Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 4

Jehóva blessar viðleitni okkar til að halda minningarhátíðina

Jehóva blessar viðleitni okkar til að halda minningarhátíðina

„Gerið þetta til minningar um mig.“ – LÚK. 22:19.

SÖNGUR 19 Kvöldmáltíð Drottins

YFIRLIT a

1, 2. Hvers vegna sækjum við minningarhátíðina á hverju ári?

 FYRIR næstum 2.000 árum gaf Jesús líf sitt fyrir okkur og opnaði okkur þannig leiðina að eilífu lífi. Kvöldið áður en hann dó bauð hann fylgjendum sínum að minnast þessa kærleiksverks með einfaldri athöfn þar sem brauð og vín er borið fram. – 1. Kor. 11:23–26.

2 Við hlýðum fyrirmælum Jesú vegna þess að við elskum hann heitt. (Jóh. 14:15) Í kringum minningarhátíðina á hverju ári sýnum við þakklæti okkar fyrir það sem hann gerði með því að taka okkur tíma til að íhuga í bænarhug hvað dauði hans merkir. Við erum líka fús til að taka meiri þátt í boðuninni og bjóða sem flestum að vera með okkur við þetta sérstaka tilefni. Og við erum að sjálfsögðu ákveðin í að láta ekkert koma í veg fyrir að við sækjum minningarhátíðina.

3. Hvað skoðum við í þessari námsgrein?

3 Í þessari grein skoðum við hvernig þjónar Jehóva hafa á þrjá vegu lagt sig fram um að minnast dauða Jesú: (1) með því að endurvekja þessa hátíð eins og Jesús stofnaði hana, (2) með því að bjóða öðrum á minningarhátíðina og (3) með því að halda minningarhátíðina þrátt fyrir erfiðar aðstæður.

AÐ ENDURVEKJA HÁTÍÐINA EINS OG JESÚS STOFNAÐI HANA

4. Hvaða spurningum er svarað á hverju ári á minningarhátíðinni og hvers vegna ættum við að meta svörin mikils? (Lúkas 22:19, 20)

4 Á minningarhátíðinni á hverju ári hlustum við á biblíutengda ræðu sem gefur skýr svör við nokkrum spurningum. Við fræðumst um það hvers vegna mannkynið þarfnast lausnargjalds og hvernig dauði eins manns getur greitt fyrir syndir margra. Við erum minnt á hvað brauðið og vínið tákna og hverjir eigi að neyta þeirra. (Lestu Lúkas 22:19, 20.) Og við hugleiðum blessunina sem er í vændum fyrir þá sem eiga von um að lifa að eilífu á jörðinni. (Jes. 35:5, 6; 65:17, 21–23) Við ættum ekki að taka þessu sem sjálfsögðum hlut. Milljarðar manna skilja ekki þessi sannindi og gera sér ekki grein fyrir hve verðmæt fórn Jesú er. Og þeir halda ekki minningarhátíðina um dauða hans á þann hátt sem hann kenndi fylgjendum sínum að gera. Hvers vegna ekki?

5. Hvernig fór fólk að minnast dauða Jesú eftir að flestir postula hans dóu?

5 Eftir að flestir postula Jesú dóu fóru falskristnir menn fljótlega að læða sér inn í söfnuðinn. (Matt. 13:24–27, 37–39) Þeir ,rangsneru sannleikanum til að tæla lærisveinana á eftir sér‘. (Post. 20:29, 30) Ein af rangsnúnum kenningum þeirra var að Jesús hafi ekki fórnað lífi sínu „í eitt skipti fyrir öll til að bera syndir margra“, eins og segir í Biblíunni, heldur þurfi að endurtaka fórnina aftur og aftur. (Hebr. 9:27, 28) Margt einlægt fólk nú á dögum trúir þessari falskenningu. Það kemur saman í kirkju reglulega – stundum daglega – til að taka þátt í athöfn sem kallast „altarisganga“. b Önnur trúfélög minnast dauða Jesú sjaldnar, en flestir sem tilheyra þeim hafa aðeins óljósa mynd af því hvaða þýðingu fórn Jesú hefur. Sumir velta fyrir sér hvort dauði hans geti greitt fyrir syndir þeirra. Hvers vegna? Þeir hafa látið þá hafa áhrif á sig sem efast um að fórn Jesú geti veitt fyrirgefningu synda. Hvernig hafa sannir fylgjendur Jesú tekið á þessu máli?

6. Að hvaða niðurstöðu hafði hópur biblíunemenda komist árið 1872?

6 Seint á 19. öld lagðist hópur biblíunemenda, sem Charles Taze Russell leiddi, í ítarlega rannsókn á Biblíunni. Biblíunemendurnir vildu komast að því hvað fórn Jesú þýddi og hvernig ætti að minnast dauða hans. Árið 1872 höfðu þeir komist að þeirri niðurstöðu að Jesús færði í raun lausnarfórn fyrir allt mannkynið. Þeir héldu þessum upplýsingum ekki út af fyrir sig heldur skrifuðu um þær í bókum, dagblöðum og tímaritum. Og fljótlega fóru þeir að halda minningarhátíðina aðeins einu sinni á ári, rétt eins og kristnir menn á fyrstu öld gerðu.

7. Hvaða gagn höfum við af rannsóknum biblíunemendanna?

7 Við njótum góðs af rannsóknunum sem þessir einlægu biblíunemendur gerðu fyrir svo löngu. Hvernig? Jehóva hefur hjálpað okkur að skilja hvaða þýðingu fórn Jesú hefur og hverju hún áorkar. (1. Jóh. 2:1, 2) Við höfum líka lært að Biblían greinir frá tvenns konar von fyrir fólk sem Guð hefur velþóknun á – ódauðleika á himnum fyrir suma og eilíft líf á jörðinni fyrir milljónir annarra. Við verðum nánari Jehóva þegar við hugleiðum hve heitt hann elskar okkur og hve mikið gagn hvert og eitt okkar hefur af fórn Jesú. (1. Pét. 3:18; 1. Jóh. 4:9) Við bjóðum öðrum að halda minningarhátíðina með okkur á þann hátt sem Jesús kenndi fylgjendum sínum að gera. Þannig líkjum við eftir trúföstum bræðrum okkar fyrr á tímum.

AÐ BJÓÐA ÖÐRUM Á MINNINGARHÁTÍÐINA

Hvernig getur þú tekið fullan þátt í að bjóða fólki á minningarhátíðina? (Sjá 8.–10. grein.) e

8. Hvað hafa þjónar Jehóva gert til að bjóða öðrum á minningarhátíðina? (Sjá mynd.)

8 Þjónar Jehóva hafa lengi boðið öðrum á minningarhátíðina. Strax árið 1881 var trúsystkinum í Bandaríkjunum boðið að koma saman af þessu sérstaka tilefni í heimahúsi í Allegheny í Pennsylvaníu. Seinna fór hver söfnuður að halda sína eigin minningarhátíð. Í mars 1940 var boðberum sagt að þeir gætu boðið öllum á svæðinu sem sýndu áhuga. Árið 1960 sá Betel í fyrsta skipti fyrir prentuðum boðsmiðum. Síðan þá höfum við dreift milljörðum boðsmiða á minningarhátíðina. Hvers vegna leggjum við svona mikið kapp á að bjóða öðrum?

9, 10. Hverjir hafa gagn af því að við bjóðum fólki á minningarhátíðina? (Jóhannes 3:16)

9 Ein ástæða þess að við bjóðum öðrum að sækja minningarhátíðina með okkur er að við viljum að þeir sem koma í fyrsta skipti fræðist um það sem Jehóva og Jesús hafa gert fyrir okkur. (Lestu Jóhannes 3:16.) Við vonum að það sem þeir sjá og heyra á minningarhátíðinni verði þeim hvatning til að fræðast meira og verða þjónar Jehóva. En fleiri hafa gagn af.

10 Við bjóðum líka þeim sem þjóna Jehóva ekki lengur. Þannig minnum við þá á að Guð elskar þá enn. Margir þiggja boðið og það gleður okkur mjög að sjá þá. Þegar þeir koma á minningarhátíðina rifjast upp fyrir þeim hve ánægjulegt er að þjóna Jehóva. Tökum Monicu sem dæmi. c Hún varð aftur virkur boðberi í COVID-19 faraldrinum. Hún sagði eftir minningarhátíðina 2021: „Þessi minningarhátíð var mjög sérstök fyrir mig. Ég hef getað boðað fólki trúna og boðið því á minningarhátíðina í fyrsta sinn í 20 ár. Ég lagði mig alla fram vegna þess að ég er svo þakklát fyrir allt sem Jehóva og Jesús hafa gert fyrir mig.“ (Sálm. 103:1–4) Það er misjafnt hvort fólk þiggur boðið eða ekki. En við höldum samt áfram að bjóða fólki á minningarhátíðina og vitum að Jehóva kann að meta það sem við leggjum á okkur.

11. Hvernig hefur Jehóva blessað viðleitni okkar til að bjóða öðrum á minningarhátíðina? (Haggaí 2:7)

11 Jehóva hefur ríkulega blessað viðleitni okkar til að bjóða fólki á minningarhátíðina. Þrátt fyrir takmarkanir vegna COVID-19 faraldursins var metaðsókn á minningarhátíðina 2021, en þá mættu 21.367.603. Það er næstum tvisvar og hálfum sinnum fjöldi votta Jehóva í heiminum. Jehóva hefur að sjálfsögðu ekki bara áhuga á tölum. Hann hefur áhuga á einstaklingunum. (Lúk. 15:7; 1. Tím. 2:3, 4) Við erum sannfærð um að Jehóva hjálpi okkur að finna einlægt fólk þegar við bjóðum öðrum á minningarhátíðina. – Lestu Haggaí 2:7.

AÐ HALDA MINNINGARHÁTÍÐINA ÞRÁTT FYRIR ERFIÐAR AÐSTÆÐUR

Jehóva blessar viðleitni okkar til að halda minningarhátíðina. (Sjá 12. grein.) f

12. Hvað getur gert okkur erfitt fyrir að halda minningarhátíðina? (Sjá mynd.)

12 Jesús sagði fyrir að á síðustu dögum myndum við standa frammi fyrir ýmsum erfiðleikum – andstöðu frá fjölskyldunni, ofsóknum, styrjöldum, drepsóttum og mörgu fleiru. (Matt. 10:36; Mark. 13:9; Lúk. 21:10, 11) Stundum gera slíkar aðstæður okkur erfitt fyrir að minnast dauða Jesú. Hvað hafa bræður okkar og systur gert við slíkar aðstæður og hvernig hefur Jehóva hjálpað þeim?

13. Hvernig blessaði Jehóva hugrekki og staðfestu Artems til að halda minningarhátíðina í fangelsi?

13 Fangelsisvist. Trúsystkini okkar sem eru í fangelsi vegna trúar sinnar gera það sem þau geta til að minnast dauða Jesú. Artem er dæmi um það. Í kringum minningarhátíðina 2020 var hann í 17 fermetra fangaklefa með allt að fjórum öðrum. Þrátt fyrir að vera í fangelsi náði hann að verða sér úti um eitthvað til að tákna líkama og blóð Jesú og hann undirbjó sig til að halda minningarhátíðarræðuna fyrir sig sjálfan. En klefafélagarnir reyktu og blótuðu mikið. Hvað gerði hann? Hann spurði þá hvort þeir gætu sleppt því að blóta og reykja í bara eina klukkustund. Artem til undrunar féllust klefafélagarnir á að reykja hvorki né blóta á meðan á minningarhátíðinni stæði. Hann segir: „Ég bauðst til að segja þeim frá minningarhátíðinni.“ Þeir sögðust ekki vilja heyra neitt um atburðinn en eftir að hafa séð og heyrt Artem halda minningarhátíðina lögðu þeir margar spurningar fyrir hann.

14. Hvað lögðu þjónar Jehóva á sig til að halda minningarhátíðina í COVID-19 faraldrinum?

14 COVID-19 faraldurinn. Vegna faraldursins gátu þjónar Jehóva ekki komið saman til að halda minningarhátíðina. En það kom ekki í veg fyrir að þeir héldu hana. d Söfnuðir sem höfðu aðgang að netinu héldu minningarhátíðina með fjarfundabúnaði. En hvað um þær milljónir sem höfðu ekki aðgang að netinu? Í sumum löndum voru gerðar ráðstafanir til að útvarpa eða sjónvarpa ræðunni. Auk þess sáu deildarskrifstofur um að ræðan yrði tekin upp á meira en 500 tungumálum svo að jafnvel þeir sem bjuggu á afskekktum stöðum gætu haldið minningarhátíðina. Trúfastir bræður sáu um að koma upptökunum til þeirra sem þurftu á þeim að halda.

15. Hvað lærir þú af reynslu Sue?

15 Andstaða frá fjölskyldunni. Fyrir suma er andstaða frá fjölskyldunni stærsta hindrunin í vegi fyrir því að halda minningarhátíðina. Skoðum reynslu biblíunemanda sem heitir Sue. Daginn fyrir minningarhátíðina 2021 sagði Sue biblíukennara sínum að hún gæti ekki mætt á minningarhátíðina vegna andstöðu heima fyrir. Systirin las Lúkas 22:44. Síðan útskýrði hún fyrir henni að við ættum að fylgja fordæmi Jesú þegar við lendum í prófraunum með því að leita til Jehóva í bæn og leggja allt traust okkar á hann. Daginn eftir undirbjó Sue brauðið og vínið og horfði á dagstextaumræðuna á jw.org. Um kvöldið lokaði hún sig af í herberginu sínu og tengdist minningarhátíðinni með síma. Eftir minningarhátíðina skrifaði Sue systurinni: „Þú uppörvaðir mig svo mikið í gær. Ég gerði allt sem ég gat til að vera viðstödd minningarhátíðina og Jehóva sá um afganginn. Ég er ólýsanlega glöð og þakklát.“ Heldur þú að Jehóva geti hjálpað þér ef þú lendir í svipuðum aðstæðum?

16. Hvers vegna getum við verið viss um að Jehóva muni blessa viðleitni okkar til að sækja minningarhátíðina? (Rómverjabréfið 8:31, 32)

16 Jehóva kann virkilega að meta það sem við leggjum á okkur til að minnast dauða Jesú. Við getum verið viss um að hann blessi okkur þegar við sýnum að við kunnum að meta það sem hann hefur gert fyrir okkur. (Lestu Rómverjabréfið 8:31, 32.) Verum því staðráðin í að sækja minningarhátíðina á þessu ári og leggja okkur fram um að gera meira fyrir Jehóva í kringum hana.

SÖNGUR 18 Þakkir fyrir lausnargjaldið

a Þriðjudaginn 4. apríl 2023 munu milljónir manna um allan heim vera viðstaddar minningarhátíðina um dauða Krists. Margir mæta í fyrsta skipti. Aðrir sem voru virkir vottar áður koma í fyrsta sinn í mörg ár. Og sumir þurfa að yfirstíga miklar hindranir til að mæta. Hverjar sem aðstæður þínar eru máttu vera viss um að Jehóva verður ánægður með að þú mætir.

b Hinir trúuðu telja að við athöfnina breytist brauðið og vínið í líkama og blóð Krists. Þeir trúa því að líkama og blóði Jesú sé fórnað í hvert sinn sem athöfnin fer fram.

c Sumum nöfnum er breytt.

d Sjá einnig greinarnar „2021 Memorial Commemoration“ á jw.org.

e MYND: Boðsmiðar á minningarhátíðina hafa tekið stakkaskiptum frá 1960. Þeir eru núna fáanlegir á prenti og í rafrænu formi.

f MYND: Sviðsett mynd af bræðrum og systrum halda minningarhátíðina á óeirðartíma.