Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Heilagur andi – starfskraftur Guðs

Heilagur andi – starfskraftur Guðs

Heilagur andi – starfskraftur Guðs

SAMKVÆMT þrenningarkenningunni er heilagur andi þriðja persóna guðdómsins, jöfn föðurnum og syninum. Eins og það er orðað í Aþanasíusarjátningunni: „Þannig er . . . heilagur andi Guð.“ — Kirkjan játar, játningarrit íslensku þjóðkirkjunnar.

Í Hebresku ritningunum er algengast að orðið ruach sé notað um „anda“ en það merkir „andadráttur, vindur, andi.“ Orðið pneuma í Grísku ritningunum er svipaðrar merkingar. Vísa þessi orð til þess að heilagur andi sé hluti af þríeinum guðdómi?

Starfskraftur

Lýsingar Biblíunnar á heilögum anda eru á þá lund að hann sé kraftur sem Jehóva Guð ræður yfir og beitir í margvíslegum tilgangi. Að vissu leyti má líkja honum við rafmagn, orku sem hægt er að stýra og nota til fjölbreytilegra hluta.

Í 1. Mósebók 1:2 segir Biblían að ‚andi [á hebresku ruach] Guðs hafi svifið yfir vötnunum.‘ Hér birtist andi Guðs sem starfskraftur er hann notaði við sköpun jarðar.

Guð notar anda sinn til að upplýsa þá sem þjóna honum. Davíð bað: „Kenn mér að gjöra vilja þinn, því að þú ert minn Guð. Þinn góði andi [ruach] leiði mig um slétta braut.“ (Sálmur 143:10) Þegar 70 hæfir menn voru valdir Móse til aðstoðar sagði Guð við hann: „Ég vil taka af anda [ruach] þeim, sem yfir þér er, og leggja yfir þá.“ — 4. Mósebók 11:17.

Spádómar Biblíunnar voru skráðir af guðræknum mönnum sem voru „knúðir af heilögum anda [á grísku pneumatos af pneuma].“ (2. Pétursbréf 1:20, 21) Á þennan hátt var Biblían „innblásin af Guði“ — á grísku þeopneustos sem bókstaflega merkir „Guð-andaður.“ (2. Tímóteusarbréf 3:16) Og undir áhrifum heilags anda fengu sumir menn að sjá sýnir eða dreyma spádómlega drauma. — 2. Samúelsbók 23:2; Jóel 3:1, 2; Lúkas 1:67; Postulasagan 1:16; 2:32, 33.

Heilagur andi kom Jesú til að fara út í eyðimörkina eftir skírn sína. (Markús 1:12) Andinn var eins og eldur innra með þjónum Guðs og fyllti þá krafti. Hann gerði þeim fært að tala óttalaust og af djörfung. — Míka 3:8; Postulasagan 7:55-60; 18:25; Rómverjabréfið 12:11; 1. Þessaloníkubréf 5:19.

Guð beitir anda sínum til að fullnægja dómum sínum á mönnum og þjóðum. (Jesaja 30:27, 28; 59:18, 19) Andi Guðs getur náð hvert sem er og virkað með eða móti mönnum. — Sálmur 139:7-12.

„Ofurmagn kraftarins“

Andi Guðs getur gefið þeim sem þjóna honum „ofurmagn kraftarins,“ kraft umfram það sem eðlilegt er. (2. Korintubréf 4:7) Með fulltingi hans geta þeir þolað trúarraunir eða gert það sem þeir gætu ekki ella.

Dómarabókin 14:6 segir til dæmis um Samson er öskrandi ljón kom í móti honum: „Þá kom andi [Jehóva] yfir hann, svo að hann sleit það sundur.“ Var það guðleg persóna sem kom yfir Samson og stýrði hreyfingum hans þannig að hann gat unnið þetta þrekvirki? Nei, það var „kraftur DROTTINS [sem] gerði Samson sterkan.“ — Today’s English Version.

Biblían segir að heilagur andi hafi komið yfir Jesú í dúfulíki, ekki mannsmynd, er hann lét skírast. (Markús 1:10) Þessi starfskraftur Guðs gerði Jesú færan um að lækna sjúka og reisa upp dána. Í Lúkasi 5:17 segir: „Kraftur [Jehóva] var með honum til þess að lækna.“

Andi Guðs gaf lærisveinum Jesú líka mátt til að vinna kraftaverk. Postulasagan 2:1-4 greinir frá því að lærisveinarnir hafi verið saman komnir á hvítasunnudeginum er „skyndilega [heyrðist] gnýr af himni eins og aðdynjanda sterkviðris . . . Þeir fylltust allir heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla.“

Heilagur andi gaf þannig Jesú og öðrum þjónum Guðs kraft til að gera það sem menn gátu ekki gert að öllu jöfnu.

Ekki persóna

En eru ekki heilögum anda sums staðar í Biblíunni tileinkaðir persónulegir eiginleikar? Jú, en veittu athygli því sem kaþólski guðfræðingurinn Edmund Fortman segir um það í bókinni The Triune God: „Þótt heilögum anda sé oft lýst með persónulegu orðfæri er augljóst að hinir helgu ritarar [Hebresku ritninganna] skynjuðu þennan anda aldrei sem aðgreinda persónu né lýstu honum þannig.“

Ekki er óalgengt að ópersónuleg hugtök eða öfl séu persónugerð í Biblíunni. Viskan er sögð eiga börn. (Lúkas 7:35) Synd og dauði eru kölluð konungar. (Rómverjabréfið 5:14, 21) Í 1. Mósebók 4:7 segir The New English Bible að syndin sé „illur andi sem bíður við dyrnar,“ en með því er syndin persónugerð sem illur andi er lá í leyni við dyr Kains. En syndin er auðvitað ekki persóna og það er heilagur andi ekki heldur þótt hann sé stundum persónugerður í texta Biblíunnar.

Hliðstætt dæmi er að finna í 1. Jóhannesarbréfi 5:6-8 þar sem ekki aðeins andinn heldur einnig „vatnið og blóðið“ eru sögð „vitna“ líkt og persónur. En vatn og blóð eru að sjálfsögðu ekki persónur og það er heilagur andi ekki heldur.

Það samræmist þessu að Biblían talar almennt um heilagan anda sem ópersónulegt fyrirbæri og nefnir hann til dæmis sem hliðstæðu vatns og elds. (Matteus 3:11; Markús 1:8) Fólk er hvatt til að fyllast heilögum anda í stað þess að fyllast víni. (Efesusbréfið 5:18) Talað er um að menn geti verið fullir heilögum anda á sama hátt og þeir geta verið fullir visku, trúar og gleði. (Postulasagan 6:3; 11:24; 13:52) Og í 2. Korintubréfi 6:6 er heilagur andi nefndur í samhengi með fjölmörgum eiginleikum. Slíkt orðfæri væri ekki jafnalgengt og raun ber vitni ef heilagur andi væri í reyndinni persóna.

Sums staðar í Biblíunni er að vísu komist svo að orði að andinn tali, en aðrar ritningargreinar sýna okkur að hann gerir það fyrir milligöngu manna eða engla. (Matteus 10:19, 20; Postulasagan 4:24, 25; 28:25; Hebreabréfið 2:2) Í þeim tilvikum má líkja andanum við útvarpsbylgjur sem bera boð frá einum stað til annars langt í burtu.

Í Matteusi 28:19 er talað um skírn „í nafni . . . heilags anda.“ En orðið „nafn“ merkir ekki alltaf eiginnafn, hvorki á grísku né íslensku. Þegar sagt er „í nafni laganna,“ erum við ekki að tala um persónu. Við eigum við það sem lögin standa fyrir, myndugleik þeirra og vald. Orðabók Robertsons, Word Pictures in the New Testament, segir: „Þessi notkun orðsins nafn (onoma) er algeng í Sjötíumannaþýðingunni og papýrusritunum sem tákn um vald og myndugleika.“ Skírn ‚í nafni heilags anda‘ felur í sér viðurkenningu á myndugleika andans, að hann sé frá Guði og starfi eftir hans vilja.

„Hjálparinn“

Jesús talaði um heilagan anda sem ‚hjálpara‘ og sagði að hann myndi kenna, leiðbeina og tala. (Jóhannes 14:16, 26; 16:13) Gríska orðið parakletos, sem þýtt er hjálpari, er karlkynsorð. Þegar Jesús lýsti því sem hjálparinn myndi gera notaði hann eðlilega persónufornöfn í karlkyni. (Jóhannes 16:7, 8) Gríska orðið pneuma, andi, er hins vegar hvorugkynsorð og tekur með sér persónufornafn í hvorugkyni á grísku.

Á tungumálum, þar sem „andi“ er karlkynsorð, næst ekki fram þessi munur án sérstakra skýringa. Auk þess fela flestir biblíuþýðendur, sem eru þrenningartrúar, þessa staðreynd þótt þau mál, sem þeir þýða á, bjóði upp á að þessi greinarmunur sé gerður. Hin kaþólska New American Bible viðurkennir til dæmis í sambandi við Jóhannes 14:17: „Gríska orðið fyrir ‚andi‘ er hvorugkyns, og þótt við notum á ensku persónufornöfn í karlkyni (‚hann,‘ ‚honum,‘ og ‚hans‘) er notað hvorugkyn (‚það‘) í flestum grískum handritum.“

Notkun Biblíunnar á persónufornafni í karlkyni í tengslum við parakletos í Jóhannesi 16:7, 8 samræmist málfræðireglum, en boðar enga kennisetningu.

Ekki hluti þrenningar

Fjölmörg fræðirit og fræðimenn viðurkenna að Biblían styðji ekki þá hugmynd að heilagur andi sé þriðja persóna þrenningar. Tökum nokkur dæmi:

The Catholic Encyclopedia: „Hvergi í Gamlatestamentinu er nokkur skýr vísbending um þriðju persónu.“

Kaþólski guðfræðingurinn Edmund Fortman: „Gyðingar litu aldrei á andann sem persónu og enginn öruggur vitnisburður er fyrir því að nokkur ritara Gamlatestamentisins hafi haft það viðhorf. . . . Heilagur andi birtist yfirleitt í samstofna guðspjöllunum og Postulasögunni sem kraftur eða máttur Guðs.“

New Catholic Encyclopedia: „Gamlatestamentið lýsir greinilega ekki anda Guðs sem persónu . . . Andi Guðs er einfaldlega kraftur Guðs. Þegar honum er stundum lýst svo að hann sé aðgreindur frá Guði stafar það af því að andi Jahve verkar út á við.“ Þar segir einnig: „Stærstur hluti Nýjatestamentisins opinberar anda Guðs sem fyrirbæri, ekki persónu; það má sér í lagi sjá af hliðstæðunni milli anda Guðs og kraftar Guðs.“ — Leturbreyting okkar.

A Catholic Dictionary: „Á heildina litið talar Nýjatestamentið, líkt og hið gamla, um andann sem orku eða kraft Guðs.“

Þannig litu hvorki Gyðingar né frumkristnir menn á heilagan anda sem hluta þrenningar. Sú kenning kom ekki fram fyrr en öldum síðar. Eins og A Catholic Dictionary segir: „Þriðju persónunni var haldið fram á kirkjuþinginu í Alexandríu árið 362 . . . og loks á kirkjuþinginu í Konstantínópel árið 381“ — um 350 árum eftir að lærisveinarnir höfðu fyllst heilögum anda á hvítasunnudeginum!

Ljóst er að heilagur andi er ekki persóna og ekki hluti þrenningar. Heilagur andi er starfskraftur Guðs sem hann notar til að hrinda vilja sínum í framkvæmd. Hann er ekki jafningi Guðs heldur honum undirgefinn og sífellt til reiðu.

[Rammi á blaðsíðu 22]

„Á heildina litið talar Nýjatestamentið, líkt og hið gamla, um andann sem orku eða kraft Guðs.“ — A Catholic Dictionary.

[Myndir á blaðsíðu 21]

Við eitt tækifæri birtist heilagur andi í dúfulíki. Öðru sinni birtist hann sem eldtungur — en aldrei sem persóna.