Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kemur þú fram við konur eins og Jehóva gerir?

Kemur þú fram við konur eins og Jehóva gerir?

VIÐ njótum þess heiðurs að þjóna Guði ásamt mörgum trúföstum konum. Og við elskum þessar harðduglegu systur og kunnum að meta þær allar með tölu. a Bræður, leggið ykkur því fram um að vera vinsamlegir og sanngjarnir við þær og sýna þeim virðingu. Vegna ófullkomleikans getur það þó stundum reynst okkur erfitt. Sumir bræður eiga við aðra hindrun að glíma í þessum efnum.

Margir hafa alist upp í samfélagi þar sem karlmenn koma fram við konur sem óæðri manneskjur. Til dæmis segir Hans sem er farandhirðir í Bólivíu: „Sumir ólust upp við karlrembu sem veldur því að sú hugsun að karlmenn séu konum æðri á sér mjög djúpar rætur.“ Shengxian, sem er öldungur í Taívan, segir: „Á mínum slóðum finnst mörgum karlmönnum að konur eigi ekkert með að blanda sér í þeirra mál. Ef karlmaður viðrar skoðun konu á ákveðnu máli gæti hann fallið í áliti hjá félögum sínum.“ Hjá öðrum birtast fordómar þeirra gegn konum á lúmskari hátt eins og með því að segja niðrandi brandara um konur.

Sem betur fer er enginn njörvaður við menninguna sem hann ólst upp í. Menn geta sigrast á þeirri hugsun að karlmenn séu konum æðri. (Ef. 4:22–24) Hægt er að gera slíka hugarfarsbreytingu með því að líkja eftir Jehóva. Í þessari grein ræðum við um það hvernig Jehóva kemur fram við konur, hvernig bræður geta lært að koma eins fram við þær og hvernig öldungar geta tekið forystuna í að sýna systrum virðingu.

HVERNIG KEMUR JEHÓVA FRAM VIÐ KONUR?

Jehóva gefur fullkomið fordæmi í því hvernig skuli koma fram við konur. Hann er umhyggjusamur faðir sem elskar öll börnin sín. (Jóh. 3:16) Og trúfastar systur eru honum sem dýrmætar dætur. Hugleiddu eftirfarandi atriði sem lýsa því hvernig Jehóva heiðrar konur.

Hann er óhlutdrægur gagnvart þeim. Jehóva skapaði karla og konur eftir sinni mynd. (1. Mós. 1:27) Hann gæddi ekki karla meiri gáfum eða hæfileikum en konur og hann tekur ekki karlmenn fram yfir konur. (2. Kron. 19:7) Hann skapaði bæði kynin með sömu hæfni til að skilja sannleika Biblíunnar og líkja eftir fallegum eiginleikum sínum. Trú karla og kvenna er líka jafn mikils metin í augum Jehóva, og þá breytir engu hvort von þeirra er að lifa að eilífu í paradís á jörð eða að þjóna sem konungar og prestar á himni. (2. Pét. 1:1, neðanmáls) Jehóva er greinilega ekki með fordóma gagnvart konum.

Hann hlustar á þær. Jehóva hefur áhuga á hvernig konum líður og hverju þær hafa áhyggjur af. Hann bænheyrði til dæmis Rakel og Hönnu. (1. Mós. 30:22; 1. Sam. 1:10, 11, 19, 20) Jehóva innblés líka biblíuriturum að segja frá körlum sem hlustuðu á konur. Abraham fylgdi til dæmis fyrirmælum Jehóva og hlustaði á Söru eiginkonu sína. (1. Mós. 21:12–14) Davíð konungur hlustaði á Abígail. Hann áleit jafnvel að Jehóva hefði sent hana til að tala við sig. (1. Sam. 25:32–35) Jesús, sem endurspeglar eiginleika föður síns fullkomlega, hlustaði á Maríu móður sína. (Jóh. 2:3–10) Af þessum dæmum sjáum við skýrt að Jehóva sýnir konum virðingu meðal annars með því að hlusta á þær.

Hann treystir þeim. Jehóva treysti Evu fyrir því að hjálpa til við að annast jörðina. (1. Mós. 1:28) Þannig sýndi hann að hann leit á hana sem meðhjálp Adams eiginmanns hennar. Hann hugsaði ekki um hana sem óæðri honum. Jehóva treysti líka spákonunum Debóru og Huldu fyrir að leiðbeina fólki sínu, þar á meðal dómara og konungi. (Dóm. 4:4–9; 2. Kon. 22:14–20) Nú á dögum treystir Jehóva kristnum konum til að vinna að verki sínu. Þessar trúföstu systur eru boðberar, brautryðjendur og trúboðar. Þær aðstoða við hönnun og byggingarframkvæmdir og viðhald á ríkissölum og deildarskrifstofum. Sumar þeirra starfa á Betel eða þýðingastofum. Þessar systur eru eins og mikill her sem Jehóva virkjar til að koma vilja sínum til leiðar. (Sálm. 68:11) Jehóva lítur greinilega ekki svo á að konur séu veikburða eða komi að litlu gagni.

HVERNIG GETA BRÆÐUR LÆRT AÐ LÍKJA EFTIR FRAMKOMU JEHÓVA VIÐ KONUR?

Bræður, til að komast að því hvort við komum fram við systur eins og Jehóva gerir þurfum við að gera heiðarlega sjálfsrannsókn til að sjá hugsanir okkar og verk í réttu ljósi. Við þurfum aðstoð til þess. Röntgenmyndavél getur greint kvilla í bókstaflegu hjarta og eins getur góður vinur og orð Guðs hjálpað okkur að greina neikvætt viðhorf til kvenna sem gæti leynst innra með okkur. Hvernig getum við fengið slíka aðstoð?

Talaðu við góðan vin. (Orðskv. 18:17) Það er gott að leita til góðs vinar sem er vingjarnlegur og sanngjarn og spyrja hann spurninga eins og: Hvernig finnst þér ég koma fram við systur? Sést að ég ber virðingu fyrir þeim? Get ég bætt mig í samskiptum við þær á einhvern hátt? Ef vinur þinn bendir á eitthvað sem mætti betur fara skaltu ekki fara í vörn. Reyndu eins og þú getur að fara að ráðum hans.

Vertu góður biblíunemandi. Besta leiðin til að komast að því hvort við komum vel fram við systur er að skoða viðhorf okkar og verk í ljósi Biblíunnar. (Hebr. 4:12) Í biblíunámi okkar fræðumst við um karla sem komu vel fram við konur og aðra sem gerðu það ekki. Við getum borið framkomu þeirra saman við okkar. Ef við lesum bara eitt vers um málið án samhengis gæti okkur fundist það styðja ákveðna ranghugmynd sem við höfum haft um konur og því getur verið mikilvægt að við berum saman fleiri vers um málið. Í 1. Pétursbréfi 3:7 er til dæmis sagt að ‚virða skuli eiginkonur sem veikara ker‘. b Þýðir það að þær séu óæðri körlum – með minni hæfileika og greind? Engan veginn! Berum orð Péturs saman við það sem sagt er í Galatabréfinu 3:26–29. Þar er gefið til kynna að Jehóva hafi valið konur samhliða körlum til að ríkja með Jesú á himni. Þegar við grandskoðum orð Guðs og spyrjum góðan vin álits á því hvernig við komum fram við konur getum við lært að sýna systrum okkar viðeigandi virðingu.

HVERNIG SÝNA ÖLDUNGAR SYSTRUM VIRÐINGU?

Bræður í söfnuðinum geta líka lært að sýna systrum virðingu með því að fylgja fordæmi kærleiksríkra öldunga. Hvernig taka þeir forystuna í að sýna systrum virðingu? Skoðum nokkur atriði.

Þeir hrósa systrum. Páll postuli var öldungum góð fyrirmynd. Hann hrósaði nokkrum systrum opinberlega í bréfi sínu til safnaðarins í Róm. (Rómv. 16:12) Hugsaðu þér hve glaðar þessar systur hafa verið þegar bréf Páls var lesið í söfnuðinum! Eins hrósa öldungar systrum fyrir góða eiginleika þeirra og störf sem þær vinna fyrir Jehóva. Þá finna systur að þær eru virtar og vel metnar. Stundum geta hvetjandi orð öldungs verið einmitt það sem þessar trúföstu systur þurfa að heyra. – Orðskv. 15:23.

Hrósaðu

Öldungar hrósa systrum af einlægni og benda gjarnan á eitthvað ákveðið atriði. Af hverju? Systir sem heitir Jessica segir: „Það er alveg gott þegar bræður hrósa systur og segja ‚vel gert‘. En við kunnum sérstaklega að meta þegar þeir hrósa fyrir eitthvað ákveðið eins og fyrir að hafa kennt börnunum að sitja kyrr á samkomum eða að hafa sótt biblíunemanda fyrir samkomu þótt það hafi ekki verið í leiðinni.“ Þegar systur fá þannig hrós frá öldungum finna þær að þörf er fyrir þær í söfnuðinum og að þær séu mikils metnar.

Þeir hlusta á systur. Auðmjúkir öldungar viðurkenna að þeir séu ekki einir um að fá góðar hugmyndir. Þeir hika ekki við að biðja systur um álit og hlusta vel á þær. Það er hvetjandi fyrir systurnar en kemur líka sjálfum þeim að gagni. Hvernig þá? Gerardo er öldungur sem starfar á Betel. Hann segir: „Ég spyr systur gjarnan álits og það hjálpar mér að skila af mér betra verki. Oft hafa þær unnið lengur að ákveðnu verkefni en flestir bræður.“ Margar systur eru brautryðjendur og vita því margt um aðstæður fólks á svæðinu. Öldungur sem heitir Bryan segir: „Systur okkar hafa margt fram að færa í söfnuðinum. Nýtum okkur reynslu þeirra.“

Hlustaðu

Vitrir öldungar eru ekki fljótir að vísa tillögum systra á bug. Hvers vegna? „Álit systur á máli og reynsla hennar getur auðveldað bróður að sjá heildarmyndina og hjálpað honum að sýna samkennd,“ segir öldungur sem heitir Edward. (Orðskv. 1:5) Ef öldungur getur ekki notað tillögu frá systur getur hann samt þakkað henni fyrir ábendingarnar og sýnt að hann kunni að meta innsæi hennar.

Þeir kenna systrum. Skynsamir öldungar nýta tækifærin til að kenna systrum. Þeir geta til dæmis kennt systrum að stýra samansöfnunum ef enginn skírður bróðir er tiltækur. Þeir geta líka kennt systrum að nota verkfæri eða vélar svo að þær geti aðstoðað við viðhald og byggingarstarf á vegum safnaðarins. Á Betel hafa umsjónarmenn kennt systrum að sinna ýmsum verkefnum eins og viðhaldi, innkaupum, bókhaldi, forritun og svo framvegis. Þegar öldungar gera þetta sýna þeir að þeir treysta systrum og finnst þær hæfar til verksins.

Kenndu

Margar systur nota það sem þær hafa lært af öldungum til að hjálpa öðrum. Sumar systur sem hefur verið kennt að vinna við byggingarframkvæmdir hafa hjálpað öðrum að endurbyggja húsin sín eftir náttúruhamfarir. Aðrar systur hafa fengið þjálfun í boðun meðal almennings og kenna síðan fleiri systrum að taka þátt í henni. Hvað finnst systrum um öldunga sem hafa kennt þeim? Systir sem heitir Jennifer segir: „Þegar ég vann við að byggja ríkissal var þar umsjónarmaður sem tók sér tíma til að kenna mér. Hann fylgdist með því sem ég gerði og hrósaði mér fyrir. Það var frábært að vinna með honum. Hann treysti mér og mér fannst ég koma að gagni.“

BLESSUN FYLGIR ÞVÍ AÐ LÍTA Á KONUR Í SÖFNUÐINUM SEM SYSTUR

Við elskum trúfastar systur okkar eins og Jehóva gerir! Við komum því fram við þær eins og fjölskyldu okkar. (1. Tím. 5:1, 2) Það er heiður að vinna með þeim og við erum stolt af því. Það gleður okkur þegar þær finna fyrir kærleika okkar og stuðningi. Systir sem heitir Vanessa segir: „Ég er Jehóva svo þakklát fyrir að fá að tilheyra söfnuði hans sem er fullur af trúsystkinum sem hafa hvatt mig og styrkt.“ Systir í Taívan segir: „Ég er mjög þakklát að Jehóva og söfnuður hans meti konur svona mikils og virði tilfinningar þeirra. Það styrkir trú mína og ég kann enn betur að meta að fá að tilheyra söfnuði hans.“

Jehóva hlýtur að vera stoltur þegar hann sér trúfasta menn reyna að líkja eftir framkomu sinni við konur. (Orðskv. 27:11) „Margir karlar í þessum heimi bera enga virðingu fyrir konum,“ segir öldungur í Skotlandi sem heitir Benjamin. „Við viljum því að konur sem koma á samkomu hjá okkur finni muninn.“ Leggjum okkur fram um að líkja eftir Jehóva og sýnum systrum okkar kærleika og virðingu eins og þeim ber. – Rómv. 12:10.

a Þegar talað er um „systur“ í þessari grein er alltaf átt við trúsystur en ekki bókstafleg systkini.

b Frekari skýringar á orðalaginu „veikara ker“ má finna í greinunum „The Value of ‚a Weaker Vessel‘“ í Varðturninum 15. maí 2006 á ensku og „Viturleg ráð til hjóna“ í Varðturninum 1. apríl 2005.