Á verði við ‚endalok veraldar‘
6. kafli
Á verði við ‚endalok veraldar‘
1. Hvers vegna þurfum við að halda vöku okkar?
LANGT er liðið á það tímabil sem nefnt er ‚endalok veraldar‘ en við vitum ekki „daginn né stundina“ þegar hin lífgandi upplýsing tekur enda. Þess vegna sagði Jesús: „Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina.“ — Matteus 24:3; 25:13.
2. Hvaða vonbrigði ber okkur að forðast?
2 Það væru mikil vonbrigði fyrir mann að vera seinn í brúðkaupsveislu og koma að luktum dyrum. Það á þó í náinni framtíð að verða hlutskipti þorra þeirra sem segjast kristnir. Friðarhöfðinginn lýsti því með þessum orðum: „Seinna komu hinar meyjarnar og sögðu: ‚Herra, herra, ljúk upp fyrir oss.‘ En hann svaraði: ‚Sannlega segi ég yður, ég þekki yður ekki.‘“ — Matteus 25:11, 12.
3. (a) Hvaða tími rann upp árið 1919? (b) Hafa trúmenn kristna heimsins getað séð fyrir nauðsynlegri, andlegri olíu?
3 Frá 1919 hafa hyggnu meyjarnar séð fyrir andlegri upplýsingu með hjálp „olíu“ sem er orð Jehóva og heilagur andi, en hinar fávísu reyna að kaupa andlega olíu af þeim í kristna heiminum sem þykjast selja hana. (Matteus 25:9) Trúað fólk í kristna heiminum hefur hins vegar ekki rétta olíu. Það hefur ekki getað veitt upplýsingu um nærveru Jesú Krists sem hins himneska brúðguma. Það reiknar með að þegar það deyr fari það samstundis til himna til fundar við hann, án þess að hafa átt hlut í upplýsingarstarfinu nú við ‚endalok veraldar.‘
4. Hvað hefur þeim sem fávísu meyjarnar tákna enn ekki tekist og hvers vegna?
4 Þó hafa verið til menn sem hafa, eins og andlegar meyjar, haft nægar birgðir ‚olíu‘ hins heilaga anda og orðs Guðs til þess starfs eftir stríð að upplýsa allan heiminn um Guðsríki. (Matteus 24:14) Þeir sem Jesús lýsir í dæmisögu sinni sem fávísum meyjum taka ekki þátt í því starfi með því að láta ljósið skína á þennan fagnaðarboðskap sem hefur þýðingu fyrir allar þjóðir. Þeir höfðu ekki „olíu“ hins upplýsandi orðs Guðs og heilags anda, og í hinu andlega musteri kom brúðguminn og dómarinn auga á þessa vanrækslu þeirra. Hjörtu þeirra voru ekki samstillt því starfi sem átti að vinna eftir stríðið. Kristnu meyjarnar, sem voru nógu hyggnar til að bera skynbragð bæði á tímann og starfið, hófust hins vegar handa þegar í stað árið 1919.
5. Hvaða skilyrði fyrir því að fá að sameinast hinum konunglega brúðguma hafa fávísu meyjarnar ekki uppfyllt?
5 Með því að snúa baki við þeim sem studdu sýnilegt skipulag Jehóva létu fávísu meyjarnar sig vanta í því að bera vitni um Guðsríki um allan heim. Þeim tókst loks að útvega sér „olíu“ trúarlegrar upplýsingar, en það var ekki rétt tegund olíu. Hún veitti ekki upplýsingu um réttan atburð á réttum tíma. Þess vegna prédika þær ekki boðskapinn um Guðsríki og „hefndardag Guðs vors.“ (Jesaja 61:1-3) Þær hylla ekki brúðgumann og konunginn eins og smurðar leifar meyjahópsins gera.
Áhrif ljóssins um miðnætti
6, 7. (a) Hvað gerðist um miðjan fjórða áratug aldarinnar sem benti til að komnar væru nógu margar meyjar til að fullna tölu brúðarhópsins? (b) Að hvaða hópi, sem safna þurfti, var athyglinni beint?
6 Um miðbik fjórða áratugar þessarar aldar áttu sér stað þýðingarmiklir atburðir. Þeir gáfu til kynna að lokið væri söfnun hins andlega brúðarhóps Krists, og að nógu margir andagetnir lærisveinar brúðgumans væru nú á jörðinni til að fullna tölu himneskrar brúðar hans.
7 Þá, árið 1935, var byrjað að vekja athygli á öðrum hópi sauðumlíkra lærisveina Jesú. Þetta var hópur sem athygli almennings hafði verið vakin á meðan fyrri heimsstyrjöldin stóð enn. Það var þann 24. febrúar 1918 að fluttur var opinber fyrirlestur um efnið „Milljónir núlifandi manna þurfa aldrei að deyja.“ Áheyrendur voru forvitnir og ef til vill efagjarnir. Á móti votta Jehóva í Washington D.C. árið 1935 var sagt eitthvað jákvætt um samansöfnun þessara milljóna ‚annarra sauða‘ Krists sem áttu að verða „ein hjörð“ undir umsjón Jesú Krists, ‚eins hirðis.‘ (Jóhannes 10:16) Bent var á hverjir væru þessir ‚aðrir sauðir‘ sem lýst var í spádómi í Opinberunarbókinni 7:9-17.
8. Hvaða verkefni, sem hyggnu meyjarnar höfðu ekki gert sér grein fyrir, urðu þær að takast á herðar árið 1935?
8 Nú var sú skyldukvöð lögð leifum ‚litlu hjarðarinnar‘ á herðar að hefja söfnun hins mikla múgs ‚annarra sauða.‘ (Lúkas 12:32) Nú var fullnuð tala hyggnu meyjanna sem þurfti til að ná saman allri brúði Jesú. En þessar meyjar voru ekki teknar til himna þegar í stað. Áður en þær gengju í hinn himneska veislusal yrðu þær að ljúka jarðnesku skeiði sínu sem ráðvandir vottar Guðs, Jehóva. Þeim voru nú, vegna sinnar trúföstu upplýsingar fram til 1935, fengin í hendur mikil sérréttindi sem þær höfðu aldrei ímyndað sér fyrir miðjan fjórða áratuginn.
9. Hve margir eru nú eftir af hópi hyggnu meyjanna?
9 Yfir hálf öld er liðin frá 1935 og á þeim árum, sem liðin eru, hefur hyggnu meyjunum farið stöðugt fækkandi. Meyjahópurinn telur nú aðeins um 9000 einstaklinga. Vitnisburðarstarfið hefur aftur á móti vaxið svo að það fer nú fram á alþjóðavettvangi í meira en 200 löndum.
Hjálpsamir félagar ljósberanna
10. Geta þær sem eftir eru af hyggnu meyjunum annað því starfi sem vinna þarf?
10 Hinar smurðu leifar táknrænna meyja hverfa næstum í skuggann af liðlega þrem milljónum boðbera Guðsríkis í meira en 55.000 söfnuðum votta Jehóva víðs vegar um heiminn. Hvernig gæti þessi litli hópur hinna smurðu, sem eftir eru, séð um að bera vitni í meira en 200 löndum þar sem er að finna þessar þúsundir safnaða? Þeir gætu það ekki.
11. (a) Hvað átti sér stað meðal þeirra sem sögðust vera meyjar þegar sýnt var fram á hver ‚trúi og hyggni þjónninn‘ væri? (b) Hvað geta þeir sem eru ‚illur þjónn‘ ekki séð vegna þess að þá skortir andlega upplýsingu?
11 Að sjálfsögðu þjóna þeir hlutverki ‚trús og hyggins þjóns‘ sem húsbóndinn og brúðguminn fann trúfastan er hann kom til að halda dóm í musterinu. Það var þá sem hyggnu meyjarnar og þær fávísu fóru að skipta sér í tvo táknræna meyjahópa. Þeir sem töldust „illur þjónn“ höfðu ekki olíu upplýsandi orðs Guðs og heilags anda á könnum til að vera ljósmeti á lömpum sínum. Þeir höfðu því ekki næga andlega upplýsingu til að sjá hinn mikla múg ‚annarra sauða,‘ sem safnað hefur verið frá 1935, sem hluta hinnar ‚einu hjarðar.‘ — Matteus 24:45-51.
12. Hverjir eru óaðskiljanlegir félagar leifa brúðahópsins?
12 Spádómur Jesú um það starf, sem vinna á við ‚endalok veraldar,‘ hefur frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar að mestu leyti uppfyllst í gegnum hinn mikla múg ‚annarra sauða.‘ Ljósið frá tendruðum lömpum ‚leifanna‘ hefur upplýst augu hjartna þeirra og endurkastast til annarra sem enn eru í myrkri þessa heims. (Samanber Efesusbréfið 1:18.) Þeir hafa hjálpað milljónum jarðarbúa til að gera sér grein fyrir að hinn konunglegi brúðgumi er nærverandi og dagur brúðkaups hans við allan brúðarhópinn í nánd. Þeir eru orðnir óaðskiljanlegir félagar hinna sem eftir eru af brúðarhópnum.
13, 14. (a) Hvernig er félögum leifanna lýst í Opinberunarbókinni 7:9, 10? (b) Hver urðu viðbrögðin við skýringunni á þessum spádómi?
13 Þessir félagar brúðarhópsins hafa haft ánægjulegt hlutskipti frá 1935. Bæði gleðjast þeir yfir hinum miklu sérréttindum, sem ‚leifarnar‘ hafa þegar hlotið, og þeirri miklu blessun sem þeir hafa sjálfir fengið aðgang að fyrir milligöngu þeirra sem eftir eru af brúðarhópnum.
14 Á mótinu í Washington D.C. árið 1935 fengu þjónar Jehóva skilning á stórkostlegum ritningarstað. Þar er lýst ánægjulegu hlutskipti hins ‚mikla múgs‘ félaga hinna smurðu. Þeir ‚standa frammi fyrir hásæti Jehóva Guðs og frammi fyrir lambinu, skrýddir hvítum skikkjum, og hafa pálmagreinar í höndum.‘ Þeir hrópa svo hátt að allir heyri: „Hjálpræðið heyrir til Guði vorum, sem í hásætinu situr, og lambinu.“ (Opinberunarbókin 7:9, 10) Þeir hafa þegar iðkað trú á „Guðs lamb, sem ber synd heimsins,“ og fyrir milligöngu þess hafa þeir vígt sig Jehóva Guði og látið skírast til tákns um það. (Jóhannes 1:29) Hvorki meira né minna en 840 létu skírast daginn eftir að þeir heyrðu skýringuna á Opinberunarbókinni 7:9-17 föstudaginn 31. maí, 1935.
15. Hve margir hafa látið skírast síðan og hvernig er þeim lýst í Opinberunarbókinni 7:14-17?
15 Yfir þrjár milljónir manna hafa gert það eftir þetta mót í Washington árið 1935. Þeim er lýst svo að þeir séu klæddir hvítum skikkjum sem þeir hafa hvítþvegið í blóði lambsins. Þeir eiga í vændum að koma út úr þrengingunni miklu, sem allur mannheimurinn á í vændum, og njóta verndar Guðs í gegnum hana. (Matteus 24:21, 22) Þess vegna er þeim svo lýst í sýninni að þeir standi í andlegu musteri Jehóva og dýrki hann þar með leifum meyjahópsins. — Opinberunarbókin 7:14-17.
16. Hverjir fá því ómældar þakkir fyrir hlut sinn í að uppfylla Matteus 24:14?
16 Hinn ‚mikli múgur‘ manna af öllum þjóðum og tungum fær ómældar þakkir fyrir þann stórkostlega þátt sem hann á í að uppfylla spádóm brúðgumans í Matteusi 24:14!
„Og dyrum var lokað“
17. (a) Hvenær verður dyrum brúðkaupsveislunnar lokað? (b) Hvað er nauðsynlegt fyrir leifar meyjahópsins og ‚mikinn múg‘ félaga þeirra að gera núna?
17 Ekki er vitað nákvæmlega hvenær leifar meyjahópsins hafa gengið inn til brúðkaupsveislunnar og dyrum er lokað. Enginn vafi leikur þó á að sú stund er nær en nokkru sinni fyrr og tíminn í þann mund að renna út! Því átti vel við að Jesús lyki dæmisögunni um meyjarnar með varnaðarorðunum: „Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina.“ — Matteus 25:13.
18. (a) Hvaða flokk fylla fávísu meyjarnar núna? (b) Hvaða hluta dæmisögu Jesú munu þær finna uppfyllast innan skamms?
18 Af þessari ástæðu verður fávísu meyjunum komið á óvart. Með því að skilja við hyggnu meyjarnar eru þær orðnar hluti af þessum dæmda heimi og fylla flokk annarra trúmanna úti í hinu vaxandi myrkri sem umlykur jörðina. Þeirra bíður það sem brúðguminn Jesús Kristur lýsti svo í dæmisögu sinni: „Seinna komu hinar meyjarnar og sögðu: ‚Herra, herra, ljúk upp fyrir oss.‘ En hann svaraði: ‚Sannlega segi ég yður, ég þekki yður ekki.‘“ — Matteus 25:10-12.
19. Hverja tákna því fávísu meyjarnar og hvers vegna eru þær taldar hluti Babýlonar hinnar miklu?
19 Dyrunum inn til brúðkaupsveislunnar er ekki lokið upp fyrir þessum fávísu meyjum. Þær lýsa vel þeim mönnum nú við ‚endalok veraldar‘ sem ekki komast inn í „himnaríki.“ (Matteus 24:3; 25:1) Þeir halda sér fast við þá trú sem þeir hafa valið sjálfir, vel lýst með því að þeir fara út á markaðstorgið til að kaupa aðra olíu. Þeir teljast því til Babýlonar hinnar miklu.
20. (a) Hvern munu fávísu meyjarnar ákalla þegar þær sjá hin ‚tíu horn dýrsins‘ snúa sér gegn Babýlon hinni miklu? Hvað munu þær fullyrða? (b) Hvers vegna verður þeim eigi að síður tortímt?
20 Þeir munu því verða að deila örlögum með trúarskækjunni þegar „dýrið“ snýst gegn henni með sínum ‚tíu hornum.‘ (Opinberunarbókin 17:16) Þegar þeir trúmenn, sem fávísu meyjarnar fimm tákna, sjá voldug stjórnmálaöfl byrja að hafna babýlonskum trúarbrögðum, þá munu þeir snúa sér til brúðgumans og konungsins og fullyrða að þeir tilheyri hópi ‚himnaríkis.‘ Þeir verðskuldi því að fá að ganga með hyggnu meyjunum inn í hina andlegu brúðkaupsveislu. Þeim til mikillar skelfingar neitar sá sem þeir ávarpa „herra,“ brúðguminn Jesús Kristur, að kannast við þá. Hann telur þá ekki verðskulda inngöngu í himnaríki. Og þeir hafa ekki alið með sér neina von um eilíft líf á jörðinni ásamt ‚múginum mikla.‘ Ekkert bíður því þessara fávísu trúmanna annað en tortíming með heimsveldi falskra trúarbragða, Babýlon hinni miklu!
21. (a) Hvaða stefnu taka hyggnu meyjarnar og félagar þeirra í ljósi þessara ógnvekjandi framtíðarviðburða? (b) Hvaða þjónustusérréttindi eiga ýmsir af ‚múginum mikla‘ í vændum?
21 Þetta eru skelfilegar framtíðarhorfur! Leifarnar og hinn mikli fjöldi félaga þeirra gerir sér það ljóst og hefur stöðugt í huga áminningu Jesú um að ‚vaka.‘ Þeir munu alltaf vera fullir af heilögum anda Guðs og láta ljós sitt skína óttalaust til dýrðar Jehóva Guði og Jesú Kristi. Laun þeirra munu hafa mikla gleði í för með sér. Og ýmsir af ‚múginum mikla‘ eiga í vændum að brúðguminn konunglegi geri þá að höfðingjum á ‚nýju jörðinni.‘ — Jesaja 32:1; samanber Sálm 45:17.
22. (a) Hvað staðfestir uppfylling dæmisögunnar um meyjarnar tíu? (b) Hverjir munu fagna þessu himneska brúðkaupi?
22 Þessi útfærða uppfylling dæmisögunnar um meyjarnar tíu er því enn ein staðfesting á því að við lifum við ‚endalok veraldar.‘ Við megum vera mjög þakklát fyrir að við skulum vera upplýst um þetta og geta séð merki þess að brúðkaup Jesú Krists við allan brúðarhópinn sé nálægt! Bæði himinninn og hin réttláta ‚nýja jörð‘ munu fyllast ólýsanlegri gleði yfir þessu himneska brúðkaupi. — Opinberunarbókin 19:6-9.
[Spurningar]