Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 1

SÖNGUR 38 Hann mun styrkja þig

Sigrastu á ótta með því að treysta á Jehóva

Sigrastu á ótta með því að treysta á Jehóva

ÁRSTEXTINN 2024 ER: „Þegar ég er hræddur reiði ég mig á þig.“SÁLM. 56:3.

Í HNOTSKURN

Skoðum hvernig við getum styrkt traust okkar á Jehóva og sigrast á ótta.

1. Hvers vegna getum við stundum orðið hrædd?

 ALLIR finna stundum fyrir ótta. Biblíunám okkar hefur vissulega frelsað okkur undan ótta við dauðann, ótta við yfirnáttúrlega hluti og ótta við framtíðina. En við lifum á tímum sem sagt var fyrir um að ‚ógnvekjandi atburðir myndu eiga sér stað‘. (Lúk. 21:11) Það gætu verið stríð, glæpir og sjúkdómar. Við gætum líka óttast menn, eins og ógnandi stjórnvöld eða jafnvel ættingja sem eru á móti sannri tilbeiðslu. Sumir óttast að þeir geti ekki haldið út í prófraun sem þeir eru að glíma við eða munu mæta í framtíðinni.

2. Lýstu aðstæðum Davíðs þegar hann var í Gat.

2 Davíð var stundum óttasleginn. Þegar Sál konungur sóttist eftir lífi hans ákvað hann að flýja til Gat sem var ein af borgum Filistea. Konungurinn í Gat, Akís að nafni, komst fljótlega að því að Davíð var stríðsmaðurinn mikli sem sungið var um að hefði fellt tugþúsundir Filistea. Davíð „varð mjög hræddur“. (1. Sam. 21:10–12) Hann óttaðist hvað Akís myndi gera sér. Hvernig sigraðist Davíð á óttanum?

3. Hvernig sigraðist Davíð á óttanum samkvæmt Sálmi 56:1–3, 11?

3 Í Sálmi 56 tjáir Davíð tilfinningar sínar á þeim tíma sem hann var í Gat. Í sálminum viðurkennir hann ótta sinn en segir líka hvernig hann sigraðist á honum. Þegar Davíð varð hræddur treysti hann á Jehóva. (Lestu Sálm 56:1–3, 11.) Það var ekki til einskis. Með blessun hans fékk hann óvenjulega en snilldarlega hugmynd. Hann þóttist hafa misst vitið. Í augum Akíss var Davíð bara pirrandi frekar en að vera ógn og honum tókst því að flýja. – 1. Sam. 21:13–22:1.

4. Hvernig getum við styrkt traust okkar á Jehóva? Lýstu með dæmi.

4 Við getum líka sigrast á ótta með því að treysta á Jehóva. En hvernig styrkjum við traust okkar á honum, sérstaklega þegar við verðum hrædd? Tökum dæmi. Ef þú kemst að því að þú sért með sjúkdóm verður þú kannski fyrst óttasleginn. En þú getur náð tökum á óttanum ef þú treystir lækninum. Hann er kannski þekktur fyrir að meðhöndla sjúklinga með þennan sjúkdóm. Hann hlustar af athygli á þig og fullvissar þig um að hann skilji hvernig þér líður. Hann leggur kannski til að þú gangist undir meðferð sem hefur gagnast öðrum. Við styrkjum líka traust okkar á Jehóva með því að hugleiða það sem hann hefur þegar gert, það sem hann er að gera og á eftir að gera fyrir okkur. Davíð gerði þetta. Þegar við skoðum það sem honum var innblásið að skrifa í Sálmi 56 skaltu velta fyrir þér hvernig þú getur líka styrkt traust þitt á Jehóva og sigrast á ótta.

HVAÐ HEFUR JEHÓVA NÚ ÞEGAR GERT?

5. Hvað hugleiddi Davíð til að sigrast á ótta? (Sálmur 56:12, 13)

5 Meðan líf Davíðs var enn í hættu beindi hann athyglinni að því sem Jehóva hafði þegar gert. (Lestu Sálm 56:12, 13.) Davíð hugsaði þannig allt sitt líf. Hann hugleiddi stundum sköpunarverk Jehóva en það minnti hann á hversu máttugur hann er og hve annt honum er um mannkynið. (Sálm. 65:6–9) Davíð íhugaði líka hvað Jehóva hafði gert fyrir aðra. (Sálm. 31:19; 37:25, 26) Og hann leiddi hugann sérstaklega að því sem Jehóva hafði gert fyrir hann persónulega. Jehóva hafði stutt og verndað Davíð frá unga aldri. (Sálm. 22:9, 10) Ímyndaðu þér hvað þetta hefur styrkt traust Davíðs á Jehóva!

Davíð styrkti traust sitt á Jehóva með því að beina athyglinni að því hvað hann hafði gert, var að gera og ætti eftir að gera. (Sjá 5., 8. og 12. grein.) d


6. Hvað hjálpar okkur að treysta á Jehóva þegar við verðum óttaslegin?

6 Þegar þú verður óttasleginn skaltu spyrja þig: Hvað hefur Jehóva nú þegar gert? Hugsaðu um það sem hann hefur skapað. Þegar við ‚virðum fyrir okkur‘ hversu vel hann annast fuglana og blómin – sem eru ekki sköpuð í hans mynd og geta ekki tilbeðið hann – styrkir það traust okkar á að hann muni líka annast okkur. (Matt. 6:25–32) Hugleiddu einnig hvað Jehóva hefur gert fyrir tilbiðjendur sína. Þú gætir rannsakað biblíupersónu sem sýndi einstaka trú eða lesið um reynslu þjóns Jehóva úr nútímanum. a Hugleiddu líka hvernig Jehóva hefur annast þig hingað til. Hvernig dró hann þig að sannleikanum? (Jóh. 6:44) Hvernig hefur hann svarað bænum þínum? (1. Jóh. 5:14) Hvernig hefurðu gagn af lausnarfórn ástkærs sonar hans á hverjum degi? – Ef. 1:7; Hebr. 4:14–16.

Við styrkjum traust okkar á Jehóva með því að beina athyglinni að því hvað hann hefur gert, er að gera og á eftir að gera. (Sjá 6., 9., 10., 13. og 14. grein.) e


7. Hvernig hjálpaði reynsla Daníels spámanns Vanessu að sigrast á ótta?

7 Vanessa b er systir á Haítí sem upplifði ógnvekjandi aðstæður. Maður í nágrenni hennar hringdi í hana og sendi henni skilaboð á hverjum degi og reyndi að fá hana til að vera með sér. Vanessa sagði honum mjög skýrt að hún vildi það ekki. En maðurinn varð bara ágengari og hótaði henni jafnvel. „Ég var hrædd,“ segir hún. Hvernig sigraðist Vanessa á óttanum? Hún gerði það sem hún gat til að vernda sig. Öldungur aðstoðaði hana við að leita hjálpar yfirvalda. En hún hugsaði líka um hvernig Jehóva hafði verndað þjóna sína áður. „Sá sem kom fyrst upp í huga mér var Daníel spámaður,“ segir Vanessa. „Honum var kastað í gryfju með hungruðum ljónum þótt hann væri saklaus. En Jehóva sá um hann. Ég bað Jehóva að taka málin í sínar hendur. Eftir það var ég ekki lengur hrædd.“ – Dan. 6:12–22.

HVAÐ ER JEHÓVA AÐ GERA NÚNA?

8. Um hvað var Davíð fullviss? (Sálmur 56:8)

8 Þótt Davíð væri í lífshættu í Gat lét hann óttann ekki ná tökum á sér. Þess í stað ákvað hann að hugleiða hvað Jehóva væri að gera fyrir hann á þeim tíma. Hann fann að Jehóva leiðbeindi honum, verndaði hann og skildi tilfinningar hans. (Lestu Sálm 56:8.) Davíð átti líka góða vini eins og Jónatan og Ahímelek æðstaprest sem veittu honum dyggan stuðning og hjálp. (1. Sam. 20:41, 42; 21:6, 8, 9) Og Davíð komst undan þótt Sál konungur sæti um líf hans. Davíð var fullviss um að Jehóva fylgdist grannt með prófraunum hans og hvaða tilfinningalegu áhrif þær hefðu á hann.

9. Hverju fylgist Jehóva með hjá hverju og einu okkar?

9 Þegar þú tekst á við prófraun sem gerir þig óttasleginn skaltu muna að það fer ekki fram hjá Jehóva og hann tekur líka eftir hvernig þér líður. Jehóva tók til dæmis ekki bara eftir því hversu illa var farið með Ísraelsmenn í Egyptalandi heldur líka ‚hvernig þeir þjáðust‘. (2. Mós. 3:7) Davíð söng um að Jehóva sæi bæði ‚neyð hans‘ og ‚hve þjáður hann væri‘. (Sálm. 31:7) Og þegar fólk Guðs þjáðist – þótt það væri vegna heimskulegra ákvarðana – ‚þá þjakaði það hann‘. (Jes. 63:9) Þegar þú verður hræddur skilur Jehóva hvernig þér líður og vill mjög gjarnan hjálpa þér að sigrast á óttanum.

10. Hvers vegna geturðu verið viss um að Jehóva sé annt um þig og muni hjálpa þér að takast á við allar prófraunir?

10 Þú veltir því kannski fyrir þér hvernig Jehóva er að hjálpa þér ef þú ert að takast á við erfiðleika sem vekja hjá þér ótta. Biddu hann um að hjálpa þér að sjá hvernig hann styður þig. (2. Kon. 6:15–17) Veltu síðan fyrir þér hvort ræða eða eitthvað sem hefur verið sagt á samkomu hafi styrkt þig. Hefur rit, myndband eða tónlistarmyndband veitt þér uppörvun? Hefur einhver deilt með þér hughreystandi hugleiðingu eða biblíuversi? Við gætum auðveldlega tekið kærleiksríku bræðrafélagi okkar og andlegu fæðunni sem við fáum sem sjálfsögðum hlut. En þetta eru einstakar gjafir frá Jehóva. (Jes. 65:13; Mark. 10:29, 30) Þær sýna að honum þykir vænt um okkur. (Jes. 49:14–16) Og þær sanna að við getum treyst honum.

11. Hvað hjálpaði Aidu að sigrast á ótta?

11 Aida, sem býr í Senegal, veitti því athygli hvernig Jehóva studdi hana í prófraun. Þar sem hún er elst systkina sinna ætluðust foreldrarnir til þess að hún aflaði nægra tekna til að sjá bæði fyrir sjálfri sér og þeim. En eftir að Aida einfaldaði líf sitt til að vera brautryðjandi átti hún í erfiðleikum með að láta enda ná saman. Þá reiddist fjölskyldan henni og gagnrýndi hana. „Ég óttaðist að ég gæti ekki hjálpað foreldrum mínum og að allir yrðu á móti mér,“ segir hún. „Ég kenndi jafnvel Jehóva um að leyfa þessu að ganga svona langt.“ En síðan heyrði hún ræðu á samkomu. „Ræðumaðurinn minnti okkur á að Jehóva viti nákvæmlega hvað íþyngir hverju og einu okkar. Með hjálp öldunganna fékk ég smátt og smátt fullvissu um kærleika Jehóva. Ég fór að biðja til hans með meira trausti og fann innri frið þegar ég sá að bænum mínum var svarað.“ Með tímanum fann Aida vinnu sem hjálpaði henni ekki bara að vera brautryðjandi heldur gat hún líka stutt foreldra sína og aðra fjárhagslega. „Ég hef lært að treysta algerlega á Jehóva,“ segir hún. „Þegar ég er búin að fara með bæn hverfur óttinn gjarnan.“

HVAÐ Á JEHÓVA EFTIR AÐ GERA?

12. Um hvað var Davíð fullviss samkvæmt Sálmi 56:9?

12 Lestu Sálm 56:9. Þetta vers bendir á annað sem Davíð gerði til að sigrast á ótta. Þótt líf hans væri enn í hættu hugleiddi hann hvað Jehóva ætti eftir að gera fyrir hann. Davíð vissi að hann ætti eftir að bjarga honum á réttum tíma. Jehóva hafði jú lýst því yfir að Davíð yrði næsti konungur í Ísrael. (1. Sam. 16:1, 13) Í augum Davíðs voru loforð Jehóva svo örugg að það var eins og þau væru þegar uppfyllt.

13. Hvað getum við verið viss um að Jehóva geri?

13 Hvað hefur Jehóva lofað að gera fyrir þig? Við getum ekki vænst þess að hann verndi okkur gegn öllum vandamálum. c En sama hvaða erfiðleikum þú mætir í þessum heimi þá mun Jehóva losa þig við þá í komandi heimi. (Jes. 25:7–9) Skapari okkar er sannarlega nógu sterkur til að reisa dána aftur til lífs, lækna okkur og fjarlægja alla andstæðinga. – 1. Jóh. 4:4.

14. Hvað gætum við hugleitt?

14 Þegar þú verður óttasleginn skaltu hugleiða það sem Jehóva mun gera í framtíðinni. Hugsaðu þér hvernig þér á eftir að líða þegar Satan er horfinn, réttlátt fólk verður komið í stað þeirra illu og ófullkomleikinn fjarar út með hverjum deginum sem líður. Á umdæmismótinu 2014 var sýnidæmi um það hvernig við getum hugleitt von okkar. Faðir ræddi við fjölskylduna sína um það hvernig 2. Tímóteusarbréf 3:1–5 gæti verið orðað ef það lýsti því hvernig ástandið verður í paradís: „Í nýja heiminum verða miklir gleðitímar. Menn verða kærleiksríkir og elska sannleikann. Þeir verða hógværir, auðmjúkir, tilbiðjendur Guðs, hlýðnir foreldrum sínum, þakklátir, trúir og elska fjölskyldur sínar innilega. Þeir verða sáttfúsir, tala alltaf vel um aðra, hafa sjálfstjórn, elska hið góða, verða mildir og traustir, sveigjanlegir og lítillátir, elska Guð meira en nautnir og láta trúna hafa áhrif á líf sitt. Haltu þig nálægt slíku fólki.“ Spjallar þú við fjölskylduna og trúsystkini þín um hvernig lífið verður í nýja heiminum?

15. Hvað hjálpaði Tönju að sigrast á ótta?

15 Tanja er systir í Norður-Makedóníu sem hefur sigrast á ótta með því að hugleiða þá blessun sem framtíðin ber í skauti sér. Foreldrar hennar stóðu mjög á móti því að hún skoðaði Biblíuna með vottum Jehóva. Hún segir: „Sumt af því sem ég óttaðist að myndi gerast gerðist. Mamma lamdi mig eftir hverja samkomu. Foreldrar mínir hótuðu því að drepa mig ef ég yrði vottur Jehóva.“ Að lokum var Tanja rekin að heiman. Hvernig brást hún við? Hún segir: „Ég beindi athyglinni að því hversu hamingjusöm ég yrði um alla eilífð fyrir trúfesti mína. Ég hugsaði líka um það hvernig Jehóva myndi umbuna mér í nýjum heimi fyrir allt sem ég gæti misst í þessum heimi og hvernig allt vont yrði þá gleymt.“ Hún var áfram ráðvönd. Og með hjálp Jehóva fann hún stað til að búa á. Nú er Tanja gift trúföstum bróður og þau þjóna Jehóva hamingjusöm saman í fullu starfi.

STYRKTU TRAUST ÞITT Á JEHÓVA

16. Hvað mun hjálpa okkur að vera áfram hugrökk þegar við sjáum uppfyllingu þess sem er spáð í Lúkasi 21:26–28?

16 Í þrengingunni miklu verður fólk almennt „máttvana af ótta“. En fólk Guðs verður staðfast og hugrakkt. (Lestu Lúkas 21:26–28.) Hvers vegna látum við ekki óttann ná tökum á okkur? Vegna þess að við höfum þegar lært að treysta á Jehóva. Tanja, sem áður er minnst á, segir að það sem hún hefur áður upplifað hjálpi henni að takast á við nýja erfiðleika. „Ég hef komist að því að það er ekkert sem Jehóva getur ekki hjálpað okkur að komast í gegnum,“ segir hún. „Stundum kann að virðast sem aðrir hafi stjórnina en í raun hafa þeir hana bara að því marki sem Jehóva leyfir. Og þótt prófraun sé erfið tekur hún enda.“

17. Hvernig mun árstextinn 2024 hjálpa okkur? (Sjá forsíðumynd.)

17 Það er margt sem getur gert okkur óttaslegin nú á dögum. En líkt og Davíð getum við forðast að láta óttann yfirbuga okkur. Árstextinn 2024 er bæn Davíðs til Jehóva: „Þegar ég er hræddur reiði ég mig á þig.“ (Sálm. 56:3) Samkvæmt biblíuskýringarriti „ýtir Davíð hvorki undir óttann né einblínir á vandamálin heldur leitar til frelsara síns sem bjargar honum“. Hugsaðu um árstextann á komandi mánuðum, sérstaklega þegar þú stendur frammi fyrir ógnvekjandi aðstæðum. Taktu þér tíma til að rifja upp það sem Jehóva gerði áður, gerir núna og í framtíðinni. Þá geturðu sagt eins og Davíð: ‚Ég set traust mitt á Guð og er ekki hræddur.‘ – Sálm. 56:4.

Systir hugleiðir árstextann í miðjum hamförum. (Sjá 17. grein.)

HVERNIG GETURÐU SIGRAST Á ÓTTA MEÐ ÞVÍ AÐ RIFJA UPP …

  • það sem Jehóva hefur nú þegar gert?

  • það sem Jehóva er að gera núna?

  • það sem Jehóva á eftir að gera?

SÖNGUR 33 Varpaðu áhyggjum þínum á Jehóva

a Þú getur fundið trústyrkjandi efni á jw.org með því að skrifa „líkjum eftir trú þeirra“ eða „frásögur“ í leitargluggann. Í JW Library-appinu skaltu leita undir greinaraðir og síðan „Líkjum eftir trú þeirra“ eða „Life Stories of Jehovah’s Witnesses“.

b Sumum nöfnum hefur verið breytt.

d MYND: Davíð rifjar upp hvernig Jehóva gerði honum kleift að drepa björn, hvernig hann var að hjálpa honum fyrir atbeina Ahímeleks og hvernig hann myndi gera hann að konungi í framtíðinni.

e MYND: Bróðir sem er í fangelsi vegna trúar sinnar rifjar upp hvernig Jehóva hjálpaði honum að hætta að reykja, hvernig hann uppörvar hann fyrir milligöngu bréfa frá kærum vinum og hvernig hann á eftir að gefa honum eilíft líf í paradís.