Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað um „sönnunartexta“ þrenningartrúarmanna?

Hvað um „sönnunartexta“ þrenningartrúarmanna?

Hvað um „sönnunartexta“ þrenningartrúarmanna?

ÞVÍ ER haldið fram að sumar ritningargreinar styðji eða færi sönnur á tilvist þrenningar. Þegar slíkar ritningargreinar eru lesnar er samt sem áður nauðsynlegt að hafa hugfast að hvorki Biblían né mannkynssagan styðja þrenninguna sem kristna kenningu.

Af nauðsyn verðum við að skilja alla þá ritningarstaði, sem bent er á til sönnunar þrenningunni, í samhengi við hina heilsteyptu kenningu allrar Biblíunnar. Mjög oft skýrist merking slíkra ritningarstaða af samhenginu sem þeir standa í.

Þrír í einum

FRÆÐIBÓKIN New Catholic Encyclopedia tilgreinir þrjá slíka „sönnunartexta“ en viðurkennir um leið: „Kenningin um heilaga þrenningu er ekki kennd í Gamlatestamentinu. Í Nýjatestamentinu er elsta vitnisburðinn að finna í pistlum Páls, einkanlega 2. Kor. 13:13 [vers 14 í sumum biblíum], og 1. Kor. 12:4-6. Í guðspjöllunum er þrenninguna hvergi greinilega að finna nema í trúarsetningu skírnarinnar í Matt. 28:19.“

Í þessum versum eru „persónurnar“ þrjár nefndar með eftirfarandi hætti í Biblíunni: Síðara Korintubréf 13:13 segir: „Náðin Drottins Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum.“ Fyrra Korintubréf 12:4-6 segir: „Mismunur er á náðargáfum, en andinn er hinn sami, mismunur er á embættum, en Drottinn hinn sami, og mismunur er á hæfileikum að framkvæma, en Guð hinn sami, sem öllu kemur til leiðar í öllum.“ Og Matteus 28:19 hljóðar svo: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda.“

Segja þessi vers að Guð, Kristur og heilagur andi myndi þríeinan guðdóm og að þeir séu allir jafnir að eðli, mætti og eilífð? Nei, það gera þau ekki, ekkert frekar en það að nefna þrjá menn, svo sem Gísla, Eirík og Helga, í sömu andránni merkir að þeir séu þrír í einum.

Cyclopedia of Biblical, Theological, and Ecclesiastical Literature eftir McClintock og Strong viðurkennir að tilvitnanir af þessu tagi „sanni aðeins að nefnd eru þrjú frumlög . . . en það sannar ekki í sjálfu sér að öll þrjú þurfi að vera gædd sama guðseðlinu og sömu hátign Guðs.“

Þótt þetta fræðirit aðhyllist þrenningarkenninguna segir það um 2. Korintubréf 13:13: „Við getum ekki réttilega ályktað af því að þeir ráði yfir sama valdi eða séu sama eðlis.“ Og um Matteus 28:18-20 segir það: „Einn sér sannar þessi ritningartexti þó ekki ótvírætt að frumlögin þrjú séu persónur, séu jöfn eða guðleg.“

Í frásögninni af skírn Jesú er minnst bæði á Guð, Jesú og heilagan anda í sama versinu. Jesús „sá anda Guðs stíga niður eins og dúfu og koma yfir sig.“ (Matteus 3:16) En það þýðir ekki að þeir þrír séu eitt. Abraham, Ísak og Jakob eru nefndir margsinnis saman í sömu versunum en það gerir þá ekki að einni persónu. Pétur, Jakob og Jóhannes eru einnig nefndir saman en það gerir þá ekki að einni persónu heldur. Auk þess kom andi Guðs yfir Jesú við skírn hans, sem sýnir að hann var ekki smurður með andanum fyrr en þá. Hvernig gat hann þá verið hluti af þrenningu þar sem hann á sem slíkur alltaf að hafa verið eitt með heilögum anda?

Í sumum gömlum þýðingum Biblíunnar eru faðirinn, sonurinn og heilagur andi nefndir saman í 1. Jóhannesarbréfi 5:7. Fræðimenn viðurkenna hins vegar að þessi orð hafi ekki tilheyrt Biblíunni frá fyrstu tíð heldur verið bætt inn löngu síðar. Flestar nútímaþýðingar sleppa því þessu falsaða versi.

Aðrir „sönnunartextar“ fjalla aðeins um samband tveggja — föðurins og Jesú. Við skulum skoða nokkra þeirra nánar.

„Ég og faðirinn erum eitt“

OFT er vitnað í þessi orð, sem standa í Jóhannesi 10:30, til stuðnings þrenningarkenningunni, jafnvel þótt þriðju persónunnar sé ekki getið þar. En Jesús tók af öll tvímæli um það sjálfur hvað hann átti við er hann sagðist vera „eitt“ með föðurnum. Í Jóhannesi 17:21, 22 bað hann til Guðs fyrir lærisveinum sínum: „Að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur, . . . svo að þeir séu eitt, eins og við erum eitt.“ Var Jesús að biðja þess að lærisveinar hans yrðu ein persóna? Nei, hann átti auðvitað við það að lærisveinar hans mættu vera sameinaðir í hugsun og tilgangi, líkt og hann og Guð. — Sjá einnig 1. Korintubréf 1:10.

Í 1. Korintubréfi 3:6, 8 segir Páll: „Ég gróðursetti, Apollós vökvaði . . . Sá, sem gróðursetur, og sá, sem vökvar, eru eitt.“ Páll átti ekki við það að hann og Apollós væru tvær persónur í einni; hann átti við að þeir væru sameinaðir í sama tilgangi. Gríska töluorðið hen, sem Páll notar hér og þýtt er „eitt,“ stendur í hvorugkyni og gefur til kynna einingu í verki eða samstarfi, ekki persónu. Jesús notar þetta sama orð í Jóhannesi 10:30 til að lýsa sambandi sínu við föðurinn. Og í Jóhannesi 17:21, 22 notar Jesús einnig þetta orð. Þegar hann því notar orðið „eitt“ (hen) í þessum tilvikum er hann að tala um einingu í hugsun og tilgangi.

Jóhannes Kalvin (sem var þrenningartrúarmaður) sagði um Jóhannes 10:30 í skýringarriti við Jóhannesarguðspjall: „Fornmenn notuðu þessa ritningargrein ranglega til að sanna að Kristur væri . . . af sömu veru og faðirinn. Því að Kristur talar hér ekki um einingu verunnar heldur samstilling sína við föðurinn.“

Í versunum strax á eftir Jóhannesi 10:30 vakti Jesús mjög greinilega athygli á því að hann væri ekki með þessum orðum að halda því fram að hann væri Guð. Hann spurði Gyðingana sem ranglega drógu þá ályktun og vildu grýta hann: „Segið þér þá við mig, sem faðirinn helgaði og sendi í heiminn, að ég guðlasti, af því ég sagði: ‚Ég er sonur Guðs‘?“ (Jóhannes 10:31-36) Jesús staðhæfði ekki að hann væri Guð eða Guð sonurinn, heldur sonur Guðs.

‚Gjörði sjálfan sig Guði jafnan‘?

JÓHANNES 5:18 er annar ritningarstaður sem slegið er fram til stuðnings þrenningunni. Þar segir frá því að Gyðingarnir (líkt og í Jóhannesi 10:31-36) hafi viljað drepa Jesú vegna þess að hann „kallaði líka Guð sinn eigin föður og gjörði sjálfan sig þannig Guði jafnan.“

En hver sagði að Jesús gerði sig Guði jafnan? Ekki var það Jesús. Hann hrakti þessa röngu ákæru strax í næsta versi (19): „Þessu svaraði Jesús . . . ‚Ekkert getur sonurinn gjört af sjálfum sér, nema það sem hann sér föðurinn gjöra.‘“

Með þessum orðum lét Jesús Gyðingana vita að hann væri ekki jafn Guði og gæti því ekkert gert af eigin rammleik. Getum við ímyndað okkur nokkurn þann, sem er jafnalvaldur Guði, segjast ‚ekkert geta gert af sjálfum sér‘? (Samanber Daníel 4:34, 35.) Athyglisvert er að í báðum þessum tilvikum, í Jóhannesi 5:18 og 10:30, bar Jesús af sér rangar ásakanir Gyðinga sem, eins og þrenningartrúarmenn, drógu rangar ályktanir!

„Jafn Guði“?

Í FILIPPÍBRÉFINU 2:6 segir íslenska biblían frá 1912 um Jesú: „Hann áleit það ekki rán að vera jafn Guði, þótt hann væri í Guðs mynd.“ Sumar erlendar þýðingar, svo sem hin kunna King James Version frá 1611, orða versið mjög svipað. Margir nota þetta vers enn til að rökstyðja þá hugmynd að Jesús hafi verið jafn Guði. En taktu eftir hvernig versið er orðað í nokkrum öðrum þýðingum:

1869: „Þótt hann væri í Guðs mynd hvarflaði ekki að honum að hrifsa til sín jafnræði við Guð.“ The New Testament í þýðingu G. R. Noyes.

1965: „Hann — sem var sannarlega guðlegur að eðli — gerði sig aldrei fullur sjálfstrausts jafnan Guði.“ Das Neue Testament, endurskoðuð útgáfa í þýðingu Friedrichs Pfäfflins.

1968: „Þótt hann væri í Guðs mynd hugleiddi hann það ekki að gera sig með græðgi Guði jafnan.“ La Bibbia Concordata.

1976: „Hann hafði alltaf verið sama eðlis og Guð en áleit ekki að hann ætti með valdi að reyna að gera sig Guði jafnan.“ Today’s English Version.

1984: „Þótt hann væri í Guðs mynd hvarflaði rán ekki að honum, það er að hann skyldi vera jafn Guði.“ New World Translation of the Holy Scriptures.

1985: „Þótt hann væri í Guðs mynd taldi hann ekki að hann mætti hrifsa til sín jafnræði við Guð.“ The New Jerusalem Bible.

Sumir staðhæfa þó að jafnvel þessar tiltölulega nákvæmu þýðingar gefi í skyn að (1) Jesús hafi þegar verið jafn Guði en ekki viljað standa fast á rétti sínum eða að (2) hann hafi ekki þurft að sölsa undir sig jafnræði vegna þess að hann hafi haft það fyrir.

Með vísan til þess sem stendur í gríska frumtextanum segir Ralph Martin í The Epistle of Paul to the Philippians: „Það er þó umdeilanlegt hvort merking sagnarinnar getur færst frá hinni eiginlegu merkingu, ‚að hrifsa, hrífa með valdi,‘ til ‚að halda fast í.‘“ The Expositor’s Greek Testament segir einnig: „Engar ritningargreinar finnast þar sem ἁρπάζω [harpazo] eða nokkur afleidd orð hafa merkinguna ‚að eiga,‘ ‚að hafa yfir að ráða.‘ Það virðist ófrávíkjanlega merkja ‚að hrifsa, hrífa með valdi.‘ Því er ekki leyfilegt að víkja frá hinni eiginlegu merkingu ‚hrifsa‘ yfir í allt aðra merkingu, ‚að halda fast í.‘“

Af þessu er ljóst að þýðendur íslensku biblíunnar og ýmissa annarra þýðinga sniðganga málfræðireglur til að styðja málstað þrenningarsinna. Grískur texti Filippíbréfsins 2:6 segir alls ekki að Jesús hafi talið það vel við hæfi að vera jafn Guði, heldur sýnir hann hið gagnstæða, að Jesús hafi ekki talið það við hæfi.

Versin á undan og eftir (Fil 2:3-5, 7, 8) sýna ljóslega hvernig ber að skilja Fil 2:6. versið. Páll hvatti Filippímenn: „Verið lítillátir og metið aðra meira en sjálfa yður.“ Því næst benti hann á Krist sem besta fordæmið um þetta hugarfar: „Verið með sama hugarfari sem Jesús Kristur var.“ Hvaða „hugarfari“? Því að það væri „ekki rán að vera jafn Guði“? Nei, það væri í algerri mótsögn við það sem Páll var að leggja áherslu á! Jesú, sem ‚áleit Guð betri en sjálfan sig,‘ datt aldrei í hug ‚að fremja rán til að verða jafn Guði‘ heldur ‚lægði hann sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða.‘

Að sjálfsögðu er hér ekki verið að tala um einhvern hluta af alvöldum Guði. Það er verið að tala um Jesú Krist, hið fullkomna fordæmi þess sem Páll vildi leggja áherslu á — það er að segja mikilvægi auðmýktar og hlýðni við hinn háa og mikla skapara, Jehóva Guð.

‚Ég er‘

Í JÓHANNESI 8:58 sagði Jesús samkvæmt orðalagi íslensku biblíunnar frá 1981: „Áður en Abraham fæddist, er ég.“ Var Jesús að segja, eins og þrenningartrúarmenn vilja vera láta, að hann væri þekktur undir titlinum „ég er“? Og merkja orð hans, eins og þeir staðhæfa, að hann sé Jehóva Hebresku ritninganna samanber það að íslenska biblían segir í 2. Mósebók 3:14: „Þá sagði Guð við Móse: „Ég er sá, sem ég er‘“?

Í 2. Mósebók 3:14 eru orðin „ég er“ notuð sem nafn eða titill Guðs til að gefa til kynna að hann sé í raun til og ætli að gera það sem hann hefur heitið. The Pentateuch and Haftorahs, í ritstjórn dr. J. H. Hertz, segja um þetta orðalag: „Fyrir Ísraelsmenn í ánauðinni var merkingin þessi: ‚Þótt hann hafi enn ekki sýnt ykkur mátt sinn mun hann gera það; hann er eilífur og mun örugglega frelsa ykkur.‘ Flestar nútímaþýðingar fylgja Rashi [franskur biblíu- og Talmúdskýrandi] og þýða [2. Mósebók 3:14]: „‚Ég mun vera það sem ég mun vera.‘“

Orðalagið í Jóhannesi 8:58 er gerólíkt 2. Mósebók 3:14. Jesús notar þessi orð ekki sem nafn eða titil heldur til að skýra að hann hafi verið til áður en hann varð maður. Þess vegna er Jóhannes 8:58 orðað þannig í ýmsum biblíuþýðingum:

1859: „Áður en Abraham var til, var eg.“ Íslenska biblían 1859.

1869: „Áður en Abraham var, hef ég verið.“ The New Testament eftir G. R. Noyes.

1935: „Ég var til áður en Abraham fæddist!“ The Bible — An American Translation eftir J. M. P. Smith og E. J. Goodspeed.

1965: „Áður en Abraham fæddist var ég sá sem ég er.“ Das Neue Testament eftir Jörg Zink.

1981: „Ég var á lífi áður en Abraham fæddist!“ The Simple English Bible.

1984: „Áður en Abraham varð til, hef ég verið.“ New World Translation of the Holy Scriptures.

Hið eina sem gríski textinn segir er að „frumburður“ Guðs, Jesús, hafi verið til löngu áður en Abraham fæddist. — Kólossubréfið 1:15; Orðskviðirnir 8:22, 23, 30; Opinberunarbókin 3:14.

Sem fyrr má lesa út úr samhenginu hvernig ber að skilja versið. Gyðingar vildu grýta Jesú fyrir það að hann sagðist hafa „séð Abraham“ þótt hann væri, eins og þeir sögðu, ekki enn orðinn fimmtugur. (Vers 57) Það voru eðlileg viðbrögð hjá Jesú að segja þeim sannleikann um aldur sinn. Hann sagði þeim því að hann hefði verið „á lífi áður en Abraham fæddist.“ — The Simple English Bible.

„Orðið var Guð“

JÓHANNES 1:1 hljóðar svo samkvæmt íslensku biblíunni frá 1981: „Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð.“ Þrenningartrúarmenn halda því fram að þetta merki að „Orðið“ (á grísku ho logos), er kom til jarðar sem Jesús Kristur, hafi verið alvaldur Guð sjálfur.

En veittu því athygli að enn sem fyrr má skilja orðin rétt af samhenginu. Jafnvel íslenska biblían segir: „Orðið var hjá Guði.“ (Leturbreyting okkar.) Sá sem er „hjá“ öðrum getur ekki verið sama persóna og hann. Í tímaritinu Journal of Biblical Literature, í ritstjórn jesúítans Josephs A. Fitzmyers, er bent á að sé síðari hluti Jóhannesar 1:1 túlkaður svo að átt sé við Guð sjálfan, sé það „í mótsögn við setninguna á undan“ sem segir að Orðið hafi verið hjá Guði.

Þessi hluti versins er orðaður þannig í ýmsum þýðingum:

1808: „og orðið var guð.“ The New Testament in an Improved Version, Upon the Basis of Archbishop Newcome’s New Translation: With a Corrected Text.

1864: „og guð var orðið.“ The Emphatic Diaglott, millilínaþýðing eftir Benjamin Wilson.

1928: „og Orðið var guðleg vera.“ La Bible du Centenaire, L’Evangile selon Jean, eftir Maurice Goguel.

1935: „og Orðið var guðlegt.“ The Bible — An American Translation eftir J. M. P. Smith og E. J. Goodspeed.

1946: „og Orðið var guðlegrar tegundar.“ Das Neue Testament eftir Ludwig Thimme.

1950: „og Orðið var guð.“ New World Translation of the Christian Greek Scriptures.

1958: „og Orðið var Guð.“ The New Testament, eftir James L. Tomanek.

1975: „og guð (eða af guðlegu tagi) var Orðið.“ Das Evangelium nach Johannes eftir Siegfried Schulz.

1978: „og Logos var af guðlegri tegund.“ Das Evangelium nach Johannes eftir Johannes Schneider.

Í Jóhannesi 1:1 kemur gríska nafnorðið þeos (guð) tvívegis fyrir. Í fyrra sinnið er átt við alvaldan Guð sem Orðið var hjá („og Orðið [logos] var hjá Guði [þeon, beygingarmynd af þeos]“). Fyrir framan þeos stendur orðið ton, en það er ein mynd ákveðna greinisins ho sem vísar til ákveðins, tiltekins aðila, í þessu tilviki hins alvalda Guðs („og Orðið var hjá Guði[num]“).

Á hinn bóginn stendur enginn greinir með þeos þar sem það kemur fyrir öðru sinni í Jóhannesi 1:1. Bókstafleg þýðing hljóðar því svo: „Og guð var Orðið.“ Eins og dæmin hér á undan sýna er þó algengt að þýða hið síðara þeos (sem er sagnfylling) sem „guðlegt.“ Hvað heimilar þýðendunum það?

Í koine-grísku var notaður ákveðinn greinir (ho) en óákveðinn greinir var ekki til. Þegar nafnorð stendur sem sagnfylling án ákveðins greinis getur það verið óákveðið ef samhengið leyfir.

Tímaritið Journal of Biblical Literature segir að sögn „með greinislausri sagnfyllingu, sem stendur á undan sögninni, lýsi fyrst og fremst eiginleikum“ frumlagsins. Þetta gefur til kynna, segir tímaritið, að líkja megi logos við guð. Þar segir enn fremur um Jóhannes 1:1 að „einkennisáhersla sagnfyllingarinnar sé svo yfirgnæfandi að ekki sé hægt að líta á nafnorðið [þeos] sem ákveðið.“

Jóhannes 1:1 leggur þannig áherslu á eiginleika Orðsins, það er að segja að það hafi verið „guðlegt,“ „guðlegrar tegundar“ eða „guð“ en ekki alvaldur Guð. Það kemur heim og saman við Biblíuna í heild sem sýnir okkur að Jesús, sem hér er kallaður „Orðið“ í hlutverki sínu sem talsmaður Guðs, var hlýðinn þjónn sem hinn æðri, alvaldur Guð, sendi til jarðar.

Á mörgum nútímamálum er óákveðinn greinir mikið notaður og eru í Biblíunni fjölmörg vers þar sem nánast allir þýðendur, er þýða á þau mál, skjóta inn óákveðnum greini er þeir þýða setningar sem hafa líka orðaskipan á grísku og Jóhannes 1:1. Sem dæmi má nefna Markús 6:49 þar sem segir frá því að lærisveinar Jesú hafi séð hann ganga á vatninu: „Hugðu þeir, að þar færi vofa.“ Enginn óákveðinn greinir stendur með orðinu „vofa“ í gríska textanum frekar en á íslensku. Þeir sem þýða hann á mál, sem nota óákveðinn greini, skjóta honum nánast alltaf inn til að þýðingin hafi tilætlaða merkingu. Eins er það með Jóhannes 1:1. Þar stendur að Orðið hafi verið „hjá“ Guði og því getur það ekki verið „Guð“ alvaldur heldur „guð“ í merkingunni guðleg vera eða með guðlega stöðu.

Joseph Henry Thayer, guðfræðingur og fræðimaður sem vann við þýðingu American Standard Version, sagði blátt áfram: „Logos var guðlegt, ekki Guð sjálfur.“ Og jesúítinn John L. McKenzie sagði í ritverki sínu Dictionary of the Bible:Jóh. 1:1 ætti ófrávíkjanlega að þýða . . . ‚orðið var guðleg vera.‘“

Er brotin regla?

SUMIR staðhæfa að með þessari þýðingu textans sé verið að brjóta eina af málfræðireglum koine-grískunnar. Eru þeir þá að vísa til reglu sem grískufræðingurinn E. C. Colwell setti fram árið 1933. Hann staðhæfði að nafnorð sem sagnfylling „taki [ákveðinn] greini þegar það fylgir sögninni; það hefur ekki [ákveðinn] greini þegar það stendur á undan sögninni.“ Með því átti hann við að standi nafnorð á undan sögninni sem sagnfylling skuli það skilið eins og það hefði ákveðinn greini þótt hann standi ekki í textanum. Í Jóhannesi 1:1 stendur síðara nafnorðið (þeos), sagnfyllingin, á undan sögninni — „og [þeos] var orðið.“ Colwell staðhæfði því að þýða bæri þennan hluti Jóhannesar 1:1: „Og Guð[inn] var Orðið.“

En skoðum aðeins tvö dæmi sem er að finna í Jóhannesi 8:44. Þar segir Jesús um djöfulinn: „Hann var manndrápari“ og „hann er lygari.“ Í gríska textanum stendur sagnfyllingin („manndrápari“ og „lygari“) í báðum tilvikum á undan sögninni („var“ og „er“) líkt og í Jóhannesi 1:1. Í koine-grísku er ekki til óákveðinn greinir og nafnorðin tvö standa því greinislaus. Flestir þýðendur skjóta þó inn óákveðnum greini með þeim, ef hann er notaður á því máli sem þeir þýða á, vegna þess að málfræði og samhengi kalla á það. — Sjá einnig Markús 11:32; Jóhannes 4:19; 6:70; 9:17; 10:1; 12:6.

Colwell varð að viðurkenna að það gæti verið nauðsynlegt þegar nafnorð stendur sem sagnfylling. Hann sagði: „Það er óákveðið í þessari orðskipan aðeins þegar samhengið kallar á það.“ Þannig viðurkennir hann að þýðandi megi skjóta inn óákveðnum greini fyrir framan nafnorð sem er þannig staðsett, ef samhengið og tungumálið, sem hann þýðir á, kalla á það.

Kallar samhengið á að hið síðara þeos í Jóhannesi 1:1 sé óákveðið? Já, því að vitnisburður Biblíunnar er allur á þá lund að Jesús sé ekki alvaldur Guð. Því ætti samhengið að ráða orðavali þýðandans í slíkum tilvikum, ekki hin vafasama málfræðiregla Colwells. Hinar mörgu biblíuþýðingar, sem skjóta inn óákveðnum greini í Jóhannes 1:1 og víðar, bera því vitni að fjölmargir fræðimenn eru ósammála málfræðireglu Colwells og það er orð Guðs einnig.

Stríðir ekki gegn kenningu Biblíunnar

NÚ KENNIR Biblían að einungis einn Guð sé til. Stríðir það þá ekki gegn henni að segja að Jesús Kristur sé „guð“? Nei, því að Biblían notar stundum orðið „guð“ til að lýsa voldugum sköpunarverum. Sálmur 8:5 hljóðar svo samkvæmt New World Translation (vers 6 í íslensku biblíunni): „Þú gerðir hann [manninn] litlu lægri en hina guðlegu [á hebresku elohim],“ það er að segja englana. Er Jesús bar af sér þá ásökun Gyðinga að hann segðist vera Guð, benti hann á að ‚lögmálið nefndi þá guði sem Guðs orð kom til,‘ það er að segja mennska dómara. (Jóhannes 10:34, 35; Sálmur 82:1-6) Jafnvel Satan er kallaður „guð þessarar aldar“ í 2. Korintubréfi 4:4.

Jesús stendur englum, ófullkomnum mönnum og Satan langtum ofar. Úr því að þeir eru kallaðir ‚guðir‘ eða voldugar verur, þá hlýtur að mega kalla Jesú „guð.“ Vegna sinnar einstöku stöðu gagnvart Jehóva er Jesús „Guðhetja“ eða „hinn máttugi sterki guð.“ — Jóhannes 1:1; Jesaja 9:6, ísl. bi. 1981; Jesaja 9:5, ísl. bi. 1859.

En gefur ekki nafngiftin „Guðhetja,“ skrifuð með stórum staf, til kynna að Jesús sé að einhverju leyti jafn Jehóva Guði? Alls ekki. Jesaja spáði einfaldlega að þetta yrði eitt af fjórum nöfnum sem Jesús yrði nefndur, og á íslensku eru slík nöfn oft skrifuð með stórum staf. Jafnvel þótt því sé lýst hér yfir að Jesús sé máttugur getur aðeins einn verið „almáttugur.“ Það hefði litla merkingu að kalla Jehóva Guð „almáttugan“ nema fleiri væru nefndir guðir en honum óæðri.

Samkvæmt Bulletin frá John Rylands-bókasafninu bendir kaþólski guðfræðingurinn Karl Rahner á að víst sé þeos notað í ritningarstöðum svo sem Jóhannesi 1:1 um Krist, en „í engu slíku tilviki sé ‚þeos‘ notað með þeim hætti að það leggi Jesú að jöfnu við hann sem annars staðar í Nýjatestamentinu er nefndur ‚ho Þeos‘ það er Hinn hæsti Guð.“ Og Bulletin bætir við: „Ef ritarar Nýjatestamentisins álitu mikilvægt að hinir trúuðu viðurkenndu Jesú sem ‚Guð,‘ hvernig er þá hægt að skýra það að þetta játningarform skuli vanta nánast algerlega í Nýjatestamentið?“

En hvað um upphrópun Tómasar postula í Jóhannesi 20:28 þar sem hann ávarpar Jesú: „Drottinn minn og Guð minn“? Gagnvart Tómasi var Jesús eins og „guð,“ ekki síst við þær undraverðu aðstæður sem voru kveikjan að upphrópun hans. Sumir fræðimenn telja að Tómas hafi einfaldlega, í augnabliksgeðshræringu og undrun, talað til Jesú en beint orðum sínum til Guðs. Hvort sem það er rétt eða ekki getur Tómas ekki hafa álitið að Jesús væri alvaldur Guð, því að hann og allir hinir postularnir vissu að Jesús sagðist aldrei vera Guð heldur kenndi að Jehóva einn væri ‚hinn eini sanni Guð.‘ — Jóhannes 17:3.

Sem fyrr hjálpar samhengið okkur. Nokkrum dögum áður hafði hinn upprisni Jesús sagt Maríu Magdalenu að segja lærisveinunum: „Ég stíg upp til föður míns og föður yðar, til Guðs míns og Guðs yðar.“ (Jóhannes 20:17) Þótt Jesús væri nú upprisinn sem voldug andavera var Jehóva enn Guð hans. Og Jesús hélt áfram að tala um hann sem slíkan, jafnvel í síðustu bók Biblíunnar, eftir að hann var gerður dýrlegur. — Opinberunarbókin 1:5, 6; 3:2, 12.

Aðeins þrem versum eftir upphrópun Tómasar, í Jóhannesi 20:31, skýrir Biblían málið nánar er hún segir: „Þetta er ritað til þess að þér trúið, að Jesús sé Kristur, sonur Guðs,“ ekki að hann sé alvaldur Guð. Og hér er átt við ‚son‘ í bókstaflegri merkingu, ekki dulúðlegan hluta guðlegrar þrenningar.

Verður að samræmast Biblíunni

ÞVÍ er haldið fram að nokkrir aðrir ritningarstaðir styðji þrenningarkenninguna, en þeir eru líkir þeim sem við höfum skoðað að því leyti til að þeir styðja hana alls ekki þegar grannt er skoðað. Þeir undirstrika einungis þá staðreynd að við athugun slíkra ritningargreina, sem sagðar eru styðja þrenningarkenninguna, eigum við alltaf að spyrja: Samræmist túlkunin hinni stefnuföstu kenningu allrar Biblíunnar — þeirri að Jehóva Guð einn sé æðstur? Ef ekki hlýtur túlkunin að vera röng.

Við verðum líka að hafa hugfast að ekki einn einasti „sönnunartexti“ segir að Guð, Jesús og heilagur andi séu sameinaðir í einn, dularfullan guðdóm. Engin einasta ritningargrein í Biblíunni segir að allir þrír séu jafnir að eðli, mætti og eilífð. Biblían er sjálfri sér samkvæm er hún opinberar Jehóva sem hinn eina, alvalda Guð, Jesú sem skapaðan son hans og heilagan anda sem starfskraft Guðs.

[Rammi á blaðsíðu 24]

„Fornmenn notuðu [Jóhannes 10:30] ranglega til að sanna að Kristur væri . . . af sömu veru og faðirinn.“ — Jóhannes Kalvin í skýringarriti við Jóhannesarguðspjall.

[Rammi á blaðsíðu 27]

Sá sem er „hjá“ öðrum getur ekki verið sama persóna og hann.

[Rammi á blaðsíðu 28]

„Logos var guðlegt, ekki Guð sjálfur.“ — Joseph Henry Thayer, biblíufræðingur.

[Myndir á blaðsíðu 24, 25]

Jesús bað til Guðs að lærisveinar hans ‚mættu allir vera eitt‘ líkt og hann og faðirinn ‚væru eitt.‘

[Mynd á blaðsíðu 26]

Jesús sýndi Gyðingum fram á að hann væri ekki jafn Guði er hann sagði að hann ‚gæti ekkert gjört af sjálfum sér nema það sem hann sæi föðurinn gjöra.‘

[Myndir á blaðsíðu 29]

Þar sem Biblían kallar menn, engla og jafnvel Satan ‚guði‘ eða máttugar verur, hlýtur með réttu að mega kalla hinn hátt upphafna Jesú á himnum „guð.“