Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 37

Þú getur treyst trúsystkinum þínum

Þú getur treyst trúsystkinum þínum

„Kærleikurinn … trúir öllu, vonar allt.“ – 1. KOR. 13:4, 7.

SÖNGUR 124 Sýnum tryggð

YFIRLIT a

1. Hvers vegna kemur það ekki á óvart að fólk skuli eiga erfitt með að treysta öðrum?

 FÓLK í heimi Satans veit ekki hverjum er hægt að treysta. Það verður stöðugt fyrir vonbrigðum með hegðun stjórnmála- og trúarleiðtoga og fólks í viðskiptaheiminum. Mörgum finnst erfitt að treysta vinum sínum, nágrönnum og jafnvel ættingjum. Þetta ætti ekki að koma okkur á óvart. Biblían spáði: „Á síðustu dögum … verða menn … ótrúir, … rógberar, … sviksamir.“ Fólk myndi með öðrum orðum endurspegla persónuleika guðs þessa heimskerfis sem er allt annað en treystandi. – 2. Tím. 3:1–4; 2. Kor. 4:4.

2. (a) Hverjum getum við treyst fullkomlega? (b) Hverju gætu sumir velt fyrir sér?

2 En við sem erum þjónar Jehóva vitum að við getum treyst honum fullkomlega. (Jer. 17:7, 8) Við erum fullviss um að hann elskar okkur og „yfirgefur aldrei“ vini sína. (Sálm. 9:10) Við getum líka treyst Jesú Kristi vegna þess að hann gaf líf sitt fyrir okkur. (1. Pét. 3:18) Og við vitum af eigin reynslu að Biblían sér okkur fyrir áreiðanlegri leiðsögn. (2. Tím. 3:16, 17) Við getum örugg sagt að við treystum á Jehóva, Jesú og Biblíuna. En sumir velta því kannski fyrir sér hvort þeir geti alltaf treyst bræðrum og systrum í söfnuðinum. Ef svo er, hvernig getum við verið viss um það?

VIÐ ÞURFUM Á BRÆÐRUM OKKAR OG SYSTRUM AÐ HALDA

Við eigum traust trúsystkini um allan heim sem elska Jehóva eins og við. (Sjá 3. grein.)

3. Hvaða einstaka heiðurs njótum við? (Markús 10:29, 30)

3 Jehóva hefur boðið okkur að vera í fjölskyldu tilbiðjenda sinna sem nær út um allan heim. Hugsa sér hvað það er mikill heiður og gerir okkur gott. (Lestu Markús 10:29, 30.) Um allan heim eigum við bræður og systur sem elska Jehóva eins og við og reyna sitt besta til að lifa í samræmi við vilja hans. Tungumál, menning og klæðnaður okkar eru kannski ekki eins en við finnum til náinna tengsla við þau, jafnvel þegar við hittum þau í fyrsta skipti. Við njótum þess sérstaklega að vera með þeim þegar við lofum og tilbiðjum kærleiksríkan föður okkar á himnum. – Sálm. 133:1.

4. Hvers vegna þurfum við á bræðrum okkar og systrum að halda?

4 Það hefur aldrei skipt jafn miklu máli og nú að við séum sameinuð bræðrum okkar og systrum. Þau hjálpa okkur að bera byrðar okkar. (Rómv. 15:1; Gal. 6:2) Þau hvetja okkur líka til að vera virk í þjónustu Jehóva og viðhalda sterku sambandi við hann. (1. Þess. 5:11; Hebr. 10:23–25) Ímyndum okkur hvernig okkur liði ef við hefðum ekki stuðning safnaðarins til að hjálpa okkur að standa stöðug gegn sameiginlegum óvinum okkar, Satan Djöflinum og vondum heimi hans. Satan og þeir sem láta að stjórn hans munu fljótlega ráðast á þjóna Guðs. Þegar það gerist verðum við mjög þakklát að hafa bræður okkar og systur okkur við hlið.

5. Hvers vegna gætu sumir átt erfitt með að treysta bræðrum sínum og systrum?

5 Sumum trúsystkinum finnst hins vegar erfitt að treysta bræðrum sínum og systrum, hugsanlega vegna þess að eitthvert þeirra brást trúnaði eða sveik loforð. Eða þá að einhver í söfnuðinum sagði eða gerði eitthvað sem særði þau mjög djúpt. Það getur verið erfitt að treysta öðrum þegar slíkt gerist. Hvað getur í slíkum tilfellum hjálpað okkur að byggja upp traust til trúsystkina okkar?

KÆRLEIKUR HJÁLPAR OKKUR AÐ BYGGJA UPP TRAUST

6. Hvernig getur kærleikur hjálpað okkur að byggja upp traust til annarra? (1. Korintubréf 13:4–8)

6 Kærleikurinn er grunnurinn að trausti. Í 1. Korintubréfi 13. kafla er mörgum hliðum kærleikans lýst sem geta hjálpað okkur að byggja upp eða endurheimta traust okkar til annarra. (Lestu 1. Korintubréf 13:4–8.) Í versi 4 segir til dæmis: „Kærleikurinn er þolinmóður og góðviljaður.“ Jehóva er þolinmóður við okkur, jafnvel þegar við syndgum gegn honum. Við ættum því líka að vera þolinmóð við bræður okkar og systur ef þau gera eða segja eitthvað sem pirrar okkur eða særir. Vers 5 bætir við: „[Kærleikurinn] er ekki reiðigjarn. Hann heldur ekki reikning yfir rangindi.“ Við viljum ekki ,halda reikning yfir rangindi‘ og skrá í minni okkar móðganir bræðra okkar og systra til að geta vitnað í síðar. Við viljum hvorki vera ,fljót til að móðgast‘ né vera „reið fram yfir sólsetur“. – Préd. 7:9; Ef. 4:26.

7. Hvernig hjálpa meginreglurnar í Matteusi 7:1–5 okkur að byggja upp traust?

7 Annað sem er gagnlegt til að byggja upp traust til bræðra okkar og systra er að sjá þau sömu augum og Jehóva sér þau. Guð elskar þau og heldur ekki skrá yfir syndir þeirra. Við ættum ekki heldur að gera það. (Sálm. 130:3) Í staðinn fyrir að einblína á galla þeirra ættum við að leggja okkur fram við að koma auga á góða eiginleika þeirra og möguleika til að gera gott. (Lestu Matteus 7:1–5.) Við látum þau njóta vafans vegna þess að kærleikurinn „trúir öllu“. (1. Kor. 13:7) Þessi staðhæfing merkir ekki að Jehóva ætlist til þess að við treystum öðrum í blindni en hann væntir þess að við treystum þeim vegna þess að þeir hafa sýnt að þeir eru traustsins verðir. b

8. Hvernig geturðu lært að treysta bræðrum þínum og systrum?

8 Það tekur tíma að byggja upp traust rétt eins og virðingu. Hvernig geturðu byggt upp traust til trúsystkina þinna? Kynnstu þeim vel. Talaðu við þau á safnaðarsamkomum. Taktu þátt í boðuninni með þeim. Vertu þolinmóður við þau og gefðu þeim þannig tækifæri til að sýna að þau eru traustsins verð. Þú talar kannski ekki um hvað sem er við þann sem þú ert að byrja að kynnast. Eftir því sem þið kynnist betur verðurðu kannski afslappaðri og getur sagt hvernig þér líður. (Lúk. 16:10) En hvað geturðu gert ef bróðir eða systir bregst trausti þínu? Ekki vera of fljótur að gefast upp á honum eða henni. Leyfðu tímanum aðeins að líða. Og láttu ekki hegðun fárra koma í veg fyrir að þú treystir öðrum bræðrum og systrum. Skoðum dæmi um nokkra trúfasta þjóna Jehóva sem létu ekki vonbrigði með suma koma í veg fyrir að þeir treystu öðrum.

LÆRUM AF ÞEIM SEM HÉLDU ÁFRAM AÐ TREYSTA ÖÐRUM

Hanna hélt áfram að treysta á fyrirkomulag Jehóva þrátt fyrir framkomu Elí í fyrstu. (Sjá 9. grein.)

9. (a) Hvernig sýndi Hanna traust á fyrirkomulagi Jehóva þrátt fyrir mistök sumra þjóna hans? (b) Hvað getum við lært af Hönnu varðandi það að treysta fyrirkomulagi Jehóva? (Sjá myndina.)

9 Hefurðu einhvern tíma orðið fyrir vonbrigðum með hegðun bróður í ábyrgðarstöðu? Ef svo er gæti það reynst þér gagnlegt að hugleiða það sem Hanna gerði. Á þeim tíma tók Elí æðstiprestur forystuna í tilbeiðslunni á Jehóva í Ísrael. En það var ekki allt til fyrirmyndar í fjölskyldu hans. Synir hans voru prestar en þeir stunduðu svívirðilegt siðleysi og hann gerði lítið til að leiðrétta þá. Jehóva svipti Elí ekki strax embætti. En Hanna sneri ekki baki við fyrirkomulagi Guðs með því að hætta að tilbiðja við tjaldbúðina meðan Elí var æðstiprestur. Þegar Elí sá Hönnu örvæntingafulla á bæn til Jehóva ályktaði hann ranglega að hún væri drukkin. Hann gagnrýndi þessa þjáðu konu án þess að athuga málin nánar. (1. Sam. 1:12–16) Hún hafði lofað að ef hún eignaðist son kæmi hún með hann til að þjóna við tjaldbúðina. Hún var tilbúin að standa við loforð sitt þótt það þýddi að sonurinn yrði í umsjá Elí. (1. Sam. 1:11) Var þörf á því að leiðrétta málin í sambandi við syni Elí? Já, og Jehóva refsaði þeim þegar rétti tíminn kom. (1. Sam. 4:17) Í millitíðinni blessaði Jehóva Hönnu með því að gefa henni son, Samúel. – 1. Sam. 1:17–20.

10. Hvað sýnir að Davíð konungur treysti öðrum þótt hann hefði verið svikinn af sumum?

10 Hefur þú einhvern tíma verið svikinn af nánum vini? Ef svo er skaltu hugleiða það sem kom fyrir Davíð konung. Hann átti vin sem hét Akítófel. En þegar Absalon sonur Davíðs reyndi að hrifsa konungdóminn frá föður sínum slóst Akítófel í lið með honum í uppreisn gegn Davíð. Það hefur verið ótrúlega mikið áfall fyrir Davíð að missa stuðning bæði sonar síns og manns sem hann áleit vin sinn. En þetta varð ekki til þess að Davíð hætti að treysta öðrum. Hann hélt áfram að treysta Húsaí, öðrum traustum vini sínum, en hann neitaði að taka þátt í uppreisninni. Davíð sýndi ekki traust til einskis. Húsaí reyndist góður vinur og hætti jafnvel lífi sínu til að hjálpa Davíð. – 2. Sam. 17:1–16.

11. Hvernig sýndi einn af þjónum Nabals traust?

11 Skoðum líka það sem einn af þjónum Nabals gerði. Davíð og menn hans höfðu sýnt þá góðvild að vernda þjóna Nabals, en hann var Ísraelsmaður. Nokkru síðar bað Davíð Nabal, sem var auðugur maður, að gefa mönnum Davíðs mat sem hann mætti sjá af. Þegar Nabal neitaði þessari hæversku bón varð Davíð svo reiður að hann ákvað að drepa alla karlmenn í húsi Nabals. Þjónn Nabals fór þá til eiginkonu hans, Abígail, og sagði henni hvað hefði gerst. Hann tilheyrði fjölskyldunni og vissi að líf hans var í höndum Abígail. Í stað þess að forða sér treysti hann því að Abígail myndi gera eitthvað í málinu. Hann vissi að hún var vitur kona. Og hún reyndist vera traustsins verð. Abígail sýndi hugrekki og fékk Davíð ofan af því að gera það sem hann ætlaði sér. (1. Sam. 25:2–35) Hún treysti því að Davíð myndi bregðast við af skynsemi.

12. Hvernig sýndi Jesús að hann treysti lærisveinum sínum þrátt fyrir mistök þeirra?

12 Jesús treysti lærisveinum sínum þrátt fyrir mistök þeirra. (Jóh. 15:15, 16) Þegar Jakob og Jóhannes báðu Jesú um sérstakar stöður í Guðsríki dró hann ekki í efa hvatir þeirra til að þjóna Jehóva og hafnaði þeim ekki sem postulum. (Mark. 10:35–40) Síðar yfirgáfu allir lærisveinar Jesú hann kvöldið þegar hann var handtekinn. (Matt. 26:56) En Jesús missti aldrei trú á þeim. Ófullkomleiki þeirra fór ekki fram hjá honum en samt ,elskaði hann þá allt til enda‘. (Jóh. 13:1) Eftir upprisu sína fól Jesús ellefu trúföstu postulunum sínum mikilvæga ábyrgð – að taka forystuna í að gera fólk að lærisveinum og annast dýrmæta sauði sína. (Matt. 28:19, 20; Jóh. 21:15–17) Hann hafði góða ástæðu til að treysta þessum ófullkomnu mönnum. Allir þjónuðu þeir trúfastir til dauðadags. Hanna, Davíð, þjónn Nabals, Abígail og Jesús settu sannarlega gott fordæmi í að treysta ófullkomnum mönnum.

ENDURHEIMTUM TRAUST Á TRÚSYSTKINUM OKKAR

13. Hvað getur orðið til þess að við eigum erfitt með að treysta öðrum?

13 Hefur þú einhvern tíma sagt trúsystkini eitthvað í trúnaði og uppgötvað síðar að aðrir fréttu af því? Það getur verið hræðilegt. Einu sinni talaði systir við öldung í trúnaði. Daginn eftir hringdi eiginkona öldungsins í systurina til að uppörva hana og var greinilega kunnugt um það sem hún hafði sagt öldungnum. Skiljanlega varð þetta til þess að systirin átti erfitt með að treysta öldungnum. Sem betur fer leitaði hún hjálpar. Hún talaði við annan öldung og hann hjálpaði henni að endurheimta traust sitt á öldungunum.

14. Hvað hjálpaði bróður að endurheimta traust?

14 Bróðir einn var lengi vel ósáttur við tvo öldunga sem honum fannst hann ekki geta treyst. Þá fór hann að hugleiða nokkuð sem bróðir sagði, en hann ber mikla virðingu fyrir þessum bróður. Það sem hann sagði var einfalt en áhrifaríkt: „Satan er óvinurinn, ekki trúsystkini okkar.“ Bróðirinn velti þessum orðum vandlega fyrir sér og hvað hann ætti að gera. Og eftir að hafa beðið Jehóva um hjálp gat hann sæst við báða öldungana.

15. Hvers vegna getur það tekið tíma að endurheimta traust? Nefndu dæmi.

15 Hefur þú misst þjónustuverkefni? Það getur verið mjög sárt. Grete og móðir hennar voru trúfastir vottar í Þýskalandi á tímum nasista á fjórða áratug síðustu aldar þegar starf okkar var bannað. Grete var ánægð að hafa það verkefni að vélrita Varðturninn fyrir trúsystkini sín. En þegar bræðurnir komust að því að faðir hennar var á móti sannleikanum tóku þeir þetta verkefni af henni vegna þess að þeir óttuðust að faðir hennar sviki söfnuðinn í hendur andstæðinganna. Og þetta var ekki það eina sem Grete mátti þola. Það sem eftir var síðari heimstyrjaldarinnar vildu bræðurnir ekki láta Grete og móður hennar fá eintök af blöðunum og ekki tala við þær þegar þeir hittu þær úti á götu. Þetta var mjög sárt. Það tók langan tíma fyrir Grete að fyrirgefa þessum bræðrum og treysta þeim aftur. En með tímanum viðurkenndi hún samt að Jehóva hlyti að hafa fyrirgefið þeim þannig að hún ætti að gera það líka. c

„Satan er óvinurinn, ekki trúsystkini okkar.“

16. Hvers vegna þurfum við að leggja okkur öll fram við að treysta bræðrum okkar og systrum?

16 Ef þú hefur orðið fyrir svipaðri sárri reynslu skaltu vinna að því að endurheimta traustið. Það getur tekið tíma en það er erfiðisins virði. Tökum dæmi: Maður sem fær matareitrun passar sig örugglega vel á því hvað hann borðar eftir það. En hann hættir ekki að borða. Við ættum ekki heldur að láta slæma reynslu í eitt skipti veikja traust okkar á öllum bræðrum okkar og systrum sem við vitum að eru ófullkomin. Þegar við endurheimtum traust á öðrum verðum við glaðari og eigum auðveldara með að sjá hvað við getum gert til að stuðla að trausti í samskiptum bræðra og systra í söfnuðinum.

17. Hvers vegna er traust svona mikilvægt og hvað verður tekið til umfjöllunar í næstu námsgrein?

17 Traust er sjaldgæft í heimi Satans en traust byggt á kærleika einkennir bræðrafélag okkar um allan heim. Þetta traust stuðlar að gleði og einingu og verður okkur til verndar þegar tímarnir verða erfiðari. Hvað geturðu gert ef einhver hefur brugðist trausti þínu? Reyndu að sjá málin frá sjónarhóli Jehóva, fylgdu meginreglum Biblíunnar, ræktaðu með þér djúpan kærleika til bræðra og systra og lærðu af einstaklingum sem Biblían greinir frá. Við getum jafnað okkur og lært að treysta öðrum aftur. Þannig njótum við þeirrar blessunar að eiga óteljandi vini sem eru „tryggari en bróðir“. (Orðskv. 18:24) En traust er ekki einstefnugata. Í næstu námsgrein skoðum við hvernig við getum sýnt að við séum traustsins verð.

SÖNGUR 99 Milljónir bræðra

a Við þurfum að treysta bræðrum okkar og systrum. Það er ekki alltaf auðvelt því að stundum valda þau okkur vonbrigðum. Í þessari námsgrein skoðum við nokkrar meginreglur í Biblíunni og dæmi úr fortíðinni sem er gott að hugleiða. Þetta hjálpar okkur að styrkja traust okkar á trúsystkinum okkar og endurheimta traust ef þau hafa valdið okkur vonbrigðum.

b Í Biblíunni erum við vöruð við því að sumir í söfnuðinum séu ef til vill ekki traustsins verðir. (Júd. 4) Í einstaka tilfellum geta falsbræður reynt að afvegaleiða aðra með því að „rangsnúa sannleikanum“. (Post. 20:30) Við treystum þeim ekki og hlustum ekki á þá.