Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 5

„Kærleikur Krists knýr okkur“

„Kærleikur Krists knýr okkur“

,Kærleikur Krists knýr okkur, til að þeir sem lifa lifi ekki lengur fyrir sjálfa sig.‘ – 2. KOR. 5:14, 15.

SÖNGUR 13 Kristur, fyrirmynd okkar

YFIRLIT a

1, 2. (a) Hvaða tilfinningar getur það vakið með okkur að hugsa um líf og þjónustu Jesú? (b) Hvað ræðum við um í þessari grein?

 ÞEGAR við missum ástvin söknum við hans gríðarlega mikið. Til að byrja með finnum við kannski ekkert annað en sársauka þegar við hugsum til daganna áður en hann lést, sérstaklega ef hann þjáðist. En með tímanum gleður það okkur að hugsa um eitthvað sem hann kenndi okkur eða eitthvað sem hann gerði eða sagði til að hvetja okkur eða fá okkur til að brosa.

2 Það hryggir okkur líka að lesa um hvernig Jesús þjáðist og dó. Við tökum okkur sérstaklega tíma í kringum minningarhátíðina til að hugleiða hversu verðmæt lausnarfórn hans er. (1. Kor. 11:24, 25) En það gleður okkur að hugsa um allt það sem Jesús sagði og gerði á meðan hann var á jörðinni. Það er líka hvetjandi að hugsa um það sem hann er að gera núna og það sem hann ætlar að gera fyrir okkur í framtíðinni. Að hugleiða þetta og kærleika hans til okkar getur fengið okkur til að sýna þakklæti okkar á ýmsa vegu, eins og við munum sjá í þessari námsgrein.

ÞAKKLÆTI FÆR OKKUR TIL AÐ FYLGJA JESÚ

3. Hvaða ástæður höfum við til að vera þakklát fyrir lausnarfórnina?

3 Við erum þakklát þegar við hugsum um hvernig Jesús lifði og dó. Á meðan Jesús var á jörðinni sagði hann fólki frá þeirri blessun sem Guðsríki myndi koma til leiðar. Við kunnum sannarlega að meta þennan sannleika Biblíunnar. Við erum þakklát fyrir lausnarfórnina vegna þess að hún gerir okkur kleift að eiga náið sambandi við Jehóva og Jesú. Þeir sem trúa á Jesú eiga auk þess von um að lifa að eilífu og að fá að sjá látna ástvini sína aftur. (Jóh. 5:28, 29; Rómv. 6:23) Við höfum ekki gert neitt til að verðskulda þessa blessun og við getum engan veginn endurgoldið Guði og Kristi það sem þeir hafa gert fyrir okkur. (Rómv. 5:8, 20, 21) En við getum sýnt þeim hve þakklát við erum. Hvernig?

Hvernig er frásagan af Maríu Magdalenu þér hvatning til að sýna þakklæti? (Sjá 4. og 5. grein.)

4. Hvernig sýndi María Magdalena þakklæti fyrir það sem Jesús gerði fyrir hana? (Sjá mynd.)

4 Skoðum frásögu af konu sem var Gyðingur og hét María Magdalena. Hún þjáðist mjög mikið vegna þess að sjö illir andar kvöldu hana. Henni fannst hún án efa vera í vonlausri stöðu. Við getum því rétt ímyndað okkur hve þakklát hún var þegar Jesús losaði hana undan áhrifum þessara illu anda. Hún var svo þakklát að hún gerðist fylgjandi Jesú og notaði tíma sinn, krafta og eigur í að styðja við þjónustu hans. (Lúk. 8:1–3) María var innilega þakklát fyrir það sem Jesús gerði fyrir hana, en hún gerði sér kannski ekki grein fyrir að hann ætti eftir að gera enn meira fyrir hana. Hann átti eftir að fórna lífi sínu fyrir mannkynið „til þess að þeir sem trúa á hann“ gætu fengið eilíft líf. (Jóh. 3:16) En María sýndi Jesú þakklæti sitt með því að vera honum trú. María var nálægt þegar Jesús hékk á kvalastaurnum og veitti honum og öðrum tilfinningalegan stuðning. (Jóh. 19:25) Eftir að Jesús dó komu María og tvær aðrar konur að gröfinni með ilmjurtir. (Mark. 16:1, 2) María fékk ríkulega blessun fyrir tryggð sína. Hún fékk þann ánægjulega heiður að hitta Jesú upprisinn og tala við hann, en fæstir lærisveinanna fengu það. – Jóh. 20:11–18.

5. Hvernig getum við sýnt þakklæti okkar fyrir allt sem Jehóva og Jesús hafa gert fyrir okkur?

5 Við getum líka sýnt þakklæti okkar fyrir allt sem Jehóva og Jesús hafa gert fyrir okkur með því að nota tíma okkar, krafta og efnislegar eigur í þjónustunni við Jehóva. Við getum til dæmis boðið okkur fram við að aðstoða við byggingu og viðhald á tilbeiðslustöðum okkar.

KÆRLEIKUR TIL JEHÓVA OG JESÚ FÆR OKKUR TIL AÐ ELSKA AÐRA

6. Hvers vegna getum við sagt að lausnarfórnin sé gjöf handa hverju og einu okkar?

6 Að hugleiða hve heitt Jehóva og Jesús elska okkur fær okkur til að elska þá líka. (1. Jóh. 4:10, 19) Og við elskum þá enn heitar þegar við gerum okkur grein fyrir að Jesús dó fyrir hvert og eitt okkar. Páll postuli skildi það og tjáði þakklæti sitt þegar hann skrifaði til Galatamanna: ,Sonur Guðs elskaði mig og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir mig.‘ (Gal. 2:20) Jehóva hefur á grunni lausnargjaldsins dregið þig til sín svo að þú getir verið vinur hans. (Jóh. 6:44) Yljar það þér ekki um hjartarætur að vita að Jehóva skuli hafa séð eitthvað gott í þér og greitt hátt gjald til að þú gætir kallast vinur hans? Fær það þig ekki til að elska Jehóva og Jesú enn heitar? Við ættum að spyrja okkur: Hvað knýr þessi kærleikur mig til að gera?

Kærleikur okkar til Guðs og Krists fær okkur til að segja alls konar fólki frá boðskapnum um Guðsríki. (Sjá 7. grein.)

7. Hvernig getum við öll eins og myndin sýnir sýnt að við elskum Jehóva og Jesú? (2. Korintubréf 5:14, 15; 6:1, 2)

7 Kærleikur okkar til Guðs og Krists fær okkur til að sýna öðrum kærleika. (Lestu 2. Korintubréf 5:14, 15; 6:1, 2.) Við getum sýnt kærleika okkar með því að vera kappsöm í boðuninni. Við tölum við alla sem við hittum. Við mismunum ekki fólki vegna kynþáttar, ætternis, fjárhagsstöðu eða þjóðfélagsstöðu. Þannig vinnum við í samræmi við áform Jehóva um að „alls konar fólk bjargist og fái nákvæma þekkingu á sannleikanum“. – 1. Tím. 2:4.

8. Hvernig getum við sýnt að við elskum bræður okkar og systur?

8 Við sýnum líka að við elskum Guð og Krist með því að sýna bræðrum okkar og systrum kærleika. (1. Jóh. 4:21) Við sýnum þeim persónulegan áhuga og styðjum þau í erfiðleikum. Við hughreystum þau þegar þau hafa misst ástvin, heimsækjum þau þegar þau eru veik og gerum okkar besta til að uppörva þau þegar þau eru niðurdregin. (2. Kor. 1:3–7; 1. Þess. 5:11, 14) Við höldum áfram að biðja fyrir þeim vegna þess að við vitum að „innileg bæn réttláts manns er mjög áhrifarík“. – Jak. 5:16.

9. Á hvaða annan hátt getum við sýnt að við elskum bræður okkar og systur?

9 Við sýnum líka að við elskum bræður okkar og systur með því að leggja okkur fram við að halda friðinn. Við líkjum eins vel og við getum eftir fordæmi Jehóva í að fyrirgefa. Jehóva var fús til að fórna syni sínum fyrir syndir okkar og við ættum þess vegna að vera fús til að fyrirgefa bræðrum okkar og systrum þegar þau gera eitthvað á hlut okkar. Við viljum ekki vera eins og illi þjónninn sem Jesús talaði um í dæmisögu. Húsbóndinn hafði gefið þjóninum upp gríðarlega háa skuld. En samt vildi þjónninn ekki gefa samþjóni sínum upp tiltölulega lága skuld. (Matt. 18:23–35) Ef það hefur slest upp á vinskapinn við einhvern í söfnuðinum, gætirðu þá tekið fyrsta skrefið að því að sættast áður en þú sækir minningarhátíðina? (Matt. 5:23, 24) Þannig sýnirðu að þú elskar Jehóva og Jesú heitt.

10, 11. Hvernig geta öldungar sýnt að þeir elska Jehóva og Jesú? (1. Pétursbréf 5:1, 2)

10 Hvernig geta öldungar sýnt að þeir elska Jehóva og Jesú? Ein mikilvæg leið til þess er að annast sauði Jesú. (Lestu 1. Pétursbréf 5:1, 2.) Jesús lét það skýrt í ljós þegar hann talaði við Pétur postula. Pétri var líklega mikið í mun að sanna að hann elskaði Jesú, eftir að hafa afneitað honum þrisvar. Eftir að Jesús reis upp spurði hann Pétur: „Símon Jóhannesson, elskarðu mig?“ Við getum verið viss um að Pétur hefði gert hvað sem er til að sanna að hann elskaði herra sinn. Jesús sagði við Pétur: „Gættu lamba minna.“ (Jóh. 21:15–17) Og það sem eftir var ævinnar annaðist Pétur sauði Drottins af alúð og sannaði þannig að hann elskaði Jesú.

11 Öldungar, hvernig getið þið sýnt í kringum minningarhátíðina að þið skiljið mikilvægi þess sem Jesús sagði við Pétur? Þið getið sýnt hve heitt þið elskið Jehóva og Jesú með því að sinna hirðastarfinu reglulega og leggja ykkur sérstaklega fram um að hjálpa óvirkum að snúa aftur til Jehóva. (Esek. 34:11, 12) Þið getið líka sýnt biblíunemendum og öðrum nýjum sem mæta á minningarhátíðina athygli og gert allt sem þið getið til að láta þessa tilvonandi lærisveina finnast þeir vera velkomnir.

KÆRLEIKUR TIL KRISTS FÆR OKKUR TIL AÐ VERA HUGRÖKK

12. Hvers vegna veitir það okkur hugrekki að hugsa um það sem Jesús sagði kvöldið áður en hann dó? (Jóhannes 16:32, 33)

12 Kvöldið áður en Jesús dó sagði hann lærisveinum sínum: „Þið verðið fyrir mótlæti í heiminum en verið hugrakkir. Ég hef sigrað heiminn.“ (Lestu Jóhannes 16:32, 33.) Hvað hjálpaði Jesú að mæta óvinum sínum með hugrekki og að vera trúr allt til dauða? Hann treysti á Jehóva. Jesús bað Jehóva að gæta fylgjenda sinna vegna þess að hann vissi að þeir yrðu fyrir svipuðum prófraunum. (Jóh. 17:11) Hvers vegna gefur þetta okkur kjark? Vegna þess að Jehóva er sterkari en allir óvinir okkar. (1. Jóh. 4:4) Það fer ekkert fram hjá honum. Við erum sannfærð um að við getum sigrast á ótta okkar og sýnt hugrekki ef við treystum á Jehóva.

13. Hvernig sýndi Jósef frá Arímaþeu hugrekki?

13 Skoðum frásöguna af Jósef frá Arímaþeu. Hann var virtur í samfélagi Gyðinga. Hann sat í Æðstaráðinu. En á meðan Jesús var á jörðinni var Jósef alls ekki hugrakkur. Jóhannes sagði að hann hefði verið ,lærisveinn Jesú en leynt því af ótta við Gyðinga‘. (Jóh. 19:38) Jósef hafði áhuga á boðskapnum um ríki Guðs en hann leyndi því fyrir öðrum að hann trúði á Jesú. Hann hafði eflaust áhyggjur af því að missa virðingarstöðu sína í samfélaginu. En Biblían segir að eftir að Jesús dó hafi Jósef loksins ,tekið í sig kjark, gengið fyrir Pílatus og beðið um lík Jesú‘. (Mark. 15:42, 43) Jósef fór ekki lengur leynt með það að hann fylgdi Jesú.

14. Hvað ættirðu að gera ef þú glímir við ótta við menn?

14 Finnur þú stundum til ótta við menn, eins og Jósef gerði? Veigrarðu þér stundum við því í skólanum eða vinnunni að láta vita að þú sért vottur Jehóva? Hikarðu við að gerast boðberi eða láta skírast vegna þess að þú óttast það hvernig aðrir muni líta á þig? Láttu það ekki hindra þig í að gera það sem þú veist að er rétt. Biddu Jehóva einlæglega um að gefa þér hugrekki til að gera vilja hans. Þegar þú sérð hvernig Jehóva svarar bænum þínum verðurðu sterkari og hugrakkari. – Jes. 41:10, 13.

GLEÐI FÆR OKKUR TIL AÐ HALDA ÓTRAUÐ ÁFRAM AÐ ÞJÓNA JEHÓVA

15. Hvað gerðu lærisveinar Jesú eftir að hann birtist þeim og af hverju? (Lúkas 24:52, 53)

15 Lærisveinar Jesú voru mjög sorgmæddir þegar hann dó. Reyndu að setja þig í spor þeirra. Þeir höfðu ekki aðeins misst kæran vin sinn heldur fannst þeim þeir líka hafa misst vonina. (Lúk. 24:17–21) En þegar Jesús birtist þeim tók hann sér tíma til að útskýra fyrir þeim hvernig hann uppfyllti biblíuspádóma. Hann gaf þeim líka mikilvægt verkefni. (Lúk. 24:26, 27, 45–48) Þegar Jesús steig upp til himna 40 dögum síðar hafði sorg lærisveinanna breyst í mikla gleði. Þeir voru mjög glaðir vegna þess að þeir vissu að Jesús var á lífi og myndi hjálpa þeim að sinna verkefninu sem hann gaf þeim. Gleðin fékk þá til að halda ótrauðir áfram að lofa Jehóva. – Lestu Lúkas 24:52, 53; Post. 5:42.

16. Hvernig getum við líkt eftir lærisveinum Jesú?

16 Hvernig getum við líkt eftir lærisveinum Jesú? Við getum tilbeðið Jehóva með gleði allt árið, ekki bara í kringum minningahátíðina. Til þess þurfum við að setja ríki Guðs í fyrsta sæti í lífinu. Margir hafa til dæmis hagrætt vinnunni þannig að þeir geti tekið þátt í boðuninni, sótt samkomur og haft tilbeiðslustund fjölskyldunnar reglulega. Sumir hafa jafnvel ákveðið að vera án efnislegra hluta sem öðrum finnst nauðsynlegir til að þeir geti komið að meira gagni í söfnuðinum eða flust þangað sem þörf er á fleiri boðberum. Við þurfum að vera þolgóð til að halda áfram að þjóna Jehóva. En hann lofar að veita okkur ríkulega blessun ef við setjum hagsmuni Guðsríkis í fyrsta sæti. – Orðskv. 10:22; Matt. 6:32, 33.

Taktu þér tíma í kringum minningarhátíðina til að hugleiða hvað Jehóva og Jesús hafa gert fyrir þig. (Sjá 17. grein.)

17. Hvað ert þú ákveðinn í að gera í kringum minningarhátíðina? (Sjá mynd.)

17 Við hlökkum til að halda minningarhátíðina þriðjudaginn 4. apríl. En bíddu ekki þangað til þá með að íhuga líf og dauða Jesú og það hvernig hann og Jehóva hafa sýnt að þeir elska okkur. Notaðu hvert tækifæri til þess vikurnar í kringum minningarhátíðina. Taktu til dæmis frá tíma til að lesa um og hugleiða atburðina sem fjallað er um í 16. kafla í Handbók biblíunemandans. Kaflinn heitir: „Síðasta vikan sem Jesús var á jörð.“ Þegar þú lest um líf Jesú skaltu vera vakandi fyrir ritningarstöðum sem auka þakklæti þitt, kærleika, hugrekki og gleði. Reyndu síðan að sjá hvernig þú getir tjáð innilegt þakklæti þitt. Þú mátt vera viss um að Jesús kann að meta allt sem þú gerir til að hugsa til hans í kringum minningarhátíðina. – Opinb. 2:19.

SÖNGUR 17 „Ég vil“

a Vikurnar í kringum minningarhátíðina erum við hvött til að hugleiða líf og dauða Jesú og þann kærleika sem hann og faðir hans hafa sýnt okkur. Það getur hvatt okkur til verka. Í þessari grein er rætt um hvernig við getum sýnt þakklæti okkar fyrir lausnargjaldið og sýnt að við elskum Jehóva og Jesú. Við sjáum líka hvað getur fengið okkur til að elska bræður okkar og systur, sýna hugrekki og hafa ánægju af þjónustu okkar.