Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig er þrenningarkenningin skýrð?

Hvernig er þrenningarkenningin skýrð?

Hvernig er þrenningarkenningin skýrð?

Í SPURNINGAKVERI Lúters stendur: „Trúarkenning okkar er í þrem liðum því að við trúum á þríeinan Guð: föðurinn, soninn og heilagan anda. . . . Við köllum Guð þríeinan af því að faðirinn, sonurinn og heilagur andi eru þrír og þó mynda þeir í sameiningu hinn eina og einasta Guð.“ (Luthers Katekismus) Fræðiritið Gads Danske Bibelleksikon bætir við: „Inntaki kenningarinnar hefur verið haldið fram alla sögu kirkjunnar sem kjarna kristinnar trúar.“

Rómversk-kaþólska kirkjan segir: „Þrenningin er það orð sem við notum til að lýsa höfuðkenningu kristinnar trúar . . . með orðum Aþanasíusarjátningarinnar: ‚Þannig er faðirinn Guð, sonurinn Guð og heilagur andi Guð, og samt eru ekki þrír guðir, heldur einn Guð.‘ Í þessari þrenningu . . . eru persónurnar sameilífar og jafnar að stöðu: allar eru þær óskapaðar og almáttugar.“ (The Catholic Encyclopedia) Nálega allar kirkjudeildir kristna heimsins eru sama sinnis.

Hinn þríeini Guð er því skoðaður sem „einn Guð í þrem persónum.“ Hver persóna er sögð vera án upphafs og á að hafa verið til um eilífð. Hver persóna er sögð vera almáttug og engin annarri meiri eða minni.

Er slík rökfærsla torskilin? Mörgu guðræknu fólki hefur þótt hún ruglingsleg og ganga gegn heilbrigðri skynsemi og öllu því sem það þekkir úr reynsluheimi sínum. Það spyr hvernig faðirinn geti verið Guð, Jesús geti verið Guð og heilagur andi geti verið Guð, en þó séu guðirnir ekki þrír heldur aðeins einn.

„Ofvaxin mannlegum skilningi“

Þessi ruglingur er útbreiddur. The Encyclopedia Americana getur þess að þrenningarkenningin sé álitin „ofvaxin mannlegum skilningi.“

Margir sem trúa þrenningarkenningunni líta hana sömu augum. Kaþólskur heiðursklerkur að nafni Eugene Clark segir: „Guð er einn og Guð er þrír. Þar eð ekkert þessu líkt fyrirfinnst í sköpuninni getum við ekki skilið það, aðeins viðurkennt.“ John O’Connor kardínáli segir: „Við vitum að þetta er djúptækur leyndardómur sem við reynum ekki að skilja.“ Og Jóhannes Páll páfi II talar um „hinn órannsakanlega leyndardóm hins þríeina Guðs.“

Fræðiritið A Dictionary of Religious Knowledge segir: „Þrenningarkenningarmenn eru ekki sammála um það sín á meðal nákvæmlega hvernig kenningin sé eða réttara sagt hvernig eigi nákvæmlega að skýra hana.“

Við skiljum því hvers vegna sagt er í New Catholic Encyclopedia: „Þeir eru fáir kennarar þrenningarguðfræði rómversk-kaþólskra prestaskóla sem hafa ekki einhvern tíma verið hrelldir með spurningunni: ‚En hvernig á að prédika þrenninguna?‘ Og ef spurningin er einkennandi fyrir ráðvillu nemendanna er hún kannski ekkert síður einkennandi fyrir sams konar ráðvillu prófessora þeirra.“

Hægt er að sannprófa sannleiksgildi þessara orða með því að fara í bókasafn og blaða í nokkrum bókum sem styðja þrenningarkenninguna. Eytt hefur verið ótal blaðsíðum í það að reyna að skýra hana. En flestir eru engu nær eftir að hafa þrælað sér í gegnum völundarhús ruglingslegra guðfræðiorða og skýringa.

Jesúítinn Joseph Bracken segir um þetta atriði í bók sinni What Are They Saying About the Trinity?: „Prestar, sem lagt höfðu mikið á sig til að læra . . . um þrenninguna á námsárum sínum, hikuðu eðlilega við að kynna hana fyrir sóknarbörnum sínum frá prédikunarstólnum, meira að segja á þrenningarhátíðinni. . . . Var einhver ástæða til að þreyta fólk með því sem það skildi hvort eð er ekki almennilega þegar upp var staðið?“ Hann bætir við: „Þrenningin er formlegt trúaratriði en hún hefur lítil eða engin [áhrif] á daglegt líf og tilbeiðslu kristins manns.“ Þó er hún sögð vera „höfuðkenning“ kirkjufélaganna!

Kaþólski guðfræðingurinn Hans Küng heldur því fram í bók sinni Christentum und Weltreligionen að þrenningarkenningin sé ein ástæðan fyrir því að kirkjunum hefur orðið lítið ágengt meðal ókristinna þjóða. Hann segir: „Jafnvel vel upplýstir múslímar geta einfaldlega ekki skilið þrenningarhugmyndina og það hafa Gyðingar ekki heldur getað enn sem komið er. . . . Múslímar sætta sig ekki við greinarmuninn sem þrenningarkenningin gerir á einum Guði og þrem persónum guðdómsins, og guðfræðiorð sótt í sýrlensku, grísku og latínu rugla þá frekar en upplýsa. Þeim finnst þetta vera eintómur orðaleikur. . . . Hví ætti nokkur maður að vilja bæta nokkru við þá hugmynd að Guð sé einn og einstakur sem getur einungis útþynnt eða ógilt það að hann sé einn og einstakur?“

„Ekki Guð truflunarinnar“

Hvernig gat svona ruglingsleg kennisetning orðið til? The Catholic Encyclopedia staðhæfir: „Trúarsetning, sem er slíkur leyndardómur, hefur það sem forsendu að hún sé opinberun Guðs.“ Kaþólsku fræðimennirnir Karl Rahner og Herbert Vorgrimler segja í riti sínu Theological Dictionary: „Þrenningin er leyndardómur . . . í strangasta skilningi . . . sem við gætum ekki þekkt án opinberunar, og getum ekki skilið til fulls jafnvel eftir opinberun.“

En sú staðhæfing að þrenningarkenningin hljóti að vera opinberun Guðs, úr því að hún er svona óskiljanlegur leyndardómur, skapar aðeins annað vandamál. Hvers vegna? Vegna þess að opinberun frá Guði sjálfum leyfir okkur ekki að líta þannig á hann. Hún segir: „Guð er ekki Guð truflunarinnar, heldur friðarins.“ — 1. Korintubréf 14:33.

Megum við ætla — í ljósi þessarar yfirlýsingar Biblíunnar — að Guð opinberi sig gegnum kenningu sem er svo flókin og torskilin að jafnvel lærðustu fræðimenn í hebresku, grísku og latínu geta ekki skýrt hana?

Og ættu menn að þurfa að vera guðfræðimenntaðir til að geta ‚þekkt hinn eina sanna Guð og þann sem hann sendi, Jesús Krist‘? (Jóhannes 17:3) Ef svo væri, hvernig stendur þá á því að svo fáir af hinum menntuðu trúarleiðtogum Gyðinga viðurkenndu Jesú sem Messías? Trúfastir lærisveinar hans voru óbreyttir bændur, fiskimenn, tollheimtumenn og húsmæður. Þetta fólk úr alþýðustétt var svo sannfært um það sem Jesús kenndi því um Guð að það gat kennt það öðrum og var jafnvel fúst til að deyja fyrir trú sína. — Matteus 15:1-9; 21:23-32, 43; 23:13-36; Jóhannes 7:45-49; Postulasagan 4:13.

[Mynd á blaðsíðu 4]

Það voru ekki trúarleiðtogarnir heldur fólk úr alþýðustétt sem gerðist lærisveinar Jesú.