Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 44

Rannsökum orð Guðs vandlega

Rannsökum orð Guðs vandlega

‚Skiljum til fulls hver sé breiddin, lengdin, hæðin og dýptin.‘ – EF. 3:18.

SÖNGUR 95 Ljósið verður bjartara

YFIRLIT a

1, 2. Hver er besta leiðin til að lesa og rannsaka Biblíuna? Lýstu með dæmi.

 ÍMYNDAÐU þér að þú sért að ákveða hvort þú ætlir að kaupa hús. Hvað myndirðu skoða áður en þú tækir ákvörðun? Bara ljósmynd af framhlið hússins? Þú myndir örugglega vilja skoða húsið sjálfur, ganga hringinn í kringum það, fara inn og skoða öll herbergin og skoða allt mjög vandlega. Þú myndir jafnvel vilja skoða teikningar af húsinu til að sjá hvernig það var byggt. Þú myndir örugglega vilja skoða framtíðarheimili þitt mjög vandlega.

2 Við getum gert eitthvað svipað þegar við lesum og rannsökum Biblíuna. Biblíufræðingur líkti Biblíunni við „gríðarlega stóra byggingu með háum turnum og djúpum undirstöðum“. Hvernig getum við fengið þekkingu á öllu sem er að finna í Biblíunni? Ef þú lest hana yfirborðslega kynnistu kannski bara aðalatriðunum – ‚grundvallaratriðum hins heilaga boðskapar Guðs‘. (Hebr. 5:12) En rétt eins og þú þarft að fara inn í hús til að skoða það betur þarftu að skoða Biblíuna vandlega til að skilja hana. Góð leið til að rannsaka Biblíuna er að skoða hvernig mismunandi hlutar boðskapar hennar tengjast innbyrðis. Leitastu við að skilja ekki aðeins hvaða sannindum þú trúir heldur líka hvers vegna þú trúir þeim.

3. Hvað hvatti Páll postuli trúsystkini sín til að gera og hvers vegna? (Efesusbréfið 3:14–19)

3 Til að skilja allar hliðar sannleikans í orði Guðs þurfum við að rannsaka það vandlega. Páll postuli hvatti kristna bræður sína og systur til að vera iðin við að rannsaka orð Guðs svo að þau gætu ‚skilið til fulls hver væri breidd, lengd, hæð og dýpt‘ sannleikans. Þá myndu þau verða „rótföst og standa á traustum grunni“. (Lestu Efesusbréfið 3:14–19.) Við þurfum líka að gera það. Orð Guðs er merkingarþrungið. Athugum hvernig við getum rannsakað það til að fá skýrari mynd af því sem það segir.

RANNSÖKUM DJÚP SANNINDI BIBLÍUNNAR

4. Hvað getum við gert til að nálægja okkur Jehóva? Nefndu dæmi.

4 Sem þjónar Guðs látum við okkur ekki nægja aðeins yfirborðslega þekkingu á Biblíunni. Með hjálp heilags anda Guðs erum við áköf að læra „jafnvel hið djúpa sem býr í Guði“. (1. Kor. 2:9, 10) Hvernig væri að taka fyrir verkefni í sjálfsnámi þínu sem gæti hjálpað þér að nálægja þig Jehóva? Þú gætir til dæmis athugað hvernig hann sýndi þjónum sínum til forna kærleika sinn og hvernig það sýnir fram á að hann elskar þig líka. Þú gætir líka athugað hvernig Jehóva vildi að Ísraelsmenn tilbæðu sig og borið það saman við það hvernig hann vill að við tilbiðjum sig nú á dögum. Eða þú gætir skoðað vandlega spádómana sem Jesús uppfyllti meðan á þjónustu hans stóð á jörðinni.

5. Er eitthvert viðfangsefni sem þú myndir vilja rannsaka í sjálfsnámi þínu?

5 Nokkur trúsystkini okkar sem eru iðin við að rannsaka Biblíuna voru spurð hvað þau myndu vilja skoða vandlega í orði Guðs. Sumt af því sem þau nefndu er talið upp í rammanum „ Viðfangsefni fyrir sjálfsnám“. Það getur verið mjög ánægjulegt að rannsaka þessi viðfangsefni með hjálp Efnislykils að ritum Votta Jehóva og Watch Tower Publications Index. Ítarlegt biblíunám getur styrkt trú þína og hjálpað þér að ‚kynnast Guði‘. (Orðskv. 2:4, 5) Beinum nú athyglinni að djúpum biblíusannindum sem við getum rannsakað vandlega.

HUGLEIÐUM FYRIRÆTLUN GUÐS VANDLEGA

6. (a) Hver er munurinn á áætlun og fyrirætlun? (b) Hvers vegna er hægt að segja að fyrirætlun Jehóva með mennina og jörðina sé eilíf? (Efesusbréfið 3:11)

6 Hugleiðum til dæmis hvað Biblían segir um fyrirætlun Guðs. Það er greinilegur munur á áætlun og fyrirætlun. Áætlun snýst um ákveðna leið til að komast á ákvörðunarstað. En áætlunin getur breyst ef þú kemur að hindrun. Fyrirætlun beinir hins vegar athyglinni að ákvörðunarstaðnum sjálfum. Við vitum hvar ferðinni lýkur en leiðin þangað er ekki endilega ákveðin. Ef einn vegur er lokaður veljum við aðra leið. Sem betur fer hefur Jehóva smátt og smátt leitt í ljós „eilífa fyrirætlun“ sína í Biblíunni. (Ef. 3:11) Jehóva getur notað mismunandi aðferðir til að koma fyrirætlun sinni til leiðar því að hann „lætur allt þjóna vilja sínum“. (Orðskv. 16:4) Og árangurinn af því sem hann gerir varir að eilífu. Hver er fyrirætlun Jehóva og hvað hefur hann gert til að koma henni til leiðar?

7. Hvað gerði Jehóva til að tryggja að fyrirætlun sín næði fram að ganga þegar Adam og Eva gerðu uppreisn? (Matteus 25:34)

7 Guð sagði Adam og Evu hver fyrirætlun sín væri með mennina. Hann sagði við þau: „Verið frjósöm, fjölgið ykkur og fyllið jörðina. Leggið hana undir ykkur og ríkið yfir ... öllum dýrum“ á jörðinni. (1. Mós. 1:28) Þegar Adam og Eva gerðu uppreisn og ollu því að mannkynið varð syndugt setti það ekki fyrirætlun Jehóva í uppnám. Hann ákvað aðra leið að markinu til að hún næði fram að ganga. Hann ákvað strax að stofnsetja ríki á himnum sem kæmi til leiðar upprunalegri fyrirætlun hans með mannkynið á jörðinni. (Lestu Matteus 25:34.) Á ákveðnum tíma sendi Jehóva ástkæran og frumgetinn son sinn til jarðar til að fræða fólk um Guðsríki og gefa líf sitt sem lausnargjald og frelsa okkur þannig frá synd og dauða. Síðan reisti Jehóva Jesú aftur til lífs til að ríkja sem konungur í Guðsríki á himni. En það er fleira varðandi fyrirætlun Guðs sem er vert að íhuga.

Ímyndaðu þér þann tíma þegar allar skynsemigæddar sköpunarverur á himni og jörð verða sameinaðar í hollustu við Jehóva! (Sjá 8. grein.)

8. (a) Hver er kjarni Biblíunnar? (b) Hver er endanleg fyrirætlun Jehóva samkvæmt Efesusbréfinu 1:8–11? (Sjá forsíðumynd.)

8 Kjarninn í Biblíunni er að nafn Jehóva verði hreinsað og upphafið þegar hann gerir fyrirætlun sína með jörðina að veruleika undir stjórn Krists í Guðsríki. Fyrirætlun Jehóva verður ekki breytt. Hann hefur lofað að allt verði eins og hann hefur sagt. (Jes. 46:10, 11, neðanmáls; Hebr. 6:17, 18) Með tímanum verður jörðinni breytt í paradís þar sem fullkomnir og réttlátir afkomendur Adams og Evu „njóta lífsins að eilífu“. (Sálm. 22:26) Og ekki nóg með það, endanleg fyrirætlun hans er að sameina alla þjóna sína á himni og jörð. Þá munu allir sem lifa þjóna alvöldum Drottni í trúfesti. (Lestu Efesusbréfið 1:8–11.) Er ekki stórkostlegt hvernig Jehóva kemur fyrirætlun sinni til leiðar?

HUGLEIÐUM FRAMTÍÐ OKKAR

9. Hversu langt inn í framtíðina sjáum við með því að lesa Biblíuna?

9 Skoðum spádóm sem Jehóva setti fram í Edengarðinum og er að finna í 1. Mósebók 3:15. b Þar eru nefndir atburðir sem myndu uppfylla fyrirætlun hans en ekki fyrr en þúsundum ára síðar. Guð sagði til dæmis Abraham að eftir margar kynslóðir yrði Kristur einn afkomenda hans. (1. Mós. 22:15–18) Árið 33 var Jesús höggvinn í hælinn eins og spádómurinn sagði fyrir. (Post. 3:13–15) Meira en þúsund ár eru þangað til lokaatburður spádómsins rætist þegar höfuð Satans verður kramið. (Opinb. 20:7–10) Og Biblían opinberar margt fleira um það þegar fjandskapurinn milli heims Satans og safnaðar Jehóva nær hámarki.

10. (a) Hvaða framtíðaratburðir eru í vændum? (b) Hvernig getum við undirbúið huga okkar og hjarta? (Sjá neðanmáls.)

10 Samkvæmt Biblíunni eru magnaðir atburðir í vændum. Þjóðirnar munu lýsa yfir ‚friði og öryggi‘. (1. Þess. 5:2, 3) Þrengingin mikla hefst síðan „skyndilega“ þegar þjóðirnar ráðast á fölsk trúarbrögð. (Opinb. 17:16) Eftir það má vera að Mannssonurinn birtist á yfirnáttúrulegan hátt ‚komandi á skýjum himins með mætti og mikilli dýrð‘. (Matt. 24:30) Jesús kveður upp dóm yfir mannkyninu og skilur sauðina frá geitunum. (Matt. 25:31–33, 46) Satan situr ekki aðgerðalaus á meðan. Hann hatar þjóna Jehóva svo mikið að hann æsir upp bandalag þjóða, sem í Biblíunni er kallað Góg í landinu Magóg, til að ráðast á sanna tilbiðjendur hans. (Esek. 38:2, 10, 11) Á ákveðnum tíma mun þeim sem eru eftir á jörðinni af hinum andasmurðu vera safnað saman til að fara til himna þar sem þeir berjast með Kristi og himneskum hersveitum hans í Harmagedónstríðinu, lokakafla þrengingarinnar miklu. c (Matt. 24:31; Opinb. 16:14, 16) Síðan hefst þúsundáraríki Krists. – Opinb. 20:6.

Hversu náinn verðurðu Jehóva þegar þú hefur kynnst honum betur um milljarða ára? (Sjá 11. grein.)

11. Hvaða þýðingu hefur eilíft líf fyrir þig? (Sjá einnig mynd.)

11 En horfum nú enn lengra fram í tímann. Biblían segir að skapari okkar hafi „jafnvel lagt eilífðina í hjörtu“ okkar. (Préd. 3:11) Veltu því fyrir þér hvað það merkir fyrir þig og samband þitt við Jehóva. Það er spennandi sem segir í bókinni Nálægðu þig Guði á blaðsíðu 319: „Eftir að hafa lifað í hundruð, þúsundir, milljónir og jafnvel milljarða ára verðum við búin að læra margfalt meira um Jehóva Guð en við vitum núna. Samt verður ótalmargt sem við eigum ólært ... Eilíft líf verður innihaldsríkara og fjölbreyttara en okkur órar fyrir, og ekkert verður eins gefandi og að nálægja sig Jehóva.“ En þangað til höldum við áfram að rannsaka orð Guðs. Hvað fleira getum við skoðað?

HORFUM HÁTT TIL HIMINS

12. Hvernig getum við horft hátt til himins? Nefndu dæmi.

12 Orð Guðs gefur okkur örlitla sýn á nærveru Jehóva „í hæðum uppi“. (Jes. 33:5) Biblían segir frá ýmsu stórkostlegu um Jehóva og himneskan hluta safnaðar hans. (Jes. 6:1–4; Dan. 7:9, 10; Opinb. 4:1–6) Það var til dæmis mikilfenglegt sem Esekíel sá þegar ‚himinninn opnaðist og hann sá sýnir frá Guði‘. – Esek. 1:1.

13. Hvað kannt þú að meta í sambandi við hlutverk Jesú á himnum eins og það er útskýrt í Hebreabréfinu 4:14–16?

13 Veltum líka fyrir okkur hlutverki Jesú á himnum sem ríkjandi konungur okkar og samúðarfullur æðstiprestur. Fyrir milligöngu hans getum við nálgast „hásæti Guðs sem sýnir einstaka góðvild“ í bæn og beðið um miskunn og hjálp „þegar við erum hjálparþurfi“. (Lestu Hebreabréfið 4:14–16.) Látum ekki dag líða án þess að leiða hugann að því sem Jehóva og Jesús hafa gert fyrir okkur og eru að gera fyrir okkur frá himni. Kærleikur þeirra til okkar ætti að snerta okkur djúpt og knýja okkur til að vera kappsöm í þjónustu okkar og tilbeiðslu. – 2. Kor. 5:14, 15.

Ímyndaðu þér gleðina í nýja heiminum þegar þú hefur hjálpað öðrum að verða vottar Jehóva og lærisveinar Jesú! (Sjá 14. grein.)

14. Hvað er eitt það besta sem við getum gert til að sýna að við erum þakklát Jehóva og Jesú? (Sjá einnig myndir.)

14 Ein besta leiðin til að sýna hversu mikils við metum Guð og son hans er að leggja okkur fram við að hjálpa öðrum að verða vottar Jehóva og lærisveinar Jesú. (Matt. 28:19, 20) Páll postuli gerði það einmitt af því að hann var svo þakklátur Guði og Kristi. Hann vissi að það er vilji Jehóva að „alls konar fólk bjargist og fái nákvæma þekkingu á sannleikanum“. (1. Tím. 2:3, 4) Hann lagði mjög hart að sér í þjónustunni til að hjálpa eins mörgum og mögulegt var „til að bjarga að minnsta kosti nokkrum“. – 1. Kor. 9:22, 23.

HÖFUM YNDI AF AÐ RANNSAKA ORÐ GUÐS

15. Hvað veitir okkur hamingju samkvæmt Sálmi 1:2?

15 Sálmaskáldið sagði að sá sem „hefur yndi af lögum Jehóva“ og „hugleiðir þau“ dag og nótt væri hamingjusamur og farsæll. (Sálm. 1:1–3, neðanmáls) Biblíuþýðandi einn sagði um þetta vers að maður ætti að „þrá leiðsögn Guðs svo mikið að maður leitaði að henni, rannsakaði hana og notaði mikinn tíma til að hugsa um hana“. Hann sagði líka að ef „dagur liði hjá án þess að maður læsi í Biblíunni væri sá dagur til einskis“. Þú getur haft yndi af að rannsaka Biblíuna með því að sökkva þér niður í djúp sannindi hennar og uppgötva hvernig þau tengjast hver öðrum. Það er einstaklega ánægjulegt að rannsaka orð Guðs vandlega!

16. Hvað skoðum við í næstu námsgrein?

16 Fallegu sannindin sem Jehóva réttir okkur í orði sínu eru ekki utan seilingar okkar. Í næstu námsgrein skoðum við djúp sannindi um hið mikla andlega musteri Jehóva sem Páll lýsir í bréfi sínu til kristinna Hebrea. Vonandi muntu hafa yndi af að rannsaka þetta viðfangsefni.

SÖNGUR 94 Þakklát fyrir orð Guðs

a Að rannsaka Biblíuna getur gefið okkur gleði alla ævi og fært okkur stöðugt nær föður okkar á himnum. Í þessari námsgrein skoðum við hvernig við getum rannsakað breiddina, lengdina, hæðina og dýptina í orði Guðs.

b Sjá námsgreinina „Forn spádómur sem snertir þig“ í Varðturninum júlí 2022.

c Sjá bókina Ríki Guðs stjórnar, bls. 230 til að sjá hvernig þú getur búið þig undir þá stórviðburði sem eru væntanlegir í náinni framtíð.