Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Hvað segir Biblían um getu Jehóva til að segja framtíðina fyrir?

Biblían segir skýrum stöfum að Jehóva geti sagt framtíðina fyrir. (Jes. 45:21) Hún segir ekki allt um það hvernig eða hvenær hann gerir það, eða jafnvel hversu mikið hann kýs að vita. Við getum þess vegna ekki skilið til fulls hæfni Jehóva til að segja fyrir um framtíðina. En sumt vitum við.

Jehóva hefur engin takmörk nema þau sem hann setur sér sjálfur. Viska hans er óendanleg og hann getur sagt fyrir um hvað sem hann vill. (Rómv. 11:33) En þar sem hann býr yfir fullkominni sjálfsstjórn getur hann líka kosið að vita ekki hvað muni gerast. – Samanber Jesaja 42:14.

Jehóva lætur vilja sinn ná fram að ganga. Hvernig snertir þetta getu hans til að segja fyrir um framtíðina? Í Jesaja 46:10 segir: „Ég boðaði endalokin frá upphafi og endur fyrir löngu það sem hefur enn ekki gerst. Ég segi: ‚Ákvörðun mín stendur og ég geri allt sem ég vil.‘“

Við sjáum af þessu að ein ástæða þess að Jehóva getur sagt fyrir um framtíðina er að hann hefur vald til að láta hlutina gerast. Hann þarf ekki að „hraðspóla“ inn í framtíðina til að sjá hvað á eftir að gerast, rétt eins og allir ókomnir atburðir hafi einhvern veginn þegar átt sér stað og að Jehóva sé einfaldlega að skoða þá fyrir fram. Jehóva getur öllu heldur ákveðið að eitthvað muni eiga sér stað á ákveðnum tíma og látið það síðan gerast þegar þar að kemur. – 2. Mós. 9:5, 6; Matt. 24:36; Post. 17:31.

Þetta er ástæðan fyrir því að Biblían notar hugtök eins og „áformað“, „mótað“ og „ákveðið“ til að lýsa því sem Jehóva gerir varðandi suma óorðna atburði. (2. Kon. 19:25, neðanmáls; Jes. 46:11) Þessi orð eru þýðing úr frummálinu á orði sem er skylt orðinu ‚leirkerasmiður‘. (Jer. 18:3, 4) Rétt eins og fær leirkerasmiður getur mótað fallegan blómavasa úr leirklumpi, getur Jehóva hagað málum þannig að vilji hans nái fram að ganga. – Ef. 1:11.

Jehóva virðir frjálsan vilja fólks. Hann ákveður ekki fyrir fram hvað gerist í lífi hvers og eins. Og hann veldur því ekki að gott fólk geri eitthvað sem verður því að falli. Hann leyfir öllum að velja sér stefnu en hann hvetur alla til að fylgja réttri stefnu.

Skoðum tvö dæmi. Fyrra dæmið snertir íbúa Níníve. Jehóva sagði fyrir að borgin yrði lögð í eyði vegna illsku íbúanna. En þegar þeir iðruðust „skipti hann um skoðun og lét ekki verða af ógæfunni sem hann sagðist ætla að láta koma yfir þá“. (Jónas 3:1–10) Jehóva skipti um skoðun vegna þess að íbúar Níníve notuðu frjálsan vilja sinn til að iðrast þegar þeir heyrðu viðvörunarboðskap Jehóva.

Hitt dæmið er spádómur um sigurvegara sem hét Kýrus en hann myndi veita Gyðingum frelsi úr ánauð og skipa svo fyrir að musteri Jehóva yrði endurbyggt. (Jes. 44:26–45:4) Kýrus Persakonungur uppfyllti þennan spádóm. (Esra. 1:1–4) En hann tilbað ekki Jehóva. Jehóva notaði Kýrus til að láta vilja sinn ná fram að ganga án þess taka af honum frjálsa viljann og möguleikann til að velja hvern hann vildi tilbiðja. – Orðskv. 21:1.

Þetta eru aðeins fáein dæmi um það sem Jehóva tekur með í reikninginn þegar hann segir framtíðina fyrir. Enginn maður getur skilið til fulls hvernig Jehóva hugsar og framkvæmir. (Jes. 55:8, 9) En það sem Jehóva leyfir okkur að vita styrkir trú okkar á því að hann geri alltaf það sem er rétt – líka þegar hann segir framtíðina fyrir.