Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 25

Jehóva blessar þá sem fyrirgefa

Jehóva blessar þá sem fyrirgefa

„Eins og Jehóva fyrirgaf ykkur fúslega skuluð þið fyrirgefa öðrum.“ – KÓL. 3:13.

SÖNGUR 130 Fyrirgefum fúslega

YFIRLIT *

1. Hvaða loforð gefur Jehóva iðrunarfullum syndurum?

 JEHÓVA Guð er ekki bara skapari okkar, löggjafi og dómari. Hann er líka kærleiksríkur faðir okkar á himnum. (Sálm. 100:3; Jes. 33:22) Þegar við syndgum og iðrumst í einlægni er hann mjög fús til að fyrirgefa okkur. (Sálm. 86:5) Fyrir milligöngu Jesaja spámanns fullvissar hann okkur hlýlega: „Þó að syndir yðar séu sem skarlat skulu þær verða hvítar sem mjöll.“ – Jes. 1:18.

2. Hvað þurfum við að gera ef við viljum eiga friðsamlegt samband við aðra?

2 Við erum ófullkomin og segjum því og gerum stundum eitthvað sem er særandi. (Jak. 3:2) En við getum átt vináttusamband við aðra ef við lærum að fyrirgefa. (Orðskv. 17:9; 19:11; Matt. 18:21, 22) Jehóva vill að við fyrirgefum þegar einhver gerir eða segir eitthvað smávægilegt sem særir okkur. (Kól. 3:13) Við höfum góða ástæðu til þess þar sem Jehóva fyrirgefur okkur ríkulega. – Jes. 55:7.

3. Hvað skoðum við í þessari grein?

3 Í þessari grein er fjallað um það hvernig ófullkomnir menn geta líkt eftir Jehóva og verið fúsir til að fyrirgefa. Í hvaða tilfellum þarf að láta öldungana vita ef synd hefur verið drýgð? Hvers vegna hvetur Jehóva okkur til að fyrirgefa? Og hvað getum við lært af trúsystkinum okkar sem hafa þurft að þjást vegna synda annarra?

ÞEGAR ÞJÓNN JEHÓVA SYNDGAR ALVARLEGA

4. (a) Hvað þarf þjónn Jehóva að gera ef hann hefur drýgt alvarlega synd? (b) Hver er ábyrgð öldunganna þegar þeir tala við syndarann?

4 Það þarf að segja öldungunum frá þegar einhver hefur drýgt alvarlega synd. Dæmi um slíkar syndir er að finna í 1. Korintubréfi 6:9, 10. Alvarlegar syndir eru gróf brot á lögum Guðs. Ef þjónn Guðs drýgir slíka synd þarf hann að leita til Jehóva í bæn og tala við öldungana í söfnuðinum. (Sálm. 32:5; Jak. 5:14) Hver er ábyrgð öldunganna? Það er aðeins Jehóva sem hefur vald til að fyrirgefa að fullu og það er mögulegt vegna lausnarfórnarinnar. * En Jehóva hefur gefið öldungunum þá ábyrgð að nota Biblíuna til að meta hvort syndarinn getur verið áfram í söfnuðinum. (1. Kor. 5:12) Þeir reyna að finna svör við spurningum eins og: Syndgaði hann af ásettu ráði? Reyndi syndarinn að fela það ranga? Iðkaði hann syndina um lengri eða skemmri tíma? Síðast en ekki síst: Sýnir hann einlæga iðrun? Og getur verið eitthvað sem bendir til að Jehóva hafi fyrirgefið honum? – Post. 3:19.

5. Hvernig er það sem öldungarnir gera til góðs?

5 Þegar öldungarnir hitta syndarann er markmið þeirra að taka sömu ákvörðun og hefur þegar verið tekin á himnum. (Matt. 18:18) Hvernig kemur þessi ráðstöfun söfnuðinum að gagni? Að fjarlægja iðrunarlausa syndara úr söfnuðinum tryggir að þeir skaði ekki dýrmæta sauði Jehóva. (1. Kor. 5:6, 7, 11–13; Tít. 3:10, 11) Það getur líka hjálpað syndara að iðrast og þiggja fyrirgefningu Guðs. (Lúk. 5:32) Öldungarnir biðja til Jehóva í þágu þess sem iðrast um að hann endurheimti sambandið við Jehóva. – Jak. 5:15.

6. Er fyrirgefning enn þá inni í myndinni fyrir þann sem hefur verið vikið úr söfnuðinum? Skýrðu svarið.

6 Segjum að syndari sé ekki iðrunarfullur þegar öldungarnir hitta hann. Ef svo er þá er honum vikið úr söfnuðinum. Ef hann hefur brotið landslög hlífa öldungarnir honum ekki við afleiðingunum. Jehóva leyfir yfirvöldum að dæma og refsa hverjum þeim sem brýtur lögin, hvort sem hann iðrast eða ekki. (Rómv. 13:4) Ef hann síðar sér að sér, iðrast í einlægni og snýr við blaðinu er Jehóva fús til að fyrirgefa honum. (Lúk. 15:17–24) Það á jafnvel við þótt synd hans hafi verið mjög alvarleg. – 2. Kron. 33:9, 12, 13; 1. Tím. 1:15.

7. Í hvaða skilningi getum við fyrirgefið þeim sem hefur syndgað gegn okkur?

7 Það er mikill léttir að vita að við þurfum ekki að ákveða hvort Jehóva fyrirgefur syndara eða ekki. En það er samt eitt sem við þurfum að ákveða. Í sumum tilfellum er syndgað gegn okkur – jafnvel alvarlega – en síðan erum við beðin fyrirgefningar. Í öðrum tilfellum erum við ekki beðin fyrirgefningar. En jafnvel þá getum við valið að fyrirgefa í þeim skilningi að við sleppum reiðinni og gremjunni. Að sjálfsögðu getur það verið erfitt og tekið sinn tíma, sérstaklega ef við erum mjög sár. Í Varðturninum á ensku 15. september 1994 segir: „Þegar þú fyrirgefur syndara merkir það ekki að þér finnist allt í lagi það sem hann gerði. Þjónn Jehóva sem fyrirgefur treystir því að Jehóva dæmi fullkomlega í málinu. Hann er réttlátur dómari alheims og sér til þess að réttlætinu sé framfylgt á réttum tíma.“ Hvers vegna hvetur Jehóva okkur til að fyrirgefa og láta hann um að dæma?

HVERS VEGNA HVETUR JEHÓVA OKKUR TIL AÐ FYRIRGEFA?

8. Hvernig sýnum við þakklæti fyrir miskunn Jehóva þegar við fyrirgefum öðrum?

8 Við sýnum þakklæti þegar við erum fús til að fyrirgefa. Í einni af dæmisögum sínum líkti Jesús Jehóva við húsbónda sem gaf þjóni sínum upp gríðarháa skuld sem hann gat ekki borgað. En þjónninn sýndi samþjóni sínum ekki sömu miskunn þó svo að skuld hans væri langtum minni. (Matt. 18:23–35) Hvað er Jesús að kenna okkur? Ef við kunnum virkilega að meta miskunn Jehóva gagnvart okkur erum við fús til að fyrirgefa öðrum. (Sálm. 103:9) Fyrir mörgum árum sagði í Varðturninum á ensku: „Sama hve oft við fyrirgefum öðrum þá jafnast það aldrei á við fyrirgefningu og miskunn Jehóva við okkur fyrir milligöngu Krists.“

9. Hverjum sýnir Jehóva miskunn? (Matteus 6:14, 15)

9 Ef við fyrirgefum öðrum fyrirgefur Jehóva okkur. Jehóva sýnir þeim miskunn sem eru miskunnsamir. (Matt. 5:7; Jak. 2:13) Jesús lagði áherslu á þetta þegar hann kenndi lærisveinum sínum að biðja. (Lestu Matteus 6:14, 15.) Jehóva benti á það sama í samskiptum sínum við Job, trúfastan þjón sinn. Hann sagði Job að biðja fyrir Elífasi, Bildad og Sófar en þeir höfðu sært hann djúpt með orðum sínum. Þegar Job var búinn að gera það blessaði Jehóva hann. – Job. 42:8–10.

10. Hvers vegna er skaðlegt að ala með sér gremju? (Efesusbréfið 4:31, 32)

10 Við sköðum okkur sjálf ef við ölum með okkur gremju. Jehóva vill að við finnum léttinn sem fylgir því að losa okkur við gremju. (Lestu Efesusbréfið 4:31, 32.) Hann hvetur okkur: „Lát af reiði, slepp heiftinni.“ (Sálm. 37:8) Það er viturlegt að fylgja þessu ráði. Það getur verið skaðlegt fyrir líkamlega og andlega heilsu að ala með sér gremju. (Orðskv. 14:30) Að ala með sér gremju hefur ekki meiri áhrif á þann sem særir okkur en það hefði á hann ef við myndum sjálf drekka eitur. Þess vegna gerum við sjálfum okkur greiða þegar við fyrirgefum öðrum. (Orðskv. 11:17) Við fáum hugarfrið og getum einbeitt okkur að því að halda áfram að þjóna Jehóva.

11. Hvað segir Biblían um það að hefna sín? (Rómverjabréfið 12:19–21)

11 Það er Jehóva að hefna. Jehóva hefur ekki gefið okkur leyfi til að hefna okkar þegar einhver syndgar gegn okkur. (Lestu Rómverjabréfið 12:19–21.) Með okkar takmarkaða og ófullkomna sjónarhorn erum við einfaldlega ekki fær um að dæma rétt eins og Guð getur. (Hebr. 4:13) Og stundum trufla tilfinningarnar dómgreind okkar. Jehóva innblés Jakobi að skrifa: „Reiði mannsins kemur ekki réttlæti Guðs til leiðar.“ (Jak. 1:20) Við getum verið viss um að Jehóva geri það rétta og sjái til þess að réttlætinu verði fullnægt að lokum.

Slepptu takinu á reiði og gremju. Láttu málin í hendur Jehóva. Hann gerir allan skaða af völdum syndarinnar að engu. (Sjá 12. grein.)

12. Hvernig sýnum við að við treystum réttlæti Jehóva?

12 Við sýnum að við treystum réttlæti Jehóva þegar við fyrirgefum. Með því að láta málin í hendur Jehóva sýnum við að við treystum að hann muni gera að engu allan þann skaða sem syndin hefur valdið. Í nýja heiminum verða sárar tilfinningar grónar. „Hins fyrra verður ekki minnst framar og það skal engum í hug koma.“ (Jes. 65:17) En er mögulegt að losa sig við reiði og gremju ef maður er djúpt særður? Skoðum hvernig sumum hefur tekist það.

VIÐ NJÓTUM GÓÐS AF ÞVÍ AÐ FYRIRGEFA

13, 14. Hvað lærum við um fyrirgefningu af frásögunni um Tony og José?

13 Mörg bræðra okkar og systra hafa ákveðið að fyrirgefa þeim sem hafa sært þau djúpt. Hvernig hafa þau notið góðs af því?

14 Tony * sem býr á Filippseyjum komst að því að maður að nafni José hafði myrt eldri bróður hans. Þetta var löngu áður en Tony kynntist sannleikanum en þá var hann mjög árásargjarn og ofbeldishneigður og hann vildi hefnd. José var handtekinn og settur í fangelsi. Seinna þegar hann losnaði úr fangelsinu hét Tony því að leita hann uppi og drepa hann og hann varð sér því úti um byssu. Í millitíðinni fór Tony að kynna sér Biblíuna með aðstoð votta Jehóva. Hann segir: „Í náminu komst ég að því að ég þurfti að breyta mér, þar á meðal þurfti ég að hætta að vera svona reiður.“ Með tímanum lét Tony skírast og var seinna útnefndur öldungur í söfnuðinum. Hann var heldur betur hissa þegar hann frétti að José væri líka orðinn skírður vottur Jehóva. Þegar þeir hittust féllust þeir í faðma og Tony sagði José að hann væri búinn að fyrirgefa honum. Tony á ekki orð til að lýsa því hversu vel honum leið þegar hann var búinn að fyrirgefa José. Jehóva blessaði Tony sannarlega fyrir að vera fús til að fyrirgefa.

Lífsreynsla Peters og Sue sýnir að við getum sleppt taki á reiði og gremju. (Sjá 15. og 16. grein.)

15, 16. Hvað lærum við um fyrirgefningu af lífsreynslu Peters og Sue?

15 Árið 1985 voru Peter og Sue á samkomu þegar skyndilega varð mikil sprenging. Maður hafði komið sprengju fyrir í ríkissalnum. Sue varð fyrir varanlegum skaða á sjón og heyrn og hún missti líka lyktarskynið. * Peter og Sue veltu því oft fyrir sér hvers konar manneskja gæti framið svona grimmdarverk. Mörgum árum síðar var árásarmaðurinn, sem var ekki vottur Jehóva, handtekinn og dæmdur í lífstíðarfangelsi. Þegar þau voru spurð hvort þau hefðu fyrirgefið manninum sögðu þau: „Jehóva kennir okkur að það getur skaðað okkur líkamlega, tilfinningalega og andlega að ala með okkur reiði og gremju. Fljótlega eftir atburðinn báðum við því Jehóva um að hjálpa okkur að losa okkur við reiði og gremju og halda áfram með líf okkar.“

16 Það hefur ekki alltaf reynst þeim auðvelt að vera ekki gröm út í árásarmanninn. Þau segja: „Af og til skýtur reiðin upp kollinum þegar áhrifin af meiðslum Sue láta á sér kræla. En við ýtum þeirri hugsun frá okkur þannig að tilfinningin dofnar fljótt. Við getum í einlægni sagt að við myndum bjóða árásarmanninn velkominn ef hann yrði einn daginn trúbróðir okkar. Þessi lífsreynsla hefur kennt okkur að meginreglur Biblíunnar frelsa okkur á fleiri vegu en við getum ímyndað okkur. Það er líka hughreystandi að vita að Jehóva mun bráðlega bæta allan skaða.“

17. Hvað lærum við af Myru um fyrirgefningu?

17 Myra var gift og með tvö lítil börn þegar hún kynntist sannleikanum. Maðurinn hennar tók ekki við sannleikanum. Síðar hélt hann fram hjá henni og yfirgaf fjölskylduna. Myra segir: „Þegar maðurinn minn yfirgaf mig og börnin okkar helltust yfir mig tilfinningar sem margir finna þegar ástvinur svíkur þá, tilfinningar eins og vantrú, sorg, eftirsjá, sjálfsásökun og reiði.“ Þótt hjónabandið hafi tekið enda sat sársaukinn eftir. „Ég var í rusli í marga mánuði og áttaði mig á því að þessar tilfinningar voru farnar að hafa áhrif á samband mitt við Jehóva og aðra,“ segir Myra. Hún segist ekki lengur vera reið og hugsar ekki illa til fyrrverandi eiginmanns síns. Hún vonar að hann muni dag einn eignast samband við Jehóva. Myra getur nú beint athyglinni að framtíðinni. Sem einstæð móðir hefur hún alið börnin sín tvö upp í trúnni. Núna nýtur hún þess að þjóna Jehóva ásamt börnunum sínum og fjölskyldum þeirra.

FULLKOMIÐ RÉTTLÆTI JEHÓVA

18. Fyrir hverju getum við treyst Jehóva, hinum æðsta dómara?

18 Það veitir okkur hugarfrið að vita að það er ekki í okkar verkahring að dæma fólk. Það er í góðum höndum Jehóva sem er æðsti dómarinn. (Rómv. 14:10–12) Við getum treyst því að hann muni alltaf dæma í samræmi við fullkominn mælikvarða sinn á rétt og rangt. (1. Mós. 18:25; 1. Kon. 8:32) Allt sem hann gerir er réttlátt.

19. Hverju mun fullkomið réttlæti Jehóva koma til leiðar?

19 Við þráum þann tíma þegar Jehóva gerir að engu öll áhrif ófullkomleika og syndar. Þá verða öll líkamleg og tilfinningaleg sár algerlega gróin. (Sálm. 72:12–14; Opinb. 21:3, 4) Þau munu aldrei trufla okkur framar. Á meðan við bíðum eftir að sá tími komi erum við þakklát Jehóva fyrir að gera okkur fær um að líkja eftir sér og geta fyrirgefið.

SÖNGUR 18 Þakkir fyrir lausnargjaldið

^ Jehóva fyrirgefur iðrunarfullum syndurum fúslega. Sem þjónar Guðs viljum við líkja eftir honum og fyrirgefa þegar einhver gerir á hlut okkar. Í þessari námsgrein skoðum við hvers konar syndir við getum fyrirgefið og hvers konar syndum við þurfum að láta öldungana vita af. Við veltum því líka fyrir okkur hvers vegna Jehóva vill að við fyrirgefum hvert öðru og hvaða blessun það veitir.

^ Sjá „Spurningar frá lesendum“ í Varðturninum 1. júlí 1996.

^ Sumum nöfnum hefur verið breytt.

^ Sjá Vaknið! janúar 1992, bls. 8–12. Sjá einnig myndbandið Peter and Sue Schulz: A Trauma Can Be Overcome í Sjónvarpi Votta Jehóva á ensku.