Stendur hún skýrum stöfum í Biblíunni?
Stendur hún skýrum stöfum í Biblíunni?
EF ÞRENNINGARKENNINGIN er sönn ætti hún að standa skýrum stöfum í Biblíunni. Hvers vegna? Vegna þess að Biblían er opinberun Guðs til mannanna eins og postularnir bentu á. Og þar eð við þurfum að þekkja Guð til að tilbiðja hann á réttan hátt hljótum við að vænta þess að Biblían segi okkur skýrt og greinilega hver hann er.
Trúaðir menn á fyrstu öld viðurkenndu Ritninguna sem ósvikna opinberun Guðs. Hún var trúargrundvöllur þeirra og hafði síðasta orðið í þeim málum. Þegar Páll postuli til dæmis prédikaði fyrir Berojubúum ‚tóku þeir við orðinu með allri góðfýsi og rannsökuðu daglega ritningarnar, hvort þessu væri þannig farið.‘ — Postulasagan 17:10, 11.
Hvað notuðu forystumenn meðal þjóna Guðs á þeim tíma sem heimild að upplýsingum og þekkingu? Postulasagan 17:2, 3 segir: „Eftir venju sinni gekk Páll inn til þeirra . . . og lagði út af ritningunum, lauk þeim upp fyrir þeim og setti þeim fyrir sjónir [með tilvísunum í Ritninguna].“
Jesús gaf sjálfur fordæmið fyrir því að nota Ritninguna sem grundvöll kennslunnar. Hann sagði mjög gjarnan: „Ritað er.“ „Hann . . . útlagði fyrir þeim það sem um hann er í öllum ritningunum.“ — Matteus 4:4, 7; Lúkas 24:27.
Bæði Jesús, Páll og kristnir menn á fyrstu öld notuðu Ritninguna sem grundvöll kennslu sinnar. Þeir vissu að „sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti, til þess að sá, sem tilheyrir Guði, sé albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17; sjá einning 1. Korintubréf 4:6; 1. Þessaloníkubréf 2:13; 2. Pétursbréf 1:20, 21.
Úr því að Biblían er „nytsöm til fræðslu“ megum við ætlast til þess að hún tali skýrum orðum um jafnmikilvægt grundvallaratriði og þrenningarkenningin er sögð vera. En segja guðfræðingar og sagnfræðingar að þessi kenning standi skýrum stöfum í Biblíunni?
Finnst orðið „þrenning“ í Biblíunni?
Rit útgefið af mótmælendum segir: „Orðið þrenning er ekki að finna í Biblíunni . . . Það öðlast ekki formlegan sess í guðfræði kirkjunnar fyrr en á 4. öld.“ (The Illustrated Bible Dictionary) Og kaþólskt heimildarrit segir að þrenningarkenningin sé „ekki . . . beint og milliliðalaust orð Guðs.“ — New Catholic Encyclopedia.
The Catholic Encyclopedia bætir við: „Í Ritningunni er ekkert einstakt orð notað um hinar þrjár persónur guðdómsins saman. Orðið τριάς [trias] (sem þýtt er trinitas á latínu) kemur fyrst fram í ritum Þeófílusar frá Antíokkíu um árið 180 e.Kr. . . . Skömmu síðar kemur það fyrir í sinni latnesku mynd, trinitas, hjá Tertúllíanusi.“
Þetta er þó í sjálfu sér engin sönnun fyrir því að Tertúllíanus hafi kennt þrenningarkenninguna. Kaþólska ritið Trinitas—A Theological Encyclopedia of the Holy Trinity getur þess til dæmis að aðrir hafi síðar notað sum af orðum
Tertúllíanusar til að lýsa þrenningunni. En síðan heldur það áfram í aðvörunartón: „Það má ekki draga fljótfærnislegar ályktanir af þessari notkun því að hann notar orðin ekki í þrenningarguðfræðilegum skilningi.“Vitnisburður Hebresku ritninganna
Mætti ekki hugsa sér að hugmyndin um þrenningu standi skýrum stöfum í Biblíunni, jafnvel þótt orðið „þrenning“ komi ekki fyrir í henni? Hvað kemur til dæmis fram í Hebresku ritningunum (Gamlatestamentinu)?
The Encyclopedia of Religion viðurkennir: „Nútímaguðfræðingar eru sammála um að þrenningarkenningin fyrirfinnist ekki í hebresku biblíunni.“ Og New Catholic Encyclopedia segir: „Kenningin um heilaga þrenningu er ekki kennd í Gamlatestamentinu.“
Í bók sinni The Triune God viðurkennir jesúítinn Edmund Fortman hið sama: „Gamlatestamentið . . segir okkur hvorki beint né óbeint að til sé þríeinn Guð sem er faðir, sonur og heilagur andi. . . . Þess sjást engin merki að nokkurn hinna heilögu ritara hafi einu sinni grunað að guðdómurinn væri þríeinn. . . . Jafnvel það að sjá í [Gamlatestamentinu] óljósar vísbendingar eða fyrirboða um þrenningu persóna gengur lengra en orð og ætlun hinna helgu ritara gefur tilefni til.“ — Leturbreyting okkar.
Bein athugun á Hebresku ritningunum sjálfum staðfestir þessi orð. Þannig er enga skýra þrenningarkenningu að finna í fyrstu 39 bókum Biblíunnar, helgiritasafni hinna innblásnu Hebresku ritninga.
Vitnisburður Grísku ritninganna
Nú, en tala þá ekki kristnu Grísku ritningarnar (Nýjatestamentið) skýrum orðum um þrenningu?
The Encyclopedia of Religion segir: „Guðfræðingar eru sammála um að skýr þrenningarkenning finnist ekki heldur í Nýjatestamentinu.“
Jesúítinn Edmund Fortman segir: „Ritarar Nýjatestamentisins . . . gefa okkur enga formlega eða fastmótaða þrenningarkenningu, enga skilmerkilega kenningu þess efnis að í einum Guði séu þrjár guðlegar persónur jafnar að stöðu. . . . Við finnum hvergi nokkra þrenningarkenningu um þrjár aðskildar verur hins guðlega lífs og starfs í sama guðdómi.“
The New Encyclopædia Britannica segir: „Orðið þrenning eða skilmerkileg þrenningarkenningin finnst hvorugt í Nýjatestamentinu.“
Bernhard Lohse segir í A Short History of Christian Doctrine: „Eiginlega þrenningarkenningu er ekki að finna í Nýjatestamentinu.“
Ritið The New International Dictionary of New Testament Theology tekur í sama streng: „Hina fullmótuðu þrenningarkenningu er ekki að finna í Nýjatestamentinu. ‘Í Biblíuna vantar ótvíræða yfirlýsingu þess efnis að faðirinn, sonurinn og heilagur andi séu sama eðlis‘ [segir mótmælendaguðfræðingurinn Karl Barth].“
Prófessor E. Washburn Hopkins við Yale-háskóla tekur undir það: „Jesús og Páll þekktu greinilega ekkert til þrenningarkenningarinnar; . . . þeir segja ekki orð um hana.“ — Origin and Evolution of Religion.
Sagnfræðingurinn Arthur Weigall bendir á: „Jesús Kristur nefndi slíkt fyrirbæri aldrei á nafn og orðið ‚þrenning‘ stendur hvergi í Nýjatestamentinu. Kirkjan tók ekki upp þessa hugmynd fyrr en 300 árum eftir dauða Drottins okkar.“ — The Paganism In Our Christianity.
Þannig er skýra þrenningarkenningu hvorki að finna í hinum 39 bókum Hebresku ritninganna né hinum 27 innblásnu bókum kristnu Grísku ritninganna.
Kenndu frumkristnir menn hana?
Kenndu frumkristnir menn hugmyndina um þrenningu? Veittu athygli eftirfarandi ummælum sagnfræðinga og guðfræðinga:
„Frumkristnin hafði enga skilmerkilega þrenningarkenningu líkt og síðar mótaðist í trúarjátningunum.“ — The New International Dictionary of New Testament Theology.
„Frumkristnum mönnum datt hins vegar ekki í hug í fyrstu að tengja [þrenningarhugmyndina] trú sinni. Þeir sýndu Guði föðurnum og Jesú Kristi, syni Guðs, lotningu og viðurkenndu . . . heilagan anda; en þeir gerðu sér engar hugmyndir um að þessir þrír væru eiginleg þrenning, jafnir að stöðu og sameinaðir í eitt.“ — The Paganism In Our Christianity.
„Í byrjun var kristin trú ekki þrenningartrú . . . Hún var það ekki á postulatímanum eða eftir hann eins og glöggt má sjá af Nýjatestamentinu og öðrum ritum frumkristinna manna.“ — Encyclopædia of Religion and Ethics.
„Orðalagið ‚einn Guð í þrem persónum‘ var ekki fastmótað og alls ekki samlagað kristnu lífi og trúarjátningu fyrir lok 4. aldar. . . . Meðal hinna postullegu kirkjufeðra var alls ekkert sem líktist hið minnsta þessari hugsun eða trúarskilningi.“ — New Catholic Encyclopedia.
Kirkjufeðurnir fyrir Níkeuþingið
Kirkjufeðurnir, sem uppi voru fyrir Níkeuþingið, eru viðurkenndir sem fremstu trúfræðikennarar fyrstu aldanna eftir fæðingu Krists. Athyglisvert er hvað þeir kenndu.
Jústínus píslarvottur, sem dó um árið 165, talaði um Jesú í fortilveru sinni sem skapaðan engil er var „annar en Guð sem skapaði alla hluti.“ Hann sagði að Jesús væri óæðri Guði og hefði „aldrei gert annað en það sem skapari alheimsins vildi að hann gerði og segði.“
Íreneus, sem lést um árið 200, sagði að Jesús hefði í fortilveru sinni verið aðgreindur frá Guði og honum óæðri. Hann benti á að Jesús væri ekki jafn „hinum eina og sanna Guði“ sem er „yfir öllu og á sér engan jafningja.“
Klementíus frá Alexandríu, sem dó um árið 215, kallaði Jesú í fortilveru sinni „sköpunarveru“ en talaði hins vegar um Guð sem „hinn óskapaða og óforgengilega og eina sanna Guð.“ Hann sagði að sonurinn væri „næstur hinum eina almáttuga föður“ en ekki jafn honum.
Tertúllíanus, sem dó um árið 230, kenndi að Guð væri öllum æðri. Hann sagði: „Faðirinn er ólíkur syninum (er annar en hann) og honum meiri, á sama hátt og sá sem getur er ólíkur honum sem getinn er, sá sem sendir ólíkur honum sem sendur er.“ Hann bætti við: „Sú var tíðin að sonurinn var ekki til. . . . Áður en allt annað varð til var Guð einn.“
Hippólýtus, sem lést um árið 235, sagði að Guð væri „hinn eini sanni Guð, hinn fyrsti og hinn eini, skapari og Drottinn alls.“ Hann hélt áfram: „Enginn var honum jafnaldra . . . en hann var einn, einn með sjálfum sér, og lét síðan verða til það sem ekki hafði verið til, af því að hann vildi það,“ líkt og hann til dæmis skapaði Jesú sem andaveru.
Órígenes, sem dó um árið 250, sagði að „faðirinn og sonurinn væru tvær persónur . . . tveir í eðli sínu,“ og að „borið saman við föðurinn væri [sonurinn] afar lítið ljós.“
Guðfræðingurinn Alvan Lamson dregur saman hin sögulegu rök í bók sinni The Church of the First Three Centuries: „Hin útbreidda þrenningarkenning nútímans . . . á sér engan stuðning hjá Jústínusi [píslarvotti]; og hið sama má segja um alla kirkjufeðurna fyrir Níkeuþingið; það er að segja alla kristna rithöfunda fyrstu þrjár aldirnar eftir fæðingu Krists. Að vísu tala þeir um föðurinn, soninn og . . . heilagan anda, en ekki sem jafna að stöðu, ekki sem eina veru, ekki sem þrjá í einum í nokkrum þeim skilningi sem áhangendur þrenningarkenningarinnar vilja nú vera láta. Þeir gera hið gagnstæða.“
Þannig er vitnisburður Biblíunnar og sagnfræðinnar skýr, og hann er sá að þrenningarkenningin hafi verið óþekkt allan þann tíma sem verið var að rita Biblíuna og í nokkrar aldir eftir að ritun hennar lauk.
[Rammi á blaðsíðu 7]
„Þess sjást engin merki að nokkurn hinna heilögu ritara hafi einu sinni grunað að guðdómurinn væri þríeinn. — The Triune God.