Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 27

„Vona á Drottin“

„Vona á Drottin“

„Vona á Drottin, ver öruggur og hugrakkur.“ – SÁLM. 27:14.

SÖNGUR 128 Verum þolgóð allt til enda

YFIRLIT *

1. (a) Hvaða von hefur Jehóva gefið okkur? (b) Hvað merkir það að „vona á Drottin“? (Sjá orðaskýringu.)

 JEHÓVA hefur gefið öllum sem elska hann yndislega von. Innan tíðar bindur hann enda á veikindi, sorg og dauða. (Opinb. 21:3, 4) Hann ætlar að hjálpa ,hinum hógværu‘ sem vona á hann að gera jörðina að paradís. (Sálm. 37:9–11) Og hann mun gera hverju og einu okkar kleift að eiga hlýlegt og náið samband við sig. Það verður jafnvel enn sterkara en samband okkar við hann núna. Þetta er yndisleg von. En hvernig getum við treyst því að Jehóva standi við loforð sín? Við höfum góða ástæðu til að „vona á Drottin“ vegna þess að hann svíkur aldrei loforð sín. * (Sálm. 27:14) Við ,vonum á Drottin‘ með því að bíða þolinmóð og glöð eftir að Guð uppfylli loforð sín. – Jes. 55:10, 11.

2. Hvað hefur Jehóva þegar gert?

2 Jehóva hefur þegar sýnt fram á að hann stendur við loforð sín. Lítum á framúrskarandi dæmi sem er að finna í Opinberunarbókinni. Jehóva sagði að á okkar tímum myndi hann safna saman fólki af öllum þjóðum, kynþáttum og tungum til að sameinast í sannri tilbeiðslu. Þessi eftirtektarverði hópur fólks kallast ,múgurinn mikli‘. (Opinb. 7:9, 10) Hann samanstendur af körlum, konum og börnum sem tala mismunandi tungumál og eru af ólíkum kynþáttum og uppruna en myndar samt friðsama og sameinaða fjölskyldu. (Sálm. 133:1; Jóh. 10:16) Þeir sem tilheyra múginum mikla boða einnig trúna af kappi. Þeir eru alltaf tilbúnir að segja hverjum sem vill hlusta frá voninni um betri heim. (Matt. 28:19, 20; Opinb. 14:6, 7; 22:17) Ef þú tilheyrir múginum mikla er þessi von þér eflaust mjög dýrmæt.

3. Hvert er markmið Satans?

3 Djöfullinn vill ræna þig voninni. Markmið hans er að fá þig til að trúa því að Jehóva sé ekki annt um þig og að hann standi ekki við loforð sín. Ef Satan tekst að ræna okkur voninni missum við kjarkinn og hættum jafnvel að þjóna Jehóva. Eins og við munum sjá reyndi Djöfullinn að ræna Job voninni og fá hann til að hætta að þjóna Jehóva.

4. Hvað skoðum við í þessari grein? (Jobsbók 1:9–12)

4 Í þessari grein skoðum við hvernig aðferðir Satan notaði til þess að reyna að brjóta niður ráðvendni Jobs. (Lestu Jobsbók 1:9–12.) Við skoðum líka hvað við getum lært af Job og hvers vegna við megum ekki gleyma því að Guð elskar okkur og stendur við loforð sín.

SATAN REYNIR AÐ RÆNA JOB VONINNI

5, 6. Hvernig breyttist líf Jobs á stuttum tíma?

5 Lífið brosti við Job. Hann átti náið vináttusamband við Jehóva. Hann átti stóra og samrýmda fjölskyldu og hann var mjög auðugur. (Job. 1:1–5) En á augabragði missti Job næstum því allt. Fyrst missti hann allan bústofninn. (Job. 1:13–17) Síðan missti hann öll börnin sín. Hugsum aðeins um þennan harmleik. Foreldrar eru niðurbrotnir þegar þeir missa eitt barna sinna. Reynum að ímynda okkur áfallið og örvæntinguna sem Job og konan hans upplifðu þegar þau fréttu að öll tíu börnin þeirra höfðu farist. Það er því ekki skrýtið að Job skuli hafa rifið klæði sín og fallið á kné. – Job. 1:18–21.

6 Þessu næst sló Satan Job sársaukafullum og niðurlægjandi sjúkdómi. (Job. 2:6–8; 7:5) Job hafði áður verið mikils metinn í samfélaginu. Fólk leitaði ráða hjá honum. (Job. 31:18) En nú forðaðist það hann. Honum var útskúfað af ættingjum, nánum vinum og jafnvel þjónustufólki sínu. – Job. 19:13, 14, 16.

Margir vottar nú á dögum geta sett sig í spor Jobs þegar hann varð fyrir átakanlegum missi. (Sjá 7. grein.) *

7. (a) Hver hélt Job að væri ástæðan fyrir þjáningum sínum en hvað neitaði hann að gera? (b) Hvaða prófraun gæti þjónn Guðs staðið frammi fyrir sambærilegri þeirri sem við sjáum á myndinni?

7 Satan vildi telja Job trú um að hann þjáðist vegna þess að Jehóva hefði ekki lengur velþóknun á honum. Satan notaði til dæmis storm til að rústa húsið þar sem tíu börn Jobs borðuðu saman. (Job. 1:18, 19) Hann beitti einnig eldi af himni, ekki aðeins til að eyða bústofni Jobs heldur einnig hirðunum sem önnuðust hann. (Job. 1:16) Vindurinn og eldurinn voru greinilega af yfirnáttúrulegum toga þannig að Job ályktaði að Jehóva hlyti að vera ábyrgur fyrir þessu. Job hélt þess vegna að hann hefði á einhvern hátt vakið reiði Jehóva. En jafnvel þá neitaði Job að formæla föður sínum á himni. Job skildi að í gegnum árin hafði Jehóva gefið honum margt gott. Hann ályktaði þess vegna að fyrst hann var tilbúinn að þiggja það góða frá Jehóva ætti hann líka að vera tilbúinn að taka því slæma. Hann sagði því: „Lofað veri nafn Drottins.“ (Job. 1:20, 21; 2:10) Þótt Job hefði misst eigur sínar, börnin sín og heilsuna var hann Jehóva trúfastur. En Satan hafði ekki sagt sitt síðasta.

8. Hvaða aðferð notaði Satan næst á Job?

8 Satan notaði enn eina aðferð til að reyna að brjóta Job niður. Hann fékk þrjá falsvini til að ræna hann því sem eftir var af sjálfsvirðingu hans. Þessir menn héldu því fram að Job þjáðist vegna þess að hann hefði gert ýmislegt rangt. (Job. 22:5–9) Þeir reyndu líka að sannfæra hann um að þótt hann væri ekki illmenni skipti engu máli hvað hann reyndi að gera til að þóknast Guði, það hefði ekkert gildi. (Job. 4:18; 22:2, 3; 25:4) Þeir reyndu að fá Job til að efast um að Jehóva elskaði hann, myndi annast hann og að það væri þess virði að þjóna honum. Það sem þeir sögðu hefði getað fengið Job til að finnast staðan vera vonlaus.

9. Hvernig gat Job verið hugrakkur og sterkur?

9 Sjáðu Job fyrir þér sárkvalinn, sitjandi í öskunni. (Job. 2:8) Félagar hans ráðast stanslaust á hann og reyna að eyðileggja mannorð hans. Erfiðleikar hans hvíla þungt á honum og hann syrgir börnin sín ákaflega. Í fyrstu mælir Job ekki orð af vörum. (Job. 2:13–3:1) Ef félagar Jobs túlka þögnina þannig að hann muni snúa baki við skapara sínum þekkja þeir ekki Job. Ef til vill horfir hann beint í augu falsvina sinna þegar hann segir: „Ég verð ráðvandur þar til ég dey.“ (Job. 27:5, NW) Hvernig gat Job verið svona hugrakkur og sterkur þrátt fyrir þjáningarnar? Jafnvel þegar honum leið verst missti hann aldrei vonina um að Jehóva myndi binda enda á þjáningarnar. Hann vissi að jafnvel þótt hann dæi myndi Jehóva reisa hann upp. – Job. 14:13–15.

HVERNIG GETUM VIÐ LÍKT EFTIR JOB?

10. Hvað lærum við af frásögunni um Job?

10 Frásagan af Job kennir okkur að Satan getur ekki þvingað okkur til að yfirgefa Jehóva og að ekkert fer fram hjá Jehóva. Reynsla Jobs hjálpar okkur líka að skilja heildarmyndina betur. Skoðum betur sumt af því sem við getum lært af Job.

11. Hvað getum við verið fullviss um ef við höldum áfram að treysta á Jehóva? (Jakobsbréfið 4:7)

11 Job sýndi fram á að ef við höldum áfram að treysta á Jehóva getum við staðist hvaða prófraun sem er og staðið gegn Satan. Með hvaða árangri? Biblían fullvissar okkur um að Djöfullinn muni flýja okkur. – Lestu Jakobsbréfið 4:7.

12. Hvernig styrkti upprisuvonin Job?

12 Við þurfum að hafa sterka trú á upprisuvonina. Eins og minnst var á í námsgreininni á undan reynir Satan oft að nota ótta við dauðann til að brjóta niður ráðvendni okkar. Satan hélt því fram að Job myndi gera hvað sem er, jafnvel hætta að þjóna Jehóva, til að bjarga lífi sínu. Hann hafði rangt fyrir sér. Þegar Job leið verst og hann hélt að hann myndi deyja var hann samt ráðvandur. Hann gat haldið út vegna þess að hann treysti á góðvild Jehóva og hafði sterka von um að hann myndi á endanum bæta allan skaða. Job hafði þá trú að ef hann dæi myndi Jehóva reisa hann upp til lífs síðar. Upprisuvonin var Job raunveruleg. Ef hún er okkur líka raunveruleg munum við ekki láta af ráðvendni okkar jafnvel þótt við stöndum frammi fyrir dauðanum.

13. Hvers vegna þurfum við að skoða þær aðferðir sem Satan notaði á Job?

13 Við þurfum að skoða vel hvaða aðferðir Satan notaði á Job vegna þess að hann notar svipaðar aðferðir á okkur. Taktu eftir ásökun Satans: Menn [ekki bara Job] láta allt sem þeir eiga fyrir líf sitt.“ (Job. 2:4, 5) Satan er í raun að gefa í skyn að við elskum ekki Jehóva Guð og að við myndum snúa baki við honum til að bjarga lífi okkar. Hann gefur einnig í skyn að Guð elski okkur ekki og að hann taki ekki eftir því sem við leggjum á okkur til að þóknast honum. Við sem vonum á Jehóva látum aðferðir Satans ekki blekkja okkur vegna þess að við höfum verið vöruð við þeim.

14. Hvað geta prófraunir leitt í ljós um okkur? Lýstu með dæmi.

14 Við ættum að líta á prófraunir sem tækifæri til að þekkja okkur sjálf betur. Prófraunir Jobs hjálpuðu honum að koma auga á veikleika og vinna í þeim. Hann komst til dæmis að því að hann þurfti að tileinka sér meiri auðmýkt. (Job. 42:3) Við getum líka komist að ýmsu um okkur sjálf í prófraunum. Bróðir sem heitir Níkolaj * og var fangelsaður þrátt fyrir alvarleg heilsuvandamál segir: „Fangavist er eins og röntgenmyndataka sem sýnir hvað býr innra með þjóni Guðs.“ Þegar við komum auga á veikleika okkar getum við unnið í þeim.

15. Á hvern ættum við að hlusta og hvers vegna?

15 Við þurfum að hlusta á Jehóva en ekki óvini okkar. Job hlustaði á Jehóva af athygli þegar hann talaði við hann. Guð rökræddi við Job og sagði í raun: Kemurðu auga á sköpunarmátt minn? Ég hef tekið eftir öllu sem hefur komið fyrir þig. Heldurðu að ég sé ekki fær um að annast þig? Job brást auðmjúkur við og var djúpt snortinn af góðvild Jehóva. „Ég þekkti þig af afspurn,“ sagði hann, „en nú hefur auga mitt litið þig“. (Job. 42:5) Job sagði þetta líklega meðan hann sat enn þá í öskunni og líkami hans var þakinn sárum og börnin hans dáin. Það var þá sem Jehóva fullvissaði Job um að hann elskaði hann og hefði velþóknun á honum. – Job. 42:7, 8.

16. Hvað ættum við að hafa í huga þegar við mætum prófraunum samkvæmt Jesaja 49:15, 16?

16 Við getum líka orðið fyrir því að fólk lítilsvirði okkur eða komi fram við okkur eins og við séum einskis virði. Fólk getur reynt að sverta mannorð okkar sem einstaklinga eða safnaðar og ,logið upp á okkur öllu illu‘. (Matt. 5:11) Við lærum af frásögunni af Job að Jehóva hefur trú á því að við höldum áfram að vera trúföst þegar við mætum prófraunum. Jehóva elskar okkur og yfirgefur aldrei þá sem vona á hann. (Lestu Jesaja 49:15, 16.) Leiðum hjá okkur hvers kyns lygar sem óvinir Guðs breiða út. James er bróðir í Tyrklandi og fjölskylda hans hefur gengið í gegnum miklar prófraunir. Hann segir: „Við áttuðum okkur á því að það drægi úr okkur kjarkinn að hlusta á lygar um þjóna Guðs. Við beindum því athygli að voninni um Guðsríki og héldum áfram að þjóna Jehóva. Þannig héldum við gleðinni.“ Við hlustum á Jehóva, eins og Job. Lygar óvinanna geta ekki slökkt von okkar.

VONIN STYRKIR OKKUR

Job fékk blessun fyrir trúfesti sína. Job og eiginkona hans lifðu hamingjusöm um langan tíma. (Sjá 17. grein.) *

17. Hvað lærum við af trúföstum körlum og konum sem minnst er á í Hebreabréfinu 11. kafla?

17 Job er einn af mörgum þjónum Jehóva sem hefur sýnt hugrekki og styrk í gegnum miklar prófraunir. Í bréfi Páls postula til Hebrea minnist hann á marga fleiri þegar hann talar um „fjölda votta“. (Hebr. 12:1) Þeir þurftu allir að þola miklar prófraunir en sýndu Jehóva einstaka hollustu. (Hebr. 11:36–40) Var þolgæði þeirra og erfiði til einskis? Síður en svo. Þeir héldu áfram að vona á Jehóva þó að þeir hefðu ekki lifað að sjá öll loforð hans uppfyllast. Og vegna þess að þeir voru fullvissir um að þeir hefðu velþóknun Jehóva voru þeir sannfærðir um að þeir myndu sjá loforðin rætast. (Hebr. 11:4, 5) Fordæmi þeirra getur styrkt ásetning okkar um að halda áfram að vona á Jehóva.

18. Hvað ert þú ákveðinn í að gera? (Hebreabréfið 11:6)

18 Heimurinn fer stöðugt versnandi. (2. Tím. 3:13) Satan er ekki hættur að reyna þjóna Guðs. Verum ákveðin í að leggja hart að okkur fyrir Jehóva hvaða erfiðleikum sem við kunnum að mæta, fullviss um að „við höfum bundið von okkar við lifandi Guð“. (1. Tím. 4:10). Og munum hvernig Guð blessaði Job að lokum. Það sannar að „Jehóva er mjög umhyggjusamur og miskunnsamur“. (Jak. 5:11) Við skulum líka vera trúföst Jehóva, sannfærð um að „hann launi þeim sem leita hans í einlægni“. – Lestu Hebreabréfið 11:6.

SÖNGUR 150 Leitum hjálpræðis Guðs

^ Þegar við hugsum um einhvern sem hefur þolað erfiðar prófraunir hugsum við gjarnan um Job. Hvað getum við lært af þessum trúfasta manni? Við lærum að Satan getur ekki þvingað okkur til að yfirgefa Jehóva. Við lærum líka að Jehóva veit um allt sem gerist í lífi okkar. Og rétt eins og Jehóva batt enda á prófraunir Jobs mun hann dag einn binda enda á allar okkar þjáningar. Ef við sýnum með verkum okkar að við erum algerlega sannfærð um þetta erum við meðal þeirra sem í sannleika „vona á Drottin“.

^ ORÐASKÝRING: Hebreska orðið sem er þýtt „von“ merkir að bíða eftir einhverju með eftirvæntingu. Það getur einnig falið í sér hugmyndina að treysta einhverjum eða reiða sig á hann. – Sálm. 25:2, 3; 62:6.

^ Sumum nöfnum hefur verið breytt.

^ MYND: Job og eiginkona hans verða fyrir því að missa börnin sín.

^ MYND: Job komst í gegnum prófraunirnar. Hann og konan hans velta fyrir sér hvernig Jehóva hefur blessað fjölskyldu þeirra.