Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 19

SÖNGUR 22 Ríki Guðs er stofnsett – komi það!

Hvað vitum við um dóma Jehóva í framtíðinni?

Hvað vitum við um dóma Jehóva í framtíðinni?

„Jehóva … vill ekki að neinn farist.“2. PÉT. 3:9.

Í HNOTSKURN

Við getum verið viss um að dómar Jehóva í framtíðinni verði réttlátir og sanngjarnir.

1. Hvers vegna má segja að við lifum á spennandi tímum?

 VIÐ lifum á spennandi tímum! Biblíuspádómar rætast daglega fyrir augum okkar. Við sjáum til dæmis ‚konung norðursins‘ og ‚konung suðursins‘ takast á um heimsyfirráð. (Dan. 11:40, neðanmáls) Við sjáum að fagnaðarboðskapurinn um ríkið er boðaður sem aldrei fyrr og milljónir manna taka fagnandi við honum. (Jes. 60:22; Matt. 24:14) Og við fáum andlega fæðu „á réttum tíma“ og í ríkum mæli. – Matt. 24:45–47.

2. Hvað getum við verið viss um en hvað þurfum við að viðurkenna?

2 Jehóva heldur áfram að hjálpa okkur að fá betri skilning á þeim mikilvægu atburðum sem eru fram undan. (Orðskv. 4:18; Dan. 2:28) Við getum verið viss um að þegar þrengingin mikla hefst munum við vita allt sem við þurfum að vita til að halda þolgóð út og vera sameinuð og sterk á þessum erfiða tíma. En við verðum jafnframt að viðurkenna að við getum ekki vitað allt sem framtíðin ber í skauti sér. Í þessari námsgrein ræðum við fyrst um það hvers vegna við höfum endurmetið sumt af því sem hefur verið sagt um þessa atburði. Síðan skoðum við dæmi um það sem við vitum um framtíðina og það hvernig faðir okkar á himnum dæmir fólk.

ÞAÐ SEM VIÐ VITUM EKKI

3. Hvað héldum við áður að yrði um vantrúaða þegar þrengingin mikla hæfist og hvers vegna komumst við að þeirri niðurstöðu?

3 Fram að þessu höfum við talið að þegar þrengingin mikla hefst sé útilokað fyrir þá sem trúa ekki á Jehóva að taka afstöðu með honum og komast lifandi í gegnum Harmagedón. Við komumst að þessari niðurstöðu þar sem við álitum frásöguna af flóðinu spádómlega fyrirmynd. Rétt eins og Jehóva lokaði dyrunum að örkinni stuttu áður en flóðið hófst myndi enginn eiga möguleika á að bjargast eftir að þrengingin mikla hæfist. – Matt. 24:37–39.

4. Hvers vegna lítum við ekki lengur á frásöguna af flóðinu sem spádómlega fyrirmynd?

4 Ættum við að líta á frásöguna af flóðinu sem spádómlega fyrirmynd? Nei. Það er ekkert í Biblíunni sem styður það. a Það er rétt að Jesús líkti dögum Nóa við nærveru sína en hann gaf ekki í skyn að hver persóna og hver atburður hefði nákvæma samsvörun. Og hann sagði ekki heldur að það hefði spádómlega þýðingu að dyrum arkarinnar var lokað. Við getum samt dregið mikilvægan lærdóm af frásögunni um Nóa og flóðið.

5. (a) Hvað gerði Nói áður en flóðið kom? (Hebreabréfið 11:7; 1. Pétursbréf 3:20) (b) Hverju stöndum við frammi fyrir þegar við boðum trúna rétt eins og Nói?

5 Eftir að Jehóva hafði varað Nóa við sýndi Nói trú með því að smíða örk. (Lestu Hebreabréfið 11:7; 1. Pétursbréf 3:20.) Fólk sem heyrir fagnaðarboðskapinn um ríki Guðs nú á tímum verður einnig að sýna trú sína í verki. (Post. 3:17–20) Pétur kallaði Nóa „boðbera réttlætisins“. (2. Pét. 2:5) En eins og við ræddum í námsgreininni á undan vitum við ekki hvort Nói hafi staðið fyrir boðunarátaki til að ná til allra þeirra sem lifðu fyrir flóðið. Boðunin nú á dögum er hins vegar á heimsvísu og við kappkostum að eiga fullan þátt í henni. En sama hvað við reynum munum við aldrei ná til allra á jörðinni með fagnaðarboðskapinn áður en endirinn kemur. Hvers vegna ekki?

6, 7. Hvers vegna er rökrétt að álykta að við náum ekki til allra með fagnaðarboðskapinn áður en endirinn kemur?

6 Hugleiddu hvað Jesús sagði um umfang boðunarinnar. Hann sagði að fagnaðarboðskapurinn yrði boðaður ‚um alla jörðina til að allar þjóðir fengju að heyra hann‘. (Matt. 24:14) Við sjáum betur en nokkru sinni fyrr að þessi spádómur er að rætast. Efni um boðskap Guðsríkis er gefið út á meira en 1.000 tungumálum og meirihluti jarðarbúa hefur aðgang að því á vefsíðunni jw.org.

7 En Jesús sagði lærisveinum sínum að þeir myndu ekki ná að „fara um allar borgir“ og boða öllum trúna áður en hann kæmi. (Matt. 10:23; 25:31–33) Orð hans eiga einnig við um okkar tíma. Milljónir manna búa á svæðum þar sem verulegar hömlur eru á boðuninni. Auk þess fæðast hundruð barna í heiminum á hverri mínútu. Við gerum okkar allra besta til að ná til fólks af ‚hverri þjóð, ættflokki og tungu‘ með fagnaðarboðskapinn. (Opinb. 14:6) En það er útilokað að við náum til hvers einasta jarðarbúa áður en endirinn kemur.

8. Hvaða spurningar gætu vaknað varðandi dóma Jehóva í framtíðinni? (Sjá einnig myndir.)

8 Þá vaknar kannski spurningin: Hvað um þá sem hafa ef til vill ekki tækifæri til að heyra fagnaðarboðskapinn áður en þrengingin mikla skellur á? (Jóh. 5:19, 22, 27; Post. 17:31) Hvernig mun Jehóva og sonur hans sem hann hefur falið dómsvald dæma þá? Titilvers þessarar námsgreinar segir að Jehóva vilji ekki að „neinn farist heldur að allir fái tækifæri til að iðrast“. (2. Pét. 3:9; 1. Tím. 2:4) Staðreyndin er sú að Jehóva hefur enn ekki opinberað okkur hvernig hann mun leysa þessi mál. Honum ber að sjálfsögðu engin skylda til að segja okkur hvað hann hefur þegar gert og hvað hann ætlar að gera.

Hvað mun Jehóva gera varðandi þá sem hafa ekki haft tækifæri til að heyra fagnaðarboðskapinn áður en þrengingin mikla skellur á? (Sjá 8. grein.) c


9. Hvað hefur Jehóva opinberað okkur í Biblíunni?

9 Jehóva hefur opinberað okkur í orði sínu sumt af því sem hann ætlar að gera. Þar segir til dæmis að hann ætli að vekja til lífs ‚rangláta‘ sem hafa ekki haft tækifæri til að taka við fagnaðarboðskapnum og breyta sér. (Post. 24:15; Lúk. 23:42, 43) Þá vakna fleiri mikilvægar spurningar.

10. Hvaða fleiri spurningar vakna?

10 Mun öllum þeim sem deyja í þrengingunni miklu verða eytt í eitt skipti fyrir öll án vonar um upprisu? Biblían gefur skýrt til kynna að forhertir andstæðingar sannleikans sem Jehóva og hersveitir hans eyða í Harmagedón fái ekki upprisu. (2. Þess. 1:6–10) En hvað um þá sem deyja með eðlilegum hætti, af slysförum eða falla fyrir hendi annarra manna? (Préd. 9:11; Sak. 14:13) Verða sumir þeirra kannski á meðal hinna ‚ranglátu‘ sem verða reistir upp í nýja heiminum? Við vitum það ekki.

ÞAÐ SEM VIÐ VITUM

11. Á hvaða grundvelli verður fólk dæmt í Harmagedón?

11 Sumt vitum við sem á eftir að gerast í náinni framtíð. Við vitum til dæmis að í Harmagedón verður fólk dæmt eftir því hvernig það hefur komið fram við bræður Krists. (Matt. 25:40) Þeir sem verða dæmdir sem sauðir hafa sýnt stuðning við hina andasmurðu og Krist. Við vitum líka að sumir af bræðrum Krists verða enn á jörðinni eftir að þrengingin mikla hefst og verða ekki teknir til himna fyrr en stuttu áður en Harmagedón byrjar. Eins lengi og hinir andasmurðu eru á jörðinni má vera að einlægt fólk hafi tækifæri til að styðja þá og starf þeirra. (Matt. 25:31, 32; Opinb. 12:17) Hvers vegna er þessi vitneskja svona þýðingarmikil?

12, 13. Hvernig bregðast sumir ef til vill við þegar þeir sjá Babýlon hinni miklu eytt? (Sjá einnig myndir.)

12 Jafnvel eftir að þrengingin mikla hefst er möguleiki að það rifjist upp fyrir sumum sem sjá Babýlon hinni miklu eytt að vottar Jehóva töluðu lengi um að þetta myndi gerast. Gæti verið að sumir þessara einstaklinga taki þá afstöðu með Jehóva? – Opinb. 17:5; Esek. 33:33.

13 Ef það gerist er það ekki ósvipað því sem gerðist í Egyptalandi á dögum Móse. „Fjölmennur blandaður hópur“ slóst í för með Ísraelsmönnum þegar þeir yfirgáfu Egyptaland. Sumir þessara einstaklinga gætu hafa snúist til trúar á Jehóva þegar þeir sáu að það rættist sem Móse hafði sagt um plágurnar tíu. (2. Mós. 12:38) Verðum við fyrir vonbrigðum með að fólk geti slegist í hóp okkar svona stuttu fyrir endalokin ef það gerist í kjölfar eyðingar Babýlonar hinnar miklu? Auðvitað ekki. Við viljum líkja eftir föður okkar á himni. Hann er ‚samúðarfullur Guð sem er seinn til reiði og sýnir tryggan kærleika í ríkum mæli‘. b2. Mós. 34:6.

Það rifjast upp fyrir sumum sem sjá Babýlon hinni miklu eytt að vottar Jehóva töluðu lengi um að þetta myndi gerast. (Sjá 12. og 13. grein.) d


14, 15. Veltur framtíðarvon fólks á því hvenær það deyr eða hvar það býr? Skýrðu svarið. (Sálmur 33:4, 5)

14 Stundum heyrum við bróður eða systur segja: „Ef ættingi minn deyr áður en þrengingin mikla hefst er það betra fyrir hann því að þá hefur hann von um upprisu.“ Fólk meinar örugglega vel þegar það segir svona. En framtíðarvon fólks veltur ekki á því hvenær það deyr. Jehóva er fullkominn dómari. Dómar hans eru alltaf réttlátir og sanngjarnir. (Lestu Sálm 33:4, 5.) Það leikur enginn vafi á að „dómari allrar jarðarinnar“ gerir það sem er rétt. – 1. Mós. 18:25.

15 Það er líka rökrétt að álykta að framtíðarvon fólks velti ekki á því hvar það býr. Milljónir manna búa í löndum þar sem þeir fá kannski ekki tækifæri til að kynnast boðskapnum um Guðsríki áður en þrengingin mikla skellur á. Það er óhugsandi að Jehóva dæmi þessar milljónir sem „geitur“. (Matt. 25:46) Réttlátur dómari allrar jarðarinnar ber meiri umhyggju fyrir þessu fólki en við gætum nokkurn tíma gert. Við vitum ekki hvernig Jehóva hagar málunum í þrengingunni miklu. Hugsanlegt er að sumt af þessu fólki fái tækifæri til að kynnast Jehóva, setja traust sitt á hann og taka afstöðu með honum þegar hann helgar sig frammi fyrir öllum þjóðum. – Esek. 38:16.

Gæti verið að sumir taki afstöðu með Jehóva eftir að þrengingin mikla hefst?

16. Hvað vitum við um Jehóva? (Sjá einnig mynd.)

16 Af biblíunámi okkar höfum við lært að Jehóva metur mannslífið mjög mikils. Hann gaf líf sonar síns svo að við gætum fengið tækifæri til að lifa að eilífu. (Jóh. 3:16) Við höfum öll fengið að finna fyrir ástúð Jehóva. (Jes. 49:15) Hann þekkir hvert og eitt okkar með nafni. Hann getur jafnvel reist okkur upp á ný ef við deyjum af því að hann gerþekkir okkur – hvert einasta smáatriði og allar þær minningar sem gera okkur að þeim einstaklingum sem við erum. (Matt. 10:29–31) Við höfum góða ástæðu til að treysta því að kærleiksríkur faðir okkar á himnum dæmi hvern og einn á fullkominn hátt af því að hann er vitur, réttlátur og miskunnsamur. – Jak. 2:13.

Við getum treyst því að Jehóva muni dæma hvern og einn á fullkominn hátt af því að hann er réttlátur og miskunnsamur. (Sjá 16. grein.)


17. Hvað verður rætt í næstu námsgrein?

17 Þessi gleggri skilningur gerir boðunina enn meira aðkallandi en áður. Hvers vegna segjum við það? Og hvað gefur okkur drifkraft til að boða fagnaðarboðskapinn af kappi? Þessar spurningar verða skoðaðar nánar í næstu námsgrein.

SÖNGUR 76 Hvaða kennd finnur þú?

a Sjá greinina „Svo var þér þóknanlegt“ í Varðturninum 15. mars 2015, bls. 7–11 til að fá útskýringu á þessum gleggri skilningi.

b Eftir að Babýlon hinni miklu hefur verið eytt verða allir þjónar Jehóva reyndir þegar Góg frá Magóg gerir árás. Allir sem ganga í lið með þjónum Guðs eftir að Babýlon hinni miklu hefur verið eytt verða líka reyndir.

c MYND: Þrjár aðstæður sem sýna hvers vegna boðun okkar nær ekki til sumra: (1) Kona sem býr þar sem ríkjandi trú gerir boðunina hættulega, (2) hjón í landi þar sem stjórnvöld banna boðunina en það gerir hana hættulega og (3) maður sem býr þar sem landfræðilegar aðstæður hamla boðuninni.

d MYND: Það rifjast upp fyrir ungri konu sem yfirgaf söfnuðinn hvað hún lærði um eyðingu Babýlonar hinnar miklu. Hún ákveður að snúa aftur til Jehóva og foreldra sinna sem eru vottar. Ef slíkt gerist viljum við líkja eftir miskunnsömum og samúðarfullum föður okkar á himnum og gleðjast þegar syndari snýr aftur.