Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

ÆVISAGA

Ég hef séð trúfasta þjóna Guðs dafna

Ég hef séð trúfasta þjóna Guðs dafna

ÞÚ MANST örugglega eftir samtölum sem þú hefur átt og hafa skipt sköpum fyrir þig. Ég átti þannig samtal við vin minn fyrir um 50 árum þar sem við sátum við varðeld í Kenía, sólbrunnir og útiteknir eftir nokkra mánaða ferðalag. Við vorum að ræða um bíómynd sem kom inn á trúarleg mál þegar vinur minn segir: „Hún gaf ranga mynd af Biblíunni.“

Ég hló – ég hafði aldrei haft á tilfinningunni að vinur minn væri trúhneigður. „Hvað veist þú um Biblíuna?“ spurði ég. Hann var ekki fljótur að svara en sagði að lokum að mamma hans væri vottur Jehóva og að hann hefði lært eitt og annað af henni. Ég varð forvitinn og ýtti á hann að segja mér meira.

Samræður okkar héldu áfram langt fram á nótt. Vinur minn sagði mér að Biblían útskýrði að Satan sé stjórnandi heimsins. (Jóh. 14:30) Þú hefur kannski vitað það alla ævi en fyrir mig var þetta nýtt og mjög forvitnilegt. Ég hafði alltaf heyrt að góður og sanngjarn Guð stjórnaði heiminum. Það passaði þó illa við það sem ég hafði kynnst í lífinu. Ég var bara 26 ára en hafði samt séð margt sem angraði mig.

Pabbi minn hafði verið flugmaður í flugher Bandaríkjanna. Ég var bara barn þegar ég gerði mér grein fyrir að kjarnorkustyrjöld væri raunveruleg hætta – hernaðaryfirvöld þyrftu bara að ýta á einn takka. Á efri skólaárum mínum í Kaliforníu geisaði Víetnamstríðið. Ég tók þátt í mótmælum sem nemendur stóðu fyrir. Lögreglan elti okkur með kylfum og við hlupum hálfblindaðir af táragasi og náðum varla andanum. Ólga og uppreisnir einkenndu þennan tíma. Leiðtogar voru myrtir og mikið var um mótmæli og óeirðir. Hugmyndir og kenningar feyktust að úr öllum áttum. Þetta var svo ruglandi.

Frá Lundúnum til Mið-Afríku.

Árið 1970 fékk ég vinnu á norðurströnd Alaska og safnaði töluverðum pening. Síðan fór ég til Lundúna, keypti mér mótorhjól og keyrði til suðurs án þess að vita hvert ég ætlaði. Nokkrum mánuðum síðar var ég kominn til Afríku. Á leiðinni hitti ég fólk sem vildi líka komast burt – flýja aðstæður sem fjötraði það og verða frjálst.

Miðað við það sem ég hafði séð og heyrt fannst mér kenning Biblíunnar mjög rökrétt, að illur andi ráðskist með það sem gerist á jörðinni. En hvar var Guð í þessu öllu? Ég vildi vita svarið.

Á næstu mánuðum fékk ég svar. Síðar meir kynntist ég líka mörgum körlum og konum sem hafa reynst trúföst hinum sanna Guði í alls konar aðstæðum og þau urðu mér mjög kær.

NORÐUR-ÍRLAND – „LAND BOMBA OG BYSSUKÚLNA“

Þegar ég sneri aftur til Lundúna hafði ég samband við mömmu vinar míns og hún gaf mér Biblíu. Síðar fór ég til Amsterdam og þar sá vottur mig lesa í henni undir götuljósi og hann hjálpaði mér að skilja ýmsa hluti betur. Þaðan fór ég til Dublin á Írlandi. Ég leitaði uppi deildarskrifstofu Votta Jehóva og barði að dyrum. Þarna hitti ég bróður að nafni Arthur Matthews en hann var vitur og reynslumikill. Ég bað hann um biblíunámskeið og hann var fús að kenna mér.

Ég fór á kaf í námið og gleypti í mig bækur og árganga af ritum sem Vottarnir gáfu út. Og auðvitað las ég Biblíuna. Þetta var svo spennandi! Á samkomum sá ég börn sem vissu svarið við spurningum sem lærðir menn hafa velt fyrir sér um aldir, spurningum eins og: Hvers vegna er öll þessi illska? Hver er Guð? Hvað gerist þegar maður deyr? Ég umgekkst bara votta. Það var einfalt, ég þekkti enga aðra í öllu landinu. Þeir hjálpuðu mér að læra að elska Jehóva og fá löngun til að gera vilja hans.

Nigel, Denis og ég.

Ég lét skírast árið 1972. Ári síðar varð ég brautryðjandi og flutti í lítinn söfnuð í Newry á Norður-Írlandi. Ég leigði afskekkt lítið steinhús sem stóð í fjallshlíð. Á túnunum í kring voru kýr og ég æfði ræðurnar mínar fyrir framan þær. Þær litu út fyrir að hlusta vel meðan þær jórtruðu. Þær gáfu mér nú engin ráð en ég lærði að hafa augnsamband við áheyrendur. Árið 1974 var ég útnefndur sérbrautryðjandi og átti að starfa með Nigel Pitt en hann hefur verið vinur minn síðan.

Átök geisuðu á Norður-Írlandi á þessum tíma. Sumir kölluðu norðurhlutan réttilega „land bomba og byssukúlna“. Götuslagsmál, leyniskyttur, skotbardagar og bílsprengjur voru algengar. Pólitísk og trúarleg hitamál samtvinnuðust. En bæði kaþólikkar og mótmælendur vissu að vottarnir tækju ekki afstöðu í stjórnmálum og við gátum því boðað trúna frjálslega og verið örugg. Fólk vissi oft hvar og hvenær óeirðir myndu verða og varaði okkur við.

Við lentum þó stundum í hættulegum aðstæðum. Dag einn var ég að boða trúna með brautryðjandabróður, Denis Carrigan, í nágrannaþorpi. Engir vottar bjuggu þar og við höfðum aðeins farið þangað einu sinni áður. Kona sakaði okkur um að vera leynilegir breskir hermenn, kannski af því að hvorugur okkar var með írskan hreim. Við urðum hræddir því að það eitt að vera vingjarnlegur við breskan hermann gat leitt til þess að maður var drepinn eða skotinn í hné. Meðan við stóðum þarna kaldir við auða götu og biðum eftir rútunni sáum við bíl stoppa við kaffihúsið þar sem konan hafði verið. Hún kom út og talaði við mennina tvo í bílnum og benti spennt á okkur. Mennirnir keyrðu upp að okkur og spurðu eitthvað út í rútuferðirnar. Þegar rútan kom töluðu þeir við bílstjórann. Við heyrðum ekki hvað þeir sögðu en engir aðrir voru í rútunni svo að við vorum vissir um að þeir ætluðu að gera okkur eitthvað þegar við værum komnir út fyrir þorpið. En ekkert gerðist. Þegar ég steig út úr rútunni spurði ég bílstjórann: „Þessir menn þarna áðan, voru þeir að spyrja um okkur?“ „Ég veit hverjir þið eruð,“ svaraði hann, „svo að ég sagði þeim það. Hafðu ekki áhyggjur, þið eruð ekki í hættu.“

Á brúðkaupsdegi okkar í mars 1977.

Ég kynntist Pauline Lomax, sérbrautryðjandasystur sem var í heimsókn frá Englandi, á umdæmismóti í Dublin árið 1976. Hún var andlega sinnuð, auðmjúk og yndisleg. Hún og bróðir hennar, Ray, höfðu þekkt sannleikann frá unga aldri. Ári síðar giftum við Pauline okkur. Við héldum áfram sem sérbrautryðjendur í Ballymena á Norður-Írlandi.

Við vorum í farandstarfi um tíma. Svæðið okkar var Belfast, Londonderry og fleiri hættulegir staðir. Við vorum snortin af trú bræðra okkar og systra sem höfðu yfirgefið rótgrónar trúarkenningar, fordóma og hatur til að þjóna Jehóva. Hann hefur sannarlega blessað þau og verndað!

Árið 1981 hafði ég búið á Írlandi í tíu ár en þá var okkur boðið að sækja 72. bekk Gíleaðskólans. Eftir útskriftina vorum við send til Síerra Leóne í Vestur-Afríku.

SÍERRA LEÓNE – TRÚFESTI ÞRÁTT FYRIR FÁTÆKT

Við bjuggum á trúboðsheimili ásamt 11 yndislegum trúsystkinum. Þar var eldhús, þrjú salerni, tvær sturtur, einn sími, þvottavél og þurrkari. Rafmagnið datt oft út fyrirvaralaust. Rottur lögðu undir sig loftið og kóbraslöngur smeygðu sér inn í kjallarann.

Við förum yfir fljót til að komast á mót í Gíneu.

Aðstæður voru ekki fullkomnar en við nutum boðunarinnar. Fólk bar virðingu fyrir Biblíunni og hlustaði af athygli. Margir þáðu biblíunám og tóku við sannleikanum. Heimamenn kölluðu mig „herra Robert“ og Pauline „frú Robert“. En með tímanum fóru verkefnin mín á deildarskrifstofunni að taka meiri tíma og ég var ekki eins mikið í boðuninni. Þá kölluðu menn Pauline „frú Pauline“ og mig „herra Pauline“. Pauline hafði gaman af því!

Á leið í starfsferð í Síerra Leóne.

Bræður okkar og systur voru mörg hver fátæk en Jehóva sá alltaf fyrir þörfum þeirra, stundum á merkilegan hátt. (Matt. 6:33) Ég man eftir systur sem átti aðeins pening til að kaupa mat fyrir þann dag handa sjálfri sér og börnunum. Hún gaf samt bróður sem var veikur allan peninginn til að hann gæti keypt malaríulyf. Seinna um daginn kom kona óvænt og bað systurina um hárgreiðslu sem hún greiddi fyrir. Margt gerðist þessu líkt.

NÍGERÍA – VIÐ AÐLÖGUMST NÝRRI MENNINGU

Við vorum í Síerra Leóne í níu ár. Síðan vorum við beðin um að flytja á Betel í Nígeríu. Þetta var stór deildarskrifstofa. Ég sinnti sams konar skrifstofuvinnu og í Síerra Leóne en fyrir Pauline var þetta mikil breyting og erfið. Hún hafði notað 130 tíma á mánuði í boðuninni og stýrði mörgum biblíunámskeiðum með góðum árangri. Núna var hún að vinna á saumastofunni þar sem hún gerði við föt liðlangan daginn. Það tók hana tíma að aðlagast en smám saman fann hún að aðrir kunnu virkilega að meta starf hennar og hún einbeitti sér að því að reyna að uppörva og hvetja trúsystkini á Betel.

Menningin í Nígeríu var okkur framandi og við áttum margt ólært. Eitt sinn kom bróðir inn á skrifstofu til mín til kynna systur sem var að hefja störf á Betel. Ég rétti fram höndina til að heilsa henni en þá féll hún á grúfu mér til fóta. Ég var orðlaus! Tvö vers komu upp í huga mér: Postulasagan 10:25, 26 og Opinberunarbókin 19:10. Ég hugsaði um að segja henni að gera þetta ekki. En systurinni var boðið að hefja störf á Betel, hún vissi hvað Biblían kennir.

Þetta var frekar vandræðalegt en ég kom mér einhvern veginn út úr því og skoðaði síðan málið. Ég komst að því að það sem systirin gerði var í samræmi við hefðir sem voru enn í gildi sums staðar í landinu. Karlmenn gerðu þetta líka og það var einfaldlega leið til að sýna virðingu en tengdist alls ekki tilbeiðslu. Dæmi um það er einnig að finna í Biblíunni. (1. Sam. 24:8) Ég var ánægður að hafa ekki sagt eitthvað í vanþekkingu sem hefði verið óþægilegt fyrir systurina.

Við kynntumst mörgum í Nígeríu sem höfðu sýnt einstaka trúfesti um árin. Isaiah Adagbona var einn þeirra. a Hann hafði kynnst sannleikanum ungur að aldri en hafði síðan greinst með holdsveiki. Hann var sendur til holdsveikranýlendu en var þar eini votturinn. Þrátt fyrir andstöðu hjálpaði hann meira en 30 holdsveikum að taka við sannleikanum og hann stofnaði söfnuð á staðnum.

KENÍA – BRÆÐUR OG SYSTUR SÝNDU MÉR ÞOLINMÆÐI

Munaðarlaus nashyrningur í Kenía.

Árið 1996 fengum við nýtt verkefni á deildarskrifstofunni í Kenía. Það var í fyrsta sinn sem ég kom þangað aftur eftir heimsókn mína til landsins sem ég sagði frá í upphafi. Við bjuggum á Betel. Meðal gestanna sem komu þangað voru apakettir. Þeir áttu það til að rupla ávöxtum úr körfum systranna sem báru þær. Systir á Betel hafði eitt sinn skilið eftir opinn glugga. Þegar hún kom heim sá hún heila apafjölskyldu vera að gæða sér á matnum sem aparnir fundu í herberginu. Hún öskraði og hljóp út. Aparnir skríktu og stukku út um gluggann.

Við Pauline tilheyrðum Svahílímælandi söfnuði. Fljótlega var ég beðinn um að stjórna bóknáminu (sem nú kallast safnaðarbiblíunám). Ég hafði þó ekki betri kunnáttu á tungumálinu en smábarn. Ég undirbjó efnið til að geta lesið spurningarnar. En ef svörin voru aðeins frábrugðin textanum í ritinu skildi ég þau ekki. Það var svo vandræðalegt! Ég fann til með bræðrunum og systrunum. Ég dáðist að því hvað þau sýndu mikla þolinmæði og auðmýkt og sættu sig við aðstæður.

BANDARÍKIN – TRÚFESTI ÞRÁTT FYRIR VELMEGUN

Í Kenía vorum við bara í tæpt ár því að árið 1997 var okkur boðið að flytja á Betel í Brooklyn í New York. Nú vorum við komin til lands þar sem velmegun ríkti en því geta líka fylgt vandamál. (Orðskv. 30:8, 9) Bræður og systur í slíku landi sýna líka sterka trú. Þau nota tíma sinn og eigur til að styðja starf safnaðar Jehóva í stað þess að hafa eigingjörn markmið.

Um árin höfum við því séð trúfesti bræðra okkar og systra við ýmsar aðstæður. Á Írlandi sýndu þau trúfesti mitt í borgarastríði. Í Afríku voru þau trúföst þrátt fyrir fátækt og einangrun og í Bandaríkjunum þrátt fyrir velmegun. Hugsa sér hvað það gleður Jehóva mikið að sjá þann kærleika sem fólk sýnir honum við alls konar aðstæður.

Við Pauline á Betel í Warwick.

Árin hafa flogið hjá – „hraðar en skytta vefarans“. (Job. 7:6) Núna störfum við á aðalstöðvunum í Warwick í New York og njótum þeirrar gleði að vinna með fólki sem elskar hvert annað innilega. Við erum glöð og það veitir okkur lífsfyllingu að gera okkar til að styðja konung okkar, Jesú Krist, sem mun bráðlega launa ótal trúföstum þjónum Guðs. – Matt. 25:34.

a Ævisaga Isaiah Adagbona birtist í Varðturninum 1. apríl 1998 á ensku, bls. 22–27. Hann lést árið 2010.