Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 26

SÖNGUR 8 Jehóva er hæli okkar

Gerðu Jehóva að kletti þínum

Gerðu Jehóva að kletti þínum

„Enginn klettur er sem Guð okkar.“1. SAM. 2:2.

Í HNOTSKURN

Við lærum hvers vegna Jehóva er líkt við klett og hvernig við getum líkt eftir eiginleikunum sem gera hann að kletti.

1. Við hvað líkir Davíð Jehóva eins og kemur fram í Sálmi 18:46?

 VIÐ lifum í heimi þar sem óvæntir erfiðleikar geta truflað líf okkar eða jafnvel snúið því algerlega á hvolf. Við erum innilega þakklát að geta leitað til Jehóva Guðs um hjálp. Í námsgreininni á undan vorum við minnt á að Jehóva er hinn lifandi Guð og að hann er alltaf reiðubúinn að koma okkur til hjálpar. Þegar hann styður okkur veitir það okkur fullvissu um að ‚Jehóva lifi!‘ (Lestu Sálm 18:46.) En strax í næstu setningu kallar Davíð Guð ‚klett sinn‘. Af hverju ætli hann hafi líkt Jehóva, hinum lifandi Guði, við lífvana hlut – klett?

2. Hvers vegna ætti það að vekja áhuga okkar að Davíð kallaði Jehóva ‚klett sinn‘?

2 Í þessari námsgrein skoðum við hvers vegna Jehóva er líkt við klett og hvað sú myndlíking kennir okkur um hann. Við lærum líka hvernig við getum litið á hann sem klett okkar. Að lokum lítum við á það hvernig við getum líkt eftir eiginleikum Jehóva, kletts okkar.

HVERS VEGNA ER JEHÓVA KLETTUR?

3. Hvernig er orðið „klettur“ oft notað í Biblíunni? (Sjá mynd.)

3 Í Biblíunni er Jehóva líkt við klett til að auðvelda okkur að skilja suma eiginleika hans. Þessi líking er gjarnan notuð þegar þjónar hans lofa hann fyrir það hversu óviðjafnanlegur Guð hann er. Jehóva er líkt við klett í fyrsta skipti í 5. Mósebók 32:4. Hanna sagði í bæn: „Enginn klettur er sem Guð okkar.“ (1. Sam. 2:2) Habakkuk kallaði Jehóva ‚klett sinn‘. (Hab. 1:12) Ritari Sálms 73 kallaði Guð ‚klett hjarta síns‘. (Sálm. 73:26) Og jafnvel Jehóva talaði um sjálfan sig sem klett. (Jes. 44:8) Skoðum þrjá eiginleika klettsins sem Jehóva hefur og sjáum hvernig við getum gert hann að ‚okkar kletti‘. – 5. Mós. 32:31.

Þjónar Guðs líta á Jehóva sem öruggan klett. (Sjá 3. grein.)


4. Í hvaða skilningi er Jehóva athvarf? (Sálmur 94:22)

4 Jehóva er athvarf. Jehóva verndar okkur í aðstæðum sem ógna velferð okkar rétt eins og stór klettur getur verið skjól fyrir hættulegum stormi. (Lestu Sálm 94:22.) Hann verndar okkur fyrir því sem getur valdið okkur varanlegu tjóni. Og ekki nóg með það. Hann lofar að hann muni að lokum fjarlægja allt sem ógnar friði okkar og öryggi. – Esek. 34:25, 26.

5. Hvernig getur Jehóva orðið athvarf okkar eins og klettur?

5 Ein leið til að gera Jehóva að kletti sem veitir okkur athvarf er að biðja til hans. Þegar við gerum það gefur hann okkur ‚frið sinn‘ sem verndar hjörtu okkar og huga. (Fil. 4:6, 7) Skoðum reynslu Artems, bróður sem var fangelsaður vegna trúar sinnar. Hann var yfirheyrður aftur og aftur af ruddalegum manni sem kom illa fram við hann og niðurlægði hann. „Ég varð taugaóstyrkur í hvert sinn sem hann kallaði mig til yfirheyrslu … Ég bað alltaf til Jehóva. Ég bað hann að gefa mér ró og visku,“ segir Artem. „Aðferðir mannsins til að brjóta mig niður virkuðu ekki … með hjálp Jehóva var eins og varnarmúr skýldi mér.“

6. Hvers vegna getum við alltaf treyst á Jehóva? (Jesaja 26:3, 4)

6 Jehóva er áreiðanlegur. Jehóva er alltaf til staðar fyrir okkur rétt eins og óbifanlegur klettur. Við getum treyst honum vegna þess að hann er „hinn eilífi klettur“. (Lestu Jesaja 26:3, 4.) Hann verður alltaf á lífi til að standa við loforð sín, heyra bænir okkar og veita okkur þann stuðning sem við þörfnumst. Við getum líka reitt okkur á Jehóva vegna þess að hann er trúr þeim sem þjóna honum. (2. Sam. 22:26) Hann gleymir aldrei verkum okkar og mun alltaf launa okkur. – Hebr. 6:10; 11:6.

7. Hvað fáum við að upplifa þegar við treystum á Jehóva? (Sjá einnig mynd.)

7 Við gerum Jehóva að kletti okkar þegar við treystum algerlega á hann. Við vitum að við njótum góðs af því að hlýða honum, jafnvel á erfiðum tímum. (Jes. 48:17, 18) Þegar við fáum að reyna stuðning hans styrkist traust okkar á honum. Þannig verðum við betur búin undir prófraunir sem aðeins Jehóva getur hjálpað okkur í gegnum. Við áttum okkur gjarnan á því hversu traustur Jehóva er við aðstæður þar sem við getum ekki leitað til neins annars um hjálp. „Ég hef aldrei haft sterkara samband við Guð en einmitt þegar ég var í varðhaldi,“ segir Vladímír. „Ég lærði að treysta betur á Jehóva vegna þess að ég var einn og hafði enga stjórn á aðstæðunum.“

Við gerum Jehóva að kletti okkar þegar við treystum algerlega á hann. (Sjá 7. grein.)


8. (a) Hvers vegna getum við sagt að Jehóva sé stöðugur? (b) Hvernig kemur það okkur vel að Guð er klettur okkar? (Sálmur 62:6, 7)

8 Jehóva er stöðugur. Jehóva er traustur og stöðugur eins og stór klettur. Hann breytist ekki og er samkvæmur sjálfum sér. (Mal. 3:6) Hann breytti ekki um stefnu þegar Adam og Eva gerðu uppreisn í Eden. Jehóva „getur ekki afneitað sjálfum sér“, eins og Páll postuli sagði. (2. Tím. 2:13) Þetta merkir að sama hvað gerist eða hvað aðrir gera þá breytir Jehóva því aldrei hver hann er, hver fyrirætlun hans er eða mælikvarði. Fyrir vikið vitum við að hann hjálpar okkur á erfiðum tímum og stendur við loforð sín um framtíðina. – Lestu Sálm 62:6, 7.

9. Hvað geturðu lært af Tatyjönu?

9 Við gerum Jehóva að kletti okkar með því að beina athyglinni að því hvers konar persóna hann er og hafa skýrt í huga hvert markmið hans er með jörðina og mannkynið. Það getur hjálpað okkur að vera í tilfinningalegu jafnvægi þegar við göngum í gegnum prófraunir. (Sálm. 16:8) Systir sem heitir Tatyjana upplifði þetta en hún var í stofufangelsi vegna trúar sinnar. „Ég var algerlega ein,“ sagði hún. „Það var erfitt í fyrstu. Ég var oft mjög niðurdregin.“ En þegar hún horfði á prófraunina í stærra samhengi í tengslum við Jehóva og fyrirætlun hans tókst henni að höndla aðstæðurnar og endurheimti styrk til að vera trúföst. Hún sagði: „Þegar ég skildi hvers vegna þetta gerðist minnti það mig á að ég var í þessum aðstæðum vegna þess að ég stóð með Jehóva. Það hjálpaði mér að hætta að hugsa um sjálfa mig.“

10. Hvernig getur Jehóva verið klettur okkar núna?

10 Bráðlega mætum við prófraunum sem krefjast þess að við treystum á Jehóva sem aldrei fyrr. Núna er tími til að styrkja sannfæringu okkar um að hann muni sjá okkur fyrir hverju því sem við þurfum til að vera trúföst. Hvernig gerum við það? Lesum um reynslu þjóna Jehóva nú á dögum og frásögur Biblíunnar. Tökum eftir hvernig Guð hefur sýnt eiginleika klettsins til að styðja þjóna sína. Hugleiðum þessar frásögur vel. Þannig getum við gert Jehóva að okkar kletti.

LÍKJUM EFTIR EIGINLEIKUM JEHÓVA

11. Hvers vegna viljum við líkja eftir eiginleikum Jehóva? (Sjá einnig rammann „ Markmið fyrir unga bræður“.)

11 Við höfum séð að Jehóva hefur reynst eins og klettur. Skoðum nú hvernig við getum líkt eftir eiginleikum hans á þessu sviði. Því betur sem við gerum það þeim mun færari verðum við um að byggja söfnuðinn upp. Jesús gaf til dæmis Símoni nafnið Kefas (eða „Pétur“), sem merkir steinn. (Jóh. 1:42) Það gaf til kynna að hann myndi veita öðrum í söfnuðinum hughreystingu og styrkja trú þeirra. Safnaðaröldungum er lýst sem ‚skugga af stórum hamri‘. Þetta merkir að þeir veita bræðrum og systrum í söfnuðinum vernd. (Jes. 32:2) Við getum að sjálfsögðu öll uppörvað hvert annað ef við líkjum eftir þessum eiginleikum Jehóva. – Ef. 5:1.

12. Hvernig getum við verið öðrum athvarf á erfiðum tímum?

12 Vertu athvarf. Stundum getum við veitt bræðrum og systrum bókstaflegt skjól á tímum náttúruhamfara, þjóðfélagsólgu eða styrjalda. Þegar ástandið „á síðustu dögum“ versnar fáum við vafalaust fleiri tækifæri til að rétta bræðrum og systrum hjálparhönd. (2. Tím. 3:1) Við getum líka veitt trúsystkinum okkar þá hugreystingu og kærleika sem þau þarfnast. Ein leið er að láta þau finna að þau séu velkomin í ríkissalinn og þannig stuðlum við að góðu andrúmslofti í söfnuðinum. Við lifum í hörðum og köldum heimi þar sem er mikið álag á fólki. Við viljum gera allt sem í okkar valdi stendur til að bræður og systur finni að þau séu elskuð, endurnærð og örugg þegar þau mæta á samkomur.

13. Hvernig geta öldungar verið öðrum skjól á erfiðum tímum? (Sjá einnig mynd.)

13 Öldungar geta verið skjól bræðra og systra þegar bókstaflegir eða táknrænir stormar geisa í lífi þeirra. Þegar þau verða fyrir barðinu á náttúruhamförum, veikindum eða slysum taka öldungar frumkvæði í að veita aðstoð. Þeir gefa einnig leiðbeiningar og uppörvun frá Biblíunni. Bræður og systur eiga auðvelt með að spyrja öldung um hjálp ef hann er þekktur fyrir að vera vingjarnlegur, fús til að hlusta og setja sig í spor annarra. Slíkir eiginleikar stuðla að því að bræðrum og systrum finnst þau elskuð og þau eiga auðveldara með að fara eftir leiðbeiningunum sem öldungur veitir út frá Biblíunni. – 1. Þess. 2:7, 8, 11.

Öldungarnir eru skjól fyrir bókstaflegum og táknrænum stormum sem hafa áhrif á bræður og systur í söfnuðinum. (Sjá 13. grein.) a


14. Hvernig getum við sýnt að við séum áreiðanleg?

14 Vertu áreiðanlegur. Við viljum að aðrir geti reitt sig á okkur, sérstaklega á erfiðum tímum. (Orðskv. 17:17) Hvað getum við gert til að aðrir líti þannig á okkur? Við getum kappkostað að sýna stöðugt eiginleika Guði að skapi, eins og að standa við loforð okkar og gera okkar besta til að vera stundvís. (Matt. 5:37) Við getum líka boðið fram hjálp okkar þegar við sjáum þörf. Og við sjáum til þess að við ljúkum við verkefni sem við fáum samkvæmt leiðbeiningum sem fylgja.

15. Hvernig er það söfnuðinum til góðs þegar öldungarnir eru áreiðanlegir?

15 Áreiðanlegir öldungar eru dýrmætir fyrir söfnuðinn. Hvernig þá? Boðberar finna stuðning þegar þeir hafa greiðan aðgang að öldungunum, eins og umsjónarmanni starfshóps síns. Þegar öldungarnir eru fúsir til að hjálpa bræðrum og systrum finna þau að þau eru elskuð. Og þau treysta öldungunum þegar þeir byggja leiðbeiningar sínar á Biblíunni og ritum trúa og skynsama þjónsins frekar en á eigin skoðunum. Bræður og systur hafa enn meiri ástæðu til að treysta öldungi sem talar ekki við aðra um trúnaðarupplýsingar og stendur við það sem hann lofar.

16. Hvernig gerum við bæði okkur sjálfum og öðrum gott með því að vera stöðug?

16 Sýndu stöðugleika. Við höfum góð áhrif á aðra þegar við hlýðum Jehóva í öllu og tökum ákvarðanir byggðar á Biblíunni. Eftir því sem við styrkjumst í trú og öflum okkur nákvæmari þekkingar verðum við stöðugri í sannleikanum. Við verðum þá síður óákveðin, óstöðug og afvegaleidd af fölskum kenningum og hugmyndum heimsins. (Ef. 4:14; Jak. 1:6–8) Trú okkar á Jehóva og loforð hans hjálpar okkur að halda ró okkar þegar við fáum slæmar fréttir. (Sálm. 112:7, 8) Og við getum komið þeim til hjálpar sem ganga í gegnum prófraunir. – 1. Þess. 3:2, 3.

17. Hvað hjálpar öldungum að hafa styrkjandi áhrif á trúsystkini sín?

17 Öldungar eiga að vera hófsamir, skynsamir, reglusamir og sanngjarnir. Þeir hjálpa öðrum að halda ró sinni og hafa sterka trú á Jehóva og styrkja söfnuðinn til að „halda sig fast við hið áreiðanlega orð“. (Tít. 1:9; 1. Tím. 3:1–3) Með fordæmi sínu og hirðastarfi hjálpa öldungarnir boðberum að mæta reglulega á samkomur, taka þátt í boðuninni og stunda sjálfsnám. Þegar bræður og systur takast á við vandamál sem valda þeim áhyggjum minna öldungarnir þau á að treysta á Jehóva og beina athyglinni að loforðum hans.

18. Hvers vegna viljum við lofa Jehóva og stöðugt styrkja tengslin við hann? (Sjá einnig rammann „ Leið til að styrkja tengslin við Jehóva“.)

18 Eftir að hafa hugleitt stórkostlega eiginleika Jehóva getum við tekið undir með Davíð konungi þegar hann segir: „Lofaður sé Jehóva, klettur minn.“ (Sálm. 144:1) Við getum alltaf reitt okkur á Jehóva. Í gegnum allt líf okkar og jafnvel þótt við verðum gömul höfum við ástæðu til að segja: „Hann er klettur minn“, fullviss um að hann muni alltaf hjálpa okkur að hafa sterkt samband við sig. – Sálm. 92:14, 15.

SÖNGUR 150 Leitum hjálpræðis Guðs

a MYND: Systir er ófeimin að leita til öldunganna í ríkissalnum.