Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Hverjir verða reistir upp til lífs á jörðinni og hvers konar upprisu fá þeir?

Skoðum svar Biblíunnar við þessum spurningum.

Í Postulasögunni 24:15 segir að „Guð muni reisa upp bæði réttláta og rangláta“. Hinir réttlátu eru þeir sem hlýddu Guði áður en þeir dóu svo að nöfn þeirra eru rituð í bók lífsins. (Mal. 3:16) Hinir ranglátu eru meðal annars þeir sem fengu ekki nægilegt tækifæri til að kynnast Jehóva áður en þeir dóu. Nöfn þeirra eru þar af leiðandi ekki rituð í bók lífsins.

Í Jóhannesi 5:28, 29 er talað um sömu tvo hópana og í Postulasögunni 24:15. Jesús segir að ,þeir sem gerðu hið góða rísi upp til lífs en þeir sem ástunduðu hið illa rísi upp til dóms‘. Hinir réttlátu gerðu hið góða áður en þeir dóu. Þeir rísa upp til lífs vegna þess að nöfn þeirra eru enn skrifuð í bók lífsins. En hinir ranglátu ástunduðu hið illa áður en þeir dóu. Þeir rísa upp til dóms. Nöfn þeirra eru ekki enn skrifuð í bók lífsins. Við tekur reynslutímabil þar sem mat verður lagt á þá. Á þeim tíma fá þeir tækifæri til að læra um Jehóva og geta fengið nöfn sín skrifuð í bók lífsins.

Í Opinberunarbókinni 20:12, 13 er útskýrt að allir sem rísa upp þurfi að hlýða ,því sem stendur í bókrollunum‘ það er að segja nýjum lögum sem Guð gefur okkur í nýja heiminum. Þeir sem vilja ekki hlýða þeim verða afmáðir. – Jes. 65:20.

Daníel 12:2 (Biblían 2010) segir fyrir að sumir þeirra sem sofa svefni dauðans muni vakna „til eilífs lífs, aðrir til lasts og ævarandi smánar“. Þetta vers segir hvernig endanleg útkoma upprisu þeirra verður – „til eilífs lífs“ eða „ævarandi smánar“. Við lok þúsund ára tímabilsins fá sumir því eilíft líf en aðrir verða afmáðir að eilífu. – Opinb. 20:15; 21:3, 4.

Tökum dæmi. Líkja má stöðu hópanna tveggja sem fá upprisu við útlendinga sem hafa áhuga á að búa í tilteknu landi. Hinir réttlátu eru eins og þeir sem fá atvinnuleyfi eða dvalarleyfi sem veitir þeim ákveðin réttindi og frelsi. Hinir ranglátu eru á hinn bóginn eins og útlendingar sem fá tímabundið leyfi. Þeir þurfa að ávinna sér rétt til að halda áfram að búa í landinu. Á líkan hátt þurfa hinir ranglátu að hlýða lögum Jehóva og sýna að þeir séu orðnir réttlátir til að fá að vera í paradís. Og hvers eðlis sem leyfi útlendinga er í byrjun öðlast sumir þeirra ríkisborgararétt með tímanum en aðrir ekki og þeim er vísað úr landi. Endanleg útkoma veltur á viðhorfi þeirra og hegðun í nýja landinu. Á líkan hátt veltur endanleg staða allra þeirra sem fá upprisu á trúfesti þeirra og breytni í nýja heiminum.

Jehóva er ekki bara kærleiksríkur Guð heldur líka Guð réttlætis og sanngirni. (5. Mós. 32:4; Sálm. 33:5) Hann mun sýna kærleika sinn með því að gefa bæði réttlátum og ranglátum upprisu. En hann væntir þess að þeir beygi sig undir mælikvarða hans um rétt og rangt. Aðeins þeir sem elska hann og hlýða mælikvarða hans fá að lifa áfram í nýja heiminum.