Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Verum glöð meðan við bíðum Jehóva af þolinmæði

Verum glöð meðan við bíðum Jehóva af þolinmæði

HLAKKARÐU til þeirrar stundar þegar Jehóva bindur enda á alla illsku og gerir alla hluti nýja? (Opinb. 21:1–5) Vafalaust gerir þú það. En það er ekki alltaf auðvelt að halda áfram að bíða þolinmóður eftir Jehóva, sér í lagi þegar aðstæður okkar eru erfiðar. Langdregin eftirvænting getur gert hjartað sjúkt. – Orðskv. 13:12.

Engu að síður væntir Jehóva þess að við bíðum þess þolinmóð að hann láti til skarar skríða á tilsettum tíma. Hvers vegna væntir hann þess af okkur? Hvað getur hjálpað okkur að vera glöð meðan við bíðum?

HVERS VEGNA VÆNTIR JEHÓVA ÞESS AÐ VIÐ BÍÐUM?

Biblían segir: „Jehóva bíður þess þolinmóður að fá að sýna ykkur velvild og hann gengur fram til að sýna ykkur miskunn því að Jehóva er réttlátur Guð. Allir sem bíða hans með eftirvæntingu eru hamingjusamir.“ (Jes. 30:18) Þessi orð Jesaja voru á sínum tíma ætluð þrjóskum Gyðingum. (Jes. 30:1) En á meðal þeirra voru líka trúfastir Gyðingar sem sóttu von í þessi orð. Þessu sömu orð gefa trúföstum þjónum Jehóva nú á dögum líka von.

Við verðum því að bíða þolinmóð af því að Jehóva bíður þolinmóður. Hann hefur sett ákveðinn dag og stund til að binda enda á þessa heimsskipan og hann bíður þess að sá dagur og stund renni upp. (Matt. 24:36) Þegar stundin rennur upp verður það yfir allan vafa hafið að ákærur Djöfulsins gegn Jehóva og þjónum hans eru óréttmætar. Þá mun hann fjarlægja Satan og alla sem skipa sér með honum en „sýna [okkur] miskunn“.

Fram að þeim tíma ryður Jehóva ekki burt raunum okkar heldur fullvissar okkur um að við getum verið glöð á meðan við bíðum. Eins og Jesaja segir getum við verið hamingjusöm meðan við hlökkum til alls þess góða sem við eigum í vændum. (Jes. 30:18) a Hvernig getum við öðlast þessa hamingju? Skoðum fjögur skref sem geta hjálpað okkur til þess.

HVERNIG GETUM VIÐ VERIÐ HAMINGJUSÖM MEÐAN VIÐ BÍÐUM?

Horfðu á björtu hliðarnar. Davíð hafði horft upp á mikla illsku um dagana. (Sálm. 37:35) En samt skrifaði hann: „Vertu hljóður frammi fyrir Jehóva og bíddu hans með eftirvæntingu. Vertu ekki reiður út af þeim manni sem áformar illt og tekst vel til.“ (Sálm. 37:7) Davíð fór sjálfur eftir þessu ráði og beindi sjónum sínum staðfastlega til vonarinnar um björgun. Hann hugfesti líka hverja einustu blessun sem kom frá Jehóva. (Sálm. 40:5) Ef við einbeitum okkur að því jákvæða við aðstæður okkar og erum ekki gagntekin af því neikvæða sem er að gerast í kringum okkur veitist okkur auðveldara að bíða eftir Jehóva.

Vertu upptekinn við það að lofa Jehóva. Sálmaritari 71. Sálmsins, sem virðist hafa verið Davíð, sagði þetta við Jehóva: „Ég vil halda áfram að bíða og lofa þig sem aldrei fyrr.“ (Sálm. 71:14) Hvernig ætlaði hann að lofa Jehóva? Hann ætlaði að segja öðrum frá Jehóva og syngja honum lof. (Sálm. 71:16, 23) Rétt eins og Davíð getum við notið gleði meðan við bíðum Jehóva. Við lofum hann í boðuninni, í samtölum okkar dags daglega og þegar við syngjum á samkomum okkar. Hvernig væri að gefa sérstakan gaum að uppörvandi boðskapnum næst þegar þú syngur einn af ríkissöngvunum?

Fáðu uppörvun frá bræðrum þínum og systrum. Þegar Davíð stóð andspænis erfiðleikum sagði hann við Jehóva: „Frammi fyrir þínum trúföstu set ég von mína á nafn þitt.“ (Sálm. 52:9) Við getum líka sótt styrk í félagsskap við trúfasta samstarfsmenn okkar, ekki bara á samkomum og í boðuninni heldur líka í frístundum okkar. – Rómv. 1:11, 12.

Styrktu von þína. Sálmur 62:5 segir: „Ég bíð hljóður eftir Guði því að frá honum kemur von mín.“ Sterk von innifelur traustar væntingar og skiptir öllu ef við þurfum að umbera þetta heimskerfi lengur en við áttum von á. Við verðum að vera sannfærð um að loforð Jehóva verði að veruleika án tillits til þess hve lengi við þurfum að bíða eftir uppfyllingu þeirra. Við getum styrkt von okkar með námi í orði Guðs, eins og til dæmis með því að skoða spádómana, innra samræmi Biblíunnar og það sem Jehóva hefur opinberað okkur um sjálfan sig. (Sálm. 1:2, 3) Við þurfum líka að halda áfram að ‚biðja í krafti heilags anda‘ til að varðveita gott samband við Jehóva meðan við bíðum þess að vonin um eilíft líf rætist. – Júd. 20, 21.

Líkt og Davíð skaltu vera þess fullviss að Jehóva vaki yfir þeim sem bíða hans og birti þeim tryggan kærleika sinn. (Sálm. 33:18, 22) Haltu áfram að bíða Jehóva af þolinmæði með því að einbeita þér að hinu jákvæða í lífi þínu, með því að lofa hann, með því að sækja uppörvun til trúsystkina þinna og með því að halda dýrmætri von þinni sterkri.

a Orðið sem er notað í frummálinu um að „bíða með eftirvæntingu“ getur líka þýtt að þrá eða vonast til að eitthvað gerist en það sýnir hve eðlilegt það er að þrá hjálpræði okkar.