Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 2

„Umbreytist með því að endurnýja hugarfarið“

„Umbreytist með því að endurnýja hugarfarið“

„Umbreytist með því að endurnýja hugarfarið svo að þið getið sannreynt hver sé hinn góði og fullkomni vilji Guðs.“ – RÓMV. 12:2.

SÖNGUR 88 Vísaðu mér veg þinn

YFIRLIT a

1, 2. Hvað verðum við að halda áfram að gera eftir skírn okkar? Skýrðu svarið.

 HVERSU oft þrífurðu heimili þitt? Áður en þú fluttir inn tókstu það trúlega vel í gegn. En hvað ef þú hefðir síðan hætt að þrífa það? Við vitum að ryk og óhreinindi eru fljót að koma aftur. Til að hafa heimilið snyrtilegt þurfum við að þrífa reglulega.

2 Við þurfum líka að halda áfram að laga persónuleika okkar og hugsun. Áður en við létum skírast lögðum við að sjálfsögðu hart að okkur við að gera nauðsynlegar breytingar á lífi okkar til að „hreinsa okkur af öllu sem óhreinkar líkama og huga“. (2. Kor. 7:1) En núna þurfum við að fylgja leiðbeiningum Páls um að „halda áfram að endurnýja hugsunarhátt“ okkar. (Ef. 4:23) Hvers vegna þurfum við að halda áfram að leiðrétta okkur? Vegna þess að ryk og óhreinindi þessa heims geta óhreinkað okkur fljótt. Til að koma í veg fyrir það og halda áfram að vera Jehóva þóknanleg verðum við reglulega að rannsaka hugsun okkar, persónuleika og langanir.

HÖLDUM ÁFRAM AÐ „ENDURNÝJA HUGARFARIГ

3. Hvað merkir það að „endurnýja hugarfarið“? (Rómverjabréfið 12:2)

3 Hvað þurfum við að gera til að endurnýja hugarfarið, eða breyta því hvernig við hugsum? (Lestu Rómverjabréfið 12:2.) Að „endurnýja hugarfarið“ þýðir ekki að við gerum eitthvað gott í nokkur skipti. Við þurfum að rannsaka hvaða mann við höfum að geyma innst inni og gera þær breytingar sem þarf til að líf okkar sé eins mikið í samræmi við mælikvarða Jehóva og mögulegt er. Og við ættum ekki bara að gera þetta í eitt skipti heldur stöðugt.

Sýna ákvarðanir þínar varðandi menntun og val á lífsstarfi að þú setur hagsmuni Guðsríkis í fyrsta sæti? (Sjá 4. og 5. grein.) c

4. Hvernig getum við forðast að láta heiminn móta huga okkar?

4 Þegar við verðum orðin fullkomin getum við verið Jehóva þóknanleg í öllu sem við gerum. Þangað til þurfum við að leggja hart að okkur og keppa að því markmiði. Tökum eftir í Rómverjabréfinu 12:2 hvernig Páll tengir það að endurnýja hugarfarið við að skilja hver vilji Guðs sé. Í stað þess að leyfa þessum vonda heimi að móta okkur verðum við að rannsaka okkur sjálf til að sjá hversu mikið við látum hugsun Guðs, ekki heimsins, hafa áhrif á markmið okkar og ákvarðanir.

5. Hvernig getum við rannsakað hugsunarhátt okkar varðandi nálægð dags Jehóva? (Sjá mynd.)

5 Skoðum dæmi. Jehóva vill að við höfum „stöðugt í huga að dagur Jehóva er nálægur“. (2. Pét. 3:12) Spyrðu þig: Sýni ég með lífi mínu að ég skilji hversu nálægur endir þessa heims er? Sýna ákvarðanir mínar varðandi menntun og vinnu að þjónustan við Jehóva er það mikilvægasta í lífi mínu? Trúi ég því að Jehóva muni sjá fyrir mér og fjölskyldu minni eða hef ég stöðugar áhyggjur af efnislegum hlutum? Jehóva er mjög ánægður þegar hann sér að við lifum í samræmi við vilja hans. – Matt. 6:25–27, 33; Fil. 4:12, 13.

6. Hvað verðum við að halda áfram að gera?

6 Við þurfum að rannsaka hugsun okkar reglulega og gera nauðsynlegar breytingar þegar þörf er á. Páll sagði við Korintumenn: „Rannsakið stöðugt hvort þið séuð í trúnni og prófið hvaða mann þið hafið að geyma.“ (2. Kor. 13:5) Að vera „í trúnni“ felur meira í sér en að sækja safnaðarsamkomur og taka þátt í boðun trúarinnar öðru hvoru. Það snertir líka hugsun okkar, tilhneigingar og hvatir. Við þurfum því stöðugt að endurnýja hugarfar okkar með því að lesa í Biblíunni, læra að hugsa eins og Jehóva og gera hvað sem þörf krefur til að þóknast honum. – 1. Kor. 2:14–16.

,ÍKLÆÐUMST HINUM NÝJA MANNI‘

7. Hvað fleira þurfum við að gera samkvæmt Efesusbréfinu 4:31, 32 og hvers vegna gæti það reynst erfitt?

7 Lestu Efesusbréfið 4:31, 32. Auk þess að breyta hugsun okkar þurfum við að „íklæðast hinum nýja manni“. (Ef. 4:24) Það kostar viðleitni. Við verðum meðal annars að leggja okkur fram um að losa okkur við slæma eiginleika eins og biturð, reiði og bræði. Hvers vegna getur það verið erfitt? Neikvæðir eiginleikar geta verið rótgrónir. Í Biblíunni segir til dæmis að sumir séu ,reiðigjarnir‘ og ,skapstyggir‘. (Orðskv. 29:22) Eins og eftirfarandi reynsla sýnir útheimtir það trúlega áframhaldandi viðleitni, jafnvel eftir skírnina, að hafa stjórn á slíkum persónueinkennum.

8, 9. Hvernig sýnir reynsla Stephens að við þurfum að halda áfram að afklæðast hinum gamla manni?

8 Bróðir sem heitir Stephen átti í erfiðleikum með að hafa stjórn á skapi sínu. „Ég þurfti samt að halda áfram að vinna í skapinu eftir að ég var skírður,“ segir hann. „Einu sinni þegar ég var að boða trúna hús úr húsi var útvarpinu stolið úr bílnum mínum. Ég hljóp á eftir þjófnum og var næstum búinn að ná honum þegar hann henti útvarpinu frá sér og komst undan. Þegar ég sagði hinum í hópnum frá þessu spurði öldungur mig: ,Stephen, hvað hefðirðu gert ef þú hefðir náð honum?‘ Þessi spurning vakti mig til umhugsunar og hvatti mig til að leggja mig meira fram um að vera friðsamur.“ b

9 Eins og saga Stephens sýnir geta neikvæðir eiginleikar komið óvænt upp á yfirborðið, jafnvel eftir að við héldum að við hefðum stjórn á þeim. Ef það hendir þig skaltu ekki láta það draga úr þér kjark og ekki gera ráð fyrir að þú sért vonlaus þjónn Guðs. Jafnvel Páll postuli viðurkenndi: „Þegar ég vil gera það sem er rétt hef ég tilhneigingu til að gera það sem er illt.“ (Rómv. 7:21–23) Allir þjónar Jehóva eru ófullkomnir og þurfa að takast á við einhverja neikvæða eiginleika sem koma aftur og aftur eins og ryk og óhreinindi á heimilinu. Við þurfum að halda áfram að halda okkur hreinum. Hvernig förum við að?

10. Hvernig getum við barist á móti óæskilegum eiginleikum? (1. Jóhannesarbréf 5:14, 15)

10 Talaðu við Jehóva í bæn um eiginleika sem þú átt erfitt með að sigrast á. Þú getur verið viss um að hann hlustar á þig og hjálpar þér. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 5:14, 15.) Þótt Jehóva losi þig ekki við þennan eiginleika fyrir kraftaverk getur hann gefið þér styrk til að hafa hemil á honum. (1. Pét. 5:10) Þú getur síðan breytt í samræmi við bænir þínar með því að gera ekkert sem gæti ýtt undir að hann láti á sér kræla. Forðastu að horfa á kvikmyndir og sjónvarpsþætti eða lesa sögur sem sýna í jákvæðu ljósi eiginleika sem þú ert að reyna að losa þig við. Og láttu hugann ekki dvelja við óviðeigandi langanir. – Fil. 4:8; Kól. 3:2.

11. Hvað getum við gert til að halda áfram að íklæðast nýja manninum?

11 Það er ekki nóg að þú hafir afklæðst gamla manninum, þú þarft líka að íklæðast hinum nýja manni. Hvernig geturðu gert það? Gerðu það að markmiði þínu að líkja eftir Jehóva þegar þú kynnist eiginleikum hans. (Ef. 5:1, 2) Þegar þú lest til dæmis frásögu í Biblíunni sem sýnir hve fús Jehóva er að fyrirgefa skaltu spyrja þig: Er ég fús að fyrirgefa öðrum? Þegar þú lest um samúð Jehóva gagnvart fátækum skaltu spyrja þig: Ber ég slíkar tilfinningar til trúsystkina sem þurfa efnislega hjálp og sýni ég það í verki? Haltu þannig áfram að endurnýja hugarfarið með því að íklæðast nýja manninum og vertu þolinmóður við sjálfan þig þegar þú gerir það.

12. Hvernig upplifði Stephen mátt Biblíunnar til að breyta fólki?

12 Stephen sem áður er minnst á fann að hann gat smám saman íklæðst nýja manninum. Hann segir: „Frá því að ég skírðist hef ég nokkrum sinnum lent í eldfimum aðstæðum. Ég hef lært að ganga burt ef einhver ögrar mér eða draga úr spennunni á annan hátt. Margir hafa hrósað mér fyrir að bregðast vel við í slíkum aðstæðum, þar á meðal konan mín. Stundum hef ég jafnvel komið sjálfum mér á óvart! Ég eigna mér ekki heiðurinn af þessum breytingum í lífi mínu. Fyrir mér eru þær sönnun þess að Biblían hefur mátt til að breyta fólki.“

HÖLDUM ÁFRAM AÐ BERJAST GEGN ÓVIÐEIGANDI LÖNGUNUM

13. Hvað hjálpar okkur að rækta með okkur viðeigandi langanir? (Galatabréfið 5:16)

13 Lestu Galatabréfið 5:16. Til að hjálpa okkur að sigra í baráttunni við að breyta rétt hjálpar Jehóva okkur örlátlega með heilögum anda sínum. Þegar við rannsökum orð Guðs leyfum við anda hans að hafa áhrif á okkur. Við njótum áhrifa heilags anda þegar við mætum á samkomur. Þar hittum við bræður og systur sem eru, eins og við, að leggja sig fram um að breyta rétt. Það er hvetjandi. (Hebr. 10:24, 25; 13:7) Og þegar við nálgumst Jehóva í innilegri bæn og biðjum hann að hjálpa okkur í veikleika okkar gefur hann okkur heilagan anda sinn til að styrkja okkur í baráttunni. Þótt rangar langanir gufi ekki upp hjálpar þetta okkur að koma í veg fyrir að þær fái okkur til að gera rangt. Í Galatabréfinu 5:16 segir að þeir sem lifa í andanum ,láti ekki undan neinum girndum holdsins‘.

14. Hvers vegna er mikilvægt að halda áfram að rækta með sér viðeigandi langanir?

14 Þegar við höfum byrjað að gera það sem hjálpar okkur að eiga gott samband við Jehóva er nauðsynlegt að halda því áfram og rækta jafnframt með okkur viðeigandi langanir. Hvers vegna? Vegna þess að einn óvina okkar slakar aldrei á verðinum. Hann er freistingin til að gera rangt. Jafnvel eftir að við látum skírast getur ýmislegt sem við ættum að forðast freistað okkar, eins og fjárhættuspil, misnotkun áfengis eða klám. (Ef. 5:3, 4) Ungur kristinn bróðir segir: „Eitt af því erfiðasta sem ég glími við er að ég laðast að fólki af sama kyni og ég. Ég hélt að þetta myndi smám saman dvína en þessar tilfinningar plaga mig enn þá.“ Hvað getur hjálpað ef óviðeigandi löngun er sérlega sterk?

Staðan er ekki vonlaus ef óviðeigandi langanir freista þín. Aðrir hafa líka barist við þær og sigrað. (Sjá 15. og 16. grein.)

15. Hvers vegna er uppörvandi að vita að óviðeigandi langanir eru ,algengar meðal manna‘? (Sjá mynd.)

15 Ef þú berst við sterka óviðeigandi löngun mundu þá að þú ert ekki einn um það. Í Biblíunni segir: „Þið hafið ekki orðið fyrir öðrum freistingum en algengt er meðal manna.“ (1. Kor. 10:13a) Þessum orðum var beint til kristinna karla og kvenna í Korintu. Sum þeirra höfðu haldið fram hjá maka sínum, átt í kynferðissambandi við einhvern af sama kyni eða verið drykkjumenn. (1. Kor. 6:9–11) Heldurðu að þau hafi aldrei fundið fyrir óviðeigandi löngunum eftir skírn sína? Það getur ekki verið. Þau voru öll andasmurð en líka ófullkomin. Vafalaust hafa þau þurft að berjast við óviðeigandi langanir við og við. Það ætti að vera hvetjandi fyrir okkur því að það sýnir að hvaða rangar langanir sem við glímum við þá hefur einhver náð að standa gegn sams konar löngunum. Þú getur sannarlega verið ,staðfastur í trúnni‘ vitandi að ,allt bræðrasamfélagið verður fyrir sömu þjáningum‘. – 1. Pét. 5:9.

16. Hvað gryfju ættum við að forðast og hvers vegna?

16 Forðastu þá gryfju að halda að enginn geti skilið hvað þú átt við að glíma. Það gæti fengið þig til að draga þá ályktun að staða þín sé vonlaus og að þú getir alls ekki staðið á móti óviðeigandi löngunum. Biblían segir eitthvað allt annað. Hún segir: „Guð er trúr og lætur ekki freista ykkar umfram það sem þið ráðið við því að samfara freistingunni sér hann fyrir leið út úr henni svo að þið getið staðist hana.“ (1. Kor. 10:13b) Við getum því verið Jehóva trúföst jafnvel þegar óviðeigandi langanir eru sterkar. Með hjálp Jehóva getum við haldið okkur frá því að gera rangt.

17. Hverju getum við stjórnað þótt við getum kannski ekki komið í veg fyrir að óviðeigandi langanir kvikni?

17 Ekki gleyma því að sem ófullkomin manneskja geturðu hugsanlega ekki komið í veg fyrir að óviðeigandi langanir kvikni. En þegar þær gera það geturðu vísað þeim ákveðið á bug eins og Jósef gerði þegar hann hljóp strax burt frá eiginkonu Pótífars. (1. Mós. 39:12) Þú þarft ekki að láta óviðeigandi langanir stjórna þér!

HÖLDUM ÁFRAM AÐ LEGGJA HART AÐ OKKUR

18, 19. Hvaða spurninga getum við spurt okkur þegar við leitumst við að endurnýja hugarfar okkar?

18 Að endurnýja hugarfarið felur í sér að halda áfram að leggja hart að okkur við að beina hugsun okkar og verkum í átt að vilja Jehóva. Við ættum því reglulega að rannsaka okkur sjálf og spyrja okkur: Sýnir breytni mín að ég skil hversu áríðandi tímarnir eru sem við lifum á? Tek ég framförum í að íklæðast hinum nýja manni? Leyfi ég anda Jehóva að leiðbeina mér í lífinu svo ég geti staðist tilhneiginguna til að fylgja girndum holdsins?

19 Þegar þú rannsakar sjálfan þig skaltu reyna að koma auga á framfarir en ekki fullkomleika. Misstu ekki móðinn ef þú sérð að þú getur tekið framförum. Fylgdu frekar ráðinu í Filippíbréfinu 3:16: ,Við skulum halda áfram á sömu braut og við erum á, óháð því hvaða framförum við höfum tekið.‘ Þegar þú gerir það geturðu verið viss um að Jehóva blessar viðleitni þína til að endurnýja hugarfarið.

SÖNGUR 36 Varðveitum hjartað

a Páll postuli hvatti trúsystkini sín til að láta ekki þennan vonda heim móta sig. Það er vissulega gott ráð fyrir okkur líka. Við þurfum að ganga úr skugga um að spillandi áhrif þessa heims hafi engin áhrif á okkur. Til að gera það þurfum við að halda áfram að leiðrétta hugarfar okkar í hvert sinn sem við áttum okkur á því að það er ekki í samræmi við vilja Guðs. Í þessari námsgrein skoðum við hvernig við getum gert það.

b Sjá greinina „Líf mitt versnaði stöðugt“. (Grein úr Varðturninum.)

c MYND: Ungur bróðir veltir fyrir sér hvort hann eigi að stefna að framhaldsnámi eða fullu starfi í þjónustu Jehóva.