Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vissir þú?

Vissir þú?

Hvers vegna endurtekur Biblían sig?

BIBLÍURITARARNIR endurtóku stundum sömu orðasambönd orð fyrir orð. Skoðum þrjár hugsanlegar ástæður fyrir því.

Hvenær textinn var ritaður. Í Ísrael til forna höfðu fáir sitt eigið eintak af lögunum. Þeir heyrðu þau lesin aðallega þegar þjóðin kom saman við tjaldbúðina. (5. Mós. 31:10–12) Mjög líklega voru ýmsar truflanir meðan þeir hlustuðu í fleiri klukkutíma í miklum mannfjölda. (Neh. 8:2, 3, 7) Við slík tækifæri myndi það að endurtaka mikilvæg orðasambönd auðvelda fólkinu að muna það sem Ritningarnar sögðu og fara eftir því. Og endurtekning á vissum orðum hefur hjálpað fólki að festa í minni ákveðna þætti laganna. – 3. Mós. 18:4–22; 5. Mós. 5:1.

Hvernig textinn var ritaður. Um það bil einn tíundi hluti Biblíunnar er skrifaður sem söngvar, eins og Sálmarnir, Ljóðaljóðin og Harmljóðin. Stundum voru orð endurtekin í söngvunum sem lögðu áherslu á stef þeirra og hjálpuðu áheyrendum að leggja orðin á minnið. Við sjáum þetta til dæmis í Sálmi 115:9–11: „Ísrael, treystu á Jehóva – hann er hjálp ykkar og skjöldur. Ætt Arons, treystu á Jehóva – hann er hjálp ykkar og skjöldur. Þið sem óttist Jehóva, treystið á Jehóva – hann er hjálp ykkar og skjöldur.“ Endurtekningin hefur hjálpað söngvurunum að hafa þessi dýrmætu sannindi í huga og hjarta.

Hvers vegna textinn var ritaður. Biblíuritarar endurtóku stundum mikilvægar upplýsingar. Þegar Jehóva sagði Ísraelsmönnum að neyta ekki blóðs lét hann Móse endurtaka það mörgum sinnum. Guð vildi leggja áherslu á að líf líkamans væri í blóðinu og að blóðið táknaði þar af leiðandi lífið sjálft. (3. Mós. 17:11, 14) Síðar, þegar postularnir og öldungarnir í Jerúsalem skrifuðu um það sem þjónar Guðs áttu að halda sér frá til að þóknast Guði, lögðu þeir aftur áherslu á að halda sér frá blóði. – Post. 15:20, 29.

Jehóva ætlaðist ekki til þess að það yrði helgisiður að endurtaka orðasambönd. Jesús sagði til dæmis: „Þegar þið biðjist fyrir skuluð þið ekki fara með sömu orðin aftur og aftur.“ (Matt. 6:7) Hann tiltók síðan það sem við getum nefnt í bænum okkar í samræmi við vilja Guðs. (Matt. 6:9–13) Þótt við forðumst að fara með sömu orðin aftur og aftur er okkur frjálst að nefna sömu viðfangsefni aftur og aftur. – Matt. 7:7–11.

Það eru því góðar ástæður fyrir því að ákveðin orð og orðasambönd eru endurtekin í innblásnu orði Guðs. Það er ein af mörgum aðferðum sem okkar mikli kennari notar til að kenna okkur það sem okkur er fyrir bestu. – Jes. 48:17, 18.