Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 16

Þú getur verið glaður þegar þú gefur Jehóva þitt besta

Þú getur verið glaður þegar þú gefur Jehóva þitt besta

„Hver og einn ætti að rannsaka eigin verk.“ – GAL. 6:4.

SÖNGUR 37 Þjónum Jehóva af allri sálu

YFIRLIT a

1. Hvað veitir okkur mikla gleði?

 JEHÓVA vill að við séum glöð. Við sjáum það af því að gleði er hluti af ávexti heilags anda hans. (Gal. 5:22) Þar sem ánægjulegra er að gefa en þiggja finnum við til djúprar gleði þegar við tökum fullan þátt í kristinni þjónustu og hjálpum bræðrum okkar og systrum á mismunandi vegu. – Post. 20:35.

2, 3. (a) Hvað tvennt getur hjálpað okkur að viðhalda gleði í þjónustu Jehóva samkvæmt Galatabréfinu 6:4? (b) Hvað fjöllum við um í þessari grein?

2 Í Galatabréfinu 6:4 nefnir Páll postuli tvennt sem getur hjálpað okkur að viðhalda gleði okkar. (Lestu.) Í fyrsta lagi ætti markmið okkar að vera að gefa Jehóva okkar besta. Ef við gefum honum okkar allra besta getum við verið glöð. (Matt. 22:36–38) Í öðru lagi ættum við að forðast að bera okkur saman við aðra. Hvað sem heilsa okkar, þjálfun eða hæfileikar gera okkur kleift að gera ættum við að vera Jehóva þakklát. Þegar allt kemur til alls höfum við fengið allt sem við höfum frá honum. En ef aðrir ná betri árangri en við í sumum greinum þjónustunnar ættum við að gleðjast yfir því að þeir skuli nota hæfileika sína til að lofa Jehóva í stað þess að upphefja sig eða nota þá aðeins í eigin þágu. Við ættum að læra af þeim en ekki keppa við þá.

3 Í þessari námsgrein fjöllum við um hvað getur hjálpað okkur þegar við erum óánægð með að geta ekki gert meira í þjónustu okkar. Einnig verður rætt um það hvernig við getum notað hæfileika okkar sem best og hvað við getum lært af öðrum.

ÞEGAR OKKUR ERU TAKMÖRK SETT

Við gleðjum Jehóva þegar við gerum okkar besta á hverju æviskeiði. (Sjá 4.–6. grein.) b

4. Hvaða aðstæður geta dregið okkur niður? Nefndu dæmi.

4 Sumir þjónar Jehóva eiga erfitt með að sætta sig við takmörk vegna hækkandi aldurs eða slæmrar heilsu. Það á við um Carol. Hún naut þess áður að boða trúna þar sem þörfin var meiri. Á þeim tíma hélt hún 35 biblíunámskeið og hjálpaði mörgum nemendum að taka framförum og vígja Jehóva líf sitt og skírast. Þjónusta Carol var árangursrík. En þá missti hún heilsuna og var að mestu bundin við heimili sitt. „Ég veit að það er vegna líkamlegra takmarka að ég get ekki gert það sem aðrir geta,“ segir Carol, „en mér finnst ég ekki jafn trúföst og þeir. Löngun mín og raunveruleikinn togast á og það er mér mjög erfitt.“ Carol langar að gera allt sem hún getur fyrir Jehóva. Hún á sannarlega hrós skilið. Við getum verið viss um að samúðarfullur Guð okkar kann að meta að hún skuli gera sitt besta.

5. (a) Hverju ættum við ekki að gleyma ef við erum döpur vegna takmarka okkar? (b) Hvernig hefur bróðirinn stöðuglega gefið Jehóva sitt besta í þjónustunni við hann, eins og myndirnar sýna?

5 Ef þú ert stundum dapur vegna takmarka þinna skaltu spyrja þig: Hvers krefst Jehóva af mér? Jehóva vill að þú gerir þitt besta við núverandi aðstæður. Ímyndum okkur systur á níræðisaldri sem er döpur vegna þess að hún getur ekki gert eins mikið í boðuninni og þegar hún var á fimmtugsaldri. Henni finnst að þó að hún geri sitt besta sé Jehóva ekki ánægður með það. En er það svo? Skoðum það nánar. Ef systirin gaf sitt besta á fimmtugsaldri og gefur enn sitt besta á níræðisaldri hefur hún aldrei hætt að gefa sitt besta. Ef við förum að hugsa sem svo að við gerum ekki nóg til að gleðja Jehóva þurfum við að minna okkur á að það er Jehóva sem ákveður hvað þurfi til að gleðja hann. Ef við gerum okkar besta segir Jehóva í raun við okkur: „Vel gert.“ – Samanber Matteus 25:20–23.

6. Hvað getum við lært af Mariu?

6 Við eigum auðveldara með að vera glöð ef við einbeitum okkur að því sem við getum áorkað í stað þess sem við getum ekki. Systir sem heitir Maria þjáist af sjúkdómi sem takmarkar hversu mikið hún getur gert í boðuninni. Í fyrstu fannst henni hún einskis nýt og var niðurdregin. En þá hugsaði Maria til systur í söfnuðinum sem var rúmföst og ákvað að hjálpa henni. „Ég gerði ráðstafanir til að boða trúna með henni í síma og með því að skrifa bréf,“ segir Maria. „Í hvert skipti sem við unnum saman kom ég heim glöð og ánægð yfir því að hafa getað hjálpað systur minni.“ Við getum líka aukið gleði okkar þegar við einbeitum okkur að því sem við getum frekar en því sem við getum ekki. En hvað ef við getum gert meira, eða ef við gerum eitthvað sérstaklega vel á sumum sviðum í þjónustu Jehóva?

NOTAÐU HÆFILEIKA ÞÍNA

7. Hvaða leiðbeiningar gaf Pétur postuli þjónum Jehóva?

7 Í fyrra innblásna bréfi sínu hvatti Pétur postuli bræður sína og systur til að nota hverja þá hæfileika sem þeir höfðu til að byggja trúsystkini sín upp. Pétur skrifaði: „Notið þá hæfileika sem þið hafið fengið, til að þjóna hvert öðru og verið góðir ráðsmenn einstakrar góðvildar Guðs.“ (1. Pét. 4:10) Við ættum ekki að halda aftur af okkur að nota hæfileika okkar til fulls af ótta við að aðrir kunni að verða afbrýðisamir eða niðurdregnir. Ef við gerðum það værum við ekki að gefa Jehóva okkar besta.

8. Hvers vegna ættum við að forðast að gorta af hæfileikum okkar samkvæmt 1. Korintubréfi 4:6, 7?

8 Við ættum að nota hæfileika okkar til fulls en við megum ekki gorta af þeim. (Lestu 1. Korintubréf 4:6, 7.) Þér gengur kannski sérstaklega vel að hefja biblíunámskeið. Þú ættir ekki að halda aftur af þér að nýta þér það. En það er eitt að nota hæfileika og allt annað að gorta af honum. Segjum að þér hafi nýlega gengið vel í boðuninni og í kjölfarið væri hafið biblíunámskeið. Þú ert spenntur að segja hinum í starfshópnum þínum frá því. Þegar þið hittist segir önnur systir frá því þegar einhver þáði blað hjá henni. Hún gaf blað en þú hófst biblíunámskeið. Hvað gerirðu? Þú veist að það er uppörvandi fyrir starfshópinn að heyra um biblíunámskeiðið en þú gætir kosið að bíða eftir hentugra tækifæri til að segja frá því til að draga ekki úr gleði systurinnar sem gaf blaðið. Það myndi endurspegla góðvild. En fyrir alla muni, ekki hætta að bjóða biblíunámskeið. Þú býrð yfir hæfileika. Notaðu hann.

9. Hvernig ættum við að nota hæfileika okkar?

9 Gleymum því ekki að hver sá hæfileiki sem við kunnum að búa yfir er gjöf frá Guði. Við ættum að nota þessa hæfileika til að byggja söfnuðinn upp en ekki til að upphefja okkur sjálf. (Fil. 2:3) Þegar við notum krafta okkar og hæfileika til að gera vilja Guðs höfum við ástæðu til að gleðjast, ekki vegna þess að við gerum betur en aðrir eða erum yfir aðra hafin heldur vegna þess að við notum hæfileika okkar til að lofa Jehóva.

10. Hvers vegna er óraunhæft að bera okkur saman við aðra?

10 Ef við gætum okkar ekki gætum við fallið í þá gryfju að bera styrkleika okkar saman við veikleika einhvers annars. Bróðir flytur kannski frábæra fyrirlestra. Það er styrkleiki hans. En hann gæti innst inni litið niður á bróður sem á ekki auðvelt með að flytja ræður. En sá bróðir gæti verið mjög gestrisinn, duglegur að kenna börnunum sínum eða kappsamur í boðuninni. Við erum innilega þakklát að eiga svo mörg hæfileikarík trúsystkini sem nota hæfileika sína til að þjóna Jehóva og hjálpa öðrum.

LÆRUM AF ÖÐRUM

11. Hvers vegna ættum við að reyna að fylgja fordæmi Jesú?

11 Þótt við ættum að forðast að bera okkur saman við aðra getum við lært af öðrum trúföstum þjónum Jehóva. Besta fordæmi okkar er Jesús. Við erum ekki fullkomin eins og hann en við getum lært margt af frábærum eiginleikum hans og því sem hann gerði. (1. Pét. 2:21) Þegar við fylgjum fordæmi hans eins vel og við getum verðum við betri þjónar Jehóva og náum meiri árangri í þjónustunni.

12, 13. Hvað getum við lært af Davíð konungi?

12 Í orði Guðs er að finna mörg dæmi um trúfasta menn og konur sem við getum líkt eftir þótt þau hafi verið ófullkomin. (Hebr. 6:12) Jehóva kallaði Davíð konung ,mann eftir sínu hjarta‘, eða eins og önnur biblíuþýðing orðar það, ,þess konar mann sem gleður hann mest‘. (Post. 13:22) Davíð var samt ekki fullkominn. Honum urðu reyndar á alvarleg mistök. En þrátt fyrir það er hann okkur gott fordæmi. Hvers vegna? Vegna þess að hann reyndi ekki að réttlæta sjálfan sig þegar hann var leiðréttur. Hann tók við aganum og iðraðist einlæglega þess sem hann hafði gert. Fyrir vikið fyrirgaf Jehóva honum. – Sálm. 51:5, 6, 12–14.

13 Við getum öll lært af Davíð og spurt okkur: Hvernig bregst ég við aga? Viðurkenni ég fljótt mistök mín eða reyni ég að réttlæta sjálfan mig? Er ég fljótur að kenna öðrum um? Reyni ég eftir fremsta megni að endurtaka ekki mistökin? Þú getur spurt þig álíkra spurninga þegar þú lest um aðra trúfasta menn og konur í Biblíunni. Glímdu þau við svipuð vandamál og þú? Hvaða góðu eiginleika sýndu þau? Í hverju tilfelli skaltu spyrja þig: Hvernig get ég líkt betur eftir þessum trúfasta þjóni Jehóva?

14. Hvernig getum við haft gagn af því að fylgjast með trúsystkinum okkar á meðal?

14 Við getum líka lært af trúsystkinum á meðal okkar, ungum sem öldnum. Er einhver í söfnuðinum þínum sem er trúfastur í prófraunum, eins og hópþrýstingi, andstöðu í fjölskyldunni eða veikindum? Kemurðu auga á góða eiginileika hjá honum sem þig langar til að líkja eftir? Ef þú íhugar gott fordæmi hans eða hennar færðu kannski hjálp til að þola eigin prófraunir. Við erum svo þakklát að hafa slíkar fyrirmyndir í trúfesti til að líkja eftir. Það fyllir okkur gleði. – Hebr. 13:7; Jak. 1:2, 3.

VERTU GLAÐUR Í ÞJÓNUSTU ÞINNI VIÐ JEHÓVA

15. Hvaða leiðbeiningar gaf Páll postuli sem geta stuðlað að gleði í þjónustu Jehóva?

15 Við þurfum hvert og eitt okkar að gefa okkar besta til að stuðla að friði og einingu í söfnuðinum. Leiðum hugann að þjónum Guðs á fyrstu öld. Þeir bjuggu yfir mismunandi hæfileikum og sinntu mismunandi verkefnum. (1. Kor. 12:4, 7–11) En það olli ekki samkeppni eða misklíð. Páll hvatti hvern og einn til að „byggja upp líkama Krists“. Hann skrifaði Efesusmönnum: „Þegar allir líkamshlutar starfa eðlilega stuðlar það að því að líkaminn vex og byggist upp í kærleika.“ (Ef. 4:1–3, 11, 12, 16) Þeir sem gerðu það stuðluðu að friði og einingu, nokkuð sem einkennir söfnuð okkar nú á dögum.

16. Hvað ættum við að vera ákveðin í að gera? (Hebreabréfið 6:10.)

16 Vertu ákveðinn í að bera þig ekki saman við aðra. Lærðu af Jesú og leggðu þig fram um að líkja eftir eiginleikum hans. Nýttu þér fordæmi trúrra þjóna Jehóva á biblíutímanum og nú á dögum. Vertu fullviss um að ,Jehóva er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki þínu‘ þegar þú heldur áfram að gera þitt besta. (Lestu Hebreabréfið 6:10.) Haltu áfram að njóta gleði í þjónustu Jehóva vitandi að hann kann að meta það þegar þú gerir þitt besta til að gleðja hann.

SÖNGUR 65 Sækjum fram

a Við getum öll lært af fordæmi annarra. En við þurfum að forðast vissar hættur. Í þessari námsgrein fáum við hjálp til að viðhalda gleði okkar og forðast þá gildru að annaðhvort upphefja okkur eða draga niður þegar við sjáum hverju aðrir áorka.

b MYND: Bróðir starfaði á Betel þegar hann var ungur maður. Hann kvæntist og var brautryðjandi ásamt konunni sinni. Þegar þau eignuðust börn þjálfaði hann þau í boðuninni. Nú er hann aldraður og heldur áfram að gera sitt besta og boðar trúna með bréfaskriftum.