Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 23

SÖNGUR 28 Hver er þinn vinur, Guð?

Jehóva býður okkur að vera gestir sínir

Jehóva býður okkur að vera gestir sínir

„Tjald mitt verður hjá þeim. Ég verð Guð þeirra.“ESEK. 37:27.

Í HNOTSKURN

Við fáum hvatningu til að meta boð Jehóva að vera gestir hans og hversu vel hann hugsar um okkur.

1, 2. Hvað býður Jehóva trúföstum tilbiðjendum sínum?

 HVERNIG sérð þú Jehóva fyrir þér? Þú sérð hann kannski sem föður þinn, Guð þinn eða vin þinn. Hann er kannski fleira í þínum huga. En hefurðu einhvern tíma hugsað um hann sem gestgjafa þinn?

2 Davíð konungur líkti Jehóva við gestgjafa og trúföstum tilbiðjendum hans við gesti. Hann spurði: „Jehóva, hver fær að gista í tjaldi þínu? Hver fær að búa á þínu heilaga fjalli?“ (Sálm. 15:1) Af þessum innblásnu orðum má sjá að við getum fengið að vera gestir Jehóva, það er að segja vinir hans. Hvílíkur heiður að fá slíkt boð!

JEHÓVA BÝÐUR OKKUR AÐ VERA GESTIR SÍNIR

3. Hver var fyrsti gestur Jehóva og hvernig var samband þeirra?

3 Áður en Jehóva byrjaði að skapa var hann einn í alheiminum. En síðan kom að þeim tímapunkti að hann skapaði fyrsta son sinn og hann var fyrsti gesturinn í tjaldi hans. Það veitti Jehóva mikla ánægju að vera í þessu nýja hlutverki sem gestgjafi. Í Biblíunni kemur fram að Jehóva hafi haft mikið yndi af félagsskap við son sinn. Og fyrsti gestur hans „gladdist frammi fyrir honum öllum stundum“. – Orðskv. 8:30.

4. Hverjum bauð Jehóva síðar að vera gestir í tjaldi sínu?

4 Jehóva skapaði síðan aðra engla og bauð þeim einnig að vera gestir sínir. Þeir eru kallaðir „synir Guðs“ og það er sagt að þeir hafi verið glaðir í návist hans. (Job. 38:7; Dan. 7:10) Í langan tíma voru vinir Jehóva aðeins þeir sem voru með honum á himni. Seinna skapaði hann mennina á jörðinni og bauð þeim einnig að vera í tjaldi sínu. Á meðal þeirra voru Enok, Nói, Abraham og Job. Þessum sönnu tilbiðjendum er lýst sem vinum Guðs og þeir sagðir hafa gengið „með hinum sanna Guði“. – 1. Mós. 5:24; 6:9; Job. 29:4; Jes. 41:8.

5. Hvað getum við lært af spádóminum í Esekíel 37:26, 27?

5 Jehóva hefur í gegnum aldirnar haldið áfram að bjóða vinum sínum að vera gestir sínir. (Lestu Esekíel 37:26, 27.) Til dæmis kemur fram í spádómi Esekíels að Guð vilji að trúfastir tilbiðjendur sínir eigi innilegt samband við sig. Hann lofar að gera „friðarsáttmála við þá“. Þessi spádómur vísar til þess tíma þegar þeir sem hafa himneska von og þeir sem hafa jarðneska von sameinast sem „ein hjörð“ í táknrænu tjaldi Jehóva. (Jóh. 10:16) Sá tími er einmitt núna!

GUÐ ANNAST OKKUR HVAR SEM VIÐ BÚUM

6. Hvernig er hægt að verða gestur í tjaldi Jehóva og skiptir máli hvar við búum?

6 Á biblíutímanum var tjald staður þar sem fólk gat hvílt sig og fengið skjól fyrir veðrum og vindum. Gestur gat vænst þess að gestgjafinn hugsaði vel um hann. Þegar við vígjum Jehóva líf okkar verðum við gestir í táknrænu tjaldi hans. (Sálm. 61:4) Við fáum andlega fæðu í ríkum mæli og njótum félagsskapar annarra gesta. Táknrænt tjald Jehóva er ekki bundið við ákveðinn stað. Þú hefur kannski ferðast til annars lands til að sækja mót og hitt aðra sem njóta þess að vera í tjaldi Guðs. Ef við þjónum Jehóva trúfastlega getum við verið gestir hans hvar sem við búum. – Opinb. 21:3.

7. Hvernig vitum við að trúfastir þjónar Guðs sem eru dánir eru enn þá gestir í tjaldi Jehóva? (Sjá einnig mynd.)

7 Hvað um þá sem dóu trúfastir Jehóva? Getum við ályktað að þeir séu enn gestir í tjaldi hans? Já! Hvers vegna getum við sagt það? Þeir eru lifandi í minni Jehóva. Jesús sagði: „Jafnvel Móse sýndi fram á í frásögunni af þyrnirunnanum að dauðir rísi upp. Þar kallar hann Jehóva ‚Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs‘. Hann er ekki Guð dauðra heldur þeirra sem lifa því að þeir eru allir lifandi í augum hans.“ – Lúk. 20:37, 38.

Trúfastir þjónar Guðs sem eru dánir eru enn gestir í tjaldi Guðs. (Sjá 7. grein.)


BLESSUN OG ÁBYRGÐ

8. Hvaða blessunar njóta gestir Jehóva?

8 Rétt eins og bókstaflegt tjald er staður þar sem við getum hvílst og notið verndar fyrir veðri og vindum er tjald Jehóva staður þar sem gestir hans geta notið verndar gegn því sem skaðar trú þeirra og von. Þegar við varðveitum náið samband við Jehóva getur Satan ekki gert okkur varanlegt mein. (Sálm. 31:23; 1. Jóh. 3:8) Í nýja heiminum mun Jehóva ekki aðeins veita vernd gegn því sem skaðar trúna heldur líka vernda okkur fyrir dauðanum. – Opinb. 21:4.

9. Hvers væntir Jehóva af gestum sínum?

9 Það er sannarlega mikill heiður að vera gestur í tjaldi Jehóva, að eiga náið og varanlegt samband við hann. Hvernig er eðlilegt að við hegðum okkur ef við viljum vera áfram gestir hans? Þegar þér er boðið heim til einhvers sýnirðu að sjálfsögðu kurteisi. Gestgjafinn væntir þess kannski að þú farir úr skónum og þú gerir það auðvitað fúslega. Á svipaðan hátt viljum við vita hvaða væntingar Jehóva hefur til þeirra sem vilja dvelja sem gestir í tjaldi hans. Við elskum Jehóva og viljum gera það sem í okkar valdi stendur „til að þóknast honum í einu og öllu“. (Kól. 1:10) Jehóva er vissulega vinur okkar en við megum ekki gleyma því að hann er líka Guð okkar og faðir sem á skilið að við sýnum honum virðingu. (Sálm. 25:14) Við ættum því öllum stundum að bera djúpa lotningu fyrir honum. Það hjálpar okkur að forðast allt sem gæti misboðið honum. Við viljum að sjálfsögðu alltaf ‚ganga hógvær með Guði okkar‘. – Míka 6:8.

JEHÓVA FÓR EKKI Í MANNGREINARÁLIT Í ÓBYGGÐUNUM

10, 11. Hvernig má sjá af samskiptum Jehóva við Ísraelsmenn í óbyggðum Sínaí að hann fer ekki í manngreinarálit?

10 Jehóva mismunar ekki gestum sínum. (Rómv. 2:11) Við sjáum það af samskiptum hans við Ísraelsmenn í óbyggðum Sínaí.

11 Eftir að Jehóva frelsaði fólk sitt úr þrældómi í Egyptalandi útnefndi hann presta til að þjóna við tjaldbúðina. Levítarnir fengu líka ýmis verkefni sem tengdust tjaldbúðinni. Annaðist Jehóva betur þá sem unnu við tjaldbúðina eða tjölduðu nálægt henni heldur en aðra? Nei, hann fer ekki í manngreinarálit.

12. Hvernig sýndi Jehóva að hann mismunaði engum af Ísraelsþjóðinni? (2. Mósebók 40:38) (Sjá einnig mynd.)

12 Allir í búðum Ísraelsmanna áttu jafn mikla möguleika á að vera vinir Jehóva, óháð því hvaða verkefni þeir höfðu eða hvar tjöld þeirra voru. Jehóva sá til dæmis til þess að öll þjóðin gæti séð skýstólpann og eldstólpann sem voru yfir tjaldbúðinni. (Lestu 2. Mósebók 40:38.) Þegar skýið fór af stað gátu líka þeir sem tjölduðu lengst frá tjaldbúðinni séð það, pakkað saman eigum sínum, tekið niður tjöldin og haldið af stað ásamt allri þjóðinni. (4. Mós. 9:15–23) Allir heyrðu þegar blásið var hátt í silfurlúðrana tvo sem gáfu merki um að tími væri kominn til að halda af stað. (4. Mós. 10:2) Að búa nálægt tjaldbúðinni var greinilega engin trygging fyrir því að eiga nánari vináttu við Jehóva. Allir í þessari ungu þjóð Jehóva gátu verið gestir hans og treyst á leiðsögn hans og vernd. Við getum sömuleiðis notið góðs af umhyggju hans og vernd sama hvar við búum á jörðinni.

Ráðstafanir Guðs varðandi tjaldbúðina vitnuðu um óhlutdrægni hans. (Sjá 12. grein.)


JEHÓVA MISMUNAR EKKI FÓLKI NÚ Á DÖGUM

13. Hvað sýnir að Jehóva fer ekki í manngreinarálit nú á dögum?

13 Sumir þjónar Guðs búa nálægt aðalstöðvunum eða einni af deildarskrifstofum Votta Jehóva. Aðrir starfa þar. Fyrir vikið geta þeir tekið þátt í ýmsu sem fer þar fram og átt félagsskap við þá sem fara með forystuna. Sumir eru í farandstarfi eða þjóna í annars konar sérstakri þjónustu í fullu starfi. Ef þú tilheyrir meirihluta votta Jehóva sem er ekki í slíkri aðstöðu geturðu verið viss um að þú sért samt gestur Jehóva og að hann elski þig. Hann sinnir þörfum allra. (1. Pét. 5:7) Allir þjónar Guðs fá þá andlegu fæðu, leiðsögn og vernd sem þeir þurfa á að halda.

14. Hverju fleiru hefur Jehóva séð fyrir sem sýnir að hann fer ekki í manngreinarálit?

14 Jehóva sýnir líka að hann fer ekki í manngreinarálit með því að gera Biblíuna aðgengilega fólki um alla jörð. Biblían var upphaflega skrifuð á þrem tungumálum: hebresku, arameísku og grísku. Eru þeir sem geta lesið Biblíuna á frummálunum nánari Jehóva en þeir sem geta það ekki? Nei. – Matt. 11:25.

15. Hvað sýnir að Jehóva fer ekki í manngreinarálit? (Sjá einnig mynd.)

15 Vinátta við Jehóva er ekki háð því hvort við höfum veraldlega menntun eða tungumálahæfileika. Jehóva opinberar visku sína fólki um alla jörð, hvort sem það er hámenntað eða ekki. Biblían, innblásið orð hans, hefur verið þýdd á þúsundir tungumála. Kenningar hennar gagnast því fólki víðs vegar um heim þannig að það geti orðið vinir Guðs. – 2. Tím. 3:16, 17.

Hvernig er það til merkis um að Guð fari ekki í manngreinarálit að Biblían skuli vera þýdd á þúsundir tungumála? (Sjá 15. grein.)


VERTU ÁFRAM GESTUR JEHÓVA

16. Hvernig getum við verið áfram gestir Jehóva samkvæmt Postulasögunni 10:34, 35?

16 Það er einstakur heiður að fá að vera gestir í táknrænu tjaldi Jehóva. Það finnst ekki betri, kærleiksríkari og örlátari gestgjafi en hann. Allir eru velkomnir óháð búsetu, bakgrunni, menntun, kynþætti, ættflokki, aldri og kyni. En Jehóva tekur aðeins á móti þeim sem sýna honum hlýðni. – Lestu Postulasöguna 10:34, 35.

17. Hvað verður fjallað um í næstu námsgrein?

17 Í Sálmi 15:1 varpar Davíð fram spurningunum: „Jehóva, hver fær að gista í tjaldi þínu? Hver fær að búa á þínu heilaga fjalli?“ Sálmaskáldinu var innblásið að svara þessum spurningum. Í næstu námsgrein verður fjallað um sumar af þeim kröfum sem við verðum að uppfylla til að gleðja Jehóva og vera vinir hans áfram.

SÖNGUR 32 Fylgdu Jehóva