Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 8

„Hugsið skýrt, verið á verði“

„Hugsið skýrt, verið á verði“

„Hugsið skýrt, verið á verði.“ – 1. PÉT. 5:8.

SÖNGUR 144 Horfðu á sigurlaunin

YFIRLIT a

1. Hvað sagði Jesús lærisveinum sínum um það hvenær endirinn kæmi og hvað minnti hann þá á?

 NOKKRUM dögum fyrir dauða sinn spurðu fjórir lærisveina Jesú hann: „Hvert verður tákn þess … að lokaskeið þessarar heimsskipanar sé hafið?“ (Matt. 24:3) Þessir lærisveinar voru líklega að velta því fyrir sér hvenær Jerúsalem og musterinu yrði eytt. Í svari sínu talaði Jesús ekki einungis um eyðingu Jerúsalem og musterisins heldur líka „lokaskeið þessarar heimsskipanar“ sem við lifum á núna. Varðandi tímann sem endirinn kæmi sagði Jesús: „Enginn veit þann dag eða stund, hvorki englarnir á himnum né sonurinn heldur aðeins faðirinn.“ Hann sagði lærisveinum sínum að ,vera vakandi‘ og ,halda vöku sinni‘. – Mark. 13:32–37.

2. Hvers vegna var mikilvægt fyrir þjóna Guðs á fyrstu öld að halda vöku sinni?

2 Kristnir Gyðingar á fyrstu öld þurftu að halda vöku sinni, líf þeirra var undir því komið. Jesús sagði fylgjendum sínum hverju þeir ættu að vera vakandi fyrir til að vita hvenær þjóðskipulag Gyðinga liði undir lok. Hann sagði: „Þegar þið sjáið hersveitir umkringja Jerúsalem skuluð þið vita að eyðing hennar er í nánd.“ Á þeirri stundu þurftu þeir að hlýða viðvörun Jesú og ,flýja til fjalla‘. (Lúk. 21:20, 21) Þeir sem tóku mark á viðvöruninni lifðu af þegar Rómverjar eyddu Jerúsalem.

3. Um hvað er fjallað í þessari námsgrein?

3 Við lifum á endalokatíma þessarar illu heimsskipanar. Við þurfum þess vegna líka að hugsa skýrt og halda vöku okkar. Í þessari námsgrein skoðum við hvernig við getum haft jafnvægi og fylgst jafnframt með heimsatburðum, hvernig við gætum að okkur og hvernig við getum notað tímann sem eftir er sem best.

HÖFUM JAFNVÆGI ÞEGAR VIÐ FYLGJUMST MEÐ HEIMSATBURÐUM

4. Hvers vegna ættum við að hafa áhuga á því að sjá hvernig það sem er að gerast í heiminum uppfyllir spádóma Biblíunnar?

4 Við höfum góða ástæðu til að hafa áhuga á því að fylgjast með hvernig yfirstandandi heimsatburðir uppfylla spádóma Biblíunnar. Jesús taldi upp ákveðna atburði til að hjálpa okkur að vita hvenær endir heimsskipanar Satans nálgaðist. (Matt. 24:3–14) Pétur postuli hvatti okkur til að fylgjast með uppfyllingu spádóma til að viðhalda sterkri trú. (2. Pét. 1:19–21) Síðasta bók Biblíunnar hefst með þessum orðum: „Opinberun Jesú Krists sem Guð gaf honum til að sýna þjónum sínum það sem á að gerast bráðlega.“ (Opinb. 1:1) Við höfum því sérstakan áhuga á því sem er að gerast í heiminum og hvernig sumt af því uppfyllir spádóma Biblíunnar. Og við erum gjarnan spennt að ræða slíka atburði hvert við annað.

Hvað ættum við að forðast þegar við ræðum um biblíuspádóma en hvað ættum við að gera? (Sjá 5. grein.) b

5. Hvað ættum við að forðast en hvað ættum við að gera? (Sjá einnig myndir.)

5 Við ættum hins vegar að forðast getgátur þegar við ræðum saman um spádóma Biblíunnar. Við viljum nefnilega ekki segja neitt sem stofnar einingu safnaðarins í hættu. Við gætum til dæmis frétt af því að leiðtogar heimsins séu að tala um að leysa ákveðinn ágreining og koma á friði og öryggi. Við þurfum að fylgjast með nýjustu upplýsingum sem hafa verið gefnar út frekar en að vera með getgátur um að þessar yfirlýsingar séu uppfylling á spádóminum í 1. Þessaloníkubréfi 5:3. Þegar við byggjum það sem við segjum á efni frá söfnuði Jehóva hjálpum við söfnuðinum að vera sameinaður í „sömu skoðun“. – 1. Kor. 1:10; 4:6.

6. Hvað getum við lært af 2. Pétursbréfi 3:11–13?

6 Lestu 2. Pétursbréf 3:11–13. Pétur postuli hjálpar okkur að hugleiða hvers vegna við ættum að skoða biblíuspádóma. Hann hvetur okkur til að hafa „stöðugt í huga að dagur Jehóva er nálægur“. Hvers vegna? Ekki vegna þess að við viljum reikna út ,daginn og stundina‘ þegar Jehóva hefur Harmagedónstríðið heldur vegna þess að við viljum nota þann tíma sem eftir er til að „vera guðrækin og heilög í hegðun“. (Matt. 24:36; Lúk. 12:40) Við viljum með öðrum orðum haga okkur vel og ganga úr skugga um að allt sem við gerum fyrir Jehóva endurspegli djúpan kærleika okkar til hans. Til að halda þeirri stefnu þurfum við að gæta að okkur.

HVAÐ MERKIR ÞAÐ AÐ GÆTA AÐ OKKUR?

7. Hvernig sýnum við að við gætum okkar? (Lúkas 21:34)

7 Jesús sagði lærisveinum sínum ekki aðeins að veita heimsatburðum athygli heldur líka sjálfum sér. Það sést vel á viðvöruninni sem kemur fram í Lúkasi 21:34. (Lestu.) Tökum eftir orðum Jesú: „Gætið ykkar. Sá sem gætir sín er vakandi gagnvart öllum hættum sem gætu skaðað samband hans við Jehóva og reynir að forðast þær. Þannig heldur hann sig í skjóli kærleika Guðs. – Orðskv. 22:3; Júd. 20, 21.

8. Hvaða viðvörun gaf Páll postuli þjónum Guðs?

8 Páll postuli hvatti þjóna Guðs til að gæta sín. Hann sagði til dæmis þjónum Guðs í Efesus: „Gætið þess vandlega að þið hegðið ykkur ekki eins og óskynsamar manneskjur heldur skynsamar.“ (Ef. 5:15, 16) Satan reynir stöðugt að spilla vináttu okkar við Jehóva þannig að við erum hvött í Biblíunni til að ,reyna að átta okkur á hver sé vilji Jehóva‘ svo að við getum tekist á við hvað sem ógnar henni. – Ef. 5:17.

9. Hvernig getum við skilið vilja Jehóva með okkur?

9 Biblían segir ekki frá öllu sem getur stofnað vináttu okkar við Jehóva í hættu. Við þurfum oft að taka ákvarðanir um mál sem er ekki talað um í Biblíunni. Til að taka skynsamlegar ákvarðanir þurfum við að skilja ,vilja Jehóva‘. Við getum það með því að rannsaka og hugleiða orð Guðs reglulega. Því betur sem við skiljum vilja Jehóva og tileinkum okkur „huga Krists“ því betur gengur okkur að haga okkur eins og ,skynsamar manneskjur‘, jafnvel þegar við höfum ekki nákvæmar leiðbeiningar um það hvað við eigum að gera. (1. Kor. 2:14–16) Stundum er auðvelt að koma auga á hætturnar en stundum eru þær lúmskari.

10. Hvaða hættur þurfum við að forðast?

10 Við þurfum að forðast hættur eins og daður, ofdrykkju, ofát, að særa aðra með orðum okkar og að horfa á ofbeldisfullt skemmtiefni, klám og annað þvíumlíkt. (Sálm. 101:3) Óvinur okkar, Djöfullinn, leitar stöðugt að tækifærum til að skaða vináttusamband okkar við Jehóva. (1. Pét. 5:8) Ef við gætum okkar ekki gæti Satan sáð í huga okkar og hjarta fræjum öfundar, óheiðarleika, ágirndar, haturs, hroka og gremju. (Gal. 5:19–21) Þessar tilhneigingar eru kannski ekki svo sterkar til að byrja með. En ef við gerum ekki eitthvað strax til að uppræta þær geta þær haldið áfram að vaxa eins og eitruð planta og orsakað vandamál. – Jak. 1:14, 15.

11. Hvaða lúmsku hættu verðum við að forðast og hvers vegna?

11 Vondur félagsskapur er lúmsk hætta. Segjum að þú vinnir með einhverjum sem er ekki vottur. Þú vilt að vinnufélagi þinn hafi jákvætt viðhorf gagnvart vottum Jehóva svo að þú ert vingjarnlegur og hjálpfús. Þú fellst kannski á að borða hádegismat með honum við og við. En fyrr en varir ertu farinn að gera það reglulega. Af og til fara samræðurnar út í eitthvað siðlaust en þú reynir að hunsa það. En með tímanum venstu slíku tali og það hættir að trufla þig. Dag einn stingur vinnufélagi þinn upp á að þið fáið ykkur drykk saman eftir vinnu og þú samþykkir það. Það kemur að því að þú ert farinn að hugsa eins og vinnufélagi þinn. Fyrr en varir ertu farinn að haga þér eins og hann. Við erum að sjálfsögðu vingjarnleg við alla og sýnum þeim virðingu en við verðum að muna að þeir sem við veljum að umgangast hafa sterk áhrif á okkur. (1. Kor. 15:33) Ef við gætum að okkur eins og Jesús hvatti okkur til að gera forðumst við óþarfa félagsskap við þá sem lifa ekki eftir mælikvarða Jehóva. (2. Kor. 6:15) Við komum auga á hættuna og forðum okkur.

NOTUM TÍMA OKKAR SEM BEST

12. Hvað áttu lærisveinar Jesú að gera meðan þeir biðu eftir lokaskeiði þessarar heimsskipanar?

12 Lærisveinar Jesú áttu ekki að bíða aðgerðarlausir eftir lokaskeiði þessarar heimsskipanar. Jesús fól þeim verkefni. Það var gríðarlega stórt! Hann sagði þeim að boða fagnaðarboðskapinn „í Jerúsalem, í allri Júdeu og Samaríu og til endimarka jarðar“. (Post. 1:6–8) Með því að gera allt sem í þeirra valdi stóð til að sinna verkefninu notuðu þeir tíma sinn sem best.

13. Hvers vegna þurfum við að nota tíma okkar sem best? (Kólossubréfið 4:5)

13 Lestu Kólossubréfið 4:5. Til að gæta að okkur þurfum við að hugsa alvarlega um það hvernig við notum tíma okkar. „Óvæntir atburðir“ geta haft áhrif á okkur öll. (Prédikarinn 9:11, neðanmáls) Líf okkar getur endað skyndilega.

Hvernig getum við notað tíma okkar sem best? (Sjá 14. og 15. grein.)

14, 15. Hvernig getum við notað tíma okkar sem best? (Hebreabréfið 6:11, 12) (Sjá einnig mynd.)

14 Við notum tíma okkar sem best með því að gera vilja Jehóva og styrkja vináttuna við hann. (Jóh. 14:21) Við þurfum að vera ,staðföst og óhagganleg, og vera alltaf önnum kafin í verki Drottins‘. (1. Kor. 15:58) Þá munum við ekki sjá eftir neinu þegar endirinn kemur, hvort sem það er endir lífs okkar eða þessarar illu heimsskipanar. – Matt. 24:13; Rómv. 14:8.

15 Nú á dögum heldur Jesús áfram að leiðbeina lærisveinum sínum við boðun ríkis Guðs um alla jörðina. Hann hefur staðið við sitt. Fyrir milligöngu safnaðar Jehóva þjálfar Jesús okkur í boðuninni og sér okkur fyrir þeim verkfærum sem við þurfum til að flytja fagnaðarboðskapinn. (Matt. 28:18–20) Við gerum okkar hlut með því að vera dugleg að boða og kenna og halda vöku okkar meðan við bíðum eftir að Jehóva bindi enda á þessa heimsskipan. Við höldum fast í von okkar „allt til enda“ með því að fara eftir leiðbeiningunum í Hebreabréfinu 6:11, 12.Lestu.

16. Hvað erum við ákveðin í að gera?

16 Jehóva hefur ákveðið daginn og stundina sem hann bindur enda á heim Satans. Þegar að því kemur munu spádómar Jehóva sem eru skráðir í orði hans rætast. Stundum gæti okkur hins vegar fundist að endi þessarar heimsskipanar hafi seinkað. En degi Jehóva „seinkar ekki“. (Hab. 2:3) Verum því ákveðin í að ,mæna í von til Drottins og bíða eftir Guði hjálpræðis okkar‘. – Míka 7:7.

SÖNGUR 139 Sjáðu sjálfan þig í nýja heiminum

a Í þessari námsgrein skoðum við hvernig við getum haft jafnvægi í þjónustu Jehóva og haldið vöku okkar. Við sjáum líka hvernig við getum gætt okkar og notað tíma okkar á sem bestan hátt.

b MYNDIR: (Fyrir ofan): Hjón fylgjast með sjónvarpsfréttunum. Síðar, eftir samkomu, segja þau öðrum frá sterkum skoðunum sínum á atburðum sem var fjallað um í fréttum. (Fyrir neðan): Hjón fylgjast með Skilaboðum frá stjórnandi ráði til að vera upplýst um nýjasta skilninginn á biblíuspádómi. Þau bjóða fólki biblíutengd rit sem trúi þjónninn sér okkur fyrir.