Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 9

Metum mikils þá gjöf Guðs sem lífið er

Metum mikils þá gjöf Guðs sem lífið er

„Það er honum að þakka að við lifum, hreyfum okkur og erum til.“ – POST. 17:28.

SÖNGUR 141 Lífið er kraftaverk

YFIRLIT a

1. Hversu verðmætt er líf okkar í augum Jehóva?

 ÍMYNDAÐU þér að vinur þinn gefi þér óhemju verðmætt málverk – gamalt meistaraverk. Það er orðið upplitað, það eru sprungur í því og blettir á því. Málverkið er samt sem áður metið á milljónir króna. Þú myndir eflaust meta listaverkið mikils og vernda það. Jehóva hefur á svipaðan hátt gefið okkur verðmæta gjöf – lífið. Og hann sýndi hversu mikils hann metur líf okkar þegar hann gaf son sinn sem lausnargjald fyrir okkur. – Jóh. 3:16.

2. Hvers ætlast Jehóva til af okkur eins og kemur fram í 2. Korintubréfi 7:1?

2 Jehóva er uppspretta lífsins. (Sálm. 36:9) Páll postuli staðfesti það þegar hann sagði: „Það er honum að þakka að við lifum, hreyfum okkur og erum til.“ (Post. 17:25, 28) Það er því vel við hæfi að við tölum um líf okkar sem gjöf frá Guði. Í kærleika sínum sér hann okkur fyrir því sem við þurfum til að lifa. (Post. 14:15–17) En Jehóva gerir ekki kraftaverk til að vernda líf okkar núna. Hann ætlast til þess að við hugsum eins vel um heilsuna og við getum og höldum áfram að þjóna honum. (Lestu 2. Korintubréf 7:1.) Hvers vegna ættum við að vernda líf okkar og heilsu og hvernig getum við gert það?

METUM LÍFIÐ AÐ VERÐLEIKUM

3. Hver er ein ástæða þess að hugsa vel um heilsuna?

3 Við ættum að hugsa vel um heilsuna til að geta þjónað Jehóva sem best. (Mark. 12:30) Við viljum ,bjóða fram líkama okkar að lifandi og heilagri fórn sem Guð hefur velþóknun á‘. Við forðumst því að gera nokkuð sem fer illa með heilsuna. (Rómv. 12:1) Við ráðum að vísu ekki alltaf við heilsuna en við gerum það sem við getum vegna þess að okkur langar að sýna föður okkar á himnum að við kunnum að meta þá gjöf sem lífið er.

4. Hvað vildi Davíð konungur gera?

4 Davíð konungur útskýrði hvers vegna hann kunni að meta lífið sem Guð gaf honum: „Hvaða ávinningur er að dauða mínum, að því að ég fari í gröfina? Getur duftið lofað þig og sagt frá trúfesti þinni?“ (Sálm. 30:9) Það er hugsanlegt að Davíð hafi ort þetta stuttu áður en hann dó. En hann var ákveðinn í að halda lífi og heilsu eins lengi og hann gæti til að geta lofað Jehóva. Við erum örugglega ákveðin í því líka.

5. Hvað getum við gert óháð því hversu öldruð eða veik við erum?

5 Sjúkdómar og elli geta hindrað okkur í að gera eins mikið og áður og við erum kannski svekkt og döpur yfir því. En við ættum aldrei að hætta að hugsa um heilsuna vegna þess að við getum haldið áfram að lofa Jehóva, rétt eins og Davíð gerði, sama hversu gömul eða veik við erum. Það er mjög hughreystandi að vita að Guð skuli meta okkur mikils þrátt fyrir ófullkomleikann. (Matt. 10:29–31) Og ef við dæjum myndi hann þrá að reisa okkur upp til lífs á ný. (Job. 14:14, 15) Við viljum því hugsa vel um heilsuna á meðan við lifum.

FORÐUMST SKAÐLEGAR VENJUR

6. Hvers ætlast Jehóva til af okkur varðandi mat og drykk?

6 Þótt Biblían sé ekki bók um heilsu eða mataræði sýnir hún okkur viðhorf Jehóva á þessum sviðum. Hann hvetur okkur til dæmis til að losa okkur við það sem er skaðlegt fyrir líkamann. (Préd. 11:10) Ofát og ofdrykkja getur hvort tveggja dregið okkur til dauða og er fordæmt í Biblíunni. (Orðskv. 23:20) Jehóva ætlast til þess að við sýnum sjálfstjórn þegar við ákveðum hvað og hversu mikið við borðum og drekkum. – 1. Kor. 6:12; 9:25.

7. Hvernig hjálpa ráðin í Orðskviðunum 2:11 okkur að taka góðar ákvarðanir varðandi heilsuna?

7 Við getum sýnt að við metum mikils lífið sem Guð gaf okkur með því að vera skynsöm þegar við tökum ákvarðanir. (Sálm. 119:99, 100; Lestu Orðskviðina 2:11.) Við sýnum til dæmis góða dómgreind þegar við ákveðum hvað við borðum. Heilbrigð skynsemi fær okkur til að forðast mat sem okkur líkar ef til vill en er skaðlegur fyrir okkur. Við sýnum líka skynsemi með því að gæta þess að sofa nóg, hreyfa okkur reglulega, hugsa vel um persónulegt hreinlæti og halda heimili okkar hreinu.

GÆTUM AÐ ÖRYGGI

8. Hvað sýnir Biblían varðandi viðhorf Guðs til öryggis?

8 Lög Guðs til Ísraelsmanna innihéldu leiðbeiningar sem hjálpuðu þeim að forðast alvarleg slys heima og í vinnunni. (2. Mós. 21:28, 29; 5. Mós. 22:8) Að verða einhverjum óviljandi að bana hafði alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir gerandann. (5. Mós. 19:4, 5) Lögin kváðu á um að sá sem skaðaði ófætt barn óviljandi tæki út refsingu. (2. Mós. 21:22, 23) Biblían sýnir skýrt fram á að Jehóva vill að við gætum að öryggi okkar og annarra.

Hvernig getum við sýnt virðingu fyrir lífinu í þessum aðstæðum? (Sjá 9. grein.)

9. Hvernig getum við fyrirbyggt slys? (Sjá einnig myndir.)

9 Við sýnum að við kunnum að meta þá gjöf sem lífið er með því að gæta að öryggi okkar og annarra heima og í vinnunni. Við geymum til dæmis beitta hluti, eiturefni og lyf þar sem börn ná ekki til. Og ef við þurfum að losa okkur við slíkt gerum við það á öruggan hátt. Við skiljum ekki eftir án eftirlits opinn eld, sjóðandi vatn eða rafmagnsverkfæri. Og við förum varlega þegar við meðhöndlum slíkt. Við keyrum ekki ef dómgreind okkar er sljóvguð vegna lyfja, áfengis eða svefnleysis. Og við keyrum ekki með símann í hendinni.

ÞEGAR NEYÐARÁSTAND SKAPAST

10. Hvað getum við gert í lífshættulegum aðstæðum og til að búa okkur undir þær?

10 Við getum ekki alltaf komið í veg fyrir aðstæður sem ógna lífi okkar. Það á sérstaklega við um náttúruhamfarir, faraldra og blóðug átök. En þegar slíkar hörmungar dynja yfir getum við reynt að draga úr hættu og auka líkurnar á að lifa af með því að virða útgöngubann, hlýða fyrirmælum yfirvalda um að yfirgefa heimilið og fara eftir öðrum fyrirmælum þeirra. (Rómv. 13:1, 5–7) Sumar hættur má sjá fyrir og það er skynsamlegt af okkur að búa okkur undir neyðarástand með því að fara eftir leiðbeiningum yfirvalda. Það getur til dæmis verið skynsamlegt að geyma birgðir af vatni og geymsluþolnum mat og eiga sjúkrakassa.

11. Hvað ættum við að gera ef farsótt geisar?

11 Hvað ættum við að gera ef farsótt geisar þar sem við búum? Við ættum að fara eftir leiðbeiningum yfirvalda, svo sem um handþvott, nálægðarmörk, grímunotkun og sóttkví. Þegar við förum samviskusamlega eftir slíkum leiðbeiningum sýnum við að við kunnum að meta lífið sem Guð gaf okkur.

12. Hvernig hjálpar meginreglan í Orðskviðunum 14:15 okkur að meta hvaða upplýsingum við tökum mark á þegar hörmungar dynja yfir?

12 Þegar neyðarástand skapast fara stundum ónákvæmar fréttir á kreik meðal vina, nágranna og jafnvel í fjölmiðlum. Það er skynsamlegt af okkur að hlusta á áreiðanlegar upplýsingar frá stjórnvöldum og heilbrigðisyfirvöldum í stað þess að trúa eins og nýju neti öllu sem við lesum og heyrum. (Lestu Orðskviðina 14:15.) Stjórnandi ráð og deildarskrifstofurnar leggja sig fram um að afla sér nákvæmra upplýsinga áður en gefnar eru leiðbeiningar um safnaðarsamkomur og boðunina. (Hebr. 13:17) Með því að vera samvinnufús verndum við okkur sjálf og aðra. Við stuðlum líka að því að gott orð fari af söfnuðinum. – 1. Pét. 2:12.

HÖLDUM OKKUR FRÁ BLÓÐI

13. Hvernig sýnum við að við metum lífið þó að við þiggjum ekki blóðgjöf?

13 Vottar Jehóva eru þekktir fyrir að virða heilagleika blóðsins. Við hlýðum lögum Guðs varðandi blóðið og höfnum blóðgjöfum, jafnvel í neyðartilvikum. (Post. 15:28, 29) En við viljum ekki deyja. Við metum mikils lífið sem Guð gaf okkur. Við leitum þess vegna til lækna sem eru fúsir að veita góða læknismeðferð án blóðgjafar.

14. Hvernig getum við dregið úr líkunum á því að þurfa meiri háttar læknismeðferð?

14 Með því að fara eftir ráðunum sem við höfum fengið fyrr í þessari námsgrein varðandi heilsu getum við dregið úr líkunum á að þurfa að fara í meiri háttar læknismeðferð. Því hraustari sem við erum þeim mun betur gengur okkur í aðgerð sem við þurfum að fara í og við erum fljótari að ná okkur. Og með því að fjarlægja slysagildrur heima og í vinnunni og fylgja umferðarlögunum samviskusamlega minnkum við líkurnar á að þurfa að fara í bráðaaðgerð.

Við fyllum út yfirlýsingu og umboð vegna læknismeðferðar vegna þess að við metum lífið mikils, og höfum yfirlýsinguna alltaf meðferðis. (Sjá 15. grein.) c

15. (a) Hvers vegna er mikilvægt að við berum á okkur nýlega yfirlýsingu og umboð vegna læknismeðferðar? (Sjá einnig mynd.) (b) Hvernig getum við tekið góðar ákvarðanir sem tengjast blóði eins og kemur fram í myndbandinu?

15 Við metum lífið mikils og þess vegna fyllum við út yfirlýsingu og umboð vegna læknismeðferðar (blóðkortið) og höfum yfirlýsinguna alltaf meðferðis. Þar tjáum við óskir okkar varðandi blóðgjafir og ýmsar læknismeðferðir. Er blóðkortið þitt nýlegt? Ef þú átt eftir að fylla það út eða endurnýja það skaltu ekki slá því á frest. Ef við tjáum óskir okkar skýrt skriflega getur það komið í veg fyrir óþarfa tafir í læknismeðferð. Þannig getum við auk þess komið í veg fyrir að heilbrigðisstarfsfólk gefi okkur meðferð sem getur skaðað okkur. b

16. Hvað getum við gert ef við erum ekki viss um hvernig við eigum að fylla út yfirlýsingu og umboð vegna læknismeðferðar?

16 Við getum öll orðið veik eða lent í slysi, sama hversu ung eða hraust við erum. (Préd. 9:11) Það er þess vegna afar skynsamlegt að fylla út yfirlýsingu og umboð vegna læknismeðferðar. Biddu öldungana að hjálpa þér ef þú ert ekki viss um hvernig þú átt að gera það því að þeir þekkja yfirleitt vel hvernig á að fylla skjalið út. Hins vegar taka þeir engar ákvarðanir fyrir þig varðandi læknismeðferð. Það er þín ábyrgð. (Gal. 6:4, 5) En þeir geta hjálpað þér að skilja hvaða valkosti þú hefur og aðstoðað þig við að tjá óskir þínar skriflega.

VERUM SANNGJÖRN

17. Hvernig getum við sýnt sanngirni þegar heilsa er annars vegar?

17 Við byggjum margar ákvarðanir varðandi heilsu og læknismeðferðir á því sem við höfum lært í Biblíunni. (Post. 24:16; 1. Tím. 3:9) Þegar við tökum ákvarðanir og ræðum þær við aðra ættum við að hafa í huga það sem segir í Filippíbréfinu 4:5: „Verið þekkt fyrir að vera sanngjörn.“ Sanngirni fær okkur til að sýna skynsemi og hafa ekki of miklar áhyggjur af heilsunni. Við þröngvum ekki heldur skoðunum okkar upp á aðra. Við elskum og virðum bræður okkar og systur, jafnvel þótt ákvarðanir þeirra séu ólíkar okkar. – Rómv. 14:10–12.

18. Hvernig getum við sýnt að við erum þakklát fyrir þá gjöf sem lífið er?

18 Við sýnum Jehóva, uppsprettu lífsins, þakklæti með því að hugsa vel um okkur og gefa Jehóva okkar besta. (Opinb. 4:11) Veikindi og neyð eru hluti af lífinu eins og er. En þetta er ekki lífið sem skaparinn ætlaði okkur. Bráðlega gefur hann okkur eilíft líf þar sem við verðum laus við sársauka og dauða. (Opinb. 21:4) En þangað til skulum við vera þakklát fyrir að vera á lífi og geta þjónað Jehóva, kærleiksríkum föður okkar á himni.

SÖNGUR 140 Loksins eilíft líf

a Í þessari námsgrein fáum við hjálp til að meta enn betur þá gjöf Guðs sem lífið er. Við sjáum hvað við getum gert til að vernda líf okkar og heilsu þegar hörmungar dynja yfir og hvernig við getum forðast slys. Við skoðum líka hvað við þurfum að gera til að vera viðbúin bráðatilfellum.

c MYND: Ungur bróðir fyllir út yfirlýsingu og umboð vegna læknismeðferðar og gætir þess að hafa hana meðferðis.