Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 31

Metum bænina að verðleikum

Metum bænina að verðleikum

„Bæn mín verði eins og reykelsi gert handa þér.“ – SÁLM. 141:2.

SÖNGUR 47 Dag hvern til Jehóva bið

YFIRLIT *

1. Hvernig er okkur innanbrjósts að fá að biðja til Jehóva?

 VIÐ njótum þess óviðjafnanlega heiðurs að fá að nálgast skapara himins og jarðar í bæn. Hugsa sér að við getum úthellt hjarta okkar fyrir Jehóva hvenær sem er og á hvaða tungumáli sem er, án þess að þurfa að panta tíma. Við getum beðið til hans þótt við liggjum á spítala eða sitjum í fangelsi, örugg um að faðir okkar sem elskar okkur hlusti á okkur. Okkur finnst þetta ekki sjálfsagt.

2. Hvernig sýndi Davíð konungur að bænin var honum mjög kær?

2 Bænin var Davíð konungi mjög kær. Hann söng: „Bæn mín verði eins og reykelsi gert handa þér.“ (Sálm. 141:1, 2) Á dögum Davíðs útbjuggu prestar heilagt reykelsi af mikilli natni til að nota við hreina tilbeiðslu. (2. Mós. 30:34, 35) Vísun Davíðs í reykelsi sýnir að hann vildi hugleiða vandlega hvað hann ætlaði að segja í bæn til Jehóva. Það er einlæg löngun okkar líka. Við viljum að bænir okkar séu Jehóva velþóknanlegar.

3. Hvaða viðhorf ættum við að sýna þegar við nálgumst Jehóva í bæn og hvers vegna?

3 Þegar við förum með bæn til Jehóva ættum við að forðast að vera of kumpánleg. Við ættum að sýna honum djúpa virðingu. Hugsum okkur stórkostlegu sýnirnar sem Jesaja, Esekíel, Daníel og Jóhannes fengu. Þær eru ólíkar en eiga þó eitt sameiginlegt. Allar sýna þær Jehóva sem mikilfenglegan konung. Jesaja sá Jehóva sitja í háu og miklu hásæti. (Jes. 6:1–3) Esekíel sá Jehóva sitjandi í himneskum vagni sínum umkringdan skærum bjarma sem líktist regnboga. (Esek. 1:26–28) Daníel sá ,Hinn aldna‘ í hvítum klæðum í hásæti sem var eldslogi. (Dan. 7:9, 10, Biblían 2010) Og Jóhannes sá Jehóva sitjandi í hásæti umlukið smaragðgrænum regnboga. (Opinb. 4:2–4) Þegar við hugsum um óviðjafnanlega dýrð Jehóva erum við minnt á hversu stórkostlegur heiður það er að fá að nálgast hann í bæn og hversu mikilvægt er að gera það með lotningu. En hvað ættu bænir okkar að innihalda?

„ÞIÐ SKULUÐ BIÐJA ÞANNIG“

4. Hvað lærum við af því sem Jesús nefndi fyrst í faðirvorinu í Matteusi 6:9, 10?

4 Lestu Matteus 6:9, 10. Í fjallræðunni kenndi Jesús lærisveinum sínum hvers konar bænir væru Jehóva þóknanlegar. Eftir að hafa sagt „þið skuluð biðja þannig“, nefndi hann fyrst það sem er mikilvægast í tilgangi Jehóva: helgun nafns hans, komu Guðsríkis, sem mun eyða öllum andstæðingum Guðs, og framtíðarblessunina sem hann hefur búið jörðinni og mankyninu. Við sýnum að vilji Guðs er okkur mikilvægur með því að nefna þessi málefni í bænum okkar.

5. Er viðeigandi að biðja til Jehóva um persónuleg mál?

5 Í næsta hluta bænarinnar sýndi Jesús að það er viðeigandi að tala um persónuleg mál í bæn til Jehóva. Við getum beðið hann um að gefa okkur mat fyrir daginn, fyrirgefa syndir okkar, forða okkur frá freistingum og frelsa okkur frá hinum vonda. (Matt. 6:11–13) Þegar við biðjum Jehóva um þetta sýnum við að við skiljum að við þurfum á hjálp hans að halda og tjáum um leið löngun okkar til að fá velþóknun hans.

Hvað getur eiginmaður talað um í bæn með eiginkonu sinni? (Sjá 6. grein.) *

6. Megum við aðeins biðja um það sem er nefnt í faðirvorinu? Skýrðu svarið.

6 Jesús ætlaðist ekki til að fylgjendur hans færu orðrétt með faðirvorið. Við önnur tækifæri þegar Jesús fór með bæn minntist hann á mismunandi málefni sem voru honum ofarlega í huga þá stundina. (Matt. 26:39, 42; Jóh. 17:1–26) Við getum líka beðið til Jehóva varðandi hvaðeina sem hvílir á okkur. Við getum beðið um visku og skilning þegar við þurfum að taka ákvarðanir. (Sálm. 119:33, 34) Þegar við hefjumst handa við erfitt verkefni getum við beðið um innsæi og dómgreind. (Orðskv. 2:6) Foreldrar geta beðið fyrir börnum sínum og börn fyrir foreldrum sínum. Og öll getum við og ættum að biðja fyrir biblíunemendum og þeim sem við boðum trúna. En bænir okkar ættu að sjálfsögðu ekki einungis að snúast um beiðnir.

Fyrir hvað getum við lofað Jehóva og þakkað honum í bænum okkar? (Sjá 7.–9. grein.) *

7. Hvers vegna ættum við að lofa Jehóva í bæn?

7 Við ættum að muna að lofa Jehóva í bænum okkar. Enginn á frekar skilið að fá lof heldur en Guð. Hann er „góður og fús til að fyrirgefa“. Hann er líka „miskunnsamur og samúðarfullur Guð, seinn til reiði og sýnir tryggan kærleika og trúfesti í ríkum mæli“. (Sálm. 86:5, 15) Við höfum sannarlega góða ástæðu til að lofa Jehóva fyrir eiginleika hans og það sem hann gerir.

8. Hvað getum við þakkað Jehóva fyrir? (Sálmur 104:12–15, 24)

8 Auk þess að lofa Jehóva í bænum okkar finnum við okkur knúin til að þakka honum fyrir allt það stórkostlega sem hann sér okkur fyrir. Við getum til dæmis þakkað honum fyrir magnaða liti blóma, endalausa fjölbreytni gómsætrar fæðu og uppbyggjandi félagskap góðra vina. Faðir okkar gefur okkur þetta og miklu meira vegna þess að hann elskar okkur og vill gleðja okkur. (Lestu Sálm 104:12–15, 24.) En það skiptir enn meira máli að við þökkum Jehóva fyrir ríkulega andlega fæðu sem hann sér okkur fyrir og þá stórkostlegu framtíðarvon sem við höfum.

9. Hvað getur hjálpað okkur að muna eftir að þakka Jehóva? (1. Þessaloníkubréf 5:17, 18)

9 Það getur auðveldlega gleymst að þakka Jehóva fyrir allt sem hann gerir fyrir okkur. Hvað getum við gert til að koma í veg fyrir það? Þú getur skrifað lista yfir ákveðnar beiðnir sem þú hefur nefnt í bænum þínum til Jehóva og athugað síðan öðru hvoru hvernig hann hefur svarað þér. Þakkaðu honum síðan fyrir hjálp hans. (Lestu 1. Þessaloníkubréf 5:17, 18.) Við erum ánægð þegar aðrir sýna okkur þakklæti og við finnum að aðrir kunna að meta okkur. Þegar við munum eftir að þakka Jehóva þegar hann svarar bænum okkar yljar það honum um hjartarætur. (Kól. 3:15) En við höfum aðra mikilvæga ástæðu til að þakka Guði.

ÞÖKKUM JEHÓVA FYRIR ÁSTKÆRAN SON HANS

10. Hvers vegna höfum við ástæðu til að þakka Jehóva fyrir að senda Jesú til jarðar samkvæmt 1. Pétursbréfi 2:21?

10 Lestu 1. Pétursbréf 2:21. Við ættum að þakka Jehóva fyrir að senda ástkæran son sinn til að kenna okkur. Við lærum svo mikið um Jehóva og hvernig við getum verið honum þóknanleg með því að kynna okkur líf Jesú. Ef við sýnum trú á lausnarfórn Krists getum við haft hlýlegt og persónulegt samband við Jehóva Guð og átt frið við hann. – Rómv. 5:1.

11. Hvers vegna biðjum við í nafni Jesú?

11 Við þökkum Jehóva fyrir að geta beðið til hans fyrir milligöngu sonar hans. Jesús er sú boðleið sem Jehóva notar til að verða við beiðnum okkar. Jehóva hlustar á og svarar bænum sem eru bornar fram í nafni Jesú. Jesús sagði: „Ég mun gera hvaðeina sem þið biðjið um í mínu nafni svo að faðirinn hljóti lof vegna sonarins.“ – Jóh. 14:13, 14.

12. Hvaða aðra ástæðu höfum við til að þakka Jehóva fyrir son sinn?

12 Jehóva fyrirgefur syndir okkar á grundvelli lausnarfórnar Jesú. Í Biblíunni er Jesús nefndur æðstiprestur sem „hefur sest hægra megin við hásæti hátignarinnar á himnum“. (Hebr. 8:1) Jesús er ,hjálpari okkar hjá föðurnum‘. (1. Jóh. 2:1) Við erum Jehóva innilega þakklát að hann skuli sjá okkur fyrir samúðarfullum æðstapresti sem skilur veikleika okkar og „talar máli okkar“. (Rómv. 8:34; Hebr. 4:15) Við erum ófullkomin þannig að við gætum ekki nálgast Jehóva í bæn án lausnarfórnar Jesú. Við erum örugglega sammála um að við gætum aldrei nógsamlega þakkað Jehóva þá dýrmætu gjöf sem hann hefur gefið okkur – son sinn.

BIÐJUM FYRIR BRÆÐRUM OG SYSTRUM

13. Hvernig sýndi Jesús að hann elskaði lærisveina sína kvöldið fyrir dauða sinn?

13 Kvöldið fyrir dauða sinn bað Jesús lengi fyrir lærisveinum sínum, að faðir hans myndi „gæta þeirra fyrir hinum vonda“. (Jóh. 17:15) Það endurspeglaði kærleika hans til þeirra. Hann var rétt í þann mund að ganga í gegnum mikla prófraun sjálfur en honum var umhugað um velferð postula sinna.

Hvað getum við nefnt í bænum okkar í þágu bræðra okkar og systra? (Sjá 14.–16. grein.) *

14. Hvernig getum við sýnt að við elskum bræður okkar og systur?

14 Við líkjum eftir Jesú og hugsum ekki einungis um eigin þarfir. Við biðjum að staðaldri fyrir bræðrum okkar og systrum. Þannig hlýðum við boði Jesú um að elska hvert annað og við sýnum Jehóva hversu mikið við elskum trúsystkini okkar. (Jóh. 13:34) Það er ekki tímasóun að biðja fyrir bræðrum og systrum. Orð Guðs bendir á að ,innileg bæn réttláts manns sé mjög áhrifarík‘. – Jak. 5:16.

15. Hvers vegna þurfa trúsystkini okkar á bænum okkar að halda?

15 Trúsystkini okkar þarfnast þess að við biðjum fyrir þeim vegna þess að þau takast á við margar prófraunir. Við getum beðið Jehóva að hjálpa þeim að þola veikindi, náttúruhamfarir, stríð, ofsóknir og aðra erfiðleika. Við getum líka beðið fyrir fórnfúsum bræðrum og systrum sem leggja hart að sér við að veita neyðaraðstoð. Þú þekkir kannski einhverja sem glíma við slíka erfiðleika. Hvers vegna ekki að nefna þá með nafni í bænum þínum? Við sýnum einlægan bróðurkærleika með því að biðja Jehóva að hjálpa þeim að halda út.

16. Hvers vegna ættum við að biðja fyrir þeim sem taka forystuna meðal okkar?

16 Þeir sem taka forystuna í söfnuðinum kunna vel að meta bænir annarra í þeirra þágu og þær koma að gagni. Þetta var líka mat Páls postula. Hann skrifaði: „Biðjið líka fyrir mér að mér verði gefin réttu orðin þegar ég tala og ég geti talað óhikað þegar ég kunngeri heilagan leyndardóm fagnaðarboðskaparins.“ (Ef. 6:19) Við höfum marga duglega bræður sem taka forystuna meðal okkar. Við sýnum þeim kærleika með því að biðja Jehóva að blessa störf þeirra.

ÞEGAR VIÐ BIÐJUM FYRIR HÖND ANNARRA

17, 18. Við hvaða tækifæri gætum við verið beðin að fara með bæn fyrir hönd annarra og hvað ættum við að hafa í huga?

17 Það kemur fyrir að við erum beðin um að fara með bæn fyrir hönd annarra. Systir sem stýrir biblíunámskeiði gæti til dæmis spurt systurina sem er með á námskeiðinu að fara með bæn. Hún þekkir kannski ekki nemandann vel þannig að hún myndi ef til vill vilja fara með bæn í lok námsstundarinnar. Þá á hún auðveldara með að laga bæn sína að þörfum nemandans.

18 Bróðir gæti verið beðinn um að fara með bæn í samansöfnun eða á safnaðarsamkomu. Bræður sem fá þetta verkefni ættu að hafa í huga tilgang samkomunnar. Bænir ætti ekki að nota til að gefa söfnuðinum leiðbeiningar eða koma með tilkynningar. Á flestum safnaðarsamkomum er gert ráð fyrir að söngur og bæn taki í mesta lagi fimm mínútur. Bróðir sem fer með bæn ætti því að varast að vera of margorður, sérstaklega við upphaf samkomu. – Matt. 6:7.

LÁTUM BÆNINA SKIPA MIKILVÆGAN SESS Í LÍFI OKKAR

19. Hvað hjálpar okkur að vera viðbúin endi þessa heimskerfis?

19 Eftir því sem endir þessa heimskerfis nálgast verður stöðugt mikilvægara að láta bænina skipa mikilvægan sess í lífinu. Jesús sagði í þessu sambandi: „Vakið því og biðjið stöðugt um að þið komist undan öllu þessu sem á að gerast.“ (Lúk. 21:36) Að biðja reglulega hjálpar okkur að halda okkur andlega vakandi svo að dagur Guðs komi okkur ekki í opna skjöldu.

20. Hvernig geta bænir okkar verið eins og ilmandi reykelsi?

20 Hvað höfum við lært? Það er einstakur heiður að mega leita til Jehóva í bæn. Þegar við biðjum ætti vilji Jehóva og tilgangur að vera okkur efst í huga. Við þökkum líka Jehóva fyrir Jesú og konungdóm hans og við biðjum fyrir trúsystkinum okkar. Og við getum að sjálfsögðu beðið til Jehóva um líkamlegar og andlegar þarfir okkar. Við sýnum að við metum mikils þann mikla heiður sem bænin er með því að hugleiða vandlega hvað við segjum í bænum okkar. Þá verða orð okkar eins og ilmandi reykelsi fyrir Jehóva – honum til yndis. – Orðskv. 15:8.

SÖNGUR 45 Hugsun hjarta míns

^ Við kunnum innilega að meta það að geta nálgast Jehóva í bæn. Við viljum að bænir okkar séu eins og ilmandi reykelsi og gleðji hann. Í þessari námsgrein ræðum við um það sem við getum talað um í bænum okkar. Við skoðum einnig hvað við ættum að hafa í huga þegar við erum beðin um að biðja fyrir hönd annarra.

^ MYND: Eiginmaður biður með eiginkonu sinni um að barnið þeirra megi vera öruggt í skólanum, um heilsu aldraðs foreldris og framfarir biblíunemanda.

^ MYND: Ungur bróðir þakkar Jehóva fyrir lausnarfórn Jesú, fallegt jarðneskt heimili okkar og næringarríka fæðu.

^ MYND: Systir biður Jehóva um að blessa stjórnandi ráð með anda sínum og hjálpa þeim sem þjást vegna hamfara og ofsókna.