Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 15

Ertu fyrirmynd í tali?

Ertu fyrirmynd í tali?

„Vertu heldur fyrirmynd hinna trúföstu í tali.“ – 1. TÍM. 4:12.

SÖNGUR 90 Gefum gætur hvert að öðru

YFIRLIT a

1. Hvaðan er hæfileiki okkar til að tala kominn?

 TALGÁFAN er gjöf frá kærleiksríkum Guði okkar. Adam, fyrsti maðurinn, gat talað við himneskan föður sinn og átt þannig samskipti við hann alveg frá því að hann var skapaður. Hann gat líka stækkað orðaforða sinn með því að búa til ný orð. Adam notaði þennan hæfileika þegar hann gaf dýrunum heiti. (1. Mós. 2:19) Og hann hlýtur að hafa verið mjög spenntur þegar hann talaði í fyrsta skipti við aðra manneskju – fallegu eiginkonuna sína, Evu. – 1. Mós. 2:22, 23.

2. Hvernig hefur talgáfan verið misnotuð áður fyrr og nú á dögum?

2 Talgáfan var fljótlega misnotuð. Satan Djöfullinn laug að Evu og þessi lygi leiddi til syndar og ófullkomleika. (1. Mós. 3:1–4) Adam misnotaði talgáfuna þegar hann kenndi Evu, og jafnvel Jehóva, um eigin mistök. (1. Mós. 3:12) Kain laug að Jehóva eftir að hann hafði drepið Abel bróður sinn. (1. Mós. 4:9) Síðar orti Lamek afkomandi Kains ljóð sem endurspeglaði ofbeldið á þeim tíma þegar hann var uppi. (1. Mós. 4:23, 24) Hvernig er staðan nú á dögum? Sumir stjórnmálamenn hika ekki við að blóta á almannafæri. Og það er erfitt að finna kvikmynd þar sem er ekki notað ljótt orðbragð. Nemendur heyra blótað í skólanum og fullorðnir á vinnustöðum sínum. Sú staðreynd að ljótt orðbragð er orðið svo algengt endurspeglar hversu mikið siðferðismælikvarða heimsins hefur hrakað.

3. Hvaða hættu verðum við að varast og hvað er fjallað um í þessari námsgrein?

3 Ef við gætum okkar ekki gætum við vanist því að hlusta á ljótt orðbragð og farið að nota það sjálf. Sem þjónar Jehóva viljum við auðvitað gleðja hann og það felur meira í sér en að forðast ljótt tal. Við viljum nota þessa merkilegu gjöf, talgáfuna, á jákvæðan hátt til að lofa Guð okkar. Í þessari námsgrein tökum við til athugunar hvernig við getum gert það (1) í boðuninni, (2) á safnaðarsamkomum og (3) í daglegum samræðum við aðra. En skoðum fyrst hvers vegna tal okkar skiptir Jehóva máli.

TAL OKKAR SKIPTIR JEHÓVA MÁLI

Hvað gefur tal þitt til kynna að búi í hjarta þínu? (Sjá 4. og 5. grein.) d

4. Hvers vegna skiptir tal okkar Jehóva máli samkvæmt Malakí 3:16?

4 Lestu Malakí 3:16. Geturðu ímyndað þér hvers vegna Jehóva skrifar nöfn þeirra í bók sem sýna með tali sínu að þeir óttast hann og virða nafn hans? Tal okkar gefur til kynna hvað býr í hjarta okkar. Jesús sagði: „Munnurinn talar af gnægð hjartans.“ (Matt. 12:34) Það sem við kjósum að tala um endurspeglar hversu innilega við elskum Jehóva. Og Jehóva vill að þeir sem elska hann njóti lífsins að eilífu í nýjum heimi.

5. (a) Hvernig tengist tilbeiðsla okkar tali okkar? (b) Hverju þurfum við að gæta að í tali okkar eins og myndin sýnir?

5 Það getur ráðist af tali okkar hvort Jehóva er ánægður með tilbeiðslu okkar. (Jak. 1:26) Sumir sem elska ekki Guð eru reiðir, óvingjarnlegir og stoltir í tali. (2. Tím. 3:1–5) Við viljum að sjálfsögðu ekki líkjast þeim. Við viljum umfram allt gleðja Jehóva með tali okkar. En getur Jehóva verið ánægður með okkur ef við tölum vingjarnlega á samkomum eða í boðuninni en erum óvingjarnleg eða hranaleg í tali við okkar nánustu þegar aðrir heyra ekki til? – 1. Pét. 3:7.

6. Hvað gott hafði það í för með sér að Kimberly notaði talgáfuna á góðan hátt?

6 Þegar við notum talgáfuna á uppbyggilegan hátt sýnum við að við erum tilbiðjendur Jehóva. Við hjálpum þeim sem við umgöngumst að sjá greinilega muninn „á þeim sem þjóna Guði og þeim sem þjóna honum ekki“. (Mal. 3:18). Skoðum hvernig þetta var einmitt tilfellið hjá systur sem heitir Kimberly. b Henni var úthlutað verkefni í framhaldskóla sem hún átti að vinna með bekkjarsystur sinni. Þegar þær unnu saman tók bekkjarsystir Kimberly eftir því að hún var öðruvísi en hinir nemendurnir. Hún talaði ekki illa um fólk, var vingjarnleg í tali og hún blótaði ekki. Þetta vakti áhuga bekkjarsystur Kimberly og síðar þáði hún biblíunámskeið. Það gleður Jehóva þegar við tölum á þann hátt að það laðar fólk að sannleikanum.

7. Hvernig langar þig að nota talgáfuna sem Guð gaf þér?

7 Við viljum öll að tal okkar heiðri Jehóva og styrki böndin við bræður okkar og systur. Við skulum því skoða nokkur gagnleg ráð sem geta hjálpað okkur að vera til fyrirmyndar í tali.

VERTU GÓÐ FYRIRMYND Í BOÐUNINNI

Það gleður Jehóva þegar við tölum vingjarnlega við fólk í boðuninni. (Sjá 8. og 9. grein.)

8. Hvaða fordæmi setti Jesús okkur með tali sínu í boðuninni?

8 Talaðu af vinsemd og virðingu þegar þér er ögrað. Jesús var ranglega sakaður um að brjóta hvíldardagsboðið, vera drykkjumaður, mathákur, útsendari Djöfulsins, og jafnvel að vera guðlastari. (Matt. 11:19; 26:65; Lúk. 11:15; Jóh. 9:16) En Jesús svaraði samt ekki með reiðilegum orðum. Við ættum að líkja eftir Jesú og svara aldrei í sömu mynt þegar einhver talar óvingjarnlega við okkur. (1. Pét. 2:21–23) Það er að sjálfsögðu ekki alltaf auðvelt. (Jak. 3:2) Hvað er til ráða?

9. Hvað getur hjálpað okkur að hafa stjórn á tali okkar í boðuninni?

9 Reyndu að láta það ekki koma þér úr jafnvægi þegar einhver talar óvingjarnlega við þig í boðuninni. Bróðir sem heitir Sam segir: „Ég reyni að einbeita mér að þörf húsráðandans fyrir að heyra sannleikann og muna að hann getur breyst.“ Stundum er húsráðandi reiður einfaldlega vegna þess að við komum á óhentugum tíma. Þegar við hittum einhvern sem er reiður getum við farið að fordæmi systur sem heitir Lucia. Við getum farið með stutta bæn og beðið Jehóva að hjálpa okkur að vera róleg og segja ekkert sem er óvingjarnlegt eða endurspeglar virðingarleysi.

10. Hvaða markmið ættum við að hafa samkvæmt 1. Tímóteusarbréfi 4:13?

10 Taktu framförum sem kennari. Tímóteus var fær boðberi, en jafnvel hann þurfti að taka framförum sem kennari. (Lestu 1. Tímóteusarbréf 4:13.) Hvernig getum við orðið færari kennarar í boðuninni? Við þurfum að undirbúa okkur vel. Sem betur fer höfum við úrval af verkfærum sem geta hjálpað okkur að verða betri kennarar. Þú getur fundið gagnlegar ráðleggingar í bæklingnum Leggðu þig fram við að lesa og kenna og í liðnum „Leggðu þig fram við að boða trúna“ í Líf okkar og boðun vinnubók fyrir samkomur. Nýtirðu þér þessi verkfæri? Þegar við undirbúum okkur vel verðum við rólegri og tölum af meira öryggi.

11. Hvernig hafa sumir þjónar Guðs orðið betri kennarar?

11 Við getum líka orðið betri kennarar með því að fylgjast með öðrum í söfnuðinum og læra af þeim. Sam, sem áður er vitnað í, veltir fyrir sér hvað það er sem gerir sum trúsystkini að góðum kennurum. Hann hlustar vandlega á hvernig þau kenna og reynir síðan að líkja eftir þeim. Systir sem heitir Talia fylgist vel með hvernig reyndir ræðumenn byggja upp fyrirlestra sína. Þannig hefur hún lært að tala um og rökræða málefni sem koma oft upp í boðuninni.

VERTU GÓÐ FYRIRMYND Á SAFNAÐARSAMKOMUM

Það er Jehóva til lofs þegar við syngjum af hjartans lyst á samkomum. (Sjá 12. og 13. grein.)

12. Hvað finnst sumum erfitt?

12 Við getum öll stuðlað að ánægjulegum samkomum með því að taka þátt í söng og gefa vel undirbúin svör. (Sálm. 22:23) Sumum finnst erfitt að syngja eða svara á samkomum. Á það við um þig? Ef svo er getur það hjálpað þér að skoða hvað aðrir hafa gert til að sigrast á óttanum.

13. Hvað getur hjálpað þér að syngja af hjartans lyst á samkomum?

13 Syngdu af hjartans lyst. Við syngjum á samkomum fyrst og fremst til að lofa Jehóva. Systir sem heitir Sara álítur sig ekki góðan söngvara. En hana langar samt að lofa Jehóva í söng. Henni finnst gott að undirbúa sig með því að syngja söngvana heima rétt eins og hún undirbýr sig fyrir annað á samkomunni. Hún æfir söngvana og reynir að koma auga á hvernig textinn tengist því sem er fjallað um á samkomunni. „Það hjálpar mér að hugsa meira um textana og minna um sönghæfileika mína,“ segir hún.

14. Hvað getur hjálpað þér að svara á samkomum ef þú ert feiminn?

14 Svaraðu reglulega á samkomum. Þetta er óneitanlega erfitt fyrir suma. „Ég er með félagskvíða, þótt aðrir taki ekki eftir því vegna þess að ég tala yfirleitt rólega,“ segir Talia sem áður er minnst á. „Þess vegna finnst mér mjög erfitt að svara á samkomum.“ En Talia lætur það ekki stöðva sig. Þegar hún undirbýr sig fyrir samkomu hefur hún í huga að fyrsta svarið ætti að vera stutt og svara spurningunni beint. Hún segir: „Það þýðir að það er allt í lagi að gefa stutt og einfalt svar sem dregur fram aðalhugmyndina því að það er hvort eð er svarið sem námstjórinn vill heyra.“

15. Hverju megum við ekki gleyma varðandi svör okkar?

15 Jafnvel trúsystkini sem eru ekki sérstaklega feimin geta stundum hikað við að svara. Hvers vegna? Systir að nafni Juliet segir: „Ég hika stundum við að svara vegna þess að ég óttast að það sem ég hef að segja sé of einfalt eða ekki nógu gott.“ En ekki gleyma því að Jehóva vill að við svörum eins vel og við getum. c Hann kann virkilega að meta að við erum ákveðin í að lofa hann á safnaðarsamkomum og láta ótta ekki stöðva okkur.

VERTU GÓÐ FYRIRMYND Í DAGLEGU TALI

16. Hvers konar tal verðum við að forðast?

16 Forðastu svívirðilegt tal í öllum myndum. (Ef. 4:31) Þjónar Guðs ættu aldrei að taka sér blótsyrði í munn. En til eru lúmskari myndir af svívirðilegu tali sem við þurfum líka að gæta okkar á. Við þurfum til dæmis að vara okkur á neikvæðum samanburði þegar við tölum um fólk af annarri menningu, þjóð eða þjóðflokki. Við viljum ekki heldur særa neinn með móðgandi tali. Bróðir einn viðurkennir: „Ég hef stundum verið með særandi kaldhæðni sem mér hefur fundist fyndin og saklaus en hefur í raun verið á kostnað tilfinninga annarra. Í gegnum árin hefur konan mín hjálpað mér mjög mikið með því að láta mig vita af því undir fjögur augu þegar tal mitt hefur verið smekklaust og sært hana eða aðra.“

17. Hvernig getum við byggt aðra upp, samanber Efesusbréfið 4:29?

17 Byggðu aðra upp með tali þínu. Vertu fljótur að hrósa frekar en gagnrýna og kvarta. (Lestu Efesusbréfið 4:29.) Ísraelsmenn höfðu margt til að vera þakklátir fyrir en þeir kvörtuðu oft. Kvörtunarsemi getur verið smitandi. Munum að neikvætt tal tíu njósnara fékk alla Ísraelsmenn til að kvarta undan Móse. (4. Mós. 13:31–14:4) Hrós getur hins vegar haft mjög jákvæð áhrif á aðra. Við getum verið viss um að hrósið sem dóttir Jefta fékk frá vinkonum sínum hefur hvatt hana til að hvika ekki frá verkefni sínu. (Dóm. 11:40) Sara, sem vitnað er í áður, segir: „Þegar við hrósum öðrum hjálpum við þeim að finna að Jehóva elskar þá og að þeir hafa hlutverki að gegna í söfnuði hans.“ Verum því vakandi fyrir tækifærum til að hrósa öðrum einlæglega.

18. Hvers vegna þurfum við að tala sannleika samkvæmt Sálmi 15:1, 2 og hvað felur það í sér?

18 Talaðu sannleika. Við getum ekki þóknast Jehóva ef við erum ósannsögul. Hann hatar allar lygar. (Orðskv. 6:16, 17) Þótt margt fólk líti á það sem eðlilegt að ljúga höldum við okkur við mælikvarða Jehóva. (Lestu Sálm 15:1, 2.) Við forðumst að sjálfsögðu að segja hreinar lygar en líka að gefa ranga mynd til að villa um fyrir öðrum.

Jehóva er ánægður þegar við breytum neikvæðum samræðum í jákvæðar. (Sjá 19. grein.)

19. Hverju fleiru þurfum við að vara okkur á?

19 Forðastu að dreifa skaðlegu slúðri. (Orðskv. 25:23; 2. Þess. 3:11) Juliet, sem minnst er á áður, útskýrir hvaða áhrif neikvætt slúður hefur á sig: „Það er niðurdrepandi að hlusta á neikvætt slúður og það grefur undan trausti mínu á þeim sem talar þannig. Hver veit nema hann eða hún slúðri svona um mig við aðra.“ Ef þú áttar þig á því að samtalið er að fara í þessa átt skaltu stýra því í átt að einhverju jákvæðu. – Kól. 4:6.

20. Hvernig ert þú ákveðinn í að nota talgáfuna?

20 Við búum í heimi þar sem ljótt tal er algengt. Við þurfum því að leggja hart að okkur til að tryggja að tal okkar sé Jehóva velþóknanlegt. Munum að talgáfan er gjöf frá Jehóva og það skiptir hann máli hvernig við notum hana. Hann blessar einlæga viðleitni okkar til að tala á uppbyggilegan hátt í boðuninni, á samkomum og í samræðum við aðra. Þegar Jehóva bindur enda á þennan illa heim verður miklu auðveldara að heiðra hann með tali okkar. (Júd. 15) Þangað til skulum við vera staðráðin í að þóknast Jehóva með orðum okkar. – Sálm. 19:15.

SÖNGUR 121 Sýnum sjálfsaga

a Jehóva hefur gefið okkur frábæra gjöf – talgáfuna. Því miður nota flestir þessa gjöf ekki eins og Jehóva vill að hún sé notuð. Hvað getur hjálpað okkur að láta tal okkar vera hreint og uppbyggjandi í heimi sem verður stöðugt spilltari? Hvað getum við gert til að Jehóva sé ánægður með tal okkar þegar við tökum þátt í boðuninni, sækjum safnaðarsamkomur og tölum við aðra? Í þessari námsgrein skoðum við svörin við þessum spurningum.

b Sumum nöfnum hefur verið breytt.

c Sjá greinina „Lofum Jehóva í söfnuðinum“ í Varðturninum janúar 2019 til að fá fleiri upplýsingar um að svara á samkomum.

d MYND: Bróðir bregst hranalega við þegar húsráðandi er reiður, bróðir syngur ekki með á samkomu, systir tekur þátt í skaðlegu slúðri.