Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 14

Þið öldungar, haldið áfram að líkja eftir Páli postula

Þið öldungar, haldið áfram að líkja eftir Páli postula

„Líkið eftir mér.“ – 1. KOR. 11:1.

SÖNGUR 99 Milljónir bræðra

YFIRLIT *

1, 2. Hvernig geta öldungar haft gagn af fordæmi Páls?

 PÁLL postuli elskaði trúsystkini sín. Hann lagði hart að sér til að annast þau. (Post. 20:31) Fyrir vikið þótti þeim innilega vænt um hann. Einu sinni tóku öldungarnir í Efesus að „gráta sáran“ þegar hann sagði þeim að þeir myndu ekki sjá hann framar. (Post. 20:37) Fórnfúsir öldungar okkar elska á sama hátt bræður sína og systur nú á dögum innilega og gera allt sem þeir geta til að hjálpa þeim. (Fil. 2:16, 17) En það er ekki alltaf auðvelt fyrir öldungana að gera allt sem þarf að gera. Hvað getur hjálpað þeim?

2 Ötulir öldungar okkar geta hugleitt fordæmi Páls. (1. Kor. 11:1) Hann var ekki ofurmannlegur. Hann var ófullkominn og átti stundum í baráttu við að gera það sem er rétt. (Rómv. 7:18–20) Og hann þurfti að glíma við margs konar erfiðleika. En hann gafst ekki upp og missti ekki gleðina. Með því að líkja eftir Páli geta öldungar sigrast á erfiðleikum og haldið áfram að þjóna Jehóva með gleði. Athugum hvernig þeir geta gert það.

3. Hvað skoðum við í þessari grein?

3 Í þessari grein skoðum við fernt sem öldungar þurfa að takast við: (1) að hafa jafnvægi milli boðunarinnar og annarra skyldna, (2) að vera umhyggjusamir hirðar, (3) að glíma við eigin ófullkomleika og (4) að takast á við ófullkomleika annarra. Við ræðum hvað hjálpaði Páli á þessum sviðum og hvernig öldungar geta líkt eftir honum.

AÐ HAFA JAFNVÆGI MILLI BOÐUNARINNAR OG ANNARRA SKYLDNA

4. Hvers vegna getur öldungum fundist erfitt að taka forystu í boðuninni?

4 Hvers vegna getur það verið erfitt? Öldungarnir hafa margar skyldur auk þeirrar að taka forystuna í boðuninni. Margir þeirra sjá um fundarstjórn eða stýra umræðum í safnaðarbiblíunáminu á samkomum í miðri viku. Sumir annast líka önnur kennsluverkefni. Þeir leggja sig fram um að þjálfa safnaðarþjóna og þeir hafa ánægju af að hvetja trúsystkini sín. (1. Pét. 5:2) Sumir öldungar taka þátt í að byggja og viðhalda ríkissölum eða öðrum byggingum sem eru notaðar í tilbeiðslunni. En öldungar eru samt fyrst og fremst boðberar fagnaðarboðskaparins rétt eins og allir aðrir í söfnuðinum. – Matt. 28:19, 20.

5. Hvaða fordæmi setti Páll sem boðberi?

5 Fordæmi Páls. Við sjáum hver var lykillinn að góðum árangri Páls í Filippíbréfinu 1:10. Þar hvetur hann: „Metið hvað sé mikilvægt.“ Þetta gerði Páll sjálfur. Honum hafði verið falin þjónusta og áratugum saman leit hann á hana sem það mikilvægasta í lífinu. Hann boðaði trúna „opinberlega og hús úr húsi“. (Post. 20:20) Hann takmarkaði ekki boðunina við ákveðinn tíma dags eða ákveðinn dag vikunnar. Hann boðaði trúna hvenær sem tækifæri gafst. Meðan hann beið til dæmis eftir félögum sínum í Aþenu kynnti hann fagnaðarboðskapinn fyrir hópi af háttsettu fólki og sumir brugðust vel við. (Post. 17:16, 17, 34) Jafnvel þegar Páll var í fjötrum boðaði hann trúna þeim sem voru í kringum hann. – Fil. 1:13, 14; Post. 28:16–24.

6. Hvaða þjálfun veitti Páll?

6 Páll notaði tímann sem best. Hann bauð oft öðrum með sér í boðunina. Hann bauð til dæmis Jóhannesi Markúsi með sér í fyrstu trúboðsferð sína og Tímóteusi í aðra trúboðsferðina. (Post. 12:25; 16:1–4) Páll gerði eflaust sitt besta til að kenna þessum mönnum að skipuleggja söfnuði, sinna hirðastarfinu og verða færir kennarar. – 1. Kor. 4:17.

Líkið eftir Páli og verið reiðubúnir að boða trúna. (Sjá 7. grein.) *

7. Hvernig geta öldungar farið eftir hvatningu Páls í Efesusbréfinu 6:14, 15?

7 Lærdómur. Öldungar geta líkt eftir Páli með því að boða trúna hvenær sem tækifæri gefst en ekki aðeins hús úr húsi. (Lestu Efesusbréfið 6:14, 15.) Þeir geta til dæmis boðað trúna þegar þeir fara að versla eða eru í vinnunni. Þegar þeir taka þátt í byggingarverkefnum á vegum safnaðarins geta þeir boðað nágrönnum og sölumönnum fagnaðarboðskapinn. Rétt eins og Páll geta öldungar notað tækifærið til að þjálfa aðra, þar á meðal safnaðarþjóna, meðan þeir boða trúna með þeim.

8. Hvað geta öldungar stundum þurft að gera?

8 Öldungar ættu aldrei að vera svo uppteknir við að annast verkefni í söfnuðinum eða á farandsvæðinu að enginn tími verði eftir til boðunarinnar. Þeir þurfa kannski að hafna sumum verkefnum til að halda jafnvægi í þessum efnum. Eftir að hafa hugleitt málið í bænarhug verður þeim kannski ljóst að þeir geti ekki annast ákveðið verkefni án þess að það bitni á því sem skiptir meira máli, eins og til dæmis að sjá um biblíunámsstund fjölskyldunnar í hverri viku, taka fullan þátt í að boða trúna eða þjálfa börnin í boðuninni. Sumum finnst erfitt að hafna þjónustuverkefni en þeir mega vera vissir um Jehóva skilur löngun þeirra til að sinna öllum skyldum sínum vel.

AÐ VERA UMHYGGJUSAMIR HIRÐAR

9. Hvað getur önnum köfnum öldungum fundist erfitt?

9 Hvers vegna getur það verið erfitt? Þjónar Jehóva verða fyrir mörgum prófraunum. Við þurfum öll á hvatningu, stuðningi og hughreystingu að halda á þessum síðustu dögum. Og stundum þurfa sumir að fá hjálp til að forðast ranga hegðun. (1. Þess. 5:14) Öldungar geta auðvitað ekki bundið enda á allar prófraunir sem þjónar Jehóva ganga í gegnum. En Jehóva vill að öldungarnir geri það sem þeir geta til að uppörva og vernda sauði hans. Hvernig geta önnum kafnir öldungar fundið tíma til að veita trúsystkinum nauðsynlega aðstoð?

Hrósið öðrum og byggið þá upp. (Sjá 10. og 12. grein.) *

10. Hvernig annaðist Páll þjóna Jehóva eins og kemur fram í 1. Þessaloníkubréfi 2:7?

10 Fordæmi Páls. Páll var vakandi fyrir tækifærum til að hrósa trúsystkinum sínum og byggja þau upp. Öldungar ættu að líkja eftir honum og annast þjóna Jehóva af kærleika. (Lestu 1. Þessaloníkubréf 2:7.) Páll fullvissaði trúsystkini sín um að hann elskaði þau og að Jehóva gerði það líka. (2. Kor. 2:4; Ef. 2:4, 5) Hann leit á þau sem vini og varði tíma með þeim. Hann sýndi þeim traust með því að ræða opinskátt við þau um áhyggjur sínar og veikleika. (2. Kor. 7:5; 1. Tím. 1:15) En athygli hans beindist ekki að eigin vandamálum heldur vildi hann hjálpa trúsystkinum sínum.

11. Hvers vegna gaf Páll trúsystkinum sínum leiðbeiningar?

11 Páll þurfti stundum að gefa trúsystkinum sínum leiðbeiningar. En hann gerði það aldrei til að fá útrás fyrir gremju. Hann gaf þeim leiðbeiningar vegna þess að hann elskaði þau og vildi vernda þau frá ýmsum hættum. Hann leitaðist við að hafa leiðbeiningarnar auðskiljanlegar og það skipti hann máli hvernig þeim var tekið. Páll veitti til dæmis alvarlega áminningu í bréfi sínu til Korintumanna. Eftir að hafa skrifað bréfið sendi hann Títus til þeirra. Páll vildi vita hvernig þeir brygðust við leiðbeiningunum. Það gladdi hann að heyra að þau hefðu tekið við þeim og farið eftir þeim. – 2. Kor. 7:6, 7.

12. Hvernig geta öldungar styrkt trúsystkini sín?

12 Lærdómur. Öldungar geta líkt eftir Páli með því að verja tíma með trúsystkinum sínum. Þeir geta til dæmis gert það með því að mæta snemma á safnaðarsamkomur til að eiga hvetjandi umræður við aðra. Það tekur oft ekki nema fáeinar mínútur að hvetja hlýlega trúsystkini sem þarf á hvatningu að halda. (Rómv. 1:12; Ef. 5:16) Öldungur sem fylgir fordæmi Páls notar líka Biblíuna til að styrkja trúsystkini sín. Hann fullvissar þau sem eru í umsjá hans um kærleika sinn til þeirra. Hann er reglulega í sambandi við þau og er vakandi fyrir því að hrósa þeim. Þegar öldungur þarf að gefa leiðbeiningar byggir hann þær á orði Guðs. Leiðbeiningar hans eru skýrar en gefnar á vingjarnlegan hátt vegna þess að hann vill að bróðir hans eða systir taki við þeim. – Gal. 6:1.

AÐ GLÍMA VIÐ EIGIN ÓFULLKOMLEIKA

13. Hvernig gæti öldungur brugðist við eigin veikleikum?

13 Hvers vegna getur það verið erfitt? Öldungar eru ekki fullkomnir. Þeir gera mistök eins og annað fólk. (Rómv. 3:23) Þeir geta stundum átt erfitt með að sjá ófullkomleika sinn í réttu ljósi. Sumir hugsa kannski svo mikið um takmörk sín að þeir missa kjarkinn. Aðrir eru kannski fljótir að afsaka galla sína og gera ekki nauðsynlegar breytingar vegna þess að þeir sjá ekki þörfina á því.

14. Hvernig gerði auðmýkt Páli kleift að takast á við veikleika sína samkvæmt Filippíbréfinu 4:13?

14 Fordæmi Páls. Páll var auðmjúkur og viðurkenndi að hann gæti ekki tekist á við veikleika sína án hjálpar. Hann þurfti að fá styrk frá Guði. Áður hafði Páll ofsótt kristna menn af hörku. En seinna viðurkenndi hann syndir sínar og var fús til að breyta hugarfari sínu og persónuleika. (1. Tím. 1:12–16) Með hjálp Jehóva varð Páll kærleiksríkur, samúðarfullur og auðmjúkur öldungur. Hann gerði sér sárlega grein fyrir ófullkomleika sínum en hann kaus að treysta á fúsleika Jehóva til að fyrirgefa frekar en að dvelja við mistök sín. (Rómv. 7:21–25) Hann bjóst ekki við fullkomleika af sjálfum sér. En hann lagði hart að sér til að bæta persónuleika sinn og treysti auðmjúkur að Jehóva myndi hjálpa sér að gera þjónustu sinni góð skil. – 1. Kor. 9:27; Lestu Filippíbréfið 4:13.

Leggið hart að ykkur að sigrast á veikleikum ykkar. (Sjá 14. og 15. grein.) *

15. Hvernig getur öldungur haft rétt viðhorf til eigin ófullkomleika?

15 Lærdómur. Öldungar eru ekki útnefndir vegna þess að þeir séu fullkomnir. En Jehóva væntir þess að þeir viðurkenni mistök sín og bæti persónuleika sinn. (Ef. 4:23, 24) Öldungur ætti að rannsaka sjálfan sig í ljósi orðs Guðs og gera nauðsynlegar breytingar. Þá hjálpar Jehóva honum að vera ánægður og góður öldungur. – Jak. 1:25.

AÐ TAKAST Á VIÐ ÓFULLKOMLEIKA ANNARRA

16. Hvað gæti gerst ef öldungur einblíndi á ófullkomleika annarra?

16 Hvers vegna getur það verið erfitt? Öldungar sem starfa náið með öðrum í söfnuðinum taka auðveldlega eftir ófullkomleika þeirra. Ef öldungarnir gæta sín ekki gætu þeir orðið pirraðir, óvingjarnlegir eða dómharðir. Páll benti kristnum mönnum á að Satan myndi líka það vel. – 2. Kor. 2:10, 11.

17. Hvernig leit Páll á trúsystkini sín?

17 Fordæmi Páls. Hann hugsaði alltaf það besta um bræður sína og systur. Hann var meðvitaður um mistök þeirra því að þau bitnuðu stundum á honum. En Páll þekkti muninn á slæmri hegðun og slæmri manneskju. Hann elskaði trúsystkini sín og beindi athyglinni að góðum eiginleikum þeirra. Þegar þau áttu erfitt með að gera það sem var rétt gerði hann ráð fyrir að hvatir þeirra væru góðar og að þau þyrftu einfaldlega á hjálp að halda.

18. Hvað getum við lært af því hvernig Páll brást við ágreiningi Evodíu og Sýntýke? (Filippíbréfið 4:1–3)

18 Hugleiðum hvernig Páll hjálpaði tveim systrum í söfnuðinum í Filippí. (Lestu Filippíbréfið 4:1–3.) Evodía og Sýntýke virðast hafa látið skoðanamun valda ósætti sín á milli. Páll var ekki óvingjarnlegur eða dómharður heldur beindi athyglinni að góðum eiginleikum þeirra. Þessar systur voru trúfastar og höfðu þjónað Jehóva lengi. Páll vissi að Jehóva elskaði þær. Jákvætt álit Páls á þeim fékk hann til að hvetja þær til að jafna ágreininginn sín á milli. Þar sem hann beindi athygli sinni að góðum eiginleikum annarra gat hann varðveitt gleðina og vináttuna við trúsystkinin í þessum söfnuði.

Forðist að vera dómharðir. (Sjá 19. grein.) *

19. (a) Hvernig geta öldungar varðveitt jákvætt viðhorf til trúsystkina sinna? (b) Hvaða lærdóm getum við dregið af myndinni af öldungi sem tekur þátt í að þrífa ríkissalinn?

19 Lærdómur. Þið öldungar, leitist við að sjá góðu eiginleikana sem trúsystkini ykkar búa yfir. Þau eru öll ófullkomin en hafa hvert og eitt aðdáunarverða eiginleika. (Fil. 2:3) Af og til geta öldungar vissulega þurft að leiðrétta hugsun bróður eða systur. En líkt og Páll ættu þeir að forðast að einblína á pirrandi orð og hegðun annarra. Þeir ættu miklu frekar að beina athygli sinni að kærleika hvers og eins til Jehóva, trúfesti í þjónustunni og möguleika til að gera gott. Öldungar sem hafa jákvætt viðhorf til trúsystkina sinna stuðla að hlýlegu og uppbyggjandi andrúmslofti í söfnuðinum.

HALDIÐ ÁFRAM AÐ LÍKJA EFTIR PÁLI

20. Hvernig geta öldungar haldið áfram að hafa gagn af fordæmi Páls?

20 Það er gagnlegt fyrir ykkur öldunga að halda áfram að kynna ykkur fordæmi Páls. Í Watch Tower Publications Index getið þið fundið efni undir viðfangsefninu „Paul“ og síðan flettunni „example for elders“. Þegar þið lesið efnið skuluð þið hugleiða hvernig fordæmi Páls getur hjálpað ykkur að varðveita gleðina í starfi ykkar sem öldungar.

21. Um hvað geta öldungar verið fullvissir?

21 Þið öldungar, gleymið ekki að Jehóva fer ekki fram á að þið séuð fullkomnir. Hann fer fram á að þið séuð trúfastir. (1. Kor. 4:2) Hann var ánægður með allt sem Páll lagði á sig og kunni að meta trúfesti hans. Þið megið vera vissir um að hann metur líka mikils það sem þið gerið í þjónustunni. Jehóva „gleymir ekki verki ykkar og kærleikanum sem þið sýnduð nafni hans með því að þjóna hinum heilögu eins og þið gerið enn“. – Hebr. 6:10.

SÖNGUR 87 Komið og endurnærist

^ Við erum mjög þakklát fyrir allt sem öldungarnir leggja á sig til að annast okkur. Í þessari grein fjöllum við um fernt sem getur reynt á þá. Við skoðum líka hvernig fordæmi Páls getur hjálpað öldungunum á þessum sviðum. Greinin getur hjálpað okkur að sýna þeim hluttekningu og kærleika og hvatt okkur til að styðja þá.

^ MYND: Bróðir á leiðinni úr vinnu ræðir við vinnufélaga um fagnaðarboðskapinn.

^ MYND: Öldungur sýnir bróður sem á það til að einangra sig áhuga og hlýju.

^ MYND: Bróðir gefur bróður sem hefur móðgast gagnleg ráð.

^ MYND: Öldungur er ekki neikvæður í garð bróður sem einbeitir sér ekki að verkefninu sem hann hefur tekið að sér.