Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað segir Biblían um Guð og Jesú?

Hvað segir Biblían um Guð og Jesú?

Hvað segir Biblían um Guð og Jesú?

MYNDI fólk komast að þeirri niðurstöðu að Biblían kenndi þrenningu, ef það læsi hana spjaldanna á milli án þess að gera sér einhverja hugmynd um það fyrirfram að hún kenndi slíkt?

Nei, hlutlaus lesandi myndi sjá það skýrt og greinilega að Guð einn er hinn alvaldi, skaparinn, aðgreindur og ólíkur öllum öðrum, og að Jesús er einnig aðgreindur og ólíkur honum, bæði fyrir jarðvist sína og eftir, skapaður af Guði og undir hann settur.

Guð er einn, ekki þrír

Sú kenning Biblíunnar að Guð sé einn er kölluð eingyðistrú. Og L. L. Paine, prófessor í kirkjusögu, bendir á að eingyðistrú í sinni hreinustu mynd leyfi ekki þrenningu: „Gamlatestamentið boðar eingyðistrú í sinni ströngustu mynd. Guð er einstök, persónuleg vera. Sú hugmynd að þar sé lýst þrenningu . . . er algerlega tilhæfulaus.“

Var horfið frá eingyðistrúnni eftir að Jesús kom til jarðar? Paine svarar: „Að þessu leyti er enginn munur á Gamlatestamentinu og hinu nýja. Eingyðistrúin stendur enn. Jesús var Gyðingur, alinn upp af foreldrum sem voru Gyðingar og uppfræddur í Gamlatestamentinu. Kenning hans var gyðingakenning út í gegn; að vísu nýtt fagnaðarerindi en ekki ný guðfræði. . . . Hann játaði sjálfur trú á hina miklu ritningargrein eingyðistrúar Gyðinga: ‚Heyr Ísrael! Drottinn er vor Guð; hann einn er Drottinn.‘“

Þessi orð er að finna í 5. Mósebók 6:4. Hér segir hin kaþólska New Jerusalem Bible: „Heyr, Ísrael. Jahve Guð okkar er hinn eini, hinn eini Jahve.“ * Engin fleirtöluorð standa með orðinu „einn“ í þessu versi sem túlka mætti svo að verið sé að tala um fleiri en einn einstakling.

Kristni postulinn Páll gaf ekki heldur í skyn að orðið hefði nokkur breyting á eðli Guðs eftir að Jesús kom til jarðar. Hann skrifaði: „Guð er einn.“ — Galatabréfið 3:20; sjá einnig 1. Korintubréf 8:4-6.

Mörg þúsund sinnum út um Biblíuna alla er talað um Guð sem eina persónu. Þegar hann talar er það einn einstaklingur sem talar. Biblían gæti ekki verið skýrari hvað þetta varðar. Guð segir: „Ég er [Jehóva], það er nafn mitt, og dýrð mína gef ég eigi öðrum né lof mitt.“ (Jesaja 42:8) „Ég er [Jehóva] Guð þinn, . . . Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.“ (Leturbreyting okkar.) — 2. Mósebók 20:2, 3.

Hvers vegna skyldu allir biblíuritararnir, sem fengu innblástur frá Guði, tala um Guð sem eina persónu ef hann væri í rauninni þrjár persónur? Hvaða tilgangi myndi það þjóna öðrum en þeim að blekkja fólk? Ef Guð væri þrjár persónur hefði hann örugglega látið biblíuritarana koma því skýrt á framfæri þannig að enginn gæti verið í vafa um það. Að minnsta kosti hefðu ritarar kristnu Grísku ritninganna, sem höfðu persónuleg tengsl við son Guðs, átt að gera það. En það gerðu þeir ekki.

Biblíuritararnir sýndu það skýrt og greinilega að Guð er ein persóna — einstæð, óskipt og á sér engan jafningja: „Ég er [Jehóva] og enginn annar. Enginn Guð er til nema ég.“ (Jesaja 45:5) „Þú einn heitir [Jehóva], Hinn hæsti yfir allri jörðunni.“ — Sálmur 83:19.

Ekki margskiptur Guð

Jesús kallaði Guð „hinn eina sanna Guð.“ (Jóhannes 17:3) Hann talaði aldrei um hann sem guðdóm samsettan úr mörgum persónum. Þess vegna er enginn annar er Jehóva kallaður almáttugur nokkur staðar í Biblíunni. Orðið „almáttugur“ væri merkingarlaust ef svo væri. Hvorki Jesús né heilagur andi eru nokkru sinni nefndir almáttugir því að Jehóva einn er hinn hæsti. Í 1. Mósebók 17:1 lýsir hann yfir: „Ég er Almáttugur Guð.“ Og 2. Mósebók 18:11 segir: „[Jehóva] er öllum guðum meiri.“

Í Hebresku ritningunum stendur orðið elohah (guð) í tveim fleirtölumyndum, elohim (guðir) og eloheh (guðir [einhverra]). Þessar fleirtölumyndir eru í flestum tilvikum notaðar um Jehóva og þýddar sem „Guð“ í eintölu. Gefa fleirtölumyndirnar í skyn að um sé að ræða þrenningu? Nei. Í orðabókinni A Dictionary of the Bible segir William Smith: „Sú fráleita hugmynd að [elohim] vísi til þrenningarguðdómsins á sér varla nokkurt fylgi núna meðal fræðimanna. Hér er annaðhvort um að ræða það sem málfræðingar kalla tignarfleirtölu eða það að hún táknar fyllingu kraftar Guðs, samanlagðan mátt Guðs.“

The American Journal of Semitic Languages and Literature segir um elohim: „Það er nánast ófrávíkjanlega notað með umsagnarlið í eintölu og tekur með sér einkunn í eintölu.“ Því til staðfestingar má nefna að titillinn elohim stendur 35 sinnum í sköpunarsögunni, og í öllum tilvikum er sögnin, sem segir hvað Guð sagði og gerði, í eintölu. (1. Mósebók 1:1-2:4) Því segir áðurnefnt tímarit: „Við verðum að skýra [elohim] frekar sem áherslufleirtölu er lýsir mikilleik og hátign.“

Elohim merkir ekki „persónur“ heldur „guðir.“ Þeir sem staðhæfa að þetta orð gefi í skyn þrenningu gera sig þar með að fjölgyðistrúarmönnum er dýrka fleiri en einn guð. Hvers vegna? Vegna þess að rök þeirra hafa í för með sér að þrír guðir væru í þrenningunni. Nánast allir þrenningarkenningarmenn eru þó andvígir þeirri skoðun að þrenningin sé samsett úr þrem aðskildum guðum.

Biblían notar líka orðið elohim og eloheh um einhvern fjölda falsguða. (2. Mósebók 12:12; 20:23) Annars staðar er orðið notað um einstaka falsguði, líkt og þegar talað er um að Filistar hafi fært „Dagón, guði [eloheh] sínum“ fórnir. (Dómarabókin 16:23, 24) Baal er kallaður „guð [elohim].“ (1. Konungabók 18:27) Auk þess er orðið notað um menn. (Sálmur 82:1, 6) Móse var sagt að hann ætti að þjóna sem „Guð“ [elohim] gagnvart Aroni og Faraó. — 2. Mósebók 4:16; 7:1.

Augljóst er að notkun titlanna elohim og eloheh um falsguði, eða jafnvel menn, gaf ekki í skyn að um væri að ræða margsamsetta guði; og þegar elohim eða eloheh er notað um Jehóva merkir það ekki heldur að hann sé fleiri en ein persóna, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess sem Biblían í heild segir um þetta efni.

Jesús er sjálfstæð sköpun

Meðan Jesús var á jörðinni var hann maður, að vísu fullkominn vegna þess að Guð hafði flutt lífskraft hans í móðurlíf Maríu. (Matteus 1:18-25) En það var ekki þá sem tilvera hans hófst. Hann sagðist hafa ‚stigið niður frá himni.‘ (Jóhannes 3:13) Það var því ofur eðlilegt að hann skyldi segja síðar við fylgjendur sína: „En ef þér sæjuð Mannssoninn [Jesú] stíga upp þangað, sem hann áður var?“ — Jóhannes 6:62.

Jesús hafði sem sagt verið til á himnum áður en hann kom til jarðar. En hafði hann verið ein af persónum alvalds, eilífs, þríeins guðdóms? Nei, því að Biblían segir skýrum orðum að Jesús hafi á því tilveruskeiði verið sköpuð andavera líkt og englarnir sem voru skapaðir af Guði. Hvorki englarnir né Jesús höfðu verið til fyrir sköpun sína.

Á tilveruskeiðinu fyrir jarðvist sína var Jesús „frumburður allrar sköpunar.“ (Kólossubréfið 1:15) Hann var „upphaf sköpunar Guðs.“ (Opinberunarbókin 3:14) Að hann skuli hafa verið „upphaf“ [á grísku arkhe] sköpunar Guðs verður ekki réttilega túlkað svo að hann hafi verið frumkvöðull hennar eða höfundur. Í biblíubókum sínum notar Jóhannes gríska orðið arkhe yfir 20 sinnum í ýmsum myndum, en alltaf í hinni almennu merkingu „upphaf.“ Jesús var því skapaður af Guði sem hið fyrsta ósýnilega sköpunarverk Guðs, upphaf sköpunarinnar.

Veittu því athygli hve nákvæmlega þessar lýsingar á uppruna Jesú svara til þeirra orða sem hinni táknrænu „speki“ eru lögð í munn í Orðskviðunum í Biblíunni: „[Jehóva] skóp mig í upphafi vega sinna, á undan öðrum verkum sínum, fyrir alda öðli. Áður en fjöllunum var hleypt niður, á undan hæðunum fæddist ég, áður en hann skapaði völl og vengi og fyrstu moldarkekki jarðríkis.“ (Orðskviðirnir 8:12, 22, 25, 26) „Spekin“ er hér persónugervingur þess sem Guð skapaði og flestir fræðimenn eru sammála um að hér sé verið að tala á táknmáli um Jesú sem andlega sköpunarveru áður en hann varð maður.

Jesús, í hlutverki „spekinnar“ fyrir jarðvist sína, segir að hann hafi verið Guði „við hlið sem verkstýra.“ (Orðskviðirnir 8:30) Kólossubréfið 1:16 segir um Jesú að ‚í honum [„fyrir hans atbeina,“ Today’s English Version] hafi allt verið skapað í himnunum og á jörðinni.‘ Það samræmist fullkomlega því að hann hafi verið „verkstýra“ Guðs.

Alvaldur Guð lét því þennan verkstjóra vinna með sér að sköpun alls annars. Biblían orðar það þannig stutt og hnitmiðað: „Vér [höfum] ekki nema einn Guð, föðurinn, sem allir hlutir eru frá . . . og einn Drottin, Jesú Krist, sem allir hlutir eru til orðnir fyrir. [þ.e. fyrir hans atbeina]“ (Leturbreyting okkar.) — 1. Korintubréf 8:6.

Vafalaust var það þessi „verkstýra“ sem Guð sagði við: „Vér viljum gjöra manninn eftir vorri mynd.“ (1. Mósebók 1:26) Sumir hafa fullyrt að fornöfnin „vér“ og „vorri“ í þessari ritningargrein vísi til þrenningar. En ef einhver maður segir: ‚Við skulum gera eitthvað handa okkur,‘ þá myndi enginn undir eðlilegum kringumstæðum skilja það svo að nokkrar persónur væru sameinaðar í eitt hið innra með honum. Það yrði einfaldlega skilið þannig að tveir eða fleiri einstaklingar ætluðu að vinna saman að því að gera eitthvað. Þegar Guð notaði fornöfnin „vér“ og „vorri“ var hann einfaldlega að ávarpa annan einstakling, fyrstu, andlegu sköpunarveru sína, ‚verkstýruna,‘ Jesú á þáverandi tilveruskeiði sínu.

Er hægt að freista Guðs?

Í Matteusi 4:1 er sagt frá því að Jesú hafi verið „freistað af djöflinum.“ Eftir að Satan hafði sýnt Jesú ‚öll ríki heims og dýrð þeirra‘ sagði hann: „Allt þetta mun ég gefa þér, ef þú fellur fram og tilbiður mig.“ (Matteus 4:8, 9) Satan var að reyna að fá Jesú til að sýna Guði óhollustu.

En hvaða prófraun á hollustu Jesú gat þetta verið ef Jesús var Guð? Gat Guð gert uppreisn gegn sjálfum sér? Nei, en hins vegar gátu englar og menn gert uppreisn gegn Guði og gerðu það. Freisting Jesú gat einungis haft einhverja merkingu ef hann var, ekki Guð, heldur sjálfstæður eintaklingur með sinn eigin, frjálsa vilja, einstaklingur sem gat brugðið trúnaði við Guð ef hann kaus að gera það, líkt og engill eða maður.

Á hinn bóginn er óhugsandi að Guð gæti syndgað og verið sjálfum sér ótrúr. „Fullkomin eru verk hans . . . trúfastur Guð . . . réttlátur og réttvís er hann.“ (5. Mósebók 32:4) Ef Jesús hefði verið Guð hefði ekki verið hægt að freista hans. — Jakobsbréfið 1:13.

En úr því að Jesús var ekki Guð gat hann kosið að vera ótrúr Guði. Hann sýndi honum þó trúfesti og sagði: „Vík brott, Satan! Ritað er: ‚[Jehóva], Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum.‘“ — Matteus 4:10.

Hve hátt var lausnargjaldið?

Ein mikilvægasta ástæðan fyrir komu Jesú til jarðar mælir einnig gegn þrenningarkenningunni. Biblían segir: „Einn er Guð. Einn er og meðalgangarinn milli Guðs og manna, maðurinn Kristur Jesús, sem gaf sig sjálfan til lausnargjalds fyrir alla.“ — 1. Tímóteusarbréf 2:5, 6.

Jesús var fullkominn maður, hvorki meira né minna, og varð því lausnargjald sem bætti upp nákvæmlega það sem Adam hafði glatað — réttinn til að lifa sem fullkominn maður á jörðinni. Því gat Páll postuli með réttu kallað Jesú „hinn síðari Adam“ og haldið áfram í því samhengi: „Eins og allir deyja fyrir samband sitt við Adam, svo munu allir lífgaðir verða fyrir samfélag sitt við Krist.“ (1. Korintubréf 15:22, 45) Hið fullkomna mannslíf Jesú var nákvæmlega rétt ‚lausnargjald‘ sem réttlæti Guðs krafðist — hvorki hærra né lægra. Það er ein af frumreglum réttarfars, jafnvel manna á meðal, að það gjald, sem greitt er, skuli samsvara því ranga sem framið er.

Ef Jesús hefði verið hluti guðdómsins hefði lausnargjaldið verið óendanlega hærra en lög Guðs kröfðust. (2. Mósebók 21:23-25; 3. Mósebók 24:19-21) Það var aðeins fullkominn maður, Adam, sem syndgaði í Eden, ekki Guð. Til að lausnargjaldið samsvaraði nákvæmlega réttlæti Guðs varð það að vera nákvæmlega jafngildi þess sem fyrirfórst — fullkominn maður, „hinn síðari Adam.“ Þegar Guð sendi Jesú til jarðar sem lausnargjald gerði hann Jesú að því sem myndi fullnægja réttlætinu, ekki holdgaðri andaveru, ekki Guði í mannsmynd heldur fullkomnum manni, „englunum lægri.“ (Hebreabréfið 2:9; samanber Sálm 8:6, 7.) Hvernig gat einhver hluti alvalds guðdóms — faðir, sonur eða heilagur andi — nokkru sinni orðið englunum lægri?

Hvernig var hann ‚eingetinn sonur‘?

Biblían kallar Jesú ‚eingetinn‘ son Guðs. (Jóhannes 1:14; 3:16, 18; 1. Jóhannesarbréf 4:9) Fylgismenn þrenningarkenningarinnar segja að sonur Guðs sé eilífur úr því að Guð er eilífur. En hvernig getur sonur verið jafngamall föður sínum?

Í íslensku biblíunni frá 1981 er reynt að skýra það með þessum hætti: „Gríska orðið monogenes þýðir ‚eini sonur‘, ‚einkasonur‘, . . . Með þessu orði er Jóhannes að segja, að Kristur er einn fæddur af Guði föður frá upphafi, eins og orð fæðist af huga. Allt annað er skapað af Guði, hann einn fæddur frá eilífð, þess vegna eitt með Guði sjálfum.“ (Neðanmálsathugasemd við Jóhannes 3:16.) Finnst þér þetta rökrétt skýring? Er hægt að vera fæddur sem sonur einhvers en þó vera eilífur og án upphafs?

Og hvers vegna skyldi Biblían nota nákvæmlega sama gríska orðið til að lýsa sambandi Ísaks og Abrahams? Hebreabréfið 11:17 talar um Ísak sem ‚einkason.‘ Hér er að sjálfsögðu átt við það að Ísak hafi verið einasti getinn sonur Abrahams í venjulegum skilningi, ekki að hann hafi verið jafngamall föður sínum eða haft sömu stöðu og hann.

Gríska orðið monogenes, sem þýtt er „eingetinn“ eða ‚einkasonur‘ og notað um Jesú og Ísak, er myndað af monos, sem merkir „einasti“ eða „eini,“ og ginomai, orðstofni sem merkir „að framleiða,“ „að geta af sér (verða til),“ að því er Exhaustive Concordance eftir Strong segir. Monogenes er því skilgreint þannig: „Einasti fæddi, einasti getinn, þ.e. einkabarn.“ — A Greek and English Lexicon of the New Testament eftir E. Robinson.

Theological Dictionary of the New Testament, í ritstjórn Gerhards Kittels, segir: „[Monogenes] merkir ‚eini afkomandi,‘ þ.e. án systkina.“ Orðabókin segir enn fremur að í Jóhannesi 1:18; 3:16, 18 og 1. Jóhannesarbréfi 4:9 sé „ekki aðeins verið að líkja sambandi Jesú við samband einkabarns við föður sinn. Það er samband hins eingetna við föður sinn.“

Líf Jesú, hins eingetna sonar, á sér því upphaf. Og réttilega má kalla alvaldan Guð föður hans, þann sem gaf honum líf, í sama skilningi og jarðneskur faðir, svo sem Abraham, gefur syni líf. (Hebreabréfið 11:17) Þegar Biblían talar um Guð sem „föður“ Jesú meinar hún það sem hún segir — að þeir séu tvær aðskildar persónur. Guð er eldri persónan, Jesús hin yngri — og settur undir Guð hvað varðar stöðu, vald og kunnáttu.

Þegar á það er litið að Jesús var ekki eini andasonur Guðs sem var skapaður á himnum, er auðskilið hvað felst í því að hann skuli vera kallaður „eingetinn“ sonur. Óteljandi aðrar, andlegar sköpunarverur, englar, eru einnig kallaðar „guðssynir“ í sama skilningi og Adam var kallaður ‚sonur Guðs,‘ það er að segja að lífskraftur þeirra var kominn frá Jehóva, honum sem er uppspretta alls lífs. (Jobsbók 38:7; Sálmur 36:10; Lúkas 3:38) En þessir synir voru allir skapaðir fyrir atbeina hins ‚eingetna sonar,‘ þess eina sem Guð skapaði beint. — Kólossubréfið 1:15-17.

Var Jesús álitinn Guð?

Jesús er oft kallaður „sonur Guðs“ í Biblíunni en engum á fyrstu öldinni datt samt í hug að líta á hann sem Guð soninn. Jafnvel illu andarnir, sem ‚trúa að Guð sé einn,‘ vissu frá reynslu sinni á hinum andlega vettvangi að Jesús var ekki Guð. Því ávörpuðu þeir Jesú réttilega sem ‚son Guðs.‘ (Jakobsbréfið 2:19; Matteus 8:29) Þegar Jesús dó vissu hinir heiðnu rómversku hermenn, sem stóðu þar hjá, nóg til að staðfesta það sem þeir höfðu heyrt fylgjendur hans segja — ekki að Jesús væri Guð heldur að hann væri „sannarlega . . . sonur Guðs.“ — Matteus 27:54.

Orðin „sonur Guðs“ lýsa því Jesú sem sjálfstæðri sköpunarveru, ekki hluta af þríeinum guðdómi. Sem sonur Guðs gat hann ekki verið Guð sjálfur því að Jóhannes 1:18 segir: „Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð.“

Lærisveinarnir litu á Jesú sem ‚hinn eina meðalgangara milli Guðs og manna,‘ en ekki sem Guð sjálfan. (1. Tímóteusarbréf 2:5) Meðalgangari er samkvæmt skilgreiningu einhver þriðji aðili sem hefur milligöngu milli þeirra sem þarfnast þjónustu hans. Það væri mótsögn að kalla hann það ef hann væri einn og hinn sami og annar aðilinn sem hann þjónar. Þá væri hann að sigla undir fölsku flaggi.

Biblían er skýr og sjálfri sér samkvæm að því er varðar samband Guðs við Jesú. Jehóva Guð einn er hinn alvaldi. Hann skapaði Jesú beint sem andaveru á himnum. Jesús á sér því upphaf og getur aldrei verið jafn Guði að mætti eða eilífð.

[Neðanmáls]

^ gr. 7 Nafn Guðs er stafsett „Jahve“ í sumum þýðingum Biblíunnar en „Jehóva“ í öðrum. Hér eftir verður það í þessu riti sett innan hornklofa inn í texta íslensku biblíunnar þar sem það á að standa samkvæmt frummálunum.

[Rammi á blaðsíðu 14]

Með því að Jesús er skapaður af Guði er hann honum yngri og stendur honum að baki í mætti og þekkingu.

[Mynd á blaðsíðu 15]

Jesús sagðist hafa verið til áður en hann varð maður, og hefði verið skapaður af Guði sem hið fyrsta ósýnilega sköpunarverk hans.