Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 7

SÖNGUR 51 Við erum vígð Jehóva

Hvað getum við lært af nasíreum?

Hvað getum við lært af nasíreum?

Hann er helgaður Jehóva allan tímann sem hann er nasírei.“4. MÓS. 6:8.

Í HNOTSKURN

Fordæmi nasírea getur hjálpað okkur að þjóna Jehóva af fórnfýsi og hugrekki.

1. Hvaða góða viðhorf hafa tilbiðjendur Jehóva sýnt í gegnum tíðina?

 ER SAMBAND þitt við Jehóva þér dýrmætt? Það er það eflaust. Margir bera svipaðar tilfinningar í brjósti. Og frá fornu fari hafa ótal margir haft sömu tilfinningar og þú. (Sálm. 104:33, 34) Margir hafa fært fórnir til að tilbiðja Jehóva. Það átti sannarlega við um þá sem voru kallaðir nasírear í Ísrael til forna. Hverjir voru þeir og hvað getum við lært af þeim?

2. (a) Hverjir voru nasírearnir? (4. Mósebók 6:1, 2) (b) Hvers vegna unnu sumir Ísraelsmenn nasíreaheit?

2 Orðið nasírei er hebreskt að uppruna og merkir ‚sá sem er útvalinn‘, ‚sá sem er vígður‘ eða ‚sá sem er tekinn frá‘. Nasírear voru kappsamir Ísraelsmenn sem færðu Jehóva ákveðnar persónulegar fórnir með því að þjóna honum á sérstakan hátt. Móselögin gerðu manni eða konu kleift að vinna Jehóva ákveðið heit með því að velja að lifa sem nasírei um ákveðinn tíma. a (Lestu 4. Mósebók 6:1, 2.) Þetta heit, eða hátíðlega loforð, fól í sér að hlýða fyrirmælum sem aðrir Ísraelsmenn þurftu ekki að fara eftir. Hvers vegna myndi Ísraelsmaður kjósa það að vinna nasíreaheit? Sá sem gerði það var líklega knúinn af djúpum kærleika til Jehóva og innilegu þakklæti fyrir allar hans góðu gjafir. – 5. Mós. 6:5; 16:17.

3. Hvað eiga þjónar Guðs nú á dögum sameiginlegt með nasíreum?

3 Þegar „lög Krists“ komu í stað Móselaganna leið fyrirkomulagið með nasírea jafnframt undir lok. (Gal. 6:2; Rómv. 10:4) En þjónar Jehóva nú á dögum hafa líka innilega löngun til að þjóna honum af öllu hjarta, sál, huga og mætti, rétt eins og nasírear. (Mark. 12:30) Þegar við vígjum okkur Jehóva erum við að gefa honum heit af fúsum vilja. Til að lifa í samræmi við það heit verðum við að beygja okkur undir vilja Jehóva og færa fórnir til að þjóna honum. Þegar við rannsökum hvernig nasírear lifðu eftir heiti sínu lærum við ýmislegt um það hvernig við getum lifað eftir okkar heiti. b (Matt. 16:24) Skoðum nokkur dæmi.

VERUM TILBÚIN AÐ FÆRA FÓRNIR

4. Hvernig reyndi á fúsleika nasírea til að færa fórnir samkvæmt 4. Mósebók 6:3, 4?

4 Lestu 4. Mósebók 6:3, 4. Nasírear áttu að forðast alla áfenga drykki auk allra afurða vínviðarins, eins og vínberja og rúsína. Fólk sem þeir umgengust nutu alls þessa og það með réttu því að það var ekkert rangt við það. Biblían segir að vín ‚gleðji hjarta mannsins‘ og að það sé gjöf frá Guði. (Sálm. 104:14, 15) En nasírear fórnuðu af fúsum vilja réttinum til að njóta þessara gjafa. c

Ertu fús að færa fórnir eins og nasírearnir gerðu? (Sjá 4.–6. grein.)


5. Hvaða fórnir ákváðu Madián og Marcela að færa og hvers vegna?

5 Við færum líka fórnir til að gera meira í þjónustu Jehóva eins og nasírearnir. Skoðum reynslu Madiáns og Marcelu. d Þessi kristnu hjón lifðu þægilegu lífi. Madián var í vellaunuðu starfi sem gerði þeim kleift að búa í fallegri íbúð. En þau vildu gera meira í þjónustunni við Jehóva. Til að ná því takmarki ákváðu þau að gera breytingar. „Við byrjuðum á því að draga úr útgjöldum,“ segja þau. „Við fengum okkur minni íbúð og seldum bílinn.“ Madián og Marcela þurftu ekki að færa þessar fórnir, þau kusu að gera það til að geta gert meira í þjónustunni. Þau eru ánægð og sátt með ákvarðanir sínar.

6. Hvers vegna færa þjónar Guðs nú á dögum fórnir? (Sjá einnig mynd.)

6 Það gefur þjónum Jehóva nú á dögum gleði að færa fórnir sem veitir þeim meiri tíma til að þjóna honum. (1. Kor. 9:3–6) Jehóva krefst þess ekki að við færum þessar fórnir og það sem við neitum okkur um er ekki rangt í sjálfu sér. Sumir eru til dæmis tilbúnir að fórna eftirsóknarverðri vinnu eða húsnæði, eða jafnvel að eiga gæludýr. Margir hafa ákveðið að fresta því að gifta sig eða eignast fjölskyldu. Aðrir hafa valið að þjóna þar sem þörfin er meiri, jafnvel þótt það þýði að þeir þurfi að búa langt frá ástvinum sínum. Margir okkar á meðal hafa fært slíkar fórnir af fúsu geði vegna þess að þá langar að gefa Jehóva sitt besta. Vertu viss um að Jehóva kann innilega að meta sérhverja fórn sem þú ákveður að færa til að þjóna honum, hvort sem hún er stór eða smá. – Hebr. 6:10.

VERUM FÚS TIL AÐ SKERA OKKUR ÚR FJÖLDANUM

7. Hvers vegna gæti hafa verið erfitt fyrir nasírea að halda heit sitt? (4. Mósebók 6:5) (Sjá einnig mynd.)

7 Lestu 4. Mósebók 6:5. Nasírear hétu því að klippa ekki hár sitt. Þannig sýndu þeir Jehóva algera undirgefni. Því lengur sem heitið hafði staðið því greinilegra myndi hársíddin sýna að nasírei væri ólíkur öðrum. Þegar þeir sem stóðu honum næstir studdu hann hefur þetta trúlega ekki skapað vandamál. En því miður var þetta ekki alltaf þannig í sögu Ísraelsmanna. Nasírear voru ekki alltaf metnir að verðleikum og nutu ekki endilega stuðnings. Á tímum Amosar spámanns gáfu fráhvarfsmenn meðal Ísraelsmanna nasíreum „ítrekað vín að drekka“, líklega til að reyna að fá þá til að rjúfa heitið sem þeir höfðu gefið um að halda sig frá víni. (Amos 2:12) Það hlýtur stundum að hafa þurft mikið hugrekki fyrir nasírea að halda sig við heit sitt og skera sig úr fjöldanum.

Nasírei sem stóð við heit sitt var fús til að skera sig úr fjöldanum. (Sjá 7. grein.)


8. Hvað finnst þér uppörvandi við sögu Benjamins?

8 Með hjálp Jehóva getum við verið hugrökk og skorið okkur úr fjöldanum jafnvel þótt við séum feimin eða óframfærin. Skoðum það sem henti Benjamin sem er tíu ára gamall vottur í Noregi. Skólinn hans skipulagði viðburð til að styðja stríðshrjáða íbúa Úkraínu. Krakkarnir áttu að vera í fötum í fánalitum Úkraínu á meðan þau syngju lag. Benjamin hafði ákveðið að halda sig í hæfilegri fjarlægð meðan þessi þjóðernislega athöfn færi fram. En kennari kom auga á hann og kallaði hátt og skýrt: „Komdu og vertu með okkur. Það eru allir að bíða eftir þér!“ Benjamin fór til kennarans og sagði hugrakkur: „Ég er hlutlaus, ég tek ekki þátt í pólitískum viðburðum. Reyndar eru margir vottar Jehóva í fangelsi vegna þess að þeir neita að fara í stríð.“ Kennarinn tók þessum rökum og sagði Benjamin að hann þyrfti ekki að taka þátt í viðburðinum. En þá fóru bekkjarfélagarnir að spyrja hann hvers vegna hann vildi ekki vera með. Benjamin var svo stressaður að hann fór næstum að gráta en hann endurtók hugrakkur frammi fyrir öllum bekknum það sem hann hafði sagt við kennarann. Síðar sagði Benjamin foreldrum sínum að hann hefði fundið hvernig Jehóva hjálpaði honum að verja trú sína.

9. Hvernig getum við glatt hjarta Jehóva?

9 Við skerum okkur úr fjöldanum vegna þess að við beygjum okkur undir vilja Jehóva. Við þurfum að hafa hugrekki til að bera til að segja frá því í vinnunni eða skólanum að við séum vottar Jehóva. Eftir því sem viðhorf og hegðun fólks í heiminum versnar reynir meira á okkur að lifa samkvæmt meginreglum Biblíunnar og flytja fagnaðarboðskapinn. (2. Tím. 1:8; 3:13) En gleymum því aldrei að við gleðjum hjarta Jehóva þegar við sýnum hugrekki og erum ólík þeim sem þjóna honum ekki. – Orðskv. 27:11; Mal. 3:18.

LÁTUM JEHÓVA SKIPA FYRSTA SÆTIÐ Í LÍFI OKKAR

10. Hvernig gæti krafan sem sagt er frá í 4. Mósebók 6:6, 7 hafa verið prófsteinn á trúfesti nasírea?

10 Lestu 4. Mósebók 6:6, 7. Nasírear máttu ekki koma nálægt látinni manneskju. Við fyrstu sýn virðist þetta kannski ekki hafa verið mikil fórn. En þetta hefur verið mikil áskorun fyrir nasírea á biblíutímanum þegar náinn ættingi þeirra dó. Útfararsiðir í þá daga fólu í sér að vera nálægt hinum látna. (Jóh. 19:39, 40; Post. 9:36–40) Heit nasírea takmarkaði verulega möguleika hans til að taka þátt í slíkum siðum. Nasírear sýndu sterka trú með því að halda sig við heit sitt jafnvel þegar þeir stóðu andspænis flóknum aðstæðum á sorgarstund í fjölskyldunni. Jehóva gaf þessum trúföstu tilbiðjendum sínum sannarlega styrk til að takast á við þá erfiðleika sem þeir stóðu frammi fyrir.

11. Hvað verður þjónn Jehóva að vera ákveðinn í að gera þegar hann tekur ákvarðanir varðandi fjölskyldumál? (Sjá einnig mynd.)

11 Sem kristnir menn tökum við vígsluheit okkar við Jehóva alvarlega. Það hefur áhrif á ákvarðanir okkar í samskiptum við fjölskyldu okkar. Við erum dugleg þegar við sinnum fjölskylduábyrgð okkar en við tökum vilja ættingja aldrei fram yfir kröfur Jehóva. (Matt. 10:35–37; 1. Tím. 5:8) Til að gleðja Jehóva gætum við þurft að taka ákvarðanir sem ættingjar okkar eru ekki ánægðir með.

Ertu tilbúinn að setja vilja Jehóva í fyrsta sætið jafnvel við mjög erfiðar aðstæður? (Sjá 11. grein.) e


12. Hvað gerði Alexandru andspænis erfiðum fjölskylduaðstæðum og hvað gerði hann ekki?

12 Skoðum frásögu Alexandru og eiginkonu hans, Dorinu. Eftir að þau hjónin höfðu kynnt sér Biblíuna í um það bil eitt ár ákvað Dorina að hætta því og vildi að Alexandru myndi líka hætta. Hann sagði henni rólega og yfirvegað að hann myndi halda áfram. Dorina var ekki ánægð með það og reyndi að þvinga hann til að hætta. Alexandru segir að hann hafi reynt að skilja viðbrögð hennar en honum fannst það alls ekki auðvelt. Stundum þegar Dorina gagnrýndi hann og svaraði höstuglega langaði hann bara að gefast upp. Þrátt fyrir þetta hélt Alexandru áfram að hafa Jehóva í fyrsta sæti en sýndi konunni sinni alltaf ást og virðingu. Á endanum varð gott fordæmi hans til þess að hún fór aftur að kynna sér Biblíuna og tók við sannleikanum. Sjá myndbandið Alexandru og Dorina Văcar: „Kærleikurinn er þolinmóður og góðviljaður“ í þáttaröðinni „Sannleikurinn breytir lífi fólks“ á jw.org.

13. Hvernig getum við sýnt að við elskum Jehóva og fjölskyldu okkar?

13 Jehóva er höfundur fjölskyldunnar og hann vill að við séum hamingjusöm. (Ef. 3:14, 15) Ef við viljum höndla sanna hamingju þurfum við að breyta í samræmi við leiðsögn hans. Þú skalt aldrei efast um að Jehóva kunni að meta óeigingjarna viðleitni þína til að tilbiðja hann og jafnframt annast fjölskylduna og sýna henni ást og virðingu. – Rómv. 12:10.

HVETJUM HVERT ANNAÐ TIL AÐ HAFA HUGARFAR NASÍREA

14. Hverja ættum við sérstaklega að reyna að uppörva?

14 Allir sem þjóna Jehóva þurfa að vera tilbúnir til að færa fórnir sem eru sprottnar af kærleika. Það getur stundum reynt á. Hvernig getum við hvatt hvert annað til að vera fórnfús? Með því að vera uppörvandi í tali. (Job. 16:5) Eru einhverjir í söfnuðinum þínum sem eru að reyna að einfalda líf sitt til að geta gert meira í þjónustu Jehóva? Þekkirðu krakka sem skera sig hugrakkir úr fjöldanum í skólanum þótt þeim finnist það erfitt? Og hvað um biblíunemendur og trúsystkini sem leggja sig fram um að vera trúföst þrátt fyrir andstöðu fjölskyldunnar? Grípum hvert tækifæri til að uppörva þessi kæru trúsystkini og segjum þeim að við kunnum að meta fórnfýsi þeirra og hugrekki. – Fílem. 4, 5, 7.

15. Hvernig hafa sumir sýnt þeim stuðning sem þjóna Jehóva í fullu starfi?

15 Stundum erum við í aðstöðu til að veita þeim hagnýta hjálp sem þjóna Jehóva í fullu starfi. (Orðskv. 19:17; Hebr. 13:16) Þetta var einlæg löngun trúfastrar aldraðrar systur okkar sem býr á Sri Lanka. Eftirlaunagreiðslur hennar hækkuðu og hana langaði að hjálpa tveim ungum brautryðjendasystrum að halda áfram í brautryðjendastarfi þrátt fyrir fjárhagserfiðleika. Hún ákvað því að leggja fram ákveðið framlag í hverjum mánuði til að hjálpa þeim að borga símreikninginn. En fallegt hugarfar!

16. Hvað getum við lært af fyrirkomulaginu með nasírea til forna?

16 Við getum sannarlega lært margt af fornfýsi nasírea til forna. En þetta fyrirkomulag sýnir okkur líka eina hlið á Jehóva, föður okkar á himnum. Hann veit að við þráum að gleðja hann og að við erum tilbúin að færa fórnir til að lifa í samræmi við vígsluheit okkar. Hann heiðrar okkur með því að leyfa okkur að tjá ást okkar á honum með persónulegum hætti. (Orðskv. 23:15, 16; Mark. 10:28–30; 1. Jóh. 4:19) Nasíreafyrirkomulagið sýnir að Jehóva tekur eftir fórnum okkar og kann að meta það sem við leggjum á okkur til að þjóna honum. Megum við því vera ákveðin í að halda áfram að þjóna Jehóva og gefa honum okkar allra besta.

HVERJU SVARAR ÞÚ?

  • Með hvaða hætti sýndu nasírear að þeir voru fórnfúsir og hugrakkir?

  • Hvernig getum við hvatt hvert annað til að færa fórnir eins og nasírear?

  • Hvað gefur fyrirkomulagið með nasírea til kynna um það traust sem Jehóva hefur á tilbiðjendum sínum?

SÖNGUR 124 Sýnum tryggð

a Þótt Guð hafi kosið suma til að vera nasírear voru flestir þeirra líklega Ísraelsmenn sem kusu að þjóna þannig um tíma. – Sjá rammann „ Nasírear sem Jehóva útnefndi“.

b Stundum hefur þjónum Jehóva í fullu starfi verið líkt við nasírea í ritum okkar. En í þessari námsgrein beinum við athyglinni að því hvernig allir þjónar Jehóva geta sýnt sama anda og nasírear.

c Almennt séð virðist ekki sem nasírear hafi haft neinar aukaskyldur eins og einhver verkefni til að uppfylla heit sitt.

d Sjá greinina „We Decided to Simplify Our Lives“ á jw.org í greinaröðinni „Experiences of Jehovah’s Witnesses“.

e MYND: Nasírei horfir af húsþaki á líkfylgd ástvinar. Heit hans kemur í veg fyrir að hann geti verið meðal þátttakenda.