Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 24

SÖNGUR 24 Göngum á fjall Jehóva

Verum gestir Jehóva um alla eilífð

Verum gestir Jehóva um alla eilífð

„Jehóva, hver fær að gista í tjaldi þínu?“SÁLM. 15:1.

Í HNOTSKURN

Við skoðum hvað við þurfum að gera til að vera áfram vinir Jehóva og hvernig hann ætlast til að við komum fram við vini sína.

1. Hvers vegna er gagnlegt að hugleiða Sálm 15:1–5?

 Í NÁMSGREININNI á undan komumst við að raun um að vígðir þjónar Jehóva geta verið gestir í táknrænu tjaldi hans. Þeir gera það með því að rækta náið samband við hann. En hvaða kröfur þurfum við að uppfylla til að eiga slíkt samband? Sálmur 15 fjallar einmitt um það. (Lestu Sálm 15:1–5.) Ef við fylgjum ráðunum í þessum sálmi verðum við nánir vinir Guðs.

2. Um hvað var Davíð kannski að hugsa þegar hann talaði um tjald Jehóva?

2 Sálmur 15 hefst á spurningunum: „Jehóva, hver fær að gista í tjaldi þínu? Hver fær að búa á þínu heilaga fjalli?“ (Sálm. 15:1) Þegar sálmaskáldið Davíð minntist á tjald Jehóva hafði hann ef til vill tjaldbúðina í huga sem var í Gíbeon um tíma. Davíð gæti líka hafa átt við tjaldið sem var á Síon í Jerúsalem fyrst hann talaði um ‚heilagt fjall Guðs‘. Í Síon, tæpum 10 kílómetrum suður af Gíbeon, sló Davíð upp tjaldi yfir sáttmálsörkina þangað til hún fengi varanlegri samastað þegar musterið yrði byggt. – 2. Sam. 6:17.

3. Hvers vegna ætti Sálmur 15 að vekja áhuga okkar? (Sjá einnig mynd.)

3 Fæstir Ísraelsmenn fengu nokkru sinni að þjóna við tjaldbúðina og því síður að fara inn í hana þar sem sáttmálsörkin var geymd. En allir trúfastir þjónar Jehóva gátu verið gestir í táknrænu tjaldi hans með því að vera vinir hans. Við þráum það öll. Í Sálmi 15 eru nefndir nokkrir eiginleikar sem við þurfum að þroska með okkur til að varðveita vináttuna við Jehóva.

Ísraelsmenn á dögum Davíðs gátu séð fyrir sér hvað það þýddi að vera gestur í tjaldi Jehóva. (Sjá 3. grein.)


VIÐ LIFUM HREINU LÍFI OG GERUM ÞAÐ SEM ER RÉTT

4. Hvernig vitum við að Jehóva krefst meira af okkur en að við látum skírast? (Jesaja 48:1)

4 Sálmur 15:2 lýsir vini Guðs. Hann er „sá sem lifir hreinu lífi [og] gerir það sem er rétt“. Orðalagið lýsir stöðugri viðleitni. En er það á færi okkar að ‚lifa hreinu lífi‘? Já. Ef við gerum okkar besta til að hlýða Jehóva lifum við hreinu lífi í augum hans þótt við séum ekki fullkomin. Þegar við vígjum líf okkar Guði og skírumst er það bara upphafið að því að ganga með honum. Á biblíutímanum varð fólk ekki sjálfkrafa vinir Jehóva þótt það tilheyrði Ísraelsþjóðinni. Sumir ákölluðu hann en ekki „í sannleika og réttlæti“. (Lestu Jesaja 48:1.) Einlægir Ísraelsmenn þurftu að læra um kröfur Jehóva og lifa í samræmi við þær. Á líkan hátt þurfum við að gera meira en að skírast og vera í söfnuðinum til að fá velþóknun Guðs. Við þurfum að halda áfram að ‚gera það sem er rétt‘. Hvað þýðir það?

5. Hvað þýðir það að hlýða Jehóva í öllum hlutum?

5 Að ‚lifa hreinu lífi‘ í augum Jehóva og ‚gera það sem er rétt‘ er annað og meira en að fara bara á samkomur í ríkissalnum. (1. Sam. 15:22) Við þurfum að kappkosta að hlýða honum í öllu sem við tökum okkur fyrir hendur, líka þegar við erum ein. (Orðskv. 3:6; Préd. 12:13, 14) Það er mikilvægt að reyna að hlýða Jehóva jafnvel í málum sem virðast ekki svo mikilvæg. Þannig sýnum við að við elskum hann innilega og fyrir vikið þykir honum enn vænna um okkur. – Jóh. 14:23; 1. Jóh. 5:3.

6. Hvað er mikilvægara en fyrri trúarverk samkvæmt Hebreabréfinu 6:10–12?

6 Jehóva kann virkilega vel að meta það sem við höfum gert fyrir hann. En fyrri trúarverk ein og sér eru engin trygging fyrir því að fá að vera gestir í tjaldi hans. Þetta er ljóst af því sem segir í Hebreabréfinu 6:10–12. (Lestu.) Jehóva gleymir ekki því góða sem við höfum gert. En hann vill að við þjónum sér af heilu hjarta „allt til enda“. Hann er tilbúinn að vera vinur okkar að eilífu ef við „gefumst ekki upp“. – Gal. 6:9.

TÖLUM SANNLEIKA Í HJÖRTUM OKKAR

7. Hvað felur það í sér að tala sannleika í hjarta sínu?

7 Til að Jehóva taki á móti okkur sem gestum í tjald sitt verðum við að tala sannleika í hjörtum okkar. (Sálm. 15:2) Það felur meira í sér en að ljúga ekki. Jehóva vill að við séum heiðarleg í öllu sem við segjum og gerum. (Hebr. 13:18) Það er mikilvægt „því að Jehóva hefur andstyggð á hinum svikula en er náinn vinur hinna réttlátu“. – Orðskv. 3:32.

8. Hvaða hegðun þurfum við að forðast?

8 Sá sem „talar sannleika í hjarta sínu“ hlýðir Guði, ekki aðeins þegar aðrir sjá til heldur líka þegar hann er einn. (Jes. 29:13) Hann forðast að breyta sviksamlega. Svikull maður gæti farið að efast um að það sé alltaf best að hlýða lögum Jehóva. (Jak. 1:5–8) Hann fer kannski að óhlýðnast Jehóva í málum sem honum finnst ekki skipta svo miklu máli. Ef óhlýðnin virðist ekki hafa neinar afleiðingar freistast hann jafnvel til að ganga enn lengra í óhlýðninni. Þó að hann haldi að hann þjóni Jehóva er slík breytni hræsnisfull. (Préd. 8:11) En við viljum vera heiðarleg í öllum hlutum.

9. Hvað gerðist í fyrsta skipti sem Jesús hitti Natanael og hvað lærum við af því? (Sjá einnig mynd.)

9 Við getum lært um mikilvægi þess að vera heiðarleg af fyrstu kynnum Jesú og Natanaels. Þegar Filippus fór með vin sinn Natanael til að hitta Jesú gerðist eitthvað mjög merkilegt. Þótt Jesús hefði aldrei hitt Natanael áður sagði hann: „Sjáið, hér er sannur Ísraelsmaður sem engin svik eru í.“ (Jóh. 1:47) Lærisveinar Jesú voru að sjálfsögðu heiðarlegir en hann vissi að Natanael var einstaklega heiðarlegur. Natanael var ófullkominn eins og allir menn. En hann var algerlega laus við hræsni. Jesús dáðist að þessu í fari hans og hrósaði honum fyrir það. Við viljum auðvitað að hann geti sagt það sama um okkur.

Filippus kynnti Jesú fyrir Natanael frænda sínum en hann var maður sem engin svik voru í. Væri hægt að segja það sama um okkur? (Sjá 9. grein.)


10. Hvers vegna ættum við að vanda tal okkar? (Jakobsbréfið 1:26)

10 Flestar kröfurnar sem koma fram í Sálmi 15 snerta framkomu okkar við aðra. Sálmur 15:3 segir um gest Jehóva: „Hann ber ekki út róg með tungu sinni, gerir náunga sínum ekkert illt og talar ekki illa um vini sína.“ Ef við berum út róg um aðra gætum við skaðað þá alvarlega og við værum ekki lengur velkomin sem gestir í tjaldi Jehóva. – Lestu Jakobsbréfið 1:26.

11. Hvað er rógur og hvaða afleiðingar hefur það ef rógberi iðrast ekki?

11 Sálmaskáldið talar sérstaklega um rógburð. Rógburður er lygi sem getur eyðilagt mannorð fólks. Iðrunarlausir rógberar fá ekki að vera áfram í söfnuði Jehóva. – Jer. 17:10.

12, 13. Hvenær gætum við óviljandi gerst sek um að koma óorði á vini okkar? (Sjá einnig mynd.)

12 Sálmur 15:3 minnir okkur á að gestir Jehóva geri náunga sínum ekkert illt og tali ekki illa um vini sína. Hvernig gæti það gerst?

13 Við gætum óviljandi ýtt undir neikvætt umtal um aðra. Tökum dæmi: (1) Systir hættir í fullu starfi í þjónustu Jehóva, (2) hjón starfa ekki lengur á Betel eða (3) bróðir er ekki lengur þjónn eða öldungur í söfnuðinum. Væri rétt að vera með vangaveltur um ástæður fyrir þessum breytingum og tala síðan um það við aðra? Það geta verið ýmsar ástæður fyrir þessum breyttu aðstæðum sem við vitum ekkert um. Munum að gestur í tjaldi Jehóva „gerir náunga sínum ekkert illt og talar ekki illa um vini sína“.

Það er auðvelt að falla í þá gryfju að tala illa um aðra og það getur orðið að rógburði. (Sjá 12.–13. grein.)


HEIÐRUM ÞÁ SEM ÓTTAST JEHÓVA

14. Hvað felur það í sér að gestir Jehóva forðist þá sem hegða sér svívirðilega?

14 Í Sálmi 15:4 segir að vinur Jehóva ‚forðist þá sem hegða sér svívirðilega‘. Hvað felur það í sér? Þar sem við erum ófullkomin hættir okkur kannski til að forðast þá sem fara í taugarnar á okkur og við löðumst að þeim sem okkur líkar vel við. En í stað þess að setja okkar eigin mælikvarða ættum við aðeins að forðast fólk sem hagar sér á þann hátt sem Jehóva segir að sé svívirðilegt. (1. Kor. 5:11) Þetta eru meðal annars þeir sem stunda það sem er rangt, sýna trú okkar óvirðingu eða reyna að spilla sambandi okkar við Jehóva. – Orðskv. 13:20.

15. Hvernig getum við heiðrað „þá sem óttast Jehóva“?

15 Í Sálmi 15:4 segir líka að við verðum að heiðra „þá sem óttast Jehóva“. Við leitum því leiða til að sýna vinum Jehóva góðvild og virðingu. (Rómv. 12:10) Hvernig getum við gert það? Sálmurinn bendir á að gestur í tjaldi Jehóva ‚haldi loforð sín þó að það komi sér illa fyrir hann‘. Við getum sært aðra ef við svíkjum loforð okkar. (Matt. 5:37) Til dæmis væntir Jehóva þess af hjónum að þau standi við hjúskaparheit sitt. Hann er líka ánægður þegar foreldrar gera sitt besta til að standa við það sem þau hafa lofað börnunum sínum. Kærleikur okkar til Guðs og til náungans fær okkur til að gera allt sem við getum til að standa við orð okkar.

16. Á hvaða annan hátt heiðrum við vini Jehóva?

16 Við heiðrum líka vini Guðs með því að vera gestrisin og örlát við þá. (Rómv. 12:13) Þegar við eigum félagsskap við trúsystkini í frítíma okkar styrkjum við vináttuböndin við þau og Jehóva. Og við líkjum eftir Jehóva með því að sýna gestrisni.

ELSKUM EKKI PENINGA

17. Hvers vegna er talað um peninga í Sálmi 15?

17 Í Sálmi 15 segir um gest Jehóva: „Hann lánar ekki peninga gegn vöxtum og þiggur ekki mútur í máli gegn saklausum.“ Hvers vegna er minnst á peninga í þessum stutta sálmi? Vegna þess að ef peningar skipa of stóran sess í lífi okkar geta þeir spillt sambandi okkar við aðra og við Guð. (1. Tím. 6:10) Á biblíutímanum komu sumir illa fram við fátæk trúsystkini með því að taka vexti af peningum sem þeir lánuðu þeim. Og sumir dómarar þáðu mútur og dæmdu óheiðarlega í málum saklausra. Jehóva hatar allt slíkt. – Esek. 22:12.

18. Hvaða spurningar hjálpa okkur að sjá hvaða viðhorf við höfum til peninga? (Hebreabréfið 13:5)

18 Það er gott að staldra við og hugleiða hvernig við lítum á peninga. Spyrðu þig: Hugsa ég oft um peninga og hvað er hægt að kaupa fyrir þá? Dreg ég á langinn að borga lán til baka ef mér finnst sá sem hefur lánað mér vera í góðum málum sjálfur? Finnst mér ég mikilvægari en aðrir af því að ég á peninga en á ég samt erfitt með að vera örlátur? Dæmi ég bræður og systur efnishyggjufólk einfaldlega vegna þess að þau eru vel stæð? Reyni ég að vingast við þá sem eru ríkir en sýni fátækum lítinn áhuga? Við njótum þess ótrúlega heiðurs að fá að vera gestir Jehóva. Við getum misst þetta tækifæri ef við elskum peninga. Jehóva yfirgefur okkur aldrei ef við vörumst þessa gildru. – Lestu Hebreabréfið 13:5.

JEHÓVA ELSKAR VINI SÍNA

19. Hvers vegna vill Jehóva að við gerum allt sem minnst er á í Sálmi 15?

19 Sálmi 15 lýkur með þessu loforði: „Sá sem gerir þetta stendur stöðugur að eilífu.“ (Sálm. 15:5) Hér bendir sálmaskáldið á hvers vegna Jehóva vill að við gerum það sem hann fer fram á. Hann vill að við séum hamingjusöm. Þess vegna gefur hann okkur leiðbeiningar sem færa okkur blessun og vernd. – Jes. 48:17.

20. Hvers hlakka gestir Jehóva til?

20 Gestir Jehóva geta hlakkað til bjartrar framtíðar. Trúfastir andasmurðir einstaklingar fá „dvalarstað“ á himnum þar sem Jesús hefur búið þeim stað. (Jóh. 14:2) Þeir sem hafa jarðneska von líta fram til þess sem Opinberunarbókin 21:3 lofar. Við erum sannarlega þakklát fyrir þann mikla heiður að fá að vera vinir Jehóva – að vera gestir í tjaldi hans að eilífu!

SÖNGUR 39 Að eignast gott mannorð hjá Guði