Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Tilbiðjum Guð eftir hans skilyrðum

Tilbiðjum Guð eftir hans skilyrðum

Tilbiðjum Guð eftir hans skilyrðum

JESÚS sagði í bæn til Guðs: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóhannes 17:3) Hvers konar þekkingu er hér um að ræða? „[Guð] vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum.“ (1. Tímóteusarbréf 2:4) The Amplified Bible orðar seinni hlutann svo að ‚þekkja sannleikann [um Guð] nákvæmlega og rétt.‘

Guð vill því að við þekkjum hann og tilgang hans nákvæmlega. Orð Guðs, heilög Biblía, er uppspretta þessa sannleika. (Jóhannes 17:17; 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Þegar fólk kynnir sér nákvæmlega það sem Biblían segir um Guð, þá mun það komast hjá því að vera eins og þeir sem lýst er í Rómverjabréfinu 10:2, 3, sem voru „kappsfullir Guðs vegna, en ekki með réttum skilningi,“ eða eins og Samverjarnir sem Jesús sagði við: „Þér tilbiðjið það, sem þér þekkið ekki.“ — Jóhannes 4:22.

Ef við viljum njóta velþóknunar Guðs verðum við því að spyrja okkur: Hvað segir Guð um sjálfan sig? Hvernig vill hann láta tilbiðja sig? Hver er tilgangur hans og hvernig föllum við inn í þann tilgang? Nákvæm þekking á sannleikanum gefur okkur rétt svör við slíkum spurningum. Þá getum við tilbeðið Guð eftir hans skilyrðum.

Vanheiðrar Guð

„ÉG HEIÐRA þá, sem mig heiðra,“ segir Guð. (1. Samúelsbók 2:30) Heiðrar það Guð að kalla einhvern annan honum jafnan? Heiðrar það hann að kalla Maríu „móður Guðs“ og „meðalgangara . . . milli skaparans og sköpunarvera hans“ eins og New Catholic Encyclopedia gerir? Nei, það svívirðir Guð. Enginn er honum jafn og hann á sér enga móður, því að Jesús var ekki Guð. Og María er ekki meðalgangarinn því að Guð hefur skipað aðeins ‚einn meðalgangara milli Guðs og manna, Krist Jesú.‘ — 1. Tímóteusarbréf 2:5; 1. Jóhannesarbréf 2:1, 2.

Engum blöðum er um það að fletta að þrenningarkenningin hefur valdið ruglingi og stórum spillt skilningi manna á hinni raunverulegu stöðu Guðs. Hún hefur hindrað fólk í að kynnast náið drottinvaldi alheimsins, Jehóva Guði, og tilbiðja hann eftir hans skilyrðum. Eins og guðfræðingurinn Hans Küng sagði: „Hví ætti nokkur maður að vilja bæta nokkru við þá hugmynd að Guð sé einn og einstakur sem getur einungis útþynnt eða ógilt það að hann sé einn og einstakur?“ En það hefur þrenningartrúin gert.

Þeir sem trúa á þrenninguna hafa ekki ‚hirt um að varðveita þekkinguna á Guði.‘ (Rómverjabréfið 1:28) Þetta sama vers heldur áfram: „Ofurseldi Guð þá ósæmilegu hugarfari, svo að þeir gjörðu það sem ekki er tilhlýðilegt.“ Róm 1 Vers 29 til 31 telur upp sumt af því sem „ekki er tilhlýðilegt,“ svo sem ‚manndráp, deilur, óáreiðanleika, kærleiksleysi og miskunnarleysi.‘ Allt þetta hafa þau trúfélög, sem aðhyllast þrenningarkenninguna, iðkað.

Þrenningartrúarmenn hafa til dæmis oft ofsótt og jafnvel drepið þá sem höfnuðu þrenningarkenningunni. Og þeir hafa jafnvel gengið svo langt að drepa skoðanabræður sína á styrjaldartímum. Varla getur nokkuð verið ‚ótilhlýðilegra‘ en að kaþólskir drepi kaþólska, rétttrúnaðarmenn drepi rétttrúnaðarmenn og mótmælendur drepi mótmælendur — allt í nafni eins og sama þrenningarguðsins.

Jesús sagði þó skýrt og greinilega: „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóhannes 13:35) Orð Guðs útlistar þetta nánar og segir: „Af þessu eru augljós börn Guðs og börn djöfulsins. Sá sem iðkar ekki réttlætið og elskar ekki bróður sinn heyrir ekki Guði til.“ Hún líkir þeim sem drepa andlega bræður sína við „Kain, sem heyrði hinum vonda [Satan] til og myrti bróður sinn.“ — 1. Jóhannesarbréf 3:10-12.

Villandi kenningar um Guð hafa augsýnilega leitt til verka sem þverbrjóta lög hans. Það hefur greinilega farið fyrir kristna heiminum eins og danski guðfræðingurinn Soøren Kierkegaard sagði á síðustu öld: „Kristni heimurinn hefur lagt niður kristnina án þess að taka almennilega eftir því.“

Hinu andlega ástandi kristna heimsins er vel lýst með orðum Páls postula: „Þeir segjast þekkja Guð, en afneita honum með verkum sínum. Þeir eru viðbjóðslegir og óhlýðnir, óhæfir til hvers góðs verks.“ — Títusarbréfið 1:16.

Þegar Guð innan skamms bindur enda á núverandi illa heimsskipan mun kristni heimurinn með sínum þrenningarátrúnaði verða krafinn reikningsskapar. Hann verður dæmdur fyrir kenningar sínar og atferli sem svívirða Guð. — Matteus 24:14, 34; 25:31-34, 41, 46; Opinberunarbókin 17:1-6, 16; 18:1-8, 20, 24; 19:17-21.

Hafnaðu þrenningunni

SANNLEIKURINN um Guð stendur óhagganlegur og menn verða að viðurkenna hann eins og hann er. Sá sem vill tilbiðja Guð eftir hans skilyrðum verður þess vegna að hafna þrenningarkenningunni. Hún gengur í berhögg við það sem spámennirnir, Jesús, postularnir og frumkristnir menn trúðu og kenndu. Hún gengur í berhögg við það sem Guð segir um sjálfan sig í innblásnu orði sínu: „Minnist þess . . . að ég er Guð og enginn annar, hinn sanni Guð og enginn minn líki.“ — Jesaja 46:9.

Það þjónar ekki hagsmunum Guðs að gera hann torskilinn og dulúðlegan. Það þjónar hins vegar andstæðingi Guðs, Satan djöflinum, ‚guði þessa heims,‘ að gera fólk ráðvillt og ringlað um Guð og tilgang hans. Það er Satan sem kemur á framfæri og ýtir undir slíkar falskenningar til að ‚blinda huga hinna vantrúuðu.‘ (2. Korintubréf 4:4) Og þrenningarkenningin þjónar einnig hagsmunum presta sem vilja varðveita tök sín á fólki, því að þeir láta í veðri vaka að einungis guðfræðingar geti skilið hana. — Sjá Jóhannes 8:44.

Nákvæm þekking á Guði hefur mikið frelsi í för með sér. Hún frelsar okkur úr fjötrum kenninga sem ganga gegn orði Guðs, og undan oki trúfélaga sem hafa fallið frá sannri trú. Eins og Jesús sagði: „[Þér] munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.“ — Jóhannes 8:32.

Með því að heiðra Guð sem hinn hæsta og tilbiðja hann eftir hans skilyrðum getum við umflúið þann dóm sem hann mun bráðlega fullnægja á hinum trúvillta kristna heimi. Við getum vænst velþóknunar Guðs þegar þetta heimskerfi líður undir lok: „Heimurinn fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“ — 1. Jóhannesarbréf 2:17.

[Mynd á blaðsíðu 31]

Þessi aldagamla höggmynd í Frakklandi á að lýsa því er heilög þrenning krýnir Maríu „mey.“ Þrenningartrúin hefur leitt til þess að María hefur verið dýrkuð sem „guðsmóðir.“