Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 29

Styðjum leiðtoga okkar, Jesú

Styðjum leiðtoga okkar, Jesú

„Mér hefur verið gefið allt vald á himni og jörð.“ – MATT. 28:18.

SÖNGUR 13 Kristur, fyrirmynd okkar

YFIRLIT *

1. Hver er vilji Guðs nú á dögum?

 ÞAÐ er vilji Guðs að fagnaðarboðskapurinn um ríkið sé boðaður um alla jörð. (Mark. 13:10; 1. Tím. 2:3, 4) Þetta er verk Jehóva þannig að það skiptir miklu máli að hann hefur skipað elskaðan son sinn til að leiða það. Við getum verið alveg viss um að undir öruggri umsjón Jesú verði það gert að því marki sem Jehóva vill áður en endirinn kemur. – Matt. 24:14.

2. Hvað skoðum við í þessari námsgrein?

2 Í þessari námsgrein sjáum við hvernig Jesús notar ,trúan og skynsaman þjón‘ til að sjá fyrir andlegri fæðu og skipuleggja mesta boðunarátak þjóna sinna í allri sögunni. (Matt. 24:45) Við skoðum líka hvað hvert og eitt okkar getur gert til að styðja Jesú og trúa þjóninn.

JESÚS HEFUR UMSJÓN MEÐ BOÐUN TRÚARINNAR

3. Hvaða vald hefur Jesú verið gefið?

3 Jesús hefur umsjón með boðun trúarinnar. Hvernig getum við verið viss um það? Stuttu áður en hann fór til himna hitti hann nokkra af trúföstum fylgjendum sínum á fjalli í Galíleu. Hann sagði við þá: „Mér hefur verið gefið allt vald á himni og jörð.“ Síðan sagði hann: „Farið því og gerið fólk af öllum þjóðum að lærisveinum.“ (Matt. 28:18, 19) Jesú hefur því meðal annars verið falið að stjórna boðun fagnaðarboðskaparins.

4. Hvers vegna getum við verið viss um að Jesús hefur enn þá umsjón með boðuninni?

4 Jesús benti á að boðunin og það að gera fólk að lærisveinum yrði gert meðal ,allra þjóða‘ og að hann yrði með fylgjendum sínum „alla daga allt þar til þessi heimsskipan endar“. (Matt. 28:20) Þessar yfirlýsingar sýna að boðunin héldi áfram undir umsjón Jesú allt fram á okkar daga.

5. Hvernig hjálpum við til við að uppfylla Sálm 110:3?

5 Jesús hafði ekki áhyggjur af því að það yrði skortur á verkamönnum á tíma endalokanna. Hann vissi að spádómleg orð sálmaritarans myndu uppfyllast: „Fólk þitt býður sig fúslega fram daginn sem þú kallar saman herlið þitt.“ (Sálm. 110:3) Ef þú tekur þátt í boðuninni styður þú Jesú og trúa þjóninn og hjálpar til við að uppfylla þennan spádóm. Verkinu vindur fram en það eru mörg ljón á veginum.

6. Hvaða erfiðleikum mæta boðberar Guðsríkis?

6 Boðberar Guðsríkis mæta meðal annars andstöðu. Fráhvarfsmenn, trúarleiðtogar og stjórnmálamenn hafa dreift ýmsum ósannindum um starf okkar. Ef ættingjar okkar, kunningjar og vinnufélagar trúa þessum áróðri geta þeir reynt að fá okkur til að hætta að þjóna Jehóva og boða trúna. Í sumum löndum birtist andstaðan í hótunum, þvingunum, handtökum og jafnvel fangelsunum. Við erum ekki undrandi á þessum viðbrögðum. Jesús spáði: „Allar þjóðir munu hata ykkur vegna nafns míns.“ (Matt. 24:9) Sú staðreynd að við finnum fyrir slíku hatri sýnir að Jehóva hefur velþóknun á okkur. (Matt. 5:11, 12) Djöfullinn stendur á bak við þessa andstöðu. En hann er máttlaus í samanburði við Jesú. Með stuðningi Jesú nær fagnaðarboðskapurinn til fólks af öllum þjóðum. Skoðum sannanir fyrir því.

7. Hvaða sannanir eru fyrir því að Opinberunarbókin 14:6, 7 sé að uppfyllast?

7 Sem boðberar Guðsríkis mætum við líka þeirri áskorun að fólk talar mismunandi tungumál. Í opinberuninni sem Jesús gaf Jóhannesi postula sagði hann fyrir að á okkar dögum kæmi það ekki í veg fyrir að fagnaðarboðskapurinn yrði boðaður fólki. (Lestu Opinberunarbókina 14:6, 7.) Við gefum eins mörgu fólki og mögulegt er tækifæri til að heyra boðskapinn um ríkið. Fólk um allan heim getur lesið biblíutengt efni á vefsetri okkar jw.org því að þar er að finna upplýsingar á meira en 1.000 tungumálum. Hið stjórnandi ráð gaf leyfi til að þýða bókina Von um bjarta framtíð, aðalnámsgagn okkar í að gera fólk að lærisveinum, á meira en 700 tungumál. Leiðbeiningar byggðar á Biblíunni eru einnig fáanlegar á blindraletri og í myndböndum fyrir heyrnarlausa. Við sjáum biblíuspádóma uppfyllast. Fólk af öllum þjóðtungum er að læra að tala sannleika Biblíunnar. (Sak. 8:23; Sef. 3:9) Öllu þessu er áorkað undir styrkri stjórn Jesú Krists.

8. Hver er árangur boðunar okkar hingað til?

8 Meira en 8.000.000 einstaklingar í 240 löndum eru í söfnuði Jehóva og á hverju ári láta tugþúsundir skírast. En það sem skiptir meira máli en tölur eru eiginleikar Guði að skapi, ,nýi maðurinn‘ sem þeir hafa tileinkað sér. (Kól. 3:8–10) Margir hafa sagt skilið við siðlaust líferni, ofbeldi, fordóma og þjóðernishyggju. Spádómurinn í Jesaja 2:4 uppfyllist í því að þeir taka ekki lengur þátt í hernaði. Við löðum fólk að söfnuði Guðs vegna þess að við leggjum hart að okkur að ,íklæðast nýja manninum‘ og sýnum þannig að við fylgjum leiðtoga okkar, Jesú Kristi. (Jóh. 13:35; 1. Pét. 2:12) Þetta kemur ekki af sjálfu sér. Jesús veitir okkur bestu hjálpina sem við þurfum.

JESÚS SKIPAR ÞJÓN Í EMBÆTTI

9. Hvað var sagt fyrir varðandi tíma endalokanna samkvæmt Matteusi 24:45–47?

9 Lestu Matteus 24:45–47. Jesús sagði að á endalokatímanum myndi hann skipa ,trúan og skynsaman þjón‘ til að sjá fólki fyrir andlegri fæðu. Við ættum að gera ráð fyrir því að þjónninn sé önnum kafinn nú á dögum. Það hefur komið á daginn. Leiðtogi okkar hefur yfir að ráða hóp smurðra manna sem sjá þjónum Guðs og áhugasömu fólki fyrir andlegum „mat á réttum tíma“. Þessir menn drottna ekki yfir trú annarra. (2. Kor. 1:24) Nei, þeir líta á Jesú Krist sem leiðtoga og foringja þeirra. – Jes. 55:4.

10. Hver af bókunum sem sjást á myndunum hjálpaði þér að ákveða að ganga veginn til eilífa lífsins?

10 Trúi þjónninn hefur síðan 1919 gefið út úrval rita til að hjálpa áhugasömu fólki að byrja að smakka næringarríka andlega fæðu. Árið 1921 gaf þjónninn út bókina Harpa Guðs til að hjálpa áhugasömum að læra grundvallaratriðin í kenningum Biblíunnar. Nýjar bækur hafa komið út í samræmi við breytta tíma. Hvaða bók notaðir þú til að kynnast kærleiksríkum föður okkar á himnum? Var það „Guð skal reynast sannorður“, Sannleikurinn sem leiðir til eilífs lífs, Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð, Þekking sem leiðir til eilífs lífs, Hvað kennir Biblían? eða nýjasta bókin okkar, Von um bjarta framtíð? Allar þessar bækur voru hugsaðar til að hjálpa okkur að gera fólk að lærisveinum. Og þær voru nákvæmlega það sem við þurftum þegar þær komu út.

11. Hvers vegna er mikilvægt að við fáum öll andlega fæðu?

11 Það eru ekki bara þeir sem hafa nýlega fengið áhuga á að kynna sér Biblíuna sem þurfa á djúpri þekkingu á Jehóva og Biblíunni að halda. Við þurfum þess öll. Páll postuli skrifaði: „Fasta fæðan er fyrir þroskað fólk.“ Hann bætti við að þegar við förum eftir því sem við lærum í Biblíunni hjálpi það okkur „að greina rétt frá röngu“. (Hebr. 5:14) Það getur verið mjög erfitt að fylgja stöðlum Jehóva þegar svo margir eru siðlausir. En Jesús sér til þess að við fáum þá kennslu sem við þurfum til að hafa sterka trú. Leiðbeiningarnar koma frá innblásnu orði Guðs, Biblíunni. Trúi þjónninn undirbýr og dreifir andlegu fæðunni undir stjórn Jesú.

12. Hvernig höfum við heiðrað nafn Guðs, rétt eins og Jesús?

12 Við höfum sýnt nafni Guðs þann heiður sem því ber, rétt eins og Jesús. (Jóh. 17:6, 26) Árið 1931 tókum við til dæmis upp biblíulega nafnið Vottar Jehóva og sýndum þannig hversu mikilvægt nafn föður okkar á himnum er í okkar augum. (Jes. 43:10–12) Og frá október sama ár hefur nafn Guðs staðið á forsíðu þessa tímarits. Í Nýheimsþýðingu Biblíunnar hefur nafn Guðs þar að auki endurheimt þann sess sem því ber í orði Guðs. Kirkjur kristna heimsins hafa hins vegar fjarlægt nafn Jehóva úr mörgum biblíuþýðingum.

JESÚS SKIPULEGGUR SÖFNUÐ FYLGJENDA SINNA

13. Hvað sannfærir þig um að ,trúi og skynsami þjónninn‘ sé undir stjórn Jesú? (Jóhannes 6:68)

13 Fyrir milligöngu ,trúa og skynsama þjónsins‘ hefur Jesús byggt upp alveg ótrúlegan söfnuð á jörð til að efla hreina tilbeiðslu. Hvað finnst þér um söfnuð Jehóva? Kannski er þér innanbrjósts eins og Pétri postula sem sagði við Jesú: „Til hvers ættum við að fara? Þú hefur orð eilífs lífs.“ (Jóh. 6:68) Hvar værum við ef við hefðum ekki kynnst söfnuði Jehóva? Fyrir atbeina hans sér Kristur til þess að við höfum allt sem við þurfum til að vera Guði trúföst. Hann þjálfar okkur líka til að sinna boðuninni á áhrifaríkan hátt. Og hann hjálpar okkur að „íklæðast hinum nýja manni“ svo að við getum glatt Jehóva. – Ef. 4:24.

14. Hvernig hefur það komið þér að gagni að vera í söfnuði Jehóva á tíma COVID-19 heimsfaraldursins?

14 Jesús sér okkur fyrir viturlegum leiðbeiningum á erfiðum tímum. Það sýndi sig þegar COVID-19 heimsfaraldurinn braust út. Á meðan margir í heiminum voru tvístígandi um hvað þeir ættu að gera sá Jesús til þess að við fengjum skýrar leiðbeiningar til að vernda okkur. Við vorum hvött til að hafa fjarlægð milli manna og andlitsgrímu í námunda við fólk. Öldungarnir voru minntir á að hafa reglulega samband við alla í söfnuðinum og fylgjast með öryggi þeirra, heilsu og sambandi við Jehóva. (Jesaja 32:1, 2) Þar að auki höfum við fengið leiðbeiningar og hvatningu frá stjórnandi ráði.

15. Hvaða leiðbeiningar höfum við fengið varðandi samkomur og boðunina í faraldrinum og með hvaða árangri?

15 Meðan faraldurinn hefur geisað höfum við líka fengið skýrar leiðbeiningar um það hvernig við höldum safnaðarsamkomur og tökum þátt í boðun trúarinnar. Skyndilega fórum við að mæta á safnaðarsamkomur og mót með fjarfundabúnaði. Við byrjuðum einnig að boða trúna nærri því eingöngu með bréfaskriftum og með því að hringja í fólk. Jehóva hefur blessað viðleitni okkar. Margar deildarskrifstofur hafa greint frá umtalsverðri fjölgun boðbera og margir hafa upplifað ýmislegt jákvætt á þessum tíma. – Sjá rammann „ Jehóva blessar boðun okkar“.

16. Hvað getum við verið alveg viss um?

16 Sumum gæti hafa fundist söfnuðurinn of varkár í tengslum við faraldurinn. En við höfum ítrekað séð að leiðbeiningarnar sem við fengum voru vel ígrundaðar. (Matt. 11:19) Þegar við hugleiðum hvernig Jesús leiðir þjóna sína á kærleiksríkan hátt erum við fullviss um að Jehóva og sonur hans verði með okkur, sama hvað morgundagurinn ber í skauti sér. – Lestu Hebreabréfið 13:5, 6.

17. Hvernig finnst þér að fylgja leiðsögn Jesú?

17 Það er mikil blessun að hafa Jesú sem leiðtoga. Við tilheyrum söfnuði sem hefur yfirstigið hindranir tengdar menningu, þjóðerni og tungumálum. Við erum vel nærð andlega og fáum alla þá þjálfun sem við þurfum til að boða trúna. Hverju og einu okkar er kennt að „íklæðast hinum nýja manni“ og við lærum að elska hvert annað. Við höfum fulla ástæðu til að vera stolt af leiðtoga okkar, Jesú.

SÖNGUR 16 Hyllum Jehóva fyrir smurðan son hans

^ Milljónir karla, kvenna og barna flytja kappsöm fagnaðarboðskapinn um ríki Guðs. Ert þú meðal þeirra? Ef svo er vinnur þú undir umsjón Jesú Krists. Í þessari námsgrein athugum við sannanir fyrir því að Jesús leiðir boðun trúarinnar. Að hugleiða þær hjálpar okkur að vera staðráðin í að halda áfram að þjóna Jehóva undir leiðsögn Krists.