfnuði og spyrðu þig: Er einhver sem ég gæti hjálpað? Það gleður Jehóva þegar við notum tíma okkar, krafta, kunnáttu og efnislegar eigur til að hjálpa þeim sem hafa þörf fyrir hjálp. Hann álítur það hluta af tilbeiðslu okkar. – Jak. 1:27.

SÖNN TILBEIÐSLA VEITIR OKKUR HAMINGJU

15. Hvers vegna er sönn tilbeiðsla ekki íþyngjandi þótt hún kosti tíma og viðleitni?

15 Sönn tilbeiðsla kostar tíma og viðleitni. En hún er ekki íþyngjandi. (1. Jóh. 5:3) Hvers vegna? Vegna þess að við tilbiðjum Jehóva vegna kærleika okkar til hans. Ímyndum okkur barn sem langar að gefa pabba sínum gjöf. Það notar kannski nokkra klukkutíma til að teikna mynd handa honum. Það sér ekki eftir tímanum sem það tekur. Það elskar pabba sinn og er ánægt að gefa honum gjöfina. Á svipaðan hátt erum við meira en fús að gefa af tíma okkar og kröftum í tilbeiðslunni á Jehóva vegna þess að við elskum hann.

16. Hvernig lítur Jehóva á það sem hvert og eitt okkar gerir til að gleðja hann samkvæmt Hebreabréfinu 6:10?

16 Ástríkir foreldrar búast ekki við sömu gjöf frá öllum börnunum sínum. Þau gera sér ljóst að þau hafa ekki sömu getu og möguleika. Á svipaðan hátt skilur himneskur faðir okkar aðstæður hvers og eins okkar. Kannski getur þú gert meira en margir sem þú þekkir og þér þykir vænt um. Eða þá að þú getur ekki gert eins mikið og aðrir, kannski vegna aldurs, heilsu eða fjölskylduábyrgðar. Láttu það ekki draga úr þér kjark. (Gal. 6:4) Jehóva gleymir ekki verki þínu. Það gleður hann þegar þú gefur honum þitt besta af réttum hvötum. (Lestu Hebreabréfið 6:10.) Jehóva sér jafnvel það sem þig langar innst inni að gera. Hann vill að þú sért glaður og ánægður með það sem þú getur gefið honum.

17. (a) Hvað getum við gert ef okkur finnst ákveðnir þættir tilbeiðslunnar erfiðir? (b) Hvernig hefur eitthvað af því sem er bent á í rammanum „ Auktu við hamingju þína“ gagnast þér?

17 Hvað getum við gert ef okkur finnst ákveðinn þáttur í tilbeiðslunni erfiður eins og til dæmis sjálfsnám eða boðun trúarinnar? Við komumst líklega að því að því betur sem við sinnum þessum þáttum því meiri ánægju og gagn höfum við af þeim. Við gætum borið tilbeiðsluna saman við það að æfa líkamsrækt eða að spila á hljóðfæri. Við tökum að öllum líkindum ekki miklum framförum ef við gerum það bara af og til. En segjum að við ákveðum að gera það á hverjum degi. Við byrjum kannski á því að gera það í fáeinar mínútur á dag og lengjum það síðan smám saman. Þegar við sjáum árangur erfiðis okkar hlökkum við líklega til næstu æfingar og njótum hennar. Geturðu séð hvernig má heimfæra þetta dæmi upp á tilbeiðsluna?

18. Hvernig getum við lifað í samræmi við tilgang lífsins og með hvaða árangri?

18 Þegar við tilbiðjum Jehóva af öllu hjarta lifum við í samræmi við tilgang lífsins. Þá er líf okkar hamingjuríkt og tilgangsríkt og við höfum þá von að tilbiðja Jehóva um alla framtíð. (Orðskv. 10:22) Við höfum þegar hugarfrið vegna þess að við vitum að Jehóva hjálpar okkur þegar við eigum við vandamál að glíma. (Jes. 41:9, 10) Við höfum sannarlega ríka ástæðu til að vera hamingjusöm þegar við tilbiðjum ástríkan föður okkar sem er þess verður „að fá dýrðina og heiðurinn“ frá öllu sköpunarverki sínu. – Opinb. 4:11.

SÖNGUR 24 Göngum á fjall Jehóva

^ Sem skapari allra hluta verðskuldar Jehóva að við tilbiðjum hann. Verk okkar í tengslum við tilbeiðsluna eru honum þóknanleg þegar við hlýðum boðum hans og lifum í samræmi við meginreglur hans. Í þessari grein ræðum við um átta mismunandi þætti tilbeiðslu okkar. Við athugum hvernig við getum tekið framförum á þessum sviðum og hvernig það eykur hamingju okkar.