Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er Guð alltaf Jesú æðri?

Er Guð alltaf Jesú æðri?

Er Guð alltaf Jesú æðri?

JESÚS gerði aldrei tilkall til þess að vera Guð. Allt sem hann sagði um sjálfan sig ber því vitni að hann hafi ekki talið sig Guði jafnan á nokkurn hátt — hvorki í mætti, þekkingu né aldri.

Á öllum tilveruskeiðum sínum, hvort heldur á himni eða jörð, endurspegla orð hans og athafnir undirgefni við Guð. Guð var honum alltaf meiri og hann, Jesús, var skapaður af Guði.

Jesús aðgreindur frá Guði

Jesús lét aftur og aftur í ljós að hann væri sköpunarvera, aðskilin frá Guði og ólík honum, og að hann, Jesús, ætti sér Guð sem hann tilbað, Guð sem hann kallaði „föður.“ Í bæn til föður síns kallaði Jesús hann „hinn eina sanna Guð.“ (Jóhannes 17:3) Í Jóhannesi 20:17 sagði hann við Maríu Magdalenu: „Ég stíg upp til föður míns og föður yðar, til Guðs míns og Guðs yðar.“ Í 2. Korintubréfi 1:3 staðfestir Páll postuli þetta samband þeirra: „Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists.“ Úr því að Jesús átti sér Guð, það er að segja föður sinn, gat hann ekki samtímis verið sá Guð.

Páll postuli hikaði ekki við að tala um Jesú og Guð sem aðgreindar persónur: „Vér [höfum] ekki nema einn Guð, föðurinn, . . . og einn Drottin, Jesú Krist.“ (1. Korintubréf 8:6) Hann gerir einnig greinarmun á þeim er hann minnist á ‚auglit Guðs og Jesú Krists og hinna útvöldu engla.‘ (1. Tímóteusarbréf 5:21) Jesús og Guð eru tvær sjálfstæðar persónur á himnum með sama hætti og Jesús og englarnir eru aðskildar persónur.

Orð Jesú í Jóhannesi 8:17, 18 eru einnig eftirtektarverð: „Í lögmáli yðar er ritað, að vitnisburður tveggja manna sé gildur. Ég er sá, sem vitna um sjálfan mig, og faðirinn, sem sendi mig, vitnar um mig.“ Hér bendir Jesús á að hann og faðirinn, hinn alvaldi Guð, hljóti að vera tvær sjálfstæðar persónur, því að annars gætu þeir ekki verið tvö óháð vitni.

Jesús benti einnig á að hann væri aðgreindur frá Guði er hann sagði: „Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn.“ (Markús 10:18) Jesús var með þessum orðum að segja að enginn, ekki einu sinni hann sjálfur, væri eins góður og Guð. Guð er góður á sérstakan hátt sem skilur milli hans og Jesú.

Undirgefinn þjónn Guðs

Aftur og aftur komst Jesús að orði eitthvað á þessa leið: „Ekkert getur sonurinn gjört af sjálfum sér, nema það sem hann sér föðurinn gjöra.“ (Jóhannes 5:19) „Ég er stiginn niður af himni, ekki til að gjöra vilja minn, heldur vilja þess, er sendi mig.“ (Jóhannes 6:38) „Kenning mín er ekki mín, heldur hans, er sendi mig.“ (Jóhannes 7:16) Er sá sem sendir ekki meiri þeim sem sendur er?

Þetta samband kemur skýrt fram í dæmisögu Jesú um víngarðinn. Þar líkir hann föður sínum, alvöldum Guði, við víngarðseiganda er fór úr landi til langdvalar og seldi vínyrkjum, sem táknuðu klerkastétt Gyðinga, víngarðinn til ræktunar. Síðar sendi eigandinn þjón til að sækja hluta af ávexti víngarðsins en vínyrkjarnir börðu hann og sendu burt tómhentan. Þá sendi eigandinn annan þjón og síðar þann þriðja en allt fór á sömu leið. Loks sagði eigandinn: „Ég sendi son minn elskaðan [Jesú]. Má vera, þeir virði hann.“ En hinir gjörspilltu vínyrkjar sögðu: „‚Þetta er erfinginn. Drepum hann, þá fáum vér arfinn.‘ Og þeir köstuðu honum út fyrir víngarðinn og drápu hann.“ (Lúkas 20:9-16) Í þessari dæmisögu lýsti Jesús stöðu sjálfs sín sem sendur var af Guði til að gera Guðs vilja, líkt og faðir sendir hlýðinn son til að gegna erindum sínum.

Fylgjendur Jesú litu alltaf á hann sem undirgefinn þjón Guðs, ekki sem jafningja Guðs. Í bæn til Guðs töluðu þeir um ‚heilagan þjón hans, Jesú, er hann smurði‘ og báðu þess að Guð myndi láta „tákn og undur verða fyrir nafn [síns] heilaga þjóns, Jesú.“ — Postulasagan 4:23, 27, 30.

Guð er alltaf æðstur

Strax við upphaf þjónustu Jesú, er hann steig upp úr skírnarvatninu, hljómaði rödd Guðs frá himni: „Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á.“ (Matteus 3:16, 17) Var Guð að lýsa yfir að hann væri sinn eigin sonur, að hann hefði velþóknun á sjálfum sér, að hann hefði sent sjálfan sig? Nei, Guð skaparinn var að segja að hann, hinn æðri, væri að viðurkenna hinn óæðri, son sinn Jesú, til þess starfs sem framundan var.

Jesús gaf til kynna að faðir hans væri honum æðri er hann sagði: „Andi [Jehóva] er yfir mér, af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap.“ (Lúkas 4:18) Smurning fól meðal annars í sér að sá sem æðri var fékk öðrum í hendur vald sem hann ekki hafði fyrir. Guð er greinilega æðri aðilinn hér því að hann smyr Jesú og gefur honum vald sem hann hafði ekki fyrir.

Jesús sagði skýrum orðum að faðirinn væri honum æðri er móðir tveggja lærisveina bað þess að synir hennar mættu sitja honum til hægri og vinstri handar er hann kæmi í ríki sínu. Jesús svaraði: „Mitt er ekki að veita, hver situr mér til hægri handar eða vinstri. Það veitist þeim, sem það er fyrirbúið af föður mínum,“ það er að segja Guði. (Matteus 20:23) Ef Jesús hefði verið alvaldur Guð hefði það verið hans að veita þessi sæti. Jesús gat það ekki því að það tilheyrði Guði og Jesús var ekki Guð.

Bænir Jesú sjálfs eru skýr vitnisburður þess að hann sé óæðri Guði. Þegar hann var í þann mund að deyja sýndi hann hver væri honum æðri er hann bað: „Faðir, ef þú vilt, þá tak þennan kaleik frá mér! En verði þó ekki minn heldur þinn vilji.“ (Lúkas 22:42) Hvers var hann að biðja til? Til hluta af sjálfum sér? Nei, hann var að biðja til annars sem var að öllu leyti aðgreindur frá honum, til Guðs föður síns, og vilji Guðs var æðri vilja Jesú og gat verið annar. Guð var sá eini sem gat ‚tekið þennan kaleik‘ frá Jesú.

Rétt áður en Jesús gaf upp andann hrópaði hann: „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“ (Markús 15:34) Hvers var Jesús að hrópa til? Til sjálfs sín eða hluta af sjálfum sér? Varla hefði sá sem áleit sig vera Guð kallað: „Guð minn.“ Og ef Jesús var Guð, hver hafði þá yfirgefið hann? Var hann búinn að yfirgefa sjálfan sig? Það er fráleit markleysa. Jesús sagði einnig: „Faðir, í þínar hendur fel ég anda minn!“ (Lúkas 23:46) Hvaða ástæðu hefði Jesús haft til að fela föðurnum anda sinn, ef hann var sjálfur Guð?

Eftir að Jesús var dáinn lá hann í gröfinni hluta úr þrem dögum. Ef hann var Guð, þá fór spámaðurinn Habakkuk með rangt mál er hann sagði: „Guð minn frá öndverðu, minn Heilagi, sem aldrei deyr.“ (Habakkuk 1:12) Biblían segir samt sem áður að Jesús hafi dáið og legið meðvitundarlaus í gröfinni. Og hver reisti hann upp frá dauðum? Ef hann var dáinn gat hann ekki reist sjálfan sig upp. Ef hann reisti sjálfan sig upp og var þar með ekki dáinn í raun og veru, þá greiddi hann ekki lausnargjaldið fyrir synd Adams. En það greiddi hann til fulls með því að gefa líf sitt í raun og veru. Það var því „Guð [sem] leysti hann úr nauðum dauðans og reisti hann upp.“ (Postulasagan 2:24) Hinn æðri, alvaldur Guð, reisti upp frá dauðum þann sem óæðri var, þjón sinn Jesú.

En er það að Jesús skyldi geta unnið kraftaverk, líkt og það að reisa fólk upp frá dauðum, vísbending þess að hann sé Guð? Nei. Bæði postularnir og spámennirnir Elía og Elísa réðu yfir þeim krafti líka, en það gerði þá ekki að neinu öðru en mönnum. Guð gaf spámönnunum, Jesú og postulunum hæfileika til að vinna kraftaverk til að sýna að hann stæði á bak við þá, en það gerði engan þeirra að hluta guðdómsins.

Þekking Jesú var takmörkuð

Er Jesús bar fram spádóm sinn um endalok þessa heimskerfis sagði hann: „En þann dag og stund veit enginn, hvorki englar á himni né sonurinn, enginn nema faðirinn.“ (Markús 13:32) Hefði Jesús verið hluti þríeins guðdóms, jafn föðurnum, hefði hann vitað allt sem faðirinn veit. Það gerði hann ekki af því að hann var ekki jafn Guði.

Eins lesum við í Hebreabréfinu 5:8 að Jesús hafi ‚lært hlýðni af því, sem hann leið.‘ Getum við ímyndað okkur að Guð hafi þurft að læra eitthvað? Nei, en Jesús þurfti þess því að hann vissi ekki allt sem Guð vissi. Og hann þurfti að læra nokkuð sem Guð þarf aldrei að læra — hlýðni. Guð þarf aldrei að hlýða einum né neinum.

Eftir að Jesús hafði verið reistur upp til himna til að vera með Guði var enn munur á því sem Guð vissi og Kristur vissi. Taktu eftir inngangsorðum síðustu bókar Biblíunnar: „Opinberun Jesú Krists, sem Guð gaf honum.“ (Opinberunarbókin 1:1) Þurfti Jesús, ef hann var sjálfur hluti guðdómsins, að fá opinberun frá öðrum hluta guðdómsins — Guði? Nei, hann hefði að sjálfsögðu vitað allt sem Guð vissi. En Jesús vissi ekki allt af því að hann var ekki Guð.

Jesús er enn undirgefinn Guði

Jesús var undirgefinn Guði fyrir jarðvist sína og einnig meðan hann var á jörð. Hann er eftir upprisu sína enn undirgefinn Guði og lægra settur en hann.

Pétur og hinir postularnir sögðu æðstaráði Gyðinga um upprisu Jesú: „Hann [Jesú] hefur Guð hafið sér til hægri handar.“ (Postulasagan 5:31) Páll sagði: „Guð [hefur] hátt upp hafið hann.“ (Filippíbréfið 2:9) Ef Jesús hafði verið Guð, hvernig var þá hægt að upphefja hann í hærri stöðu en hann hafði haft áður? Ef hann var hluti af þrenningunni var hann þegar upphafinn. Ef Jesús hafði verið jafn Guði fyrir upphafningu sína hefði frekari upphefð gert hann æðri Guði.

Páll sagði einnig að Kristur hefði gengið „inn í sjálfan himininn, til þess nú að birtast fyrir augliti Guðs vor vegna.“ (Hebreabréfið 9:24) Hvernig er hægt að vera sama persónan og maður gengur fram fyrir? Það er ógerlegt. Maður verður að vera önnur, sjálfstæð persóna.

Rétt áður en Stefán píslarvottur var grýttur til dauða „horfði [hann] til himins . . . og leit dýrð Guðs og Jesú standa til hægri handar Guði.“ (Postulasagan 7:55) Greinilega sá hann tvær aðskildar persónur — en engan heilagan anda, engan þríeinan guðdóm.

Í Opinberunarbókinni 4:8 til 5:7 er Guði lýst sem sitji hann í himnesku hásæti en Jesú ekki. Hann þarf að ganga fram fyrir Guð til að taka við bókrollu úr hægri hendi hans. Af því má sjá að á himnum er Jesús ekki Guð heldur aðgreindur frá honum.

Í samræmi við það sem á undan er komið segir Bulletin frá John Rylands-bókasafninu í Manchester á Englandi: „Jesús er í himnalífi sínu eftir upprisuna enn lýst sem sjálfstæðri persónu, sem er nákvæmlega jafnólík og aðgreind frá persónu Guðs og hann var í jarðlífi sínu sem jarðneskur Jesús. Við hlið Guðs og í samanburði við hann er hann greinilega ein af hinum himnesku verum við hirð Guðs, alveg eins og englarnir — þótt hann sé sonur Guðs og þar með í öðrum flokki en þeir og langtum æðri.“ — Samanber Filippíbréfið 2:11.

Tímaritið heldur áfram: „Það sem sagt er um líf og starf Krists á himnum hvorki merkir né gefur í skyn að í guðlegri stöðu standi hann jafn Guði sjálfum og sé að öllu leyti Guð. Þvert á móti sjáum við í mynd Nýjatestamentisins af himneskri persónu hans og þjónustu veru sem er bæði aðskilin frá Guði og undir hann sett.“

Á himnum mun Jesús um alla eilífð halda áfram að vera undirgefinn þjónn Guðs en jafnframt sjálfstæð persóna. Biblían orðar það þannig: „Síðan kemur endirinn, er hann [Jesús á himnum] selur ríkið Guði föður í hendur . . . Þá mun og sonurinn sjálfur leggja sig undir þann, er lagði alla hluti undir hann, til þess að Guð sé allt í öllu.“ — 1. Korintubréf 15:24, 28.

Jesús sagðist aldrei vera Guð

Viðhorf Biblíunnar er ótvírætt. Bæði er alvaldur Guð, Jehóva, önnur persóna en Jesús og alltaf honum æðri. Jesú er alltaf lýst sem sjálfstæðri persónu sem er lægra sett en Guð, sem auðmjúkum þjóni Guðs. Þess vegna segir Biblían skýrum orðum að ‚Guð sé höfuð Krists‘ á sama hátt og „Kristur er höfuð sérhvers manns.“ (1. Korintubréf 11:3) Og þess vegna sagði Jesús sjálfur: „Faðirinn er mér meiri.“ — Jóhannes 14:28.

Sannleikurinn er sá að Jesús er ekki Guð og sagðist aldrei vera það. Sífellt fleiri fræðimenn viðurkenna það. Eins og Bulletin frá John Rylands-bókasafninu segir: „Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að Nýjatestamentisrannsóknir síðustu 30 til 40 ára hafa látið vaxandi fjölda virtra Nýjatestamentisfræðinga komast að þeirri niðurstöðu að Jesús . . . hafi aldrei álitið sjálfan sig vera Guð.“

Bulletin segir enn fremur um kristna menn á fyrstu öld: „Þegar þeir gáfu [Jesú] heiðurstitla svo sem Kristur, Mannssonur, sonur Guðs og Drottinn voru þeir ekki með því að segja að hann væri Guð heldur að hann hafi unnið Guðs verk.“

Þannig viðurkenna jafnvel ýmsir trúarlegir fræðimenn að sú hugmynd að Jesús sé Guð gangi í berhögg við vitnisburð Biblíunnar í heild. Þar er Guð alltaf hinn æðsti og Jesús undirgefinn þjónn hans.

[Rammi á blaðsíðu 19]

‚Nýjatestamentisrannsóknir hafa látið vaxandi fjölda fræðimanna komast að þeirri niðurstöðu að Jesús hafi aldrei álitið sjálfan sig vera Guð.‘ — Bulletin of the John Rylands Library.

[Mynd á blaðsíðu 17]

Jesús sagði Gyðingum: „Ég er stiginn niður af himni, ekki til að gjöra vilja minn, heldur vilja þess, er sendi mig.“ — Jóhannes 6:38.

[Mynd á blaðsíðu 18]

Þegar Jesús hrópaði: „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“ trúði hann greinilega ekki að hann sjálfur væri Guð.