Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Hvað átti Páll postuli við þegar hann sagðist vera „fæddur fyrir tímann“? (1. Korintubréf 15:8)

Páll sagði samkvæmt 1. Korintubréfi 15:8: „En síðast allra birtist hann einnig mér eins og ég væri fæddur fyrir tímann.“ Við höfum áður skilið þetta þannig að Páll hafi þarna vísað í reynslu sína þegar hann í sýn sá Jesú í himneskri dýrð sinni. Það hafi verið eins og hann fengi þann heiður að fæðast að nýju, eða fá upprisu til lífs sem andi fyrir tímann, öldum áður en slík upprisa myndi eiga sér stað. En nánari rannsókn á þessu versi virðist kalla á breytta skýringu.

Það er rétt að Páll vísar í það sem gerðist þegar hann tók kristna trú. En hvað átti hann við þegar hann sagðist vera „fæddur fyrir tímann“? Það eru ýmsar mögulegar skýringar á því.

Trúskipti hans gerðust skyndilega og tóku á. Ótímabær fæðing kemur oft á óvart. Sál (seinna þekktur sem Páll) fór til Damaskus til að ofsækja kristna menn og bjóst ekki við að sjá hinn upprisna Jesú í sýn. Trúskipti Páls komu ekki aðeins honum sjálfum á óvart heldur líka kristnum mönnum sem hann hafði ætlað að ofsækja í þessari borg. Auk þess tók þessi lífsreynsla svo á að hann varð tímabundið blindur. – Post. 9:1–9, 17–19.

Hann skipti um trú „á röngum tíma“. Gríska orðið sem er þýtt „fæddur fyrir tímann“ má einnig þýða „fæddur á röngum tíma“. The Jerusalem Bible orðar þetta svona: „Það var eins og ég fæddist þegar enginn átti von á því.“ Þegar Páll skipti um trú hafði Jesús þegar farið aftur til himna. Hann hafði aldrei séð Jesú upprisinn fyrir þann tíma eins og þeir höfðu gert sem hann talar um í versunum á undan. (1. Kor. 15:4–8) Páll fékk hins vegar tækifæri til þess þegar Jesús birtist honum óvænt, að því er virtist, „á röngum tíma“.

Hann var lítillátur þegar hann talaði um sjálfan sig. Að sögn sumra fræðimanna getur hugtakið sem Páll notar hér haft neikvæðan blæ. Ef Páll notaði það í þeirri merkingu var hann að viðurkenna að hann ætti ekki skilið heiðurinn sem hann hafði hlotið. Hann sagði reyndar: „Ég er sístur postulanna og er ekki þess verður að kallast postuli vegna þess að ég ofsótti söfnuð Guðs. En ég er það sem ég er vegna einstakrar góðvildar Guðs.“ – 1. Kor. 15:9, 10.

Það má því vera að Páll hafi haft í huga hvernig Jesús birtist honum óvænt og skyndilega, hve tímasetningin var óvænt eða það að hann var ekki þess verður að fá þessa stórkostlegu opinberun. Hvað sem Páll hafði í huga var þessi reynsla honum augljóslega dýrmæt. Hún sýndi honum skýrt fram á að Jesús væri upprisinn frá dauðum. Það er ekki að undra að Páll skuli oft hafa talað um þessa óvæntu reynslu þegar hann ræddi við aðra um upprisu Jesú. – Post. 22:6–11; 26:13–18.